05.08.1959
Neðri deild: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði komið þar ræðu minni í gær, þar sem ég var að svara hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) nokkru, — það er rétt, að ég minni á það, sökum þess að ég hafði ekki nákvæmar tölur við í gær, þegar um var að ræða byggingu íbúðarhúsa, af því að hv. 7. þm. Reykv. virtist halda, að það hefði farið svo mikið fram byggingu íbúðarhúsa, eftir að nýsköpunarstjórnin hætti, þá er rétt, að ég segi honum tölurnar nákvæmlega eins og þær voru, af því að ég vitnaði í eftir minni í gær.

Árið 1946 voru byggðar í Reykjavík, þ.e. fullgerðar íbúðir, 634. Síðan tók Framsfl. við, Sósfl. fór út. Síðan minnka byggingarnar ár frá ári, þangað til 1951 eru þær komnar niður í það að vera 282. Og upp yfir það, sem þær voru 1946, byggingarnar í Reykjavík, en þá voru þær 634, fara þær ekki fyrr, en á fyrsta ári vinstri stjórnarinnar, upp í 705 á árinu 1956 og fyrsta skipti, sem þær fara fram úr, er 1957. Svona var nú allt tímabilið, þegar Framsfl. og Sjálfstfl. réðu þessum málum. Það er líklega vegna þess, að ég er hræddur um, að það sé stundum sleppt að skrifa í Tímann upplýsingar um það, sem aðrir flokkar gera, þess vegna getur það jafnvel komið fyrir, að hér komi einn þm. upp í þennan stól, þótt það sé í sameinuðu þingi, og segi, að hann viti ekki til þess, að nokkur löggjöf hafi verið framkvæmd um húsnæðismál frá 1940 líklega eða þar í kring og þangað til 1952, að smáíbúðalögin séu sett. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. 1. þm. S-M.? (EystJ: Það kemur í hinum blöðunum, það sem hinir gera á árinu.) Já, en það er bara voðalega leiðinlegt, að framsóknarmenn séu fáfróðastir allra í landinu. Þess vegna er viðkunnanlegt, að Tíminn skýri líka frá því, sem tilheyrir almennum barnalærdómi að vita. (Gripið fram í: Þeir lesa öll blöðin, framsóknarmenn.) Framsóknarmenn? Ég er ákaflega hræddur um, að Framsfl. sé einhver mesti rétttrúarflokkur í landinu hvað það snertir og álíti öll hin blöðin skaðsamleg á sínum heimilum.

Þetta er sem sé rétt að upplýsa, svo að menn hafi þessar tölur nú fyrir sér og viti af því, að einmitt sú löggjöf, sem sett var á árunum 1945 og 1946, gerbreytti þessari aðstöðu, en hún var eyðilögð strax á árinu 1947, þegar Framsfl. kom í stjórn. Það er bara leiðrétting á því til að hafa nákvæmar tölur um það, sem ég sagði hér í gær.

Þá talaði hv. 7. þm. Reykv. um samstarfið við Sjálfstfl. Það, sem við verðum að gá að, þegar við ræðum um þessa hluti er, um hvað er samstarf. Ég skal alls ekki lasta Framsfl., þó að hann hafi samstarf við Sjálfstfl. Hví í ósköpunum skyldi Framsfl. ekki mega hafa samstarf við Sjálfstfl., ef hann er að vinna að mjög góðum hlutum fyrir alþýðu manna? Ef þessir flokkar koma sér saman um það að fara að hækka launin hjá almenningi, bæta lífskjör almennings og annað slíkt, hví í ósköpunum skyldi Framsfl. ekki mega hafa samstarf við Sjálfstfl.? Nei, það er um hvað samstarfið er, sem er spursmálið. En þessir flokkar hafa aldrei farið saman í ríkisstjórn á Íslandi öðruvísi, en til þess að ráðast á lífskjör almennings og það er það, sem er það slæma í því. Það er ekki það, sem er slæmt, hvort Alþfl. eða Alþb. eða aðrir hafa samstarf við Framsfl. eða Sjálfstfl., heldur um hvað og það, sem er það undarlega í þessu öllu saman, er, að þegar verkalýðsflokkarnir hafa haft samstarf ýmist við Sjálfstfl. eða við Framsfl., þá hefur verið gert margt gott. En þegar Framsfl. og Sjálfstfl. hafa sameinazt um að vera tveir einir í ríkisstj., þá eru það venjulega verstu ríkisstj., sem til eru á landinu. Þá verður það verra í báðum þessum flokkum algerlega ofan á.

Svo kom hv. 7. þm. Reykv. inn á það, að það, sem hefði verið meinið í vinstri stjórninni, hefði verið sundrung verkalýðsflokkanna. Það var þess vegna, sem vinstri stjórnin hefði farið um koll. Ojæja, vissulega var maður nú stundum búinn að heyra þetta, það væri eiginlega ómögulegt að mynda neina stjórn með verkalýðsflokkunum á Íslandi, vegna þess, hvað þeir væru sundraðir, og alveg sérstaklega þó vegna þess, að þeir gætu aldrei komið sér saman í Alþýðusambandinu. Og þetta kvað við allan tímann, sem vinstri stjórnin var. Ja, það var nú að vísu gott, að það var hægt að mynda vinstri stjórn með ykkur báðum, þessum verkalýðsflokkum, en þið hafið nú ekki getað komið ykkur saman í Alþýðusambandinu. — Ég var satt að segja alltaf hálf hræddur um, að það væri einhver hræsni á bak við þetta. Ég var satt að segja alltaf hræddur um, að Framsfl. þætti vænst um, að verkalýðurinn væri klofinn og verkalýðsflokkarnir kæmu sér ekki saman. Hvað gerðist svo? Það, sem gerðist í nóvember 1958, var það, að loksins komu verkalýðsflokkarnir sér saman, að á þingi Alþýðusambands Íslands var mynduð sameiginleg stjórn Alþýðusambands Íslands af þessum tveim verkalýðsflokkum, skipuð fulltrúum þeirra beggja. Og hvað gerir Framsfl. þá, þegar hann sá nú loksins þessa margþráðu hugsjón sína rætast, sem hann var búinn að tala svona fagurlega um í Tímanum allan tímann, að verkalýðsflokkarnir væru ekki sundraðir, að þeir færu nú að vinna saman? Hvað gerir Framsfl. þá? Hann bara slítur samstjórninni við verkalýðsflokkana á augabragði. Hvernig stóð á því? Hvað var það, sem honum gekk til? Var það, sem Framsfl. mátti ekki sjá, það að verkalýðsflokkarnir gætu unnið saman? Var það það, að þá óttaðist hann, að hann fengi ekki að ráða eins miklu um pólitíkina, sem rekin væri? Er það hið gamla, rómverska hjá Framsfl.: deildu og drottnaðu, — er það — það sem þeir framkvæma gagnvart verkalýðsflokkunum? Er það þess vegna, sem hann vill halda þeim sundruðum og elur á því? Er það sameining þeirra og samstaða þeirra, sem hann óttast, þannig að hann þýtur til alveg á augabragði, um leið og hann sér verkalýðinn standa sameinaðan í Alþýðusambandi Íslands og verkalýðsflokkana standa saman, til að slíta vinstri stjórn tafarlaust? Það, sem hv. 7. þm. Reykv. segir að sé skilyrðið fyrir því, að vinstri stjórn geti heppnazt, er samstarf verkalýðsflokkanna. En þegar Framsfl. sér framan í það, rýfur hann allt vinstra stjórnarsamstarf, svíkur alla eiða undireins.

Þess vegna er ljóst, hvað það er, sem Framsfl. gengur til í þessu, hann vill fá að drottna, hann vill fá að ráða, hann vill halda verkalýðshreyfingunni klofinni, til þess að hann geti drottnað og ráðið, ef vinstri stjórn er, í krafti slíkrar klofningar, slíks skorts á samstarfi. Hann óttast ekkert meir, en þetta samstarf. Þetta hefur verið hans stefna í 25 ár og raunar lengur. Frá því að hann byrjaði að skipta sér af þessu, hefur hann alltaf ætlað sér að hafa helzt einn verkalýðsflokk í landinu, sem væri eins og annexía fyrir hann, væri sem hjáleiga, sem hann gæti drottnað yfir og ef þeir voga sér að rísa upp, sem hann hefur ætlað svona hlutskipti og vilja ekki una því, þá segir hann: Þá vil ég ekki hafa með þig að gera, þá ertu orðinn annaðhvort hægri krati, Moskvu-kommúnisti eða eitthvað annað slíkt. — Nei, það þýðir ekki að koma með þetta. Framsfl. er búinn að sanna það, að hann óttast ekkert meira. en slíkt samstarf verkalýðsflokkanna.

Svo segir hv. 7. þm. Reykv.: Tillaga og krafa Framsfl. er, að fólkið fylki sér um stefnu hans, hún hafi dugað bezt. — Ég er nú búinn að rekja það hérna og ætla ekki að gera það aftur, hvernig hún hefur dugað í 25 ár, hvernig Framsfl. hefur klofið og sprengt að lokum hverja einustu stjórn, sem hann hefur myndað með einum eða tveimur verkalýðsflokkum í 25 ár, á því að heimta ýmist gerðardóma, lögboðna launalækkun eða eitthvað annað því um líkt, sem sé alltaf á einhverju, þar sem hann gengur þvert á hagsmuni verkalýðsins, þannig að enginn verkalýðsflokkur getur unað því. Hann gerði það 1938 með gerðardómnum þá, sprengdi samstarfið við Alþfl. Hann gerði það 1942 með gerðardómnum þá, sprengdi það samstarf við Alþfl., eins afturhaldssamt og það nú samt var. Hann gerði það 1949, þegar Alþfl. fer út, vegna þess að hann vill m.a. ekki fallast á gengislækkunina, sem Framsókn tekur þá upp með Sjálfstfl. Og hann gerir það núna 1958, þegar hann sprengir vinstri stjórnina á því að heimta lögboðna launalækkun. Og hann hindraði, að það væri mynduð vinstri stjórn 1952, þegar við sátum á níu vikna fundum til þess að athuga það, það haust, hvort hægt væri að mynda slíka stjórn, sprengdi hana á því sama, kröfunni um 10% launalækkun þá.

Það, sem gerðist, var, að Framsókn sveik vinstri stefnuna í vinstri stjórninni. Hún sveik hana með því að viðhalda hernáminu, hún sveik það með því að láta ekki byggja 15 togarana og hún sveik það og sleit síðan samstarfinu með því að heimta 8% launalækkun, þótt það væri samið um, að það ætti að viðhalda og efla lífskjör verkalýðsins í landinu. Og eftir þessa reynslu gera svo hv. framsóknarmenn sér hugmynd um það, að fólkið fari að hafa trú á þeim í landinu, — alþýðan, verkalýðurinn fari að hafa trú á þeim í landinu.

Svo lauk hv. 7. þm. Reykv. ræðu sinni með því, að það væri nú vert fyrir framsóknarmenn að athuga, hvort þeir gætu ekki í vissum kjördæmum náð einhverju pínulitlu meira, en þeir mundu eiga hlutfallslega. Lengi loðir það við, svo lengi sem nokkuð verður til eftir í þeirri gömlu kjördæmaskipun, þar sem einhverjum rangindum væri hægt að heita, þá virðist Framsfl. vera til í að reyna að beita þeim. En látum það nú vera, það verður líklega nokkuð lengi, að kjördæmaskipunin á Íslandi verði þannig, að það verður hægt að koma einhverju slíku við og við skulum vona, að Framsfl. fari ekki aftur út í það að reyna að misnota kjördæmaskipunina í svo ríkum mæli eins og hann gerði með Hræðslubandalaginu, að allir aðrir flokkar neyðist til þess að taka höndum saman til þess að breyta einu sinni enn þá til.

Svo var hv. 1. þm. S-M, að halda hér ræðu í gærkvöld. Hann var alveg undrandi yfir því, að ég skyldi ekki vera að skamma Sjálfstfl. Það fær nú hver maður sinn skammt og hver flokkur sinn skammt, þegar um þetta er að ræða. Í þetta skipti er ég að ræða við Framsfl. Það eru reikningsskil við hann, sem við erum að gera í þetta skipti. Sjálfstfl. hefur bara að heita má ekki komið við þessar umr. Hann hefur ekki slett sér fram í þær. Það er Framsfl. og fyrst og fremst hv. 1. þm. S-M., sem hefur verið hér með mikinn áróður út af því, hvað fram undan væri í íslenzkri pólitík.

Hv. 1. þm. S-M. varaðist að koma nokkurn skapaðan hlut inn á það, sem ég hafði einmitt reynt að sýna fram á, í minni ræðu, að væru höfuðandstæðurnar í íslenzku þjóðfélagi, auðvaldið annars vegar, alþýðan eða verkalýðurinn og launþegarnir hins vegar. Af hverju varast hv. 1, þm. S-M. að koma inn á þessa hluti, sem eru grundvallar mótsetningarnar í íslenzku þjóðfélagi? Af því að þá kæmi það of greinilega í ljós, hvernig það er hann, sem alltaf hefur verið fulltrúi fyrir sjálft Reykjavíkurauðvaldið og kumpánaskapinn við það í öllum aðgerðum á móti alþýðu á Íslandi í síðustu 25 ár. Það er einmitt þessi pólitík, sem hann hefur rekið þennan aldarfjórðung, sem ég hef verið að lýsa hérna nokkuð undanfarið. Hann er að reyna með því að snakka um, hvers konar nýtt bandalag sé í uppsiglingu og annað slíkt, að dylja fyrir mönnum, hvers konar pólitík hann hafi rekið, dylja það, hvernig hann hafi farið að viðvíkjandi vinstri stjórninni, hindra, að það sé gerð sú úttekt á Framsfl., sem þarf að gera.

Af hverju erum við fyrst og fremst með þessi reikningsskil við Framsfl.? Jú, við erum með þau vegna þess, að við mynduðum vinstri stjórn með Framsfl. Við mynduðum ekki stjórn með Sjálfstfl. um það, að herinn ætti að fara burt af landinu, að það ætti að kaupa 15 togara, að það ætti að bæta lífskjör almennings. Við mynduðum stjórn með Framsfl. og vorum sviknir um þetta allt saman af honum. Þess vegna erum við að gera hlutina upp við hann. Þess vegna erum við að ræða þessa hluti hér núna, fyrst það á annað borð hefur komið fyrir. Og það er annað, sem við verðum líka að muna. Sjálfstfl. er og hefur verið frá upphafi flokkur auðvaldsins á Íslandi.

Maður er ekkert hissa á því, þótt Sjálfstfl. reki auðvaldspólitík. Maður er miklu frekar hissa á hinu, þegar Sjálfstfl. fæst til þess að reka að einhverju leyti einhverja sæmilega pólitík gagnvart alþýðu manna. Þá er maður undrandi. En Framsfl., — til hvers var Framsfl. myndaður? Hann var myndaður af fátækum bændum á Íslandi, af hugsjónamönnum, sem börðust fyrir samvinnustefnu til þess að berjast fyrir hagsmunum þessa fólks. En það eru afturhaldssamir foringjar, sem hafa snúið þessum flokki upp í það að gera hann að verkfæri fyrir auðmannastéttina í Reykjavík. Þess vegna er eðlilegt, að alþýðan í landinu geri hlutina upp við Framsfl. Hún átti í raun og veru litlar kröfur til Sjálfstfl. í slíku. Hann er flokkur auðvaldsins. En Framsfl. aftur á móti var myndaður sem flokkur alþýðunnar og það eru hægri foringjar, eins og hv. 1. þm. S-M., sem hafa snúið honum smám saman upp í það að gera hann eins afturhaldssaman og ég hef lýst.

Hv. 1. þm. S-M. sagði, að kommúnistar hefðu komið vinstri stjórninni fyrir kattarnef. Hver sleit stjórnarsamvinnunni? Hver tilkynnti Alþfl. og Alþb., ráðh. beggja samstarfsflokkanna, það 30. nóv., að féllust þeir ekki á þessa 8% launalækkun, þá væri þetta búið? Það var hv. 1. þm. S-M., þáv. hæstv. fjmrh. Það var hann, sem sleit. Það vorum ekki við, sem slitum, meira að segja ekki Alþfl., þó að það megi ræða um ýmislegt í sambandi við framkvæmdir þessara flokka, en slitin gerðust á þann hátt, að það var Framsfl., sem sleit. Framsfl. sleit vinsælli stjórn og hann hefði fengið áfellisdóm fyrir að slíta þeirri stjórn í kosningunum, sem núna fóru fram, hefði ekki einmitt fyrir mjög svo sniðuga pólitíska „taktík“ hjá hv. 1. þm. S-M. tekizt að skýla sér á bak við kjördæmamálið. Það er vitanlegt mál, að þegar kjördæmamálið er til umr., þá hefur Framsfl. möguleika á því að vinna stórkostlega kosningasigra. Ég býst við, að sagan líti þannig seinna á, að það hafi verið aumingjaskapur af Framsfl. að vinna ekki stærri kosningasigur, en hann vann núna, vegna þess að hann miðaði þetta allt of mikið við sína flokkshagsmuni, hvernig hann var að berjast. Hv. 1. þm. S-M. ætti bara að bera það saman við, hvernig hans fyrirrennarar í forustu Framsóknar unnu kosningasigur 1931, til þess að sjá, að þetta er enginn sigur til þess að státa af, enda var það bara eitt, sem fyrir hv. 1. þm. S-M, vakti í þessum kosningum: það var að skýla sér í kosningunum fyrir þeim ávítum, sem hann átti skilið frá kjósendum fyrir að sprengja vinstri stjórnina. Hann var viss um, að hann mundi fá þessar ávitur, vegna þess að stjórnin var vinsæl og vegna þess, hver hætta var á ferðum, eftir að henni var slitið. En hann sá, að kjördæmamálið, það var fyrir hann það upplagða til þess að reyna að láta nú ekki refsa sér fyrir að hafa sprengt vinstri stjórnina. Kosningasigur Framsóknar í þessum kosningum er lítill. Það má segja, að litlu verður Vöggur feginn, og hv. 1. þm. S-M. blæs sig út hér af þessum sigrum. En ætli að það sé ekki vegna þess, að hann hafi vitað undir niðri, samvizka hans hafi sagt honum, að hann ætti skilið að fá refsingu fyrir það, sem hann hafði gert.

Ég skal segja hv. 1. þm. S-M., ef hann gerir sér allt of miklar vonir út af kosningunum í haust og öðru slíku, að það er ekki það, sem er aðalatriðið í þessum málum. Aðalatriðið í þessum málum væri, ef Framsfl. gæti lært eitthvað af sínum óförum og af sínum mistökum og af sínum vitleysum. Það er vitanlegt, að Framsfl. vann mikinn sigur 1931, þó að hann ynni lítinn sigur núna. En framsóknarforingjarnir kunnu ekki að halda á þeim sigri, þeir kunnu ekki að læra neitt, þeir fóru að láta flokkinn minnka aftur á eftir og ég er hræddur um, að ef hv. 1. þm. S-M. heldur áfram þeirri pólitík, sem hann ætlar sér að reka nú, þá eigi Framsfl. eftir að tapa nokkuð miklu aftur seinna, hvernig sem hann kann að fleyta sér á kjördæmamálinu enn sem komið er.

Ég veit, af hverju þetta stafar. Þetta stafar af því, að hv. 1. þm. S-M. hugsar alltaf svo skammt. Núna t.d. í dag hugsar hann ekki til neins, nema kosninganna í haust. Allt, sem hann segir, miðast aðeins við, hvort hann getur fleytt flokknum fram yfir þær kosningar. Ef hann væri að hugsa um einhverja þjóðmálastefnu í þessu, þá mundi hann núna koma og leggja fram og segja: Þetta hérna er mín stefna, þetta ætla ég að gera eftir kosningar. — Það varast hann. Ef hann væri að hugsa um, hvers konar stjórn ætti að mynda, þá mundi hann í dag vilja, að þessir og þessir flokkar gangi inn á þessa og þessa stefnu. Honum dettur ekkert af slíku í hug. Hann er ekki að spekúlera í neinu öðru, en hvort hann getur forðað Framsfl. undan þeim eðlilegu áminningum kjósenda, sem hann á að fá fyrir að hafa sprengt vinstri stjórnina, fyrir að hafa svikið alla vinstri stefnu.

En hvernig stendur á, að hv. 1. þm. S-M. hugsar svona? Það kom greinilega fram í allri hans ræðu. Hugsun hv. 1. þm. S-M. snýst eingöngu um það að vera í ríkisstj. Hugsun hans gagnvart vandamálunum er alltaf þetta: Ætla virkilega kommúnistarnir, ætlar Alþb. að fara í ríkisstj. með Sjálfstfl.? Vildu þeir ekki vera í ríkisstj. með Framsókn? Spurningin fyrir hann er alltaf þetta: að vera í ríkisstj. Hugsun um það, hvað sé verið að gera, hvarflar ekki að honum. Og það er þetta, sem gerir það að verkum, að það er bókstaflega eins og við nátttröll að tala við hann um þessi mál. Það er alveg sama, hvernig reynt er að troða inn í heilann á honum því, að það séu stefnurnar og framkvæmdirnar, sem séu aðalatriðið, hann heldur sér alltaf við hitt: Ætla menn að vinna með þessum flokki? Ætla menn að vera í ríkisstj., eða ætla menn það ekki? Öll hans hugsun snýst um þetta eitt. Þess vegna getur hann ekki skilið það hjá okkur, að við höfum einhver prinsip, að við stöndum fast á einhverjum málum og við segjum: Upp á þessi mál skal ég vera í ríkisstj., upp á þessi mál skal ég ekki vera það. — Þess vegna á hann líklega bágt með að skilja, að við skyldum ekki fara í stjórn með Sjálfstfl. um miðjan desember upp á 6% launalækkun, eftir að við vorum búnir að neita að vera í stjórn með Framsfl. upp á 8% launalækkun. Það var þó alltaf skárra 6% en 8%. En ég veit, að ég mætti halda hér ræðu dag eftir dag, hann mundi aldrei skilja þetta. Ég veit, hvað það er, sem bindur hann. Við getum verið utan ríkisstj., verkalýðurinn á Íslandi hefur verið utan ríkisstj. og barizt utan ríkisstj., en Framsfl. getur helzt ekki verið utan ríkisstj.

Hv. 1. þm. S-M. lítur alltaf á það sem ægilegasta tímabil í sinni sögu, þegar hann tók Framsfl. út úr 12 manna samningunum í október 1944 og Framsfl. var utan við ríkisstj. í næstum tvö og hálft ár. Það er það tímabil, sem hann óttast. Hann getur ekki litið meira að segja stjórnina og þetta tímabil, sem þá var, réttu auga, vegna þess að honum finnst það svo voðalegt, að Framsfl. skuli hafa verið utan við ríkisstj. Allur hans hugur snýst um þetta eitt, — og af hverju? Kannske skuldir Sambandsins, kannske valdabrölt þessara foringja hnýti hann alltaf við þá, sem völdin hafa, hverjir svo sem það eru?

Svo talar þessi hv. þm. um, að það sé undarlegt band, sem hnýti saman þessar undarlegu andstæður, ef Sjálfstfl. og verkalýðsflokkarnir skyldu geta tekið höndum saman um eitthvað, eins og kjördæmamálið eða eins og um nýsköpunina. Gleymir hann bandinu, sem hefur bundið Sjálfstfl. og Framsókn saman? Hvað lengi er hann búinn að vera í stjórn með Sjálfstfl., t.d. á síðustu 20 árum? Ætli það séu ekki ein 15 ár? Gleymir hann böndunum, sem binda þá saman, gróðaböndum verzlunarauðvaldsins í Reykjavík, Coca–coca-stefnuninni, SÍS og heildsölunum stóru — olían, hernámið, bankarnir? Gleymir hann öllum þessum böndum, sem tengja þessa tvo flokka saman, hvort svo sem það eru 8% eða 6% launalækkanir, sem þeir sameinast um á móti verkalýðnum? Ef hv. 1. þm. S-M. á einhverja hugsjón, þá er hún sú að vera í ríkisstj. En af því að hann er svona mikill afturhaldsmaður, en hefur lent í flokki, sem var stofnaður upphaflega sem flokkur fátækra manna, sem berjast fyrir fallegum hugsjónum, þá hefur hann alltaf reynt að gera hverja þá stjórn, sem hann hefur verið í, að hægri stjórn. Hann hefur að vísu helzt kosið að starfa með Sjálfstfl. og starfað þannig lengst af við rétta hægri stjórn, en hans hugsjón hefur alltaf verið, að svo miklu leyti sem stjórn væri mynduð með vinstri flokkum, að mynda hægri stjórn með vinstri flokkum. Og það er það, sem hann aldrei nokkurn tíma getur skilið, að með því að halda fram hægri stefnu, þegar hann er ráðherra í vinstri stjórn, þá endar hann með því að eyðileggja þá stjórn, vegna þess að vinstri stjórn, sem hefur ætlað að vera meira, en nafnið tómt, þolir ekki hægri stefnu. Hans hlutverk hefur verið að reyna að beygja verkalýðsflokkana undir sína afturhaldssemi eða sprengja stjórnina. Þetta hefur verið hans stefna í 25 ár og hann hefur sprengt allar stjórnir, sem hann hefur myndað með verkalýðsflokkum, á þessari afturhaldssemi. Það að mynda stjórn, sem kölluð er vinstri stjórn og reyna síðan að fá vinstri flokkana til að svíkja sina umbjóðendur, bregðast þeim, sem hafa trúað þeim til að berjast sinni lífsbaráttu hér á Alþingi, reyna að fá þá til að hörfa frá lífskjarabaráttunni, bregðast þeim málum að koma hernum burt úr landinu, hörfa frá þjóðnýtingu, sem þeir væru að berjast fyrir, það er að reyna að brjóta niður trú fólksins á vinstri stefnu yfirleitt. Það er illt verk að reyna að koma á hægri stefnu í vinstri stjórn. Það er níðingsverk gagnvart alþýðu manna.

Ef til vill mundi hv. 1. þm. S-M., ef hann héldi áfram eins og hann var að tala hérna áðan,fara að segja það við mig, að ég vildi þá líklega fara að mynda vinstri stjórn með hægri flokkum. Ég skal ekki segja, ef það væri hægt að mynda vinstri stjórn með flokkum, sem telja sig hægri, — sama væri mér, hvaðan stoð kæmi til þess að framkvæma það, sem íslenzkri alþýðu væri til góðs. Ef það væri flokkur hér til, sem vildi framkvæma það, sem Framsókn sveik okkur um, að láta herinn fara úr landinu, að kaupa 15 togara, að hækka aftur laun við almenning í staðinn fyrir að lækka þau, ja, það væri þá a.m.k. ekki illt verk. Það mætti frekar segja, að það væri kraftaverk. Ég held, að hv. 1. þm. S-M. ætti að reyna að komast ofur lítið niður á það að ræða þessi mál af einhverri alvöru, en ekki halda sér við tóm slagorðin, sem hann ætlar að reyna að beita í næstu kosningum.

Hv. 1. þm. S-M. minntist á nýsköpunarstjórnina, og hann sagði, að ég mundi ekki geta neitað því, að Framsfl. hefði lagt til að setja hærri upphæð en nýsköpunarflokkarnir hefðu lagt til inn í lögin um nýbyggingaráð. Það er rétt. Framsfl. kom fram með till. um það. Það, sem ég var að ræða, var, hver var afstaða Framsfl. til þess að mynda stjórn til þess að leggja þetta fé til hliðar, hvort það væru 300 eða 500 millj. Hún var neikvæð. Framsfl. var á móti því. Hann reyndi að hindra, að slíkt væri gert. Og þegar hv. 1. þm. S-M. skrifaði Sjálfstfl. f.h. Framsóknar 3. okt. 1944, þá var það ekki um að leggja 500 millj. til hliðar til ráðstöfunar fyrir nýbyggingaráð, þá var það bréf um að leggja ekki einn einasta eyri til hliðar. Ég get lesið upp greinina hans í nóvemberbyrjun 1944 í Tímanum, þar sem hann skýrir frá því bréfi og því tilboði. Það var tilboð um að mynda afturhaldsstjórn með Sjálfstfl., þar sem engir peningar væru lagðir til hliðar til að gera neitt. En þegar það mistókst fyrir Framsfl. að fá afturhaldsstjórn með Sjálfstfl., þá og þegar við vorum búnir að mynda nýsköpunarstjórnina og þegar við höfðum ekki komizt lengra, en að fá 300 millj. lagðar til hliðar, þá snýr Framsfl. blaðinu við og segir: Það er bezt að koma með till. um þetta og þykjast vera miklu róttækari. Fyrst okkur tókst ekki að eyðileggja þessa andskotans stjórn, þá skulum við a.m.k. sýna, að við séum miklu róttækari. Og þá komu þeir fram með till. Þetta heitir loddaraleikur.

Svo sagði hann, að stefnan í nýsköpunarstjórninni hefði ekki verið miðuð við nýsköpun. Ojæja. Af hverju hefur hv. 1. þm. S-M. sem fjmrh. haft tekjurnar síðan? Er það ekki af fiskveiðunum, fiskinum, sem veiddur er með þeim tækjum, sem þá voru keypt á þeim grundvelli, sem þá var lagður? Hann sagði, að það hefði ekki verið nema lítill hluti notaður til nýsköpunar. Það urðu samt upp undir 300 millj. Það tókst ekki að bjarga meiru. Alveg rétt, það hefði verið gott, ef það hefði verið meira. Og hann sagði: Þakka skyldi, þó að það hefði verið endurnýjaður togaraflotinn. — Það var gert meira, en að endurnýja togaraflotann. Það var alger nýsköpun togaraflotans á Íslandi, stærri floti, en við höfum átt áður, betri og afkastameiri, fyrir utan 100– 200 mótorbáta, sem þar að auki voru keyptir. Hann sagði, að þetta hefði allt saman verið komið á hausinn. Var ekki öll útgerð á hausnum, síðan þessi hv. 1. þm. S-M. varð fjmrh. á Íslandi? Hefur hún ekki alltaf gengið á höndunum eða næstum því á hausnum? Hefur ekki alltaf verið kvartað yfir því, að útgerðin væri á hausnum á Íslandi? Það, sem er aðalatriðið er, að það sé þó útgerð á Íslandi og að menn séu ekki sektaðir fyrir að afla sér báta, eins og þegar hv. 1. þm. S-M. var fjmrh. á kreppuárunum. Hvaða skilning sýndi hann hins vegar á þessum málum? Hann hafði tækifæri núna til þess að starfa með sömu flokkunum sem voru með Sjálfstfl. í nýsköpunarstjórninni og keyptu þá 30 togara. Hann segir núna: Þakka skyldi þeim, þó að það hefði verið endurnýjaður flotinn. — En hvað gerði hann í vinstri stjórninni, þegar við vildum fá að kaupa 15 togarana, 15 stóra togara, — hvað gerði hann? Hann hindraði það. Hann hindraði það sem fjmrh. Við fengum lög gegnum Alþingi um heimild til að taka lán til þess. Við gátum útvegað lán til þess, en fjmrh. vinstri stjórnarinnar hindraði, að það lán væri tekið og togararnir væru keyptir. Hann hafði valdið. Þá gat hann sýnt það, hvort hann ætlaði að vera skárri en Sjálfstfl. var í nýsköpunarstjórninni og gera meira en endurnýja togaraflotann, svo að ég noti hans eigin orð, en ekki mín. En hvað gerði hann? Hann kom í veg fyrir, að nokkuð væri keypt sem héti af nýjum, stórum togurum, þó að okkur tækist hins vegar að koma því í gegn að kaupa ýmsa smærri og ýmsa báta og hann gæti ekki hindrað það, þó að lengi væri það tafið.

Svo kom hv. þm. S-M, inn á það, hvernig hefði verið með dreifingu togaranna um landið. Þá hefði þurft á aðstoð Framsfl. að halda. Já, hvernig var það? Lögin, sem það byggist á að dreifa nýsköpunartogurunum um landið, voru lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins, lögin um, að 75% skyldi lána til bæjarfélaga og annarra af andvirði togaranna, 100 millj. kr. lagðar til hliðar í þessa sérstöku stofnlánadeild. Ég lýsti því í gær og ég skal minna á það aftur, að það kostaði heilt ár, heils árs baráttu við framsóknarvaldið, við bankavald Framsóknar og við Framsfl. í þinginu, að knýja þetta fram, þessa löggjöf á móti bönkunum. Heilt ár töfðu þeir fyrir því. Hvað var svo það, sem hv. 1. þm. S-M. uppgötvaði eftir að hafa barizt á móti þessu alla tíð? Jú, þegar að því kom, að litlu bæirnir okkar þurftu að fá og bæjarfélögin yfirleitt meira en 75%, 10% í viðbót, þá sá 1. þm. S-M. alveg nýja hlið á þessum togaramálum. Í hans augum voru nýsköpunartogararnir, togaraútgerðin yfirleitt var í hans augum gums, eins og hann orðaði það, gums, — þessir nýsköpunartogarar væru gums, sem enginn maður vissi, hvað hann ætti að gera við. Af hverju notaði hv. 1. þm. S-M. einmitt þessi orð, að þetta væri gums, sem enginn maður vissi, hvað ætti að gera við? Af því að hv. 1. þm. S-M. vissi ekki sjálfur, hvað átti að gera við þá. Þó að hann hafi verið fjmrh. Íslands í 25 ár, hafði hann þó ekki skilið, að grundvöllurinn fyrir öllum hans fjárlögum og öllu slíku eru þessar fiskveiðar. En hvað uppgötvar hann svo? Jú, hann uppgötvar það, þegar var farið að ræða að dreifa þessum togurum út um landið, að meira að segja í Suður–Múlasýslu var hægt að hafa togara. Og þá gerbreytist allt í heila hv. 1. þm. S-M. Hann sá sem sé, að það var hægt að gera togara út á atkvæðaveiðar. Það að gera togara út á fiskveiðar, hann skildi aldrei eiginlega, hvaða þjóðfélagslegan tilgang það hafði, en að gera togara út á atkvæðaveiðar í Suður-Múlasýslu, þá opnaðist skilningurinn hjá hv. 1. þm. S-M. Þá var hann með því að setja lánin upp í 86%. Þá var hann með því að beygja bara bankana. Þá voru atkvæði í Suður-Múlasýslu í veði. Og þá varð meira að segja Vilhjálmur Þór að fá að vita af því, að þegar atkvæði Eysteins Jónssonar eru hins vegar, þá dugir engin afturhaldssemi Vilhjálms Þórs. Þannig hefur það verið með afstöðu þessa hv. þm. til þess, sem er grundvöllurinn fyrir íslenzku þjóðfélagi. Hann skilur, þegar kemur að því, að þetta getur haft þýðingu hvað atkvæðaveiðar snertir. En til þess að bæta fyrir þjóðfélaginu í heild, til þess að fá grundvöll fyrir þjóðina í heild til að lifa á, þannig getur hann ekki hugsað. Hann hugsar líklega í einmennings- og tvímenningskjördæmum, en ekki um Ísland.

Svo kom hv. 1. þm. S-M. inn á spursmálið um kaupið og hæð þess og var að tala um, að það væri ekki til neins fyrir verkalýðinn að berjast fyrir hækkuðu kaupi, það þýddi bara verðbólgu. Verkalýðurinn á Íslandi hefur alla tíð barist fyrir hækkuðu kaupi, án þess að það þýddi verðbólgu, og verkalýðssamtökin hafa einmitt sérstaklega gert ráðstafanir til þess að reyna að hindra, að verðbólga hlytist af þeirra kauphækkunum. Svar ríkisvaldsins, svar auðmannastéttarinnar, sem ráðið hefur ríkisvaldinu, svar Framsóknarfl. alveg sérstaklega hefur hins vegar verið að skipuleggja verðbólguna sem svar við sigri verkamanna í verkföllunum. Þessi hv. þm. hefur verið meira eða minna fjmrh. Íslands í 25 ár. Hann hefur verið höfuðábyrgur fyrir þessari verðbólgu, og þau fyrirtæki, sem hann er sérstakur fulltrúi fyrir, hafa ásamt auðvaldinu í Reykjavík skipulagt þessa verðbólgu allan tímann, af því að þau hafa grætt á henni. Hann hefur haft helmingaskipti allan þennan tíma um að stjórna bönkunum á Íslandi. Hann hefur haft helmingaskipti við Sjálfstfl. um að koma á gengislækkun. Hann hefur skipulagt þessa verðbólgu til þess, að þeir, sem bankarnir lánuðu milljónirnar, tugi milljóna, hundruð milljóna, gætu grætt á því. Verðbólgubraskararnir eru ekki bara Einar Sigurðsson og slíkir. Verðbólgubraskarana er að finna líka í námunda við hv. 1. þm. S-M.

Það er ekkert spursmál um það, að verðbólgan á Íslandi er ekki verkalýðnum að kenna. Hún hefur verið mótráðstöfun auðvaldsins á Ísland, á móti verkalýðnum. Og verkalýðurinn hefur verið knúinn hvað eftir annað til þess að fara í hærri kauphækkanir, en hann ella hefði farið í, vegna þess að hann hefur orðið að reikna með því, að sér væri svarað á þennan ósvífna hátt að rýra í sífellu gildi peninganna. Og þessi sífellda gildisrýrnun á peningunum er skipulögð svona vegna þess, að það eru peningar ríkisins og almennings í landinu, sparifjáreigenda, sem þessir tveir flokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., í bankastjórnum bankanna eru að fara með. Ef Sambandið hefði átt Landsbankann eða Kveldúlfur Útvegsbankann og þeir hefðu átt peningana, sem voru þar í, þá hefði ekki verið skipulögð verðbólga á peningunum á Íslandi. Ef það hefð verið einkaauðvald, sem hefði átt þessa peninga, þá hefði það séð til þess, að það væru jafngóðir peningar, sem voru borgaðir til baka. En þegar tveir flokkar setjast að ríkisbönkunum á Íslandi og úthluta eignum almennings og ríkisins til sinna skjólstæðinga sem lánum, þá eru þessir skjólstæðingar þeirra „interessaðir“ í því að láta peningana falla ár frá ári. Þess vegna sameinast Sjálfstfl. og Framsfl. um gengislækkanir á svona 10 ára fresti og skipuleggja verðbólgu þess á milli. Þessa svikamyllu vill þessi hv. þm. dylja fyrir almenningi og það getur ef til vill tekizt fyrir hann einhvern dálitinn tíma enn þá, en þetta er það, sem er að gerast í íslenzkum efnahagsmálum.

Hann spurði: Eru það kauphækkanirnar, sem færa þeim gróðann, — ég held hann hafi sagt, að þeir væru sumir máttarstólpar úthaldsins? Þeim væri ekkert illa við það, að kauphækkanirnar færu fram, því að það gæfi þeim gróða á eftir. Það eru ekki kauphækkanirnar, sem færa þeim gróða. Það er verðbólgan, sem Framsókn hjálpar Sjálfstfl. til að skipuleggja á eftir, sem gefur þeim gróðann. En þessi hv. 1. þm. S-M, er farinn að líta á verðbólguna sem svo sjálfsagða ráðstöfun fyrir auðvaldið á Íslandi og móti verkalýðssamtökunum, að hann segir: Ja, ef það verður kauphækkun, þá er sjálfsagt að hafa verðbólgu. — Hann tengir það saman. Honum er ekki ljóst, að verðbólga eins og hann stóð að eftir verkfallið 1955 er fjandsamleg ráðstöfun auðvalds í landinu á móti verkalýðnum.

Hv. þm. minntist á það, að við hefðum fallizt á það 1. sept. 1956 að fella niður nokkur vísitölustig. Vissulega. Við féllumst á það. Það er mjög skynsamlegt að fallast á það. Þau vísitölustig, sem þá hefðu hækkað, hefðu verið tekin af okkur í hækkun á landbúnaðarvörunum mánuðinn á eftir. Við ráðguðumst við verkalýðssamtökin um þetta og öllum kom saman um, að það væri alveg sjálfsagður hlutur og enginn tapaði á honum, hvorki verkamenn né bændur. Svo er hann að bera þetta saman við hans ósvífnu kröfur um 8% launalækkun hjá verkalýðnum á Íslandi skaðabótalaust. Hverja heldur hann að hann sé að tala við?

En svo þótti mér nú mær bregða vana sinum, þegar hv. 1. þm. S-M. sagði, að kaup ætti að vera eins hátt og framleiðslan gæti borið. Jæja, má ég spyrja: Hvenær hefur hv. 1. þm. S-M. álitið, að það ætti að hækka kaupið, að það mætti hækka kaupið? Hvenær í allri hans sögu, 25 ára sögu, hefur hann álitið, að mætti hækka kaupið á Íslandi? Hvenær hefur hann álitið, að framleiðslan á Íslandi bæri hærra kaup? Hvenær hefur hann álítið, að mætti minnka gróða auðmannastéttarinnar á Íslandi? Hann nefnir kannske einhver dæmi um það. En ég þekki aðeins eitt dæmi, aðeins eitt einasta dæmi. Ég reikna ekki með 5% kauphækkunum svokölluðum vorið 1958, vegna þess að það var bara tekið til baka með 9 vísitölustigum, sem voru látin hverfa, það var bara fyrirframgreiðsla vísitölustiganna. En einu sinni hefur þessi hv. 1. þm. S-M. komið nærri því svo að segja að standa að kauphækkun eða a.m.k. að lýsa því yfir, að það væri eiginlega sanngjarnt, að verkamenn fengju hækkað kaup. Og það er rétt að rifja það upp fyrir hv. 1. þm. S-M., hvenær það var. Það var í september 1958, þegar Dagsbrún ætlaði að leggja út í verkfall til að fá kauphækkun. Þá stóð þessi hv. 1. þm. S-M. á bak við það, að fulltrúi Framsfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur lýsti því yfir, að það sé sanngjarnt og rétt að semja við Dagsbrún um þessa kauphækkun. Þetta er í eina skiptið í allri hans sögu, sem ég man eftir að hann hafi komið nærri því að álíta, að framleiðslan gæti borið kauphækkun og kaup ætti að vera eins hátt og framleiðslan gæti borið. Til hvers stóð hann að þeirri kauphækkun í eina skiptið í allri sinni sögu? Var það til þess að segja tveim mánuðum á eftir: Ef þið ekki afsalið þessari kauphækkun tafarlaust, þá er vinstri stjórninni slitið? — Var það eins og flugumaður, að hann kom? Var meiningin ekki meiri í eina skiptið á ævinni, allri sinni stjórnmálaævi, sem hann hefur álitið að verkamaður með 5 þús. kr. laun mætti fá hærra kaup? Ég er hræddur um, þó að hann þykist vilja tala hérna fyrir hönd verkalýðsins stundum núna, að það hefði orðið lítið úr þeim lífskjörum, sem verkalýðurinn býr við á Íslandi nú, ef það hefði átt að njóta hans forustu við til að hækka kaup á undanförnum áratugum og heyja þá baráttu. Það hefur orðið að heyja alla þá baráttu við hann, meira að segja heyja hana þannig, að við höfum orðið að brjóta lög til þess að brjóta hans einræðislög á bak aftur, eins og gerðardómslögin. Svo segir hv. 1. þm. S-M., að við, sérstaklega ég, viljum eyðileggja, ja, ekki bara vinstri stjórn, heldur þjóðfélagið og ég veit ekki hvað og hvað. Hvað er þetta, sem hann meinar, þegar hann talar um að eyðileggja? Það að dirfast að standa upp í hárinu á Framsfl., vilja eitthvað annað en það, sem hans forusta í Framsfl. vill. Það á að þýða að eyðileggja þjóðfélagið.

Sem sagt, þessi einræðis- og yfirgangshneigð Framsóknar er slík, að það getur enginn flokkur unnið með henni til lengdar, nema hún láti af henni. Það er reynsla allra þeirra, sem með Framsókn vinna. Það var einu sinni nokkuð stór karl, sem var formaður Framsóknar og beitti slíkri einræðishneigð og varð að lokum að láta í minni pokann. Hv. 1. þm. S-M. hefur verið lærisveinn hans og hefur verið að reyna að feta í fótspor hans og ég er hræddur um, að það endi með því, ef hann lærir ekki neitt af sinum mistökum, að það fari verr fyrir honum. Framsfl. neyddist sjálfur til þess að setja þann formann af og hefur ekki beðið þess bætur samt síðan á vissum sviðum. Ég er hræddur um, að það væri eins gott fyrir hv. 1. þm. S-M. að fara að reyna að læra eitthvað, ef hann ætlar að endast sem forustumaður Framsfl.

Svo segir hv. 1. þm. S-M., að Framsfl. sé aðalvinur verkalýðsins í landinu, á hann megi verkalýðshreyfingin treysta. Ó já, vináttuna fékk hann nú aldeilis að sjá, verkalýðurinn. Jú, hann gat fengið vináttu Framsóknar, ef hann vildi beygja sig undir yfirgangsstefnu hennar, beygja sig undir kauplækkunarstefnu hennar. Ég er hræddur um, að verkalýðshreyfingin í landinu megi segja, þegar hún heyrir um þessi vináttutilboð Framsóknar: Guð verndi mig fyrir vinum mínum, ég skal sjálfur vernda mig fyrir mínum óvinum. — Það er engin hætta, að verkalýðshreyfingin á Íslandi standi ekki í ístaðinu gagnvart Sjálfstfl. og gagnvart auðvaldinu. En það, sem hún hefur átt á hættu lengst af, það er, að Framsfl. stæði með því auðvaldi, yrði partur af því auðvaldi, sem hann hefur verið að sogast meira og meira inn í og gengið jafnvel fram fyrir skjöldu til þess að ráðast fyrir hönd þess auðvalds á verkalýðshreyfinguna, eins og hv. 1. þm. S-M. gerði í nóv. 1958 með því að heimta 8% kauplækkunina, þegar jafnvel sjálft íhaldið heimtaði ekki nema 6%. Nei, verkalýðshreyfingin má sannarlega segja, þegar hún fær svona vináttutilboð: Guð verndi mig fyrir vinum mínum, ég skal passa mig sjálfur fyrir mínum óvinum.

Hv. 1. þm. S-M. var að tala um, að það væri sjálfsagt að hækka kaupið, þegar framleiðslan gæti borið það. Hefur þessi hv. þm. nokkurn tíma athugað, hvað framleiðsla og framleiðsluafköst á Íslandi hafa aukizt frá 1947? Eftir 1947 hafa komið í gagnið allir nýsköpunartogarar, öll nýsköpunarskip, öll Marshall-hjálpin, öll uppbyggingin á sementsverksmiðju, áburðarverksmiðju og öðru slíku, öll uppbygging allra þessara aðila, sem hér eru að metast um, hvernig þeir hafi byggt Ísland upp á síðustu 15 árum. En hvað hefur verkalýðurinn fengið í hlut? Framleiðslan á Íslandi ber meira, en hún hefur gert nokkru sinni fyrr. En fær verkalýðurinn hærra kaup, en hann hafði 1947? Hann hefur lægra kaup í dag en hann hafði 1947. Hann fær minna í sinn hlut af því, sem þjóðin framleiðir, heldur en hann gerði þá, svo að honum er bezt að tala með dálitið meiri þekkingu á þessum málum, þegar hann fer að tala.

Svo fór hv. 1. þm. S-M. að tala um verðlagseftirlitið, — ja, það væri nú ekki mikið varið í þetta verðlagseftirlit. Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ), hans flokksbróðir, var nú að tala um verðlagseftirlit og að verðlagseftirlit væri alveg sérstök stefna Framsfl. á móti því vonda íhaldi, sem vildi afnema verðlagseftirlit og koma á svokallaðri frjálsri verzlun, þannig að hv. 1. þm. S-M. var fyrst og fremst að deila á 7. þm. Reykv. Hins vegar er ég ekkert hissa á því, þó að hann deili stundum á hann, því að mér sýnist, að hv. 7. þm. Reykv. tali stundum þannig, að það sé ekkert óeðlilegt, þó að hv. 1. þm. S-M. villist á honum og mér. Svo sagði hv. 1. þm. S-M., að hið eina sanna verðlagseftirlit væri, að fólkið í landinu taki viðskiptin í sínar hendur með samvinnufélögunum, örugg og sterk samvinnufélög. Þetta er alveg ágæt hugsjón. Og hvernig framkvæmir Framsfl. hana? Við skulum taka stærstu vöruna, stærsta liðinn, sem fluttur er inn í landið, sjötta partinn af öllum innflutningi Íslands, olíuna. Örugg og sterk samvinnufélög. Jú, það vantar ekki. Það er meira að segja sjálft Sambandið. Það er svo sem ekki verið að láta KRON eða einhver smákaupfélög í landinu sjá um að varðveíta þetta verðlagseftirlit fólksins. Nei, sjálft Sambandið er sett í þetta og Sambandið myndar sterkt félag, svo að fólkið í landinu hafi viðskiptin í sínum höndum, eftir kokkabók hv. 1. þm. S-M. Og hvernig er svo reynslan? Reynslan er slík, framkvæmd Framsfl. á því, að fólkið taki þessi viðskipti í eigin hendur undir forustu Sambandsins og yfirstjórn Framsfl., er slík, að Tíminn verður að segja, af því að hneykslin í sambandi við Olíufélagið eru svo slæm, að það séu sjálfstæðismenn, sem séu í meirihluta í stjórn þar. Hér eru helmingaskiptin um þessa framkvæmd á hugsjón 1. þm. S-M. orðin svona voðaleg, að það á að reyna að klína því á íhaldið.

Hv. 1. þm. S-M. sagði, að samkeppnin frá samvinnufélögunum og þeirra stofnunum þyrfti að vera svo sterk, að hún setti meginsvip á verzlunarlífið í landinu. Jú, samkeppnin frá Esso og Olíufélaginu við hin olíufélögin er vist svona sterk, að hún setur meginsvip sinn á viðskiptalífið í landinu. Eru það kannske Esso-tankarnir, sem farnir eru að setja svip á sveitabæina um allt land, þar sem það er búið að klína þeim niður í íslenzku landslagi því til óprýði? En það setur ekki svip á viðskiptalifið í landinu. Það er viðskiptalífinu í landinu til skammar, það er smánarblettur á samvinnuhreyfingunni að hafa komið nærri því og það er Framsfl. alveg sérstaklega til skammar, að í tvö ár erum við búnir að biðja hann um að fallast á þjóðnýtingu á olíuverzluninni og hann er búinn að neita því allan tímann. Við erum búin að biðja hann um, að sjálft fólkið í landinu taki þessi viðskipti í sinar hendur og stjórni þeim, af því að þarna séu olíuhringar að verki, sem séu hættulegir fyrir þjóðina. En hv. 1. þm. S-M. segir nei, fólkið í landinu skal ekki fá að taka þessi viðskipti í sinar hendur. Og nú var það samt meira að segja þannig, að ríkið hafði sjálft innkaupin á þessari olíu, en 1. þm. S-M. segir: Nei, ríkið skal láta þessi viðskipti úr sínum höndum og til olíuhringanna — og pínir það í gegn. Hvað á þessi hræsni að þýða: að koma hér og tala svona og hafa svo praktísinn eins og olíufélögin eru? Ég er hræddur um, að hv. 1. þm. S-M, megi fara að athuga alla þróun samvinnufélaganna hér á Íslandi. Ástandið er þannig, að það er að verða svo fjarri sumsstaðar, að það sé fólkið, sem tekur viðskiptin í sínar hendur, — við sjáum það bezt á olíunni, að það er engu líkara en það sé fólkið, sem er á valdi forstjóra sinna, það séu forstjórarnir, sem vilji ráða yfir fólkinu og Framsfl., sem vill ráða forstjórunum, olíuforstjórunum líka, meira að segja pína þá inn í Framsfl., ef þeir skyldu vera í öðrum flokki, þó að hann kannske skammist sín fyrir það á eftir.

Svo kom hv. 1. þm. S–M. inn á það, að ég hefði hlaupið yfir það í því, sem ég talaði um, ég hafi talað bara um launin. Það var alveg þveröfugt. Ég tók launin, ég tók verzlunarauðvaldið, ég tók skipulagningu þjóðfélagsins og ég tók tryggingastarfsemina, alþýðutryggingarnar, ég tók öll þessi hagsmunasvið, þar sem auðvaldi og alþýðu lendir saman. Hann bara hvorki heyrir né sér né skilur. Og fyrst hann minntist á samvinnufélög og sína miklu umhyggju fyrir þeim, kannske ég rifji þá upp fyrir honum hans umhyggju. Man hann, þegar við vorum í vinstri stjórninni að breyta bankalöggjöfinni, man hann, hvað hann og fleiri notuðu sem aðalátyllu þá í umr. á Alþingi það, að KRON hefði orðið út undan með lán í Reykjavík, hefði ekki fengið lán hérna úr bönkunum, eins og það ætti kröfu á? Hefur það batnað síðan? Hafa samvinnufélögin, KRON, fengið að njóta þess, að samvinnufélög ættu að standa eitthvað betur að vígi, eftir að bönkunum var breytt? Nei, það eru ekki samvinnufélögin, sem þessi hv. þm. er að bera fyrir brjósti. Það eru aðrir hlutir. Það er ákveðið valdakerfi Framsóknar og aðstaða til þess að misnota það, líka á móti þeim samvinnufélögum, sem Framsfl. hefur ekki velþóknun á.

Hv. 1. þm. S-M. var svo að tala um illa fenginn þingmeirihluta. Jæja, honum ferst, með illa fenginn þingflokk hér. Hefur hann reiknað út, hvað framsóknarmenn eru margir hér í þinginu? Ætli þeir séu ekki 19, með 27% kjósenda á bak við sig? Og hvað eru margir fulltrúar Alþb. og Alþfl.? Við erum 13 núna. Og hvað höfum við á bak við okkur? 19 þm. hafa á bak við sig 28%, 13 þm. hafa á bak við sig 27%. Þetta er illa fenginn þingflokkur hjá Framsókn, svo að maður tali nú ekki um allan áróðurinn í sambandi við þetta.

Svo kom hv. þm. inn á það, að það mundu verða vatnaskil í íslenzkum stjórnmálum. Hvaða vatnaskil eru þetta, sem hann átti við? Hann er að tala um nýja bandalagið, sem sé í uppsiglingu. Varð hann svona óskaplega hræddur út af einni forsefakosningu á Alþingi, að hann sjái ekki nokkurn skapaðan hlut, eða heldur hann, að hann sé svona voðalega klókur pólitíkus, að hann geti slegið sér upp á þessu í næstu kosningum? Hvað er það, sem er fram undan í íslenzkri pólitík eftir kosningarnar? Það, sem er fram undan og það, sem er hættan, sem yfir alþýðu Íslands vofir er, að þeir flokkar taki saman, sem eru sammála um ákveðna pólitík, að þeir flokkar, sem eru sammála um gengislækkun, myndi sameiginlega stjórn, þeir flokkar, sem eru sammála um að viðhalda hernámi og öðru slíku, myndi sameiginlega stjórn, þeir flokkar, sem eru sammála um að lækka kaup verkalýðsins, hvort það er um 6 eða 8%, standi saman um stjórn. Og það er fleira í þessu máli, sem þessir flokkar eru sammála um, sem þeir þora hins vegar ekki að hafa mikið í frammi, en við vitum ósköp vel að er að gerast á bak við tjöldin. Framsfl. og afturhaldssamasti kjarni Sjálfstfl, eru sammála um það að reyna að hleypa amerísku stóriðjuauðvaldi inn á Ísland, að leigja íslenzka fossa amerískum auðhringum til 20–25 ár, og aðalforustumenn Framsfl. hafa þegar undirbúið þetta. Og ef hv. 1. þm. S-M. dirfist að mótmæla því, þá skal ég leggja þau plögg á borðið. Þeir tala ekki um þetta, en þetta er það, sem þeir eru að undirbúa.

Hvað var 1949, þegar Framsfl. sagði fjárplógsstarfseminni stríð á hendur og fór svo í gengislækkunarstjórn með Sjálfstfl. 1950? Hvað gerði hann 1951? Hann kallaði her inn í landið, sem hann hafði áður lofað að kalla ekki inn og hann hefur svikizt um að láta fara, þó að hann hafi lofað að láta hann fara. Hvað skyldi hann ætla sér eftir þessar kosningar 1959, þegar hann fer í stjórn með Sjálfstfl. eftir 1–2 ár? Skyldi hann ekki ætla sér að reyna að vera búinn að undirbúa það vel í gegnum sín sambönd vestan hafs að fá sér ameríska stóriðju, sem geri helmingaskiptin milli Framsóknar og Sjálfstfl. heldur gróða meiri en þau hafa verið fram að þessu? Það eru þessi vatnaskil, sem fyrst og fremst er hætta á að verði í íslenzkum stjórnmálum á næstunni og alþýða manna þarf að vara sig á.

Hv. 1. þm. S-M. heldur, að allt það, sem komið sé upp úti á landi, þurfi að vera taprekstur. því fer fjarri. Það er hægt að koma upp íslenzkri stóriðju úti á landi, sem íslenzkt ríki á, alveg eins og hér í nágrenni Reykjavíkur eða í Árnessýslu. En til þess þarf að einbeita fjárhagskröftum íslenzka ríkisins að slíku. Til þess þarf áætlunarbúskap og það er það, sem hv. 1. þm. S-M. hatast við. Ríkið þarf að geta sett stórfé í slíka uppbyggingu, uppbyggingu á íslenzkum stórrekstri. Til þess þarf m.a. á ýmsum sviðum að spara, að verja fjárfestingunni rétt, að tryggja það, að þjóðarheildin og ekki hvað sízt þeir landsfjórðungar, sem hann var að reyna að leggja í eyði með Sjálfstfl. á hernámstímanum, njóti slíkrar uppbyggingar.

Hv. 1. þm. S-M. hatast ósköp mikið við Sjálfstfl., það veit ég ósköp vel. En það er ekki vegna þess, að það sé auðvaldsflokkur og hann sé andstæður því auðvaldi. Nei, hann hatast við hann út af skiptunum, eins og bræður eiga jafnvel til með að hatast út af skiptum á búi. Hann hatast við hann út af helmingaskiptunum. af því að hann vill alltaf fá meira og meira í sinn hlut og það vill hinn líka. Þeir berjast um það, hvernig þeir eiga að skipta gróðanum, sem þeir hafa af almenningi. Þeir sameinast um að hafa þennan gróða sem mestan og halda launum verkalýðsins niðri. Og þess vegna skal ég segja honum alveg hreint, hvað gerist eftir næstu kosningar. Það, sem gerist, er það, að þessir tveir flokkar, Sjálfstfl, og Framsfl., sem koma til með að þykjast vera óskaplegir mótpólar í þessum kosningum, ná saman. Og ég skal segja hv. 1. þm. S-M., af hverju þeir ná saman, þó að hvorugur þeirra geti helzt hugsað til þess í dag að eiga að fara að vinna hvor með öðrum. Þeir ná saman á peningum, á gróðanum. Þá langar báða og stofnanirnar, sem ráða þeim, til þess að geta grætt, geta grætt á almenningi í landinu, geta haldið niðri kaupi almennings í landinu, geta safnað auð handa voldugum fyrirtækjum á kostnað almennings í landinu. Og það er þessi gróði, sem rekur þá saman, sem hefur tengt þá saman meira eða minna síðustu tvo áratugi.

Og svo lauk hann ræðu sinni með því að segja, að Framsfl. ætli að halda áfram sömu stefnu og undanfarna áratugi. Þá var hann sem sé í lokin, búinn að gleyma öllu saman, sem hann þurfti að muna undir næstu kosningar, að nú ætti sem sé Framsfl. allt í einu að þykjast fara að koma fram sem sá eini sanni vinstri flokkur í landinu.

Hv. 1. þm. S-M. getur ekki hugsað þá hugsun, að hann eigi að vera utan ríkisstj. Og þess vegna held ég, að hann hafi fyllzt hálfgerðri afbrýðisemi gagnvart okkur og honum hafi allt í einu dottið í hug: Það skyldi þó aldrei vera, að Alþb. gæti farið í stjórn með Sjálfstfl. og ég kæmist þar ekki sjálfur? Hugsa sér bara annað eins. Ég skal segja hv. 1. þm. S-M. það, að ef Framsfl. myndar stjórn með Sjálfstfl. á morgun eða eftir kosningarnar t.d. um það að láta herinn fara burt, um að kaupa 15 togara, um að koma upp íslenzkri stóriðju í landinu, um að hækka kaup almennings, um að lækka vextina og hjálpa fólki til að byggja, um að auka alþýðutryggingar, ja, hvað ættum við þá að segja við slíkri stjórn? Gætum við sagt nokkuð annað en þetta væri mjög góð stjórn, jafnvel þótt það væru Sjálfstfl. og Framsfl., sem mynduðu hana, ef þeir mynduðu hana um svona hluti? Ég mundi bara segja fyrir mitt leyti: Þetta er eins og vinstri stjórn á að vera. — Dygði að vera með nokkurn hamagang út í það, þótt hv. 1. þm. S-M. meira að segja væri sjálfur ráðherra í slíkri stjórn með Sjálfstfl., sem væri svona góð stjórn?(Gripið fram í: Það er mjög ólíklegt.) Það er mjög ólíklegt. Þar rataðist honum satt á munn. Það er mjög ólíklegt að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisfl. mynduðu svona stjórn. Ég skal segja honum alveg, hvað er líklegt, hvers konar stjórn Framsfl. og Sjálfstfl. myndi. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn um gengislækkun. Þeir hafa báðir verið sammála um hana. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn um meira hernám í landinu, þegar báðir eru sammála um að græða á hernáminu. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn, sem kaupir aðra 5.000 bíla á næstu 4 árum, eins og þeir gerðu, þegar þeir voru í stjórn áður og kaupi engan togara. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn um að lækka kaupið í landinu, þegar þeir eru sammála um kauplækkunina. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn um að hækka vextina í landinu, þeir hafa alltaf verið sammála um að hækka vextina. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn um að rýra aðstoðina við almenning viðvíkjandi byggingum, þeir hafa alltaf verið sammála um að gera það, þegar þeir hafa verið við völd. Það er líklegt, að þeir myndi stjórn um að rýra alþýðutryggingarnar í landinu, þeir hafa alltaf gert það, þegar þeir hafa verið í stjórn. Hvað mundi maður segja um slíka stjórn? Maður mundi segja, að þetta væri vond stjórn, að þetta væri íhaldsstjórn.

Á ég nú að segja, hvað ég held að hv. 1. þm. S-M. mundi helzt vilja gera? Ég held, að hann mundi vilja mynda svona stjórn með verkalýðsflokkunum, stjórn til þess að framkvæma þetta, framkvæma gengislækkun, framkvæma vaxtahækkun, láta hernám haldast, kaupa ekki togara og annað slíkt. Svona stjórn mundi hv. 1. þm. S-M. vilja mynda með verkalýðsflokkunum. Hann mundi jafnvel vilja kalla hana vinstri stjórn. Og hann mundi jafnvel vilja segja, að hver maður, sem leyfði sér að gagnrýna þetta eða vara við því að kalla svona stefnu vinstri stefnu eða tengja þetta við vinstri stjórn, hann mundi segja, að það væri hættulegur maður, það væri annaðhvort voðalegur hægri krati eða ógurlegur Moskvukommúnisti og náttúrlega erindreki íhaldsins.

Nei, hv. 1. þm. S-M. á ekki að einbeita sér við það í þessum umr. að spyrja: Með hverjum ætla hverjir að mynda stjórn eftir kosningar, heldur hitt, um hvað á að mynda stjórn eftir kosningar? Er hann til í að mynda stjórn um þetta fyrra, sem hann taldi svo ólíklegt að hann myndaði stjórn með Sjálfstfl. um? Ef hann væri til í það, ætti hann að segja það strax. Þá væri hægt að ganga til kosninganna í haust af einhverjum flokkum, sem segðu: Um þessa hluti ætlum við að standa saman, ef við fáum meiri hl. til þess að mynda ríkisstj. — Það var það eina, sem var heiðarlegt í Hræðslubandalaginu, að tveir flokkar sögðu þá: Við ætlum að mynda stjórn um ákveðinn hlut, svo framarlega sem við fáum meiri hl. til þess. — Það væri líka það eina heiðarlega, sem stjórnmálaflokkarnir ættu að gera.

En vill hv. þm. segja þetta? Nei, hann vill ekki tala um, hvað eigi að gera. Hann vill bara vera með bollaleggingar um, hverjir ætli nú að mynda stjórn á eftir. Og út frá hverju eru allar þessar bollaleggingar? Bara út frá því, að hann langar til þess að reyna að gera aðstöðu Framsfl. í kosningunum dálítið skárri, en hún á skilið að vera. Hann vill reyna að tjalda vinstri tjöldum í þessum kosningum, eftir að hann hefur sjálfur svikið og sprengt vinstri stefnu og vinstri stjórn. Hann vill reyna að gera Framsókn sterkari í kosningunum í haust, til þess að hún sé sterkari til helmingaskiptanna við íhaldið í næstu helmingaskiptastjórn þess. Hann vill reyna að endurtaka kosningablöffið allt saman frá 1949, frá því fyrir 10 árum. Hann vill segja núna fjárplógsstarfseminni stríð á hendur og reyna að þykjast vera eini vinstri flokkurinn. Og hann vill láta fólkið gleyma því, að stríð Framsfl. á móti fjárplógsstarfsemi endaði í þeirri ömurlegustu uppgjöf fyrir fjárplógsstarfseminni, í þeirri ömurlegustu þátttöku í hermangi, í þeim helmingaskiptum um gróða á íslenzkri alþýðu, sem eru fræg orðin að endemum. Þetta er tilgangurinn með öllu tali hv. 1. þm. S-M., tilgangurinn að reyna að skapa Framsfl. betri aðstöðu til helmingaskipta um afturhaldsstjórn eftir þessar kosningar.

Ég hef nú orðið all langorður um að svara þessum hv. þm. Framsfl. Þessar umr. hafa farið nokkuð á við og dreif, eins og ekki er að sumu leyti óeðlilegt og leyfilegt við 3. umr. þessa máls, og ég held, að eftir þessa meðferð láti ég minni ræðu lokið.