13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

Blaðaljósmyndarar í alþingishúsinu

Forseti (EggÞ):

Út af þessum ummælum hv. 1. þm. N-M. (PZ) vil ég aðeins lýsa því yfir, að það voru fleiri dagblöð, sem sendu hingað ljósmyndara og óskuðu eftir því að fá að hafa þá hér við, þegar endanleg afgreiðsla stjórnarskrárbreytingarinnar færi fram. Mér var sagt, að slík leyfi hefðu verið veitt áður af forsetum á undan mér. Ég sá því ekki ástæðu til þess að meina ljósmyndurum aðgang að þingsalnum, á meðan þessi athöfn fór fram. Hins vegar dróst þessi endanlega afgreiðsla málsins nokkuð fram eftir degi og mun það ástæðan til þess, að ljósmyndarar voru hér viðstaddir lengur, en ráð var fyrir gert.

Ég tek undir það með hv. þm., að ég harma misnotkun á því frelsi, sem ljósmyndurum var í þetta skipti veitt til þess að taka myndir af ákveðinni athöfn í þinginu og vona, að slíkt endurtaki sig ekki.