23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti: Í því máli, sem hér liggur fyrir og kunnugt er nú orðið af allri kosningabaráttunni og umræðunum um það á síðasta Alþingi, þá stendur í raun og veru baráttan á milli lýðræðis og mannréttinda annars vegar og milli afturhalds og forréttinda hins vegar. Og það er nauðsynlegt að gera sér það ljóst, að baráttan stendur um þetta: Hvernig sem menn skipa sér í flokka máske annars í þjóðfélaginu, þá er það nauðsynlegt, að það sé tekið alveg hreint út úr, um hvað er barizt, þegar verið er að berjast um þetta mál. Það stendur spurningin um það, hvort verkamennirnir í landinu eigi að hafa sama rétt og allir aðrir Íslendingar, hvort fólkið, sem býr í þéttbýlinu, verkalýðurinn, sem þar hefur safnazt saman, eigi að hafa jafnan rétt eins og t.d. kaupfélagsstjórar Framsóknar eða hvort það eigi að vera áfram ástandið þannig, að það þurfi 8 verkamenn til þess að jafnast á við 3 kaupfélagsstjóra. Það er þetta, sem spurningin hefur staðið um í sambandi við þetta mál. Þetta er mannréttindamál, sem verkalýðshreyfingin hefur barizt fyrir á Íslandi, frá því að hún tók til starfa. Verkalýðsflokkarnir hafa, frá því að þeir byrjuðu að starfa á Íslandi, barizt fyrir því, að það sé jafn kosningarréttur á Íslandi, vegna þess að verkalýður, sem er meiri hluti þjóðarinnar, hefur því aðeins möguleika að ná fram sínum hagsmunamálum, að hann hafi sama rétt í þjóðfélaginu og hver annar. Þetta er svo sjálfsagt mál fyrir hvern einasta verkamann og fyrir allt verkafólk, að það þarf ekki að ræða lengi við þá um það, þetta skilja menn, þetta vita menn, vegna þess að þetta er grundvöllurinn fyrir allri þeirra hagsmunabaráttu, fyrir allri þeirra baráttu fyrir því að vera viðurkenndir sem menn jafngóðir og aðrir, en ekki útilokaðir meira eða minna frá, hvernig þjóðfélaginu sé stjórnað.

Það er þess vegna sá eðlilegasti hlutur, sem hægt er að hugsa sér og hefur verið staðreynd á Íslandi í meira en 30 ár, að verkalýðsflokkarnir hafa staðið með því, að komið veri á jöfnum atkvæðisrétti fyrir alla Íslendinga, sem þýddi, að verkamaðurinn, verkalýðsstéttin, helmingur þjóðarinnar, fengi jafnan atkvæðisrétt á við alla aðra.

Hvers konar steinblinda er það nú, sem kemur fram hjá hv. 1. þm. S-M., þegar hann í sinni ræðu hérna áðan telur það alveg óeðlilegt, að verkalýðurinn á Íslandi sé þessarar skoðunar, telur það svo óeðlilegt, að það hljóti að vera alveg sérstaklega vondir foringjar, vondir flokkar, sem hafi blindað hann, svo að verkalýðnum skuli detta í hug að heimta jafnan rétt á við alla aðra, meira að segja jafnan rétt á við Framsókn? Hvers konar steinblinda er þetta, sem einkennir þennan hv. foringja Framsfl. í aðalmannréttindamálum verkalýðsins, sem hann hvað eftir annað er þó að segjast vilja starfa með? Hann meinar líklega: svo framarlega sem verkalýðurinn vill lúta að öllu því, sem hann vill skammta.

Við verðum að gá að því, að það verður að taka afstöðu til hvers máls eftir því, hvernig því máli sjálfu er háttað. Það eru til þau mál á Íslandi og þau mörg, þar sem verkalýðsflokkarnir eiga samleið með Framsfl., þar sem þeir geta unnið með honum, gert margt gott með honum. En það eru sömuleiðis til þau mál, þar sem verkalýðurinn getur átt samstöðu með Sjálfstfl. og gert jafnvel ýmislegt gott með honum. Það þarf ekki annað en að minna hv. þm. á það, sem alltaf fer í taugarnar á honum, nýsköpunarstjórnina á árunum eða þá samstarf um breytingu á kosningalögum. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem verkalýðsflokkarnir á Íslandi hafa haft samstarf við Sjálfstfl. um breytingu á kjördæmaskipulaginu á Íslandi og breyt. á kosningalögunum. Þetta er í þriðja skipti á 28 árum. Og af hverju er það í þriðja skipti á 28 árum? Af því að Framsfl. og hans forusta hefur á öllum þessum tíma alltaf verið svo blind vegna sinna eigin hagsmuna og forréttinda einmitt í þessum málum, að það hefur aldrei verið hægt að koma því viti fyrir hana, að hún ynni með verkalýðnum að því að leysa þau.

Það er engum blöðum um það að fletta, hverjar eru höfuðandstæðurnar í okkar þjóðfélagi, auðmannastéttin annars vegar og alþýðan hins vegar og það er heldur engum blöðum um það að fletta,hvernig Framsfl. lengi vel reyndi einmitt að hagnýta sér þessar andstæður með því að vinna með þeim á víxl. En í einu máli hefur það alltaf verið, þar sem möguleiki og frá sjónarmiði Framsóknar hætta hefur verið á, að verkalýður og auðmannastétt eða borgarastétt gætu tekið höndum saman. Það var í kjördæmamálinu, vegna þess að þar fóru hagsmunir þeirra manna, sem fyrst og fremst búa í þéttbýlinu, saman að tryggja full mannréttindi gagnvart úreltri kjördæmaskipun og þar af leiðandi sérréttindum þeirra, sem hennar nutu.

Það, sem hins vegar hefur verið það einkennandi í þessum málum á þessum þrem áratugum, hefur verið, að Framsfl. hefur frekar kosið að vera flokkur forréttinda og afturhalds í þessu máli heldur en taka sönsum og semja við verkalýðsflokkana og verkalýðinn um þetta mál. Þess vegna er það raunverulega undarlegt, að hv. 1. þm. S-M. skuli vera svo gersamlega sneyddur því að geta stungið hendinni í eigin barm, svo gersamlega sneyddur allri sjálfsgagnrýni, að hann skuli í sambandi við afstöðu Framsóknar í þessu máli að fara að tala um trúna á réttlæti. Verkalýðsflokkarnir hafa verið að berjast einmitt fyrir réttlæti í þessum málum allan þann tíma, sem þeir hafa verið að starfa á Íslandi, fyrir þeim rétti, að fátækur verkamaður í kaupstöðum landsins hefði sama rétt og hver annar Íslendingur. Tvisvar sinnum var Framsfl. búinn að leggjast á mótí þessu í baráttunni, sem fram fór 1931 til 1934 og aftur 1942. Og meira að segja í sinni ræðu hér áðan virðist hv. 1. þm. S-M. ekki hafa lært meira af þeirri baráttu heldur en það, að hann segir: Það hafa nú margar stjórnarskrárbreytingar verið þvingaðar fram jafnvel gegn meiri hluta þjóðarinnar. — Ég býst ekki við, að hann hafi átt við lýðveldisstjórnarskrána, svo að það eru þá varla aðrar stjórnarskrárbreytingar en þær, sem breytt hafa kjördæmaskipulaginu á undanförnum árum. Hann stendur sem sé í þeirri trú enn þá, að stjórnarskrárbreyt. 1934 og stjórnarskrárbreyt. 1942 hafi a.m.k. önnur hvor verið þvinguð fram á móti meiri hl. þjóðarinnar. Svona gersamlega virðist þessi flokkur álita, að Framsfl, eigi eins konar óðalsrétt á meiri hluta þjóðarinnar og ef meiri hluti þjóðarinnar hafi ekki vit á að greiða atkvæði með Framsfl., þá sé það fyrir einhverjar blekkingar vondra manna. Ég tala nú ekki um, ef meiri hluti þjóðarinnar færi nú að samþykkja einhverjar breytingar, sem tryggja vald meiri hluta þjóðarinnar í þjóðmálum, þá hlýtur það bara að vera vegna þess, að meiri hluti þjóðarinnar hafi ekki hugmynd um, hvað hann gerir.

Hv. 1. þm. S-M. stendur á því fastar en fótunum, að þessar gömlu stjórnarskrárbreytingar hafi verið þvingaðar fram á móti meiri hluta og þá alveg sérstaklega sú, sem nú er um að ræða. Hv. 1. þm. S-M. hafði allra manna mesta og bezta aðstöðu til þess að ráða því, hvers konar kjördæmabreyting yrði samþykkt á síðasta Alþ. Það reyndi aðeins á það, hvort hann hefði einhverja trú á réttlæti. Það reyndi aðeins á það, hvort hann hefði einhverja trú á mannréttindum. Það reyndi aðeins á það, hvort hann hefði einhverja trú á lýðræði og því, að menn ættu að hafa jafnan kosningarrétt á Íslandi. Hann vissi ósköp vel um það misrétti, sem verkalýðurinn í landinu hafði átt við að búa í þessum efnum. Hann vissi ósköp vel um, hve úrelt þessi kjördæmaskipun var orðin, því að hann hafði einmitt sjálfur haft forgöngu um að reyna að misnota það, sem var verst í henni, til þess að reyna að ná sér meiri hluta á Alþingi með minni hl. þjóðarinnar. Hann veit því ósköp vel, þegar vinstri stjórnin var mynduð og þegar byrjuðu fyrstu umr. um það að mynda hana, að hans samstarfsflokkar voru ákveðnir í því, að það yrði að leysa kjördæmamálið og Framsfl. var einmitt varaður við því strax á fyrsta samtalsfundinum og það var sett inn í sjálfan stjórnarsáttmálann, að í samstarfstíð stjórnarinnar skyldi þetta mál leyst.

Þessi hv. þm., sem var ráðh. í ríkisstj. allan tímann og forustumaður Framsóknar hér á þingi, hafði einmitt þess vegna möguleikana til þess að leysa þetta mál, leysa þetta mál á þeim grundvelli, sem Framsfl. gæti máske unað við, aðeins svo framarlega sem hann væri það forsjáll og það víðsýnn sem stjórnmálamaður, að hann tæki eitthvert tillit til annarra og eitthvert tillit til réttlætis og eitthvert tillit til mannréttinda. Hann vissi ósköp vel um það misrétti, sem verkalýðurinn átti við að búa. Hann vissi ósköp vel um það, að Framsfl. sat hér á Alþingi með 17 þingmenn með 13.000 atkv. á bak við sig og t.d. Alþb. sat hér á þingi með 8 þingmenn með 16 þús. atkv. á bak við sig og Alþfl. nokkuð svipað. Hann vissi þess vegna ósköp vel, hvernig verkamönnum í landinu almennt hlaut að finnast þetta vera og að þeir mundu ekki vilja una við þetta til frambúðar. Og hvað gerði hann? Hver var hans stjórnmálavizka? Hvert var hans réttlæti? Vont var hans ranglæti, meðan hann gat ráðið kjördæmaskipuninni, en hvernig var réttlætið, þegar hann ætlaði að fara að bæta úr ranglætinu? Jú, réttlætið, það var að bjóða verkalýðsflokkunum upp á einmenningskjördæmi, eintóm einmenningskjördæmi á öllu Íslandi. Það hefur kannske verið misskilningur hjá mér, að hann væri að bjóða verkalýðsflokkunum upp á það. Það var máske ekki meiningin hjá því þingi Framsfl., sem kom saman í vor eða síðla vetrar, í marz var það víst, að bjóða verkalýðsflokkunum upp á neitt. Það var máske ekki meint til þeirra tilboðið um að koma á eintómum einmenningskjördæmum á Íslandi, nema þar sem Framsókn kæmi það kannske illa. Það var máske meint til Sjálfstfl., sem áður fyrr hafði, a.m.k. nokkrir af hans forustumönnum, tekið afstöðu með einmenningskjördæmum á Íslandi. Það var auðséð, hvað hv. 1. þm. S-M. og þing Framsfl. meinti. Það var verið að bjóða Sjálfstfl. upp á helmingaskipti hér á Alþingi um að þurrka út fulltrúa verkalýðsins af Alþingi, jafnt Alþfl. sem Alþb., með því að koma á tómum einmenningskjördæmum á Íslandi. Og það var sett upp sem stefnumál Framsfl. í þeirri ályktun. Það var tilboðið um að framkvæma hér á Alþ. helmingaskipti, sem þessir flokkar hafa framkvæmt í bönkunum og annars staðar þar, sem þeir hafa ráðið, um lánveitingar og annað slíkt síðustu áratugina á Íslandi.

Þetta var tilboðið, sem kom. Það var raunverulega tilboð til íhaldsins, eftir að Framsfl. var búinn að sitja með verkalýðsflokkunum í stjórn í 21/2 ár og búinn að svíkja það ákvæði stjórnarsáttmálans að leysa stjórnarskrármálið í stjórnartíð þessara flokka. Og það var einmitt hv. 1. þm. S-M., sem sleit því stjórnarsamstarfi og gat aldrei gert það nógu fljótt, gat varla beðið frá 30. nóv. til 4. des. með það.

Það er þetta, sem er bezt að menn geri sér ljóst, þegar farið er að tala hjartnæmt hér um alls konar sanngirni, sem menn nú eigi að taka tillit til. Það var ekki verið að sýna neina slíka sanngirni í vinstri stjórninni um þetta mál og það var því síður verið að sýna sanngirni, þegar hv. 1. þm. S-M. var búinn að sprengja þá stjórn. Þá var hjörinn á lofti. Þá var tilkynningin frá forkólfum Framsóknar um, að nú skyldi komið á tómum einmenningskjördæmum á Íslandi og vonin hjá hv. 1. þm. S-M., að nú slægi þó íhaldið til. Það væri þó alveg ómögulegt, að það væri ekki hægt að fá íhaldið til að fallast á svona íhaldsfyrirkomulag. Það var varla hægt að bjóða því neitt afturhaldssamara. Hv. 1. þm. S-M. virðist ekki hafa reiknað með, að það gætu jafnvel komið fyrir þeir hlutir, að Framsóknarflokkurinn gæti verið í vissu máli afturhaldssamari, en íhaldið sjálft.

Svo kemur hv. 1. þm. S-M. hér nú og segir við okkur með mikilli einlægni og fjálgi, sem Framsókn er tamt úr kosningabaráttunni síðustu. Það er skylt að leita að samkomulagsleið núna. Núna er skylt að leita að samkomulagsleið. — Hv. 1. þm. S-M. hafði þá skyldu, undirskrifaða skyldu, í 21/2 ár að leita að samkomulagsleið, var búinn að undirgangast það, var ráðh. sjálfur í stjórn, sem átti að vinna við og framkvæma það — og hvernig taldi hann sér skylt að leita að samkomulagsleið? Hvar var þá fjálgleikinn, hvar var þá umhyggjan um byggðirnar, byggðastefnuna? Hvar var þá öll sú tilfinningasemi, sem reynt er að beita nú? Hún var ekki til, vegna þess að þá var Framsfl. enn þá við völd og þá fannst honum hann ekki þurfa að rækja þau loforð, sem hann hafði skriflega skuldbundið sig til þess að standa við. Þá hélt hann, að hann mundi geta fengið íhaldið inn á að breyta landinu þannig, að það yrðu tóm einmenningskjördæmi, og báðir þessir tveir helmingaskiptaflokkar væru lausir við verkalýðsflokkana á Alþingi.

Svo spyr hv. 1. þm. S-M., hvort menn hafi ekki samvizkubit. Ég gæti bara næstum því trúað, að hann væri farinn að hafa samvizkubit, — hann mætti sannarlega hafa það, — samvizkubit gagnvart kjósendum Framsóknar, gagnvart byggðastefnunni sinni. Hafi nokkur aðili framkallað þá kjördæmabyltingu, sem Framsfl. þykir svo gaman að tala um núna, þá er það Framsfl. Hverjir eru það venjulega, sem framkvæma byltingar, framkalla þær, svo að ég noti nú orðalag Framsóknar? Byltingar skapast venjulega, þegar steinblindar forréttindastéttir eða forréttindaflokkar eru svo blindir fyrir nauðsyn þróunarinnar eða réttindum almennings í þjóðfélaginu, að þeir standa á sínum forréttindum fram í rauðan dauðann, þannig að þeir knýja þá aðra, sem eru að reyna að skapa sér réttlæti í þjóðfélaginu, til þess að taka höndum saman, jafnvel kannske oft við öfl, sem þeim eru stéttarlega að ýmsu leyti andstæð og leysa slík vandamál.

Það er steinblinda og afturhaldssemi Framsfl., sem hefur knúið fram það, sem Framsfl. núna kallar kjördæmabyltingu. Það er sá skortur á forustuhæfileikum og skilningi hjá forustu Framsóknar að kunna ekki að semja á réttum tíma við þá aðila, sem þeir hefðu e.t.v. getað fengið betri samninga við, en þeir urðu að sætta sig við eftir á. Það er alveg nákvæmlega sama og þegar einn aðall — í Frakklandi eða annars staðar — skilur ekki þær hreyfingar, sem ganga fyrir sig í þjóðfélaginu, skapar sér ýmsar grýlur um það og annað slíkt og lifir það svo bara einn góðan veðurdag, að það skellur yfir hann lýðræðisbylting, — eða þegar gamlar forréttindaþjóðir eins og stórveldin sum í Evrópu halda nýlendum sínum svo lengi niðri með kúgun, að þær átta sig ekki á að gefa þeim ofur lítið lausan tauminn til þess að geta máske samið lengur við þær og jafnvel arðrænt þær. Og ég hélt þó meira að segja, að Framsfl. hefði nú fundið það í afstöðunni, sem hann hefur reynt að hafa til Alþfl., að það mundi stundum vera heppilegra að slaka ofur lítið til, þegar hann hefur verið að reyna að brjóta einhverja aðra undir sig.

En Framsfl. hefur ekkert lært. Ég veit að vísu, að margir menn í honum hafa lært, en forustumenn hans, þeir sem ábyrgðina bera á þessu, hv. 1. þm. S-M. og hv. þm. Str., virðast ekkert hafa lært.

Það er nauðsynlegt, að þetta sé sagt, vegna þess að það er rétt, að það komi fram í þeim umr., sem hér verða, að það, sem nú hefur verið samið um á milli þessara þriggja flokka, sem að þessu standa, mál, sem alltaf hefur verið eðlilegt og sjálfsagt mál frá hálfu verkalýðsins og verkalýðshreyfingarinnar í landinu, það, að það skuli vera framkvæmt eins og það er, er m.a. vegna þess, hve blindur Framsfl. hefur verið í sinni afstöðu, að hann hefur staðið lengur á sínum forréttindum heldur en nokkurt vit var í fyrir hann, að hans forustumenn hafa ekki kunnað að semja í tæka tíð og hafa þess vegna spilað út úr höndunum á sér því, sem þeir máske annars að einhverju leyti hefðu getað haldið, því að það vil ég segja, eins og ég hef sagt áður um þessa kjördæmabreytingu, sem nú var framkvæmd, kjördæmabreytingu, sem ég strax 1942 var fylgjandi, að hún er róttækari og betri, en ég hefði nokkru sinni getað vænzt að geta fengið í samkomulagi við Framsfl.

En þetta kjördæmamál og afstaðan í því er ekki aðeins þáttur í almennri baráttu í þjóðfélaginu á milli lýðræðis og mannréttinda annars vegar og afturhalds og forréttinda hins vegar. Þetta er líka mál, sem snertir nokkuð afstöðuna innan þeirra flokka, sem oft eru kallaðir vinstri flokkar. Það hefur verið svo, frá því að fyrst hófst samstarf á milli Framsfl. og verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, samstarf, sem þá venjulega beindist mjög eindregið gegn Sjálfstfl., að Framsfl. hefur allan þennan tíma, — það eru nú meira en 30 ár síðan það gerðist í fyrsta sinn, — gert kröfu til þess, að það væri hann, Framsfl., sem réði í þessu samstarfi, það væri hann, sem fengi að marka stefnuna. Og í krafti hvers hefur Framsfl., bæði þegar hann tvisvar sinnum hefur átt samstarf við Alþfl. í slíkri ríkisstj. og einu sinni við Alþfl. og Alþb., — í krafti hvers hefur Framsfl. gert þessar kröfur til þess að fá raunverulega að drottna yfir þeim verkalýðsflokk eða þeim verkalýðsflokkum, sem hann hefur samið við? Framsfl. hefur gert þessa kröfu og framkvæmt þennan hlut í krafti þess, að hann hefur með ranglátri kjördæmaskipun alltaf átt miklu fleiri fulltrúa á Alþingi, en hans atkvæðamagn hjá þjóðinni sagði til um, þannig að í krafti þessarar rangfengnu þingmannatölu hefur Framsfl., þess vegna alltaf reynt að hindra framgang ýmissa þeirra mála í slíku stjórnarsamstarfi, sem verkalýðsflokkurinn eða verkalýðsflokkarnir, sem hann á hverju skeiði hefur unnið með, hafa haft sérstakan áhuga fyrir. Framsfl. og Alþfl. voru t.d. jafnsterkir nokkurn veginn hvað atkvæðatölur snerti 1934, en allir vita, hvers konar vald Framsfl. krafðist að hafa í þvístjórnarsamstarfi öll þessi ár.

M.ö.o.: auk þess almenna ranglætis fyrst og fremst gagnvart verkalýð landsins, sem í kjördæmaskipulaginu hefur falizt, þá hefur það sérstaka ranglæti komið fram, að þegar verkalýðsflokkur eða verkalýðsflokkar hafa verið í stjórnarsamstarfi við Framsókn, þá hefur Framsfl. í krafti síns rangfengna þingmannafjölda gert þeirri stjórn miklu erfiðara fyrir, gert hana íhaldssamari sökum sinnar eigin íhaldssemi, heldur en hún ella hefði orðið og spillt framgangi fjölda góðra mála, sem ella hefðu orðið til þess að ýta undir gengi vinstri hreyfingarinnar og sérstaklega verkalýðshreyfingarinnar í landinu.

Krafa Framsfl. um að viðhalda ranglátri kjördæmaskipun og tilraunir hans í þá átt, hafa þess vegna um leið verið yfirdrottnunarkrafa hans gagnvart verkalýðsflokkum eða verkalýðsflokki, sem hann hefur verið að starfa með í ríkisstj. Það hefur þess vegna ekki aðeins verið eðlilegt fyrir verkalýðinn og verkalýðsflokkana út frá almennum mannréttindum að reyna að skapa slíkt kjördæmaskipulag á Íslandi, að verkalýðurinn hefði þar jafnan rétt á við aðra, það hefur líka verið nauðsynlegt, ef einhvern tíma í framtíðinni væri hægt að skapa vinstri stjórn, sem hv. 1. þm. S-M. tækist ekki að sprengja, að verkalýðurinn gæti í slíkri stjórn ráðið meiru og betur, en hann fékk að ráða í vinstri stjórninni, sem hv. 1. þm. S-M. sprengdi um mánaðamótin nóvember–desember. Þess vegna hefur þessi breyting á stjórnarskránni, sem hér liggur fyrir, líka þessa sérstöku þýðingu fyrir verkalýðshreyfingu landsins, ef verkalýðshreyfing landsins kann að hagnýta sér hana til fulls. Það er aftur annað mál.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að rekja hérna, vegna þess, hve mikið hv. 1. þm. S-M. talaði um, hvernig kosningabaráttan seinasta hefði verið háð, hvernig hún var háð af hálfu Framsfl. Það mun sjaldan af hálfu Framsóknar hafa verið skírskotað svo heitt og innilega til átthaganna og átthagaástarinnar á Íslandi eins og gert var í þessari kosningabaráttu. Ég held, að það hefði nú verið viðkunnanlegra fyrir Framsfl. að beita þeirri skírskotun t.d. í kosningunum 1949 eða kosningunum 1953, þegar Framsfl. var að koma Íslandi inn í Atlantshafsbandalagið ásamt þeim flokkum, sem hjálpuðu honum til þess og koma hernáminu á, á Íslandi, — og þegar hv. 1. þm. S-M. hafði helmingaskipti við íhaldið um að veita þeim mönnum, sem elskuðu sínar byggðir úti um allt land, ávísanir á vinnu á Keflavíkurflugvelli og deilt var um helmingaskiptin til að fá réttinn og valdið til þess að koma mönnum úr sínum átthögum og suður á Miðnesheiði. Það hefði verið betur, að Framsfl. hefði munað eftir átthagaástinni, þegar hann var ásamt Sjálfstfl. að reka þá pólítík, sem rak fólkið úr byggðarlögunum í þrem landsfjórðungum og hingað suður eftir og sérstaklega suður á Keflavíkurvöllinn og þar í kring.

Og hann mætti muna það enn, að þá bezt mundi hann sýna átthagaást og einhverja viðleitni til þess að varðveita byggðir landsins í eitthvað svipuðu ástandi og þær hafa verið, sem slíkan grundvöll fyrir okkar þjóðlegu menningu, sem þær hafa verið, svo framarlega sem hann hefði tekið í vinstri stjórninni afstöðu með því að láta herinn fara burt úr landinu, í staðinn fyrir að hindra, að sá þáttur stjórnarsáttmálans væri framkvæmdur. Hann hefði átt að sýna átthagaástina þar. Þar var það betur viðeigandi heldur, en reyna að berjast á móti því, að verkamenn á Íslandi fengju jafnan kosningarrétt á við aðra. Framsfl. er máske líka full þörf á að muna eftir átthagaást á Íslandi, þegar hann gengur næst til kosninga og segja til um það afdráttarlaust, hvort hann ætlar að standa með því eða ekki að gefa erlendum auðhringum sérréttindi á Íslandi til virkjunar og starfa í stórum verksmiðjum, sem þeir reistu hér til að hagnýta orku íslenzkra fossa. Framsfl. hefur tekið afstöðu með slíku undanfarið. Og það veit hver maður, hvað það mundi þýða fyrir átthagana, sem Framsfl. sagðist í síðustu kosningum vera að vernda. Hann mætti segja til um það, hvort hann ætlar ofan á allt hernámshneykslið að bæta því við að fá ameríska auðhringa til stóriðju hérna á Íslandi. Það er bezt fyrir þá menn, sem að slíku standa og slíkt hafa í huga, að tala sem minnst um að vernda átthagana.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara lengra út í hvernig þessi kosningabarátta var háð, en svo mikið er víst, að sjaldan hefur verkafólk á Íslandi, sem á þó oft ýmissi ágengni að venjast frá hálfu þeirra manna, sem stjórna eða eiga verksmiðjur eða annað slíkt, sjaldan hefur það lifað annað eins í þeim efnum og það, sem verkafólkið á Akureyri varð að reyna í sambandi við misnotkunina á fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar þar, sem ekki er hægt að fara betur út í, nema þess sé óskað.

Ég held þess vegna, að hv. 1. þm. S-M. ætti að gera sem minnst að því, a.m.k. hér á Alþingi, að rifja upp ummæli sín eða annarra framsóknarmanna úr síðustu kosningum um átthagaást og byggðastefnu. Það er máske hægt fyrir hann að gera það á einkafundum, þar sem erfiðara er að ræða um þetta. En fari hann að reyna það hér, þá er ég hræddur um, að hann standi eitthvað verr að vígi.

Og þó finnst mér nú kasta tólfunum, þegar Framsfl. fer að tala um það sem andstæður í þessum kosningum, byggðastefnuna annars vegar og flokkastefnuna hins vegar. Er þó ekki búið að vera hér síðan 1934, að það voru sett inn í stjórnarskrána þessi sérstöku ákvæði viðvíkjandi flokkum og þeirra réttindum, það viðurkennda fyrirkomulag, að það séu stjórnmálaflokkar starfandi á Íslandi og er orðið það rótgróið hjá þjóðinni, að það kemur varla fyrir lengur, meira að segja meðan öll einmenningskjördæmin hafa verið til, að einstaklingar bjóði sig þar fram utan flokka? Hvað á það að þýða að fara núna að stilla upp sem andstæðum byggðastefnunni og flokkastefnunni? Flokkunum hafa verið tryggð sérstök réttindi, og það er þá aðeins eitt, sem getur verið átt við með að stilla þessu á móti og það er, að það megi ekki tryggja flokkunum jöfn réttindi, svo framarlega sem einhver einn þeirra hafi einhver sérréttindi í sambandi við byggðir landsins, eins og það er kallað.

Svo minntist hv. 1. þm. S-M. á, að það væri nú aldeilis ljótt, sem menn hefðu reynt hérna á Alþingi núna, aldrei nokkurn tíma hefðu menn vitað annað eins. Þið hafið bara kosið hver með öðrum hérna, þessir flokkar, sem standa saman að kjördæmabyltingunni. — Þegar búið er að skíra alla flokka þingsins aðra en sjálfa sig slíka byltingarflokka, eins og Framsókn hefur gert, er þá nokkuð annað eðlilegra en að þessir byltingarflokkar reyni að sjá svo um, að þetta mál gangi skikkanlega í gegnum þetta þing, — fyrst þeir hafa á annað borð tekið höndum saman um annað eins mannréttindamál eins og hérna er, er það þá nokkuð óeðlilegur hlutur? Ætli það sé nú ekki nokkuð svipað t.d. með okkur hv. 1. þm. S-M. og mig? Við höfum ekki verið svo voðalega elskulegir hvor við annan í umtali eða öðru, en engu að síður hef ég getað stutt hann með mikilli ánægju sem fjármálaráðherra í 21/2 ár og hann kosið mig í þetta voðalega sæti, sem hann var að tala um að sjálfstæðismenn hefðu verið með í að kjósa mig í. Og þetta er ekki neitt nýtt í íslenzkri pólitík. Við höfum haft samstarf við Sjálfstfl. áður, meira að segja stjórnarsamstarf við hann og við höfum haft samstarf við Framsfl., sem líka hefur verið mjög mikill hernámsflokkur og ég efast ekki um, að við séum reiðubúnir til að hafa samstarf hvort heldur er við Sjálfstfl. eða Framsfl. og náttúrlega alltaf við Alþfl. um hvaða mál sem er, sem við álítum að séu eðlileg og góð fyrir fólkið í landinu. Við höfum aldrei nokkurn tíma látið það standa í vegi fyrir því að koma góðu máli fram, að það væri nú eitthvað kannske misjafnt að okkar áliti um þann flokk eða þá menn, sem við vildum vinna með.

Ég veit eiginlega ekki, hvað þetta er. Er hv. 1. þm. S-M. að reyna að framkalla með öllu þessu umtali, að Sjálfstfl. fari að vitna í allar mögulegar yfirlýsingar frá því í kosningunum 1956? Það voru gefnar allar mögulegar yfirlýsingar þá. Og það er nú einu sinni með svona yfirlýsingar, að það fer um þær eftir því, hvað menn álíta hentugast til að framkvæma góð mál í slíkum efnum. Við höfum aldrei tekið þá afstöðu, að við vildum ekki vinna með hvaða manni á Íslandi sem væri, að því að framkvæma góð mál. Það eru aðrir flokkar, sem hafa stundum verið að láta sér slíkt um munn fara. Slíkt er ósköp barnalegt og það er ákaflega mikil framför í íslenzkum þjóðmálum, að menn geti hér yfirleitt allir tekið höndum saman um að vinna að hvaða góðu máli sem er. Og það situr sízt á hv. 1. þm. S-M., nýkomnum út úr 21/2 árs samvinnu við okkur, að fara að býsnast neitt yfir því, þó að aðrir hafi samvinnu við okkur um svo lítið mál sem forseta- og nefndakosningar á Alþingi.

Ég held nefnilega, að hv. 1. þm. S-M. geri sér alls ekki ljóst, þegar hann er að tala meðal annars t.d. um íhaldið, það voðalega íhald, ég held hann geri sér ekki ljóst, hvað það er, sem er forkastanlegt í íslenzkri pólitík. Það, sem er forkastanlegt í íslenzkri pólitík, er íhalds- og afturhaldsstefna. Það er þröngsýnin, það er misréttið, það er arðránið, það er yfirdrottnun þeirra auðugu og voldugu yfir þeim vinnandi fjölda, hverjir svo sem það eru, sem beita þeim yfirráðum, hverjir svo sem það eru, sem sýna þá þröngsýni, hverjir svo sem það eru, sem sýna misrétti við að framkvæma það arðrán. Það er íhalds- og afturhaldsstefnan, sem er forkastanleg í íslenzkri pólitík og hún er jafnforkastanleg þegar Framsfl. gerir sig sekan um íhalds- og afturhaldsstefnu eins og þegar Sjálfstfl. eða einhver annar flokkur gerir sig sekan um hana. Það er þetta, sem hv. 1. þm. S-M. skilur ekki og hefur aldrei skilið. Hann er svo þröngsýnn fulltrúi afturhaldsins í Framsfl., að hann hugsar alltaf sem svo: Ja, það er aðeins eitt, sem er ljótt og vont á Íslandi, það er annars vegar íhaldið og það eru hins vegar kommúnistarnir. Og svo verð ég að haga mér, hugsar hann, eftir því sem bezt brennur og möguleikarnir eru mestir til að koma minni stefnu fram. Það, sem hann aldrei sér og ekki hefur skilið enn, er, að með sinni afturhaldssemi, með sinni íhalds- og afturhaldsstefnu er hann að eyðileggja hverja vinstri stjórnina á Íslandi á fætur annarri. Hann álítur það vera að þjóna íhaldi, svo framarlega sem einn maður ekki beygir sig fyrir íhaldi og afturhaldi Framsfl.

Man þessi hv. 1. þm. S-M., hvernig Framsfl. undir hans forustu hefur eyðilagt hverja vinstri stjórnina og jafnvel hverja einustu stjórn t.d., sem Alþfl. hefur tekið þátt í með Framsókn, á fætur annarri? Á hverju er það, sem Framsfl. sprengir þá vinstri stjórn, sem mynduð var 1934? Hann sprengir hana 1938 með því, að Alþfl. fallist á gerðardóm í vinnudeilum og með því að samþykkja þann gerðardóm í vinnudeilum hér í þessum sal með Sjálfstfl., með stjórnarandstöðunni og rekur þannig Alþfl. út úr ríkisstj. Afturhaldssemi þessara forustumanna Framsóknar sprengdi þá vinstri stjórn og meira að segja svo þegar Framsfl. myndar stjórn með Sjálfstfl. og Alþfl., þá afturhaldssömu þjóðstjórn, þá sprengir Framsfl. hana með Sjálfstfl. í janúar 1942 á gerðardómslögunum og hrekur Alþfl. út úr þeirri afturhaldssömu stjórn, af því að afturhaldssemi þeirrar stjórnar tók svo út yfir allan þjófabálk, að Alþfl. undi þar ekki lengur. Og máske hv. 1. þm. S-M. muni líka meira að segja, þegar ný slík þjóðstjórn var mynduð, frekar afturhaldssöm, 1947 í febrúar, hvernig hún raunverulega liðaðist í sundur, á hverju? Á því, að Framsfl. og Sjálfstfl. tóku höndum saman um gengislækkun, sem Alþfl. vildi ekki sætta sig við. Og það er eins og hann hafi ekki getað lært af neinu af þessu, þó að hann hafi þannig alltaf sparkað þeim verkalýðsflokk, sem hann allan þennan tíma vann öðru hvoru með, út úr ríkisstjórnum, sem hann var í, með tómri afturhaldssemi. Hann sprengir líka vinstri stjórnina, sem mynduð var í fyrsta skipti með báðum verkalýðsflokkunum á Íslandi á því að heimta 81/2% launalækkun af verkalýðnum. Það var afturhald. Það var árásin á lífskjörin. Það var afturhaldsstefnan, sem Framsfl. sprengdi þá stjórn á.

Hv. 1. þm. S-M. virðist halda, að vinstra samstarf sé það að hafa samstarf við Framsfl. Hann hafi einhverja einokun á því, að það geti ekki verið vinstra samstarf, nema hann sé þar með. Ég vil nú minna hv. 1. þm. S-M. á, að það hefur verið að völdum stjórn á Íslandi, þar sem verkalýðsflokkarnir og Sjálfstfl. hafa staðið saman, að vísu aldrei kölluð vinstri stjórn, en framkvæmt samt mál eins og alþýðutryggingalög, góð og gegn mál, þannig að Framsfl., þó að hann væri í stjórnarandstöðu og reyni þá oft að vera róttækur, ef hann er í slíkri andstöðu, sat hjá og gat ekki einu sinni hugsað sér að vera með í þeirri róttæku löggjöf nema einn maður úr honum.

Það er ekki nóg, að það sé stjórn með Framsfl., til þess að það heiti vinstra samstarf. Það, sem þarf að einkenna slíka stjórn, er vinstri pólitík, vinstri stefna, stefna alþýðustéttunum í hag. Það er stefna, sem miðar að því að bæta þeirra kjör, m.a. að reyna að hækka þeirra kaup, en ekki lækka það. Og það er í slíku vinstra samstarfi, sem hv. 1. þm. S-M. hefur haft möguleika á að sýna þau heilindi, sem hann var að tala hérna um áðan og þau komu í ljós í því að heimta afturhaldsstefnu af verkalýðnum í slíku samstarfi og sprengja það ella og svíkja um leið þau loforð, sem gefin voru, eins og um lausn kjördæmamálsins. Það er íhalds- og afturhaldsstefnan, sem alþýða Íslands mun berjast á móti, hver sem framkvæmir hana.

Þegar Framsfl. sagði: Ég heimta 8% launalækkun, ef stjórnin á að sitja áfram, þá sögðum við í Alþýðubandalaginu nei og Framsfl. sprengdi þá stjórnina. Þegar íhaldið bauð okkur upp á að mynda ríkisstjórn í desember um 6% launalækkun og hins vegar annað mál, sem var ágætt mál, kjördæmamálið, þá sögðum við nei og mynduðum ekki stjórn, þó að okkur væri mjög kært að geta komið kjördæmamálinu fram. Og þegar Alþfl. síðan myndaði stjórn um þessa launalækkun, þá fékk hann það mál í gegnum þingið, ekki bara með aðstoð Sjálfstfl., heldur líka með aðstoð Framsóknar.

Það er afstaðan til málanna, sem eðlilega markar afstöðu verkalýðshreyfingarinnar og Alþb. í öllum þessum málum. Það var alveg rétt, við sögðum það í kosningunum, að það ætti ekki aðeins að berjast um kjördæmamálið. Kjördæmamálið var það sjálfsagt mál fyrir okkar umbjóðendur yfirleitt, að við þurftum ekki sérstaklega mikið við þá að ræða um það. Það voru einstaka okkar menn, sem voru þá á annarri skoðun, eins og kunnugt er, sérstaklega okkar menn í sumum sveitum landsins. Ég átti tal við ýmsa af slíkum mönnum. Ég taldi það fullkomlega eðlilegt, að þeir fylgdu sinni sannfæringu fram í þeim málum þá, þeir stæðu jafnt í baráttunni eftir á fyrir þeirri stefnu, sem við berjumst fyrir. Hitt var alveg vitað mál, að fyrir verkalýðinn í bæjum landsins var þetta ekkert umhorfsmál, hvort ætti að auka hans mannréttindi eða ekki og hvort hann ætti að standa með því eða ekki. Það var alveg rétt, við sögðum það við fólkið í landinu, að það ætti að berjast um mál eins og launalækkunarmálið. Það hefði verið eðlilegt, að það hefði verið svarað af hálfu verkalýðsins í því og það er mjög slæmt, að það skuli ekki hafa verið gert. En af hverju var það ekki? Meðal annars vegna þess, að einmitt Framsfl. með þá óskaplega miklu áróðursaðstöðu, sem hann hefur, tókst að gera þetta mál að það mikilli þjóðaratkvæðagreiðslu um kjördæmabreytinguna, að hann gat á þeirri andúð, — skulum við segja, — sem var víða í sveitunum á henni, unnið þó nokkurt fylgi, fylgi, sem hann vann á því að standa á móti kjördæmabreytingunni, en strax daginn eftir kosningarnar segir að sé bara fylgi Framsfl. — Þá var byggðaástin, átthagaástin, þá var hún orðin ást á Framsókn undireins. Það var auðséð, hvaða átthagar það voru, sem verið var að berjast fyrir í þeim kosningum.

Einmitt vegna þess, að það, sem er forkastanlegt í íslenzkri pólitík, er íhalds- og afturhaldsstefnan, þá verður Framsfl. að gera sér það ljóst, að í þessu máli, stjórnarskrármálinu, er hann fulltrúi íhalds- og afturhaldsstefnunnar í íslenzku þjóðfélagi. Og þess vegna er það eðlilegt, að einmitt sérstaklega verkalýðsflokkarnir lendi í skarpri andstöðu við hann út af því máli,

og það er sannarlega ekki í fyrsta skipti. Ég tel það í raun og veru undarlegt, að hv. 1. þm. S-M. skuli ekki gera sér það ljóst, eftir að það er nú búið í 25–30 ár, alltaf öðru hvoru, að vera eitt höfuðmál íslenzkra stjórnmála, þetta kjördæmamál, að afstaða verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli er alltaf og hefur verið alveg ótvíræð. Að undantekinni þeirri stjórnarskrárbreytingu, þegar lýðveldið var samþ., hefur þessi kjördæmabreyting í sömu átt og nú hefur verið farið verið rauði þráðurinn í öllum stjórnarskrárbreytingum á Íslandi í þrjátíu ár. 1931, þegar Framsfl. þá, var búinu að sitja í ríkisstj. með stuðningi Alþfl. um nokkurt skeið og ýmsir menn vonuðust eftir, að það mundi geta tekizt nokkur samvinna máske áfram með þeim flokkum, þá springur þessi samvinna einmitt á sjálfu kjördæmamálinu, á mannréttindamálunum, sem verkalýðshreyfingin hlaut að gera að undirstöðunni í allri sinni baráttu og þeir, sem muna þá daga hér, þeir muna eftir því, þegar Héðinn Valdimarsson og Ólafur Thors tóku svo að segja saman höndum hér á svölum Alþingis þá.

Alþýðan og fulltrúar borgarastéttarinnar hafa alltaf getað unnið saman að þessu máli. Þetta er ekki neitt nýtt. Og þetta hefði Framsfl. sannarlega átt að vita. Ég skrifaði einu sinni alllanga grein um valdakerfi Jónasar frá Hriflu á Íslandi 1939 og var að rekja það valdakerfi, sem sá forustumaður Framsóknar hafði haft forgönguna um að byggja þá upp og var allsterkt, og hornsteinninn undir því valdakerfi væri hin rangláta kjördæmaskipun. Og ég kallaði það Akkillesarhæl þess valdakerfis, að forustumenn Framsóknar gerðu sér það ekki ljóst, að þeir höfðu byggt allt sitt valdakerfl á því, að það gæti aldrei komið fyrir, að borgarástéttin og verkalýðurinn, höfuðandstæðustéttirnar í þjóðfélaginu, gætu tekið höndum saman um neitt. Jónas frá Hriflu, formaður Framsóknar öll þau ár, hafði undirstrikað þetta sérstaklega í þeirri grein, þar sem hann gerir einna bezta grein fyrir stefnu Framsfl., þegar hann var myndaður, — grein, sem heitir: Nýr landsmálagrundvöllur — og kom í Rétti 1918, að styrkleiki milliflokksins eða Framsfl. sé einmitt fólginn í því, að þessar tvær andstæður geta aldrei náð höndum saman.

Kjördæmaskipunin og ranglætið í henni var þá Akkillesarhæll þessa valdakerfis, sem hver framsýnn forustumaður Framsóknar frá upphafi átti að sjá að þurfti að reyna að skýla, þannig að þar væri engri ör í skotið. Ef Framsfl. hefði haft stjórnvizku, þá hefði það verið hans stjórnvizka frá upphafi að reyna að semja við verkalýðshreyfingunna um breytingar á kjördæmaskipulaginu. 1931 spilaði hann hátt, beitti aðferðum, sem mjög orka tvímælis, svo að vægt sé að orði komizt og tapaði. Þó að hann ynni í þeim kosningum, sem þá fóru fram, þá var það Pyrrusarsigur. Hann gat ekki staðið á móti þeirri þróun, sem var að verða í íslenzka þjóðfélaginu. Og menn hefðu e.t.v. átt að geta búizt við því, að forustumenn Framsóknar hefðu lært eitthvað af þessu, en þeir gerðu það ekki.

1942 endurtekur sama sagan sig. Þegar Framsfl. er búinn að reka Alþfl. út úr þjóðstjórninni með gerðardómslögunum og situr einn eftir með íhaldinu, þá er eins og Framsfl. detti það ekki í hug, hve nærri það lá að taka kjördæmamálið upp. Framsfl. gerði sína aðra höfuðvitleysu, að í staðinn fyrir að reyna þá að leysa þessi mál með verkalýðshreyfingunni, þá framkallar hann samstarf verkalýðsstéttarinnar og borgarastéttarinnar í landinu um lausnina á þessu máli.

Þegar við hv. 1. landsk. þm. (HV) áttum fyrsta samtalsfundinn við forustumenn Framsóknar og Alþfl. eftir kosningarnar 1956, þá sögðum við við þá rétt þessum orðum í sambandi við kjördæmamálið, sem þá var, eins og allir muna, ákaflega brýnt út af Hræðslubandalagssvindlinu: Við ætlum að biðja ykkur um það lengst allra orða að knýja nú ekki verkalýðinn í þriðja skiptið á 25 árum til að leysa kjördæmamálið á Íslandi með Sjálfstfl. Við ætlum að vonast til þess af ykkur, að þið sýnið þá stjórnvizku að leysa þetta mál nú, þegar við myndum sameiginlega stjórn með verkalýðsflokkunum.

Og það var lofað iðrun og yfirbót. Það var sett inn í stjórnarsáttmálann, að þetta mál skyldi leyst og það var ekki tekið fram, á kjörtímabilinu, nei, það var tekið fram, í stjórnartíð stjórnarinnar. M.ö.o.: áður en stjórninni væri slitið eða stjórnin væri rofin, þá skyldi þetta mál vera leyst. Því lofaði Framsfl. og til þess skuldbatt hann sig skriflega. Hann hafði verið varaður við því, það hafði verið farið vel að honum, hann hafði verið beðinn um að sýna það frjálslyndi, sýna þá sanngirni, — svo að ég noti orð hv. 1. þm. S-M. áðan, —að leita nú að samkomulagsleið til að leysa þessi mannréttinda– og lýðræðismál fyrir verkalýðshreyfinguna með henni. Það var sem sé búið að vara hann við, hvílíka vitleysu hann hefði gert tvisvar sinnum á sinni ævi áður í þessum efnum, hve mjög hann hefði skort alla stjórnvizku. Það var búið að leggja að honum í fyrsta skipti, sem hann myndaði nú stjórn með báðum verkalýðsflokkunum í landinu, að nú skyldi hann þó læra af sínum fyrri mistökum og skyldi nú ekki láta þetta verða sér á, í þriðja sinn. Og hann hafði tvö og hálft ár til þess að læra þetta, til þess að fara samkomulagsleiðina, til þess að leysa málin með vinstra samstarfi og hann gerði það ekki.

Máltækið segir: Allt er þegar þrennt er. — Þegar Framsfl. þrisvar sinnum á þessum þrjátíu árum er búinn að gera sömu vitleysuna upp aftur og aftur, sleppa tækifærunum, sem hann hefur haft, hefur aldrei getað lært neitt af sínum fyrri mistökum, þá dettur manni helzt í hug það, sem sagt var um konungsætt Bourbona, þegar hún kom til valda á Frakklandi á ný eftir byltinguna og Napóleonstímana, að hún hefði ekkert lært og engu gleymt. Og það virðist vera, að hv. 1. þm. S-M. sverji sig mjög í ætt við þann aðal og þá konungsætt, sem átti svona bágt með að læra af framvindu þjóðfélagsins.

Þess vegna er það svo, að Framsfl. hefur framkallað þá samvinnu, sem nú á sér stað, átti sér stað á síðasta Alþingi um lausn þessa máls, á sér stað nú á Alþingi um þetta, framkallað það, sem Jónas frá Hriflu 1918 varaði einmitt Framsfl. við, að hann mætti aldrei láta koma fyrir sig, að þessar tvær aðalandstæður í þjóðfélaginu sameinuðust um að skapa jafnrétti á kjördæmasviðinu.

Hitt skulum við svo ekkert vera að fara sérstaklega út í hérna, — hv. 1. þm. S-M. talaði mikið um vinstra samstarf og annað slíkt. Jú, verkalýðurinn á Íslandi er alltaf reiðubúinn til alls vinstra samstarfs og vinstri stefnu, og ég held, að það muni sýna sig í reyndinni, að þar sem báðir verkalýðsflokkarnir standa saman um ríkisstj., þar er vinstri stefna framkvæmd, hvaða aðili sem það svo er og hvað hann heitir og hvað hann kallar sig, sem þeir verkalýðsflokkar vinna með, bara af þeirri einföldu ástæðu, að þegar verkalýðurinn stendur sameinaður, þá er hann nægilega sterkur, hvort sem flokkurinn heitir Framsfl. eða Sjálfstfl., til að knýja þann flokk til að gera margt gott og afstýra því, að ýmislegt illt gerist. Það hefur reynslan sýnt. Þegar tveir verkalýðsflokkar stóðu saman í nýsköpunarstjórninni, þá var hægt að knýja fram margt gott og þegar tveir verkalýðsflokkar stóðu saman í vinstri stjórninni, þá var hægt að knýja fram margt gott. Hitt er gefið, að meðan þeir eru ekki sterkari, en þeir hafa verið og vinna ekki betur saman, en þeir hafa gert, þá mun ýmislegt þar á bjáta. En hvað snertir það, að Framsfl. ætli nú að reyna að einoka fyrir sig að vera vinstri flokkur, þá vil ég bara minna hv. 1. þm. S-M. á, að hann hefur ekkert unað sér sérstaklega illa í samstarfinu við Sjálfstfl. og setið þó lengst af í samstarfi við þann flokk undanfarinn áratug og ég veit ekki betur en það, sem dregur venjulega þessa tvo flokka saman sé, að þetta eru hvorir tveggja, Framsókn og Sjálfstfl., fyrst og fremst fésýsluflokkar, flokkar, sem eru að hugsa um það að ráða vissum fyrirtækjum í landinu, skara eld að þeirra köku, drottna yfir bönkum ríkisins og yfir sparifé almennings og geta úthlutað lánunum úr þessum stofnunum til sinna fyrirtækja. Það er fésýslan og fésýsluhagsmunirnir, sem draga þessa tvo flokka saman. Hitt veit ég, að þeir bítast um jötuna, þeir bítast um helmingaskiptin og bítast harðvítuglega, skáka hvor öðrum ekki hvað sízt í hverjum kosningum. En það eru engir reiðubúnari til þess að standa saman, þegar um hagsmuni fésýslufyrirtækjanna, hagsmuni helmingaskiptanna er að ræða í þjóðfélaginu, heldur en einmitt þessir tveir. Olían sýnir það máske bezt. En við skulum ekki fara út í það núna, það var ekki meiningin og mundi leiða of langt frá. Það var bara að gefnu tilefni, að ég minntist á það.

Ég vildi aðeins segja þetta út af því, sem hv. 1. þm. S-M. kom hér inn á um allan aðdraganda þessa máls, baráttuna út af þessu máli og annað slíkt. Eins og ég sagði um þetta mál fyrir kosningarnar, álit ég þar stórt spor stigið til að tryggja öllum íslenzkum mönnum og fyrst og fremst að tryggja verkalýð Íslands, sem í þéttbýlinu býr, jafnrétti á við aðra Íslendinga, að með þessu frv. sé stigið eitt stærsta sporið í lýðræðis- og mannréttindaátt, sem stigið hefur verið á Íslandi á undanförnum áratugum. Og svo framarlega sem verkalýður Íslands ber gæfu til þess að hagnýta sér þá baráttuaðstöðu, sem með þessu máli er sköpuð fyrir hann, þá verða möguleikarnir fyrir hann, til þess að ráða því, hvað gerist í okkar þjóðfélagi, til þess að hafa áhrif á hverjar þær stjórnir sem hann kynni að taka þátt í, í rétta átt, miklu meiri, en verið hafa fram að þessu. Þess vegna er okkar fylgi við þetta mál jafneindregið og það var, þegar við gerðumst meðflutningsmenn að því fyrir kosningarnar og þegar ég fyrir mitt leyti 1942 lýsti því yfir, að slík kjördæmaskipun sem hér er um að ræða væri sú, sem ég áliti að þá hefði helzt átt að koma á.

Ég lýsi þess vegna eindregnu fylgi okkar við samþykkt á þessu frv. óbreyttu.