07.08.1959
Efri deild: 5. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er nú þegar séð, hvað er fyrirhugað með afgreiðslu þessa máls og ég mun ekki þreyta umr. um þetta mál hér í þessari hv. d., a.m.k. ekki verulega, við þessa umr., nema tilefni gefist til. Aðalatriðið í málinu sýnist mér vera það að athuga, hvort framfylgt hefur verið í raun og sannleika ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar í þessu máli.

Það er bersýnilegt og ekki umdeilt, að í 79. gr. stjórnarskrárinnar er gert ráð fyrir og ætlazt beinlínis til, að kjósendur taki, þegar ný stjórnskipunarlög hafa verið samþykkt í nýjum kosningum, afstöðu til þess og til þess eins, hvort fyrirhuguð stjórnskipunarlög, sem hafa verið samþ. á Alþ., eigi að öðlast samþykkt á því nýja þingi, sem fjallar um málið eftir þær kosningar. Það er ætlazt til þess í þessari grein, að þetta sé raunverulega þjóðaratkvgr. um stjórnskipunarlögin og með öðru móti, en að framfylgja þessu, er stjórnskipunarlögum landsins í raun og veru ekki fylgt.

Þegar við athugum, hvernig að þessu hefur verið staðið, kemur í ljós, að þetta hefur ekki verið gert nema að forminu til. M.a. kom það greinilega fram í n., sem fjallaði um þetta mál, þegar við hv. þm. S-Þ. (KK) stungum upp á því að hafa þjóðaratkvgr. um þetta mál. Þá var því svarað, að það kæmi ekki til mála, enda bent á, að kosningarnar, sem færu í hönd, fjölluðu um þetta mál, þær snerust um þetta mál og var gefið í skyn af ýmsum, að raunverulega færi fram þjóðaratkvgr. og það væri óþarfi að hafa þær tvær. Þetta var fyrir kosningarnar. Það kom greinilega fram hjá ýmsum þm., sem höfðu kjósendafylgi, sem bersýnilega og vitanlega var ekki við það miðað, að þeir gerðu þessar breytingar á stjórnskipunarlögunum, kom greinilega fram í þeirra afsökunum fyrir sínum samþykktum á stjórnskipunarlögunum, að kjósendur fengju tækifæri til þess að taka afstöðu til þessa máls við hinar nýju kosningar. Þannig var talað fyrir kosningarnar, meðan verið var að koma stjórnskipunarlögunum í gegnum þingið. En þegar í kosningarnar kom, var annað hljóð í strokknum. Í kosningunum sjálfum kom greinilega fram, að þeir þrír flokkar hér á Alþingi, sem standa að þessari breytingu á stjórnskipun landsins, vildu sem minnst um þessi mál tala. Ég get fullyrt, að í því kjördæmi, þar sem ég var í kjöri, snerust ræður mótframbjóðenda minna, a.m.k. 90% af öllum ræðunum, um allt annað en kjördæmabreytinguna. Þeir höfðu allir tilbúnar framboðsræður, skrifaðar framboðsræður, sem voru um allt annað, en kjördæmabreytinguna. Og það var með naumindum, að það var hægt að þvinga þá inn á það að ræða þau mál á þeim framboðsfundum. Ég var á allmörgum öðrum fundum og þar var það sama upp á teningnum, það átti að kjósa um málefnin almennt, en ekki stjórnskipun landsins. Og það er enginn efi á því, að með því flokksvaldi, sem er í þessu landi, með þeim blaðakosti, sem þessir þrír flokkar hafa sameiginlega, og með þeim áróðurstækjum, sem þeir hafa sameiginlega, tókst að blekkja kjósendur í þúsundatali. Ég ætla ekki að rekja það nánar, en á fundum, sem ég sat á Vestfjörðum, var nákvæmlega sama upp á teningnum. Þeir, sem svöruðu af hálfu andstæðinganna, vildu undir engum kringumstæðum tala um kjördæmabreytinguna, heldur fóru út í allt aðra sálma.

Þannig var talað í kosningunum, og þannig var herópið t.d. hér í Reykjavík hjá Sjálfstfl.: „Aldrei framar vinstri stjórn.“ Og haldinn um það stór útifundur. Það sýnir greinilega, hvernig kosningalínan lá. Það var ekki um kjördæmabreytinguna, heldur var það fyrrv. stjórn og hennar verk, sem var fyrst og fremst lögð áherzla á, á þeim fundi og í blaði Sjálfstfl. og í blöðum þeirra flokka, sem að kjördæmabreytingunni stóðu, þó að það væri misjafnlega mikið. Þess vegna er það, að það hefur aldrei farið fram sú þjóðaratkvgr., sú óbeina þjóðaratkvgr. um breytingar á stjórnskipun landsins, sem nýafstaðnar kosningar áttu raunverulega að vera. Þetta er alveg ljóst. Það eru notaðir í þessu máli hrekkir og reynt að blekkja kjósendur til fylgis við þessa þrjá flokka og leiða athygli þeirra frá því, að kosningarnar snerust raunverulega um breytingarnar á kjördæmaskipuninni, eins og sést náttúrlega á því, að nú fara fram almennar kosningar, ef þessi stjórnarskrárbreyting verður samþykkt og þá kemur til þeirra kosninga, sem eru almennar og þá kemur til þeirra átaka, sem að ýmsu leyti voru notuð í síðustu kosningum til þess að leiða athyglina frá kjördæmabreytingunni.

Það er því alveg óhætt að slá því föstu, að það var talað með allt öðrum hætti fyrir kosningarnar en í kosningunum sjálfum. Og eftir kosningarnar kemur svo þriðja myndin. Þá er því slegið upp með stórum fyrirsögnum á forsíðu allra þessara blaða, að 3/4 af kjósendum landsins hafi raunverulega með kosningunum samþykkt stjórnarskrárbreytinguna. Þá allt í einu hafa kosningarnar snúizt um stjórnarskrárbreytinguna. Þá allt í einu snúast þær um stjórnarskrárbreytinguna, sem naumast mátti minnast á, í kosningunum sjálfum. Þessi aðferð fyrir kosningarnar, í kosningunum og eftir kosningarnar er pólitískur hrekkur, og þess vegna hefur aldrei farið fram sú þjóðaratkvgr. um stjórnarskrána, sem ætlazt er til að fari fram í þeim kosningum, sem nú eru nýafstaðnar og 79. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir.

Þess vegna er það, að við framsóknarmenn höfum stungið upp á því, að látin verði fara fram þjóðaratkvgr. um málið og ef þeir þrír flokkar, sem standa að þessu máli, hafa góða samvizku, þá ætti þeim að vera í lófa lagið að fallast á það. Það er bersýnilegt, að kosningar fara ekki fram, fyrr en seint í október og það þarf ekki að tefja kosningarnar. Það tekur lítinn tíma að láta þjóðaratkvgr. fara fram. En þeir um það, það sýnir ekkert annað en það, að þeir ætla sér, ef þeir fallast ekki á að hafa þjóðaratkvgr. um málið, þá ætla þessir menn sér að láta sitja við þann leik, sem leikinn var, að vinna þetta mál raunverulega með hrekkjum.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég ætlaði ekki að vera orðmargur um þetta mál, a.m.k. ekki á þessu stigi og án tilefnis. Ég hef fylgzt með því, að í hv. Nd. hefur verið rætt um málið á breiðum grundvelli og það að sjálfsögðu ekki að ástæðulausu. Það liggja að þessu máli pólitískir þræðir, sem fróðlegt er að rekja í sundur og verða sjálfsagt raktir í sundur nánar, en gert hefur verið í umr. í hv. Nd. Og það er bersýnilegt, að í þessu máli er nú verið að spinna þræði til að vefa úr pólitískar tjaldbúðir fyrir framtíðina. Ég álít, að ég geti sleppt því að ræða um það á þessu stigi og ræði e.t.v. ekkert um það í þessum umr. Það er mál, sem kemur til umr. í þeim kosningum, sem fara fram, sennilega innan skamms, og áreiðanlega fara fram, ef þetta mál verður samþykkt. Ég álít, að höfuðáherzluna beri að leggja á það og prófa það hér í þessari hv. þd., hvort þeir þrír flokkar, sem standa að þessu máli, ætla sér að láta sitja við þá afgreiðslu, svo skemmtileg sem hún er, að vinna þetta mál með þeim pólitísku aðferðum, sem ég hef lýst, eða fallast á að láta fara fram heiðarlega skoðanakönnun í landinu um, hvort landsmenn eru þessu máli fylgjandi.