07.08.1959
Efri deild: 5. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Str. (HermJ) virtist hafa af því nokkrar áhyggjur, að ekki hefði verið við meðferð málsins farið nákvæmlega eftir ákvæðum 79. gr. stjórnarskrárinnar. Til glöggvunar fyrir hann og aðra hv. þdm. skal ég leyfa mér að lesa upp þessa gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

Till., hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka Alþingi. Nái till. samþykki beggja þingdeilda, skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga að nýju. Samþykki báðar deildir ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Ég vil leyfa mér að benda á, að í þessari grein er ekkert um það sagt, hvernig efnt skuli til kosninganna. Það stendur í greininni ekkert annað en það, að kosningar skuli fara fram, eftir að hin nýju stjórnskipunarlög hafi verið samþykkt hið fyrra sinn og ef þau ná samþykki eftir þessar kosningar á því þingi, sem þá kemur saman á venjulegan hátt, þá eru það gild stjórnskipunarlög.

Þetta segir stjórnarskráin sjálf um málið. En til viðbótar þessu vil ég segja það, að ég ætla, að hverjum einasta íslenzkum kjósanda hafi verið ljóst, ef hann kastaði atkvæði sínu á þá þrjá flokka, sem að málinu stóðu, að þeir hefðu sömu afstöðu til málsins á því þingi, sem saman kæmi eftir kosningarnar, eins og þeir höfðu á síðasta Alþ. Hvað svo sem um málið hefur verið rætt á þessum fundum og í blöðum fyrir kosningarnar síðustu, þá ætla ég, að öllum Íslendingum hafi verið ljóst, að ef þeir kysu þá flokka, sem að stjórnarskrárbreytingunni stóðu á síðasta þingi, þá um leið gerðu þeir sér það ljóst, hvað þeir væru að gera með tilliti til afgreiðslu málsins á því þingi, sem nú er saman komið.

Hv. þm. sagði, að hér hefðu verið framdir pólitískir hrekkir. Þetta er mjög fjarri því að vera rétt. Öll þjóðin vissi, hvað um var að ræða. Það var komið beint framan að henni með þessa stjórnarskrárbreytingu og henni var ljóst, að um hana var kosið fyrst og fremst. Þó að í þessum kosningabardaga hafi verið rædd önnur mál, þá kemur það þessu ekki við. Náttúrlega blandast önnur mál inn í, þegar til kosninga kemur og ekki þetta eina mál, sem þar verður til umr. En það breytir ekki hinu, að afgreiðsla þessa eina máls og aðalmáls er ráðin eftir því, hvaða flokkar eru kosnir til þessa þings. Þeir gáfu allir skýra og ákveðna yfirlýsingu um afstöðu sina í málinu fyrir kosningar.

Hv. þm. sagði, að hér hefði tekizt að blekkja kjósendur í þúsundatali. Þetta er mjög fjarri því að vera rétt, því að ég ætla, að það hafi ekki farið á milli mála hjá neinum íslenzkum kjósanda í þessum kosningum, að þeir flokkar, sem stóðu að kjördæmabreytingunni fyrir kosningarnar, mundu líka standa að henni eftir kosningarnar.

Hv. þm. sagði, að það hefði aldrei farið fram sú óbeina þjóðaratkvgr., sem þessar kosningar eiga að vera. Ég tel þetta alveg fráleitt, því að það hafa farið fram kosningar, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir og á þann hátt, sem hún gerir ráð fyrir, þannig að afgreiðsla málsins nú eftir kosningarnar er fullkomlega stjórnskipuleg. Upp undir 3/4 allra íslenzkra kjósenda hafa kosið þá flokka, sem að breytingunni standa. Það má vel vera og ég skal ekkert um það segja, hvort einhverjir einstakir menn, sem hafa greitt þessum flokkum atkvæði, séu að einhverju leyti andvígir þessari breytingu, sem hér er verið að gera. Það má vel vera. En þeir hljóta að hafa gert sér það ljóst, að með því að greiða atkvæði eins og þeir gerðu hafa þeir verið að greiða fyrir afgreiðslu málsins eins og hún var fyrr.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, því að þetta hefur verið ein aðalröksemd Framsfl. og hv. framsóknarþm. gegn afgreiðslu málsins nú, að málið hefði verið lagt fyrir kjósendurna á annarlegan hátt. En ég tel, að svo hafi ekki verið. Ég tel, að málið hafi verið lagt fyrir kjósendurna í landinu á fullkomlega eðlilegan hátt, þó að um leið hafi verið rædd að einhverju leyti önnur mál, sem alltaf ber á góma, þegar til þingmálafunda kemur og í umr. í blöðum um og fyrir kosningarnar.

Afstaðan fyrir kosningarnar, í kosningunum og eftir kosningarnar hjá hinum pólitísku flokkum tel ég því hafi verið fullkomlega eðlileg, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir.