07.08.1959
Efri deild: 5. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Nú í sumar voru liðin 15 ár, frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi 1944. Þá voru þær einar breytingar gerðar á stjórnarskránni, sem óhjákvæmilegar voru vegna hinna breyttu stjórnarhátta, en í rauninni fyrst og fremst formsbreytingar einar.

Um lýðveldisstofnunina ríkti á sínum tíma þjóðareining og þá einingu vildu menn ekki rjúfa með því að stofna þá til ágreinings um ýmis efnisatriði stjórnarskrárinnar, sem margir töldu að þyrfti að breyta, en vitað var að ekki næðist fullkomin eining um. Fleira olli vitanlega, að ekki þótti þá eðlilegt að stofna til gagngerðra breytinga, m.a. það, að slíkt mál þyrfti mjög ýtarlegs undirbúnings í höndum hinna færustu manna og að nauðsynlegt væri og óhjákvæmilegt alveg að gefa þjóðinni kost á að íhuga vandlega allar slíkar tillögur, áður en til úrslita kæmi. Allir viðurkenndu og það er viðurkennt með öllum lýðræðisþjóðum, að stjórnarskráin, grundvallarlögin sjálf, eru einhver hin þýðingarmestu lög og að flaustursleg vinnubrögð og handahófskennd eru á engan hátt sæmileg við lagasetningu og allra sízt þegar um þau er að ræða.

Strax á þessu ári, 1944, var sett nefnd til að undirbúa breytingar á stjórnskipunarlögunum. Og síðan má segja að stöðugt hafi setið milliþn. í þessu máli. Hitt er svo alþjóð kunnugt, að harla lítill árangur hefur sézt af störfum þessara nefnda. Vafalaust hafa þær þó unnið ýmislegt í málinu, — ég dreg það ekki í efa, — vafalaust safnað gögnum og unnið ýmiss konar undirbúningsstarf, en almenningi sýnilegur árangur af störfum þeirra er lítill. Ég fer ekki út í það hér að rekja orsakir þess, hvers vegna afköst mþn. í stjórnarskrármálinu hafa orðið svona lítil. Þar kemur vitanlega margt til. Og það er rétt, að á þessu tímabili hafa íslendingar verið önnum kafnir, á þessu tímabili hefur orðið meiri framþróun í atvinnulífi, menningarmálum og á ótal sviðum, heldur en nokkru sinni áður og menn hafa verið almennt talað mjög svo önnum kafnir um þessar mundir. Samhliða þessu hafa, eins og allir vita, hv. alþm. ekki sízt, verið miklir erfiðleikar á sviði efnahagsmálanna, margvíslegir erfiðleikar. Og það hefur miklum tíma og miklum kröftum verið varið til þess að leita þar úrræða, þó að árangur hafi ekki orðið eftir erfiði, m.a. vegna þess, hvernig línur hafa legið í stjórnmálunum og hversu sundrung hefur verið mikil með þjóðinni á því sviði.

En sem sagt, endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur á þessu tímabili algerlega setið á hakanum, þrátt fyrir það þótt allir stjórnmálaflokkarnir hafi oft og iðulega látið í ljós í orði töluverðan áhuga fyrir þessu máli. Áhuginn hefur orðið miklu minni í verki, — þangað til á s.l. vetri. Þá varð á þessu breyting, mikil og gagnger breyting. Þá gerðist það, að þrír landsmálaflokkar fylltust eldmóði í stjórnarskrármálinu og meðal þeirra var Sjálfstfl. og hafði þar jafnan forustu, sá flokkur, sem lengst af á þessu árabili, síðan lýðveldið var stofnað, hefur haft forustuna í stjórnarskrárnefndunum, forustuna fyrir því aðgerðarleysi, sem þar hefur ríkt. En hins er að gæta og á það vert að minna, að allur áhuginn beindist að einum punkti og einum punkti aðeins, að einni grein stjórnarskrárinnar, að því að gerbylta kjördæmaskipun landsins. Allt hitt mátti bíða. En nú þurfti að vinna skjótt að. Ýtarlegur undirbúningur var talinn óþarfur og engin þörf á því, að þjóðin fengi neitt verulegt tóm til að íhuga þessi mál. Þvert á móti, það var engu líkara en þetta mætti ekki eiga sér stað, málið skyldi afgreitt með hraði. Og það er talið, að ef upphaflegar ráðagerðir þeirra flokka, sem að kjördæmabyltingunni stóðu, hefðu tekizt, þá væri þetta mál nú löngu klappað og klárt.

Þessi vinnubrögð voru vitanlega alveg fráleit, og bar margt til þess. Það er skylt og sjálfsagt, eins og margsinnis hefur verið bent á, að leita vandlega sem allra víðtækastra samtaka og samstöðu, þegar um er að ræða breytingar á stjórnarskránni. Þetta var ekki gert. Til málamynda var rætt við Framsfl. um þetta mál, en ekki heldur meira. Allt þurfti að ganga með sem mestum hraða.

Og þó var það svo, að ekkert rak í sjálfu sér á eftir að ljúka þessum málum í skyndi. Það má t.d. minna á það, að það lágu engar kröfur fyrir, engar almennar samþykktir úr þeim landshlutum, sem breytingin skyldi verða í, engar almennar óskir um að koma á þeirri breytingu, sem nú er stefnt að og nú er komin á síðasta stigið. Og það lágu heldur engar almennar óskir fyrir um þetta eða fjöldasamþykktir hér úr höfuðstaðnum, alls ekki. Það var ekkert þess háttar, sem rak þarna á eftir. Aftur á móti var það svo vissulega, að ýmsar þjóðfélagsástæður höfðuðu til varfærni, mæltu gegn því sterklega að kveikja á þessu sumri ófriðarbál tveggja kosninga. Ég nefni efnahagsmálin í þessu sambandi. Það er vitanlega öllum landsmönnum ljóst, hver höfuðnauðsyn okkur er á samstilltum átökum, sem leitt gætu til aukins jafnvægis og aukins öryggis í fjármálalífi þjóðarinnar. Og ég nefni landhelgisdeiluna við Breta, stærsta sjálfstæðismálið í dag. Vitanlega hefði það þýtt aukinn styrk í þeim átökum, ef hér hefði setið sterk ríkisstjórn. Vissulega er þjóðin samstillt í þessu máli. En stjórnarhættir á borð víð þá, sem við búum við nú, samfara þeim tvístringi, þeirri sundrun krafta, sem tvennar kosningar með fárra mánaða millibili hljóta að hafa í för með sér, ekki sízt hjá jafnlítilli þjóð og okkar, þetta hlýtur að veikja aðstöðuna út á við alveg óhjákvæmilega. En á ekkert af þessu vildu flokkarnir þrír, sem stóðu að kjördæmabyltingunni líta. Þetta allt var látið lönd og leið. Það gilti eitt hjá þeim og aðeins eitt að knýja fram breytinguna á þessu eina atriði stjórnarskrárinnar á sem allra stytztum tíma, enda þótt það hafi svo í reyndinni tekið lengri tíma en fyrirhugað var. Því olli sumpart hörð andstaða Framsfl. og sumpart innbyrðis ágreiningur milli þessara þriggja aðila, um aukaatriði þó. Og samt hafa leikar farið svo, að þetta mál er afgreitt með miklu meiri hraða, en æskilegt er og eðlilegt.

Eins og ég sagði áðan, eiga veigamiklar breytingar á grundvallarlögum einnar þjóðar að liggja fyrir þjóðinni til vandlegrar íhugunar og athugunar í langan tíma, þannig að hverjum einstökum gefist kostur á því í raun og veru að vega og meta í næði það, sem er að gerast. Grundvallarlögum á ekki að breyta í flaustri, og tíðar breytingar á þeim eru vissulega mjög óheppilegar. Þau eiga að vera eins konar kjölfesta þjóðarskútunnar og sannarlega er okkur Íslendingum full þörf á slíkri kjölfestu á okkar djörfu siglingu.

Hér hafa að minni hyggju verið viðhöfð mjög óeðlileg vinnubrögð og jafnframt mjög óheppileg. Þau eru óeðlileg að því leyti, að allt virðist vera við það miðað að ná sem mestum hraða í afgreiðslu málsins og gefa þjóðinni sem minnst tóm til íhugunar, og þau eru óheppileg sakir þess, hversu ástatt var á sviði efnahagsmálanna og í landhelgisdeilunni við Breta. Og ég vil segja það hreint út, að þessi vinnubrögð sæma ekki íslenzkum stjórnmálaflokkum og þau eru í hæsta máta ósamboðin hverjum ábyrgum stjórnmálaflokki í lýðfrjálsu landi, hvar sem er.

Hér reyndist þó, þegar fram í sótti, aðeins um að ræða forspil þess, er síðar kom fram. Þetta, sem ég nú hef rakið í fáum orðum, var í rauninni saklausasti þátturinn í þeim fáránlega loddaraleik, sem flokkarnir þrír hafa sett á svið í sambandi við kjördæmabyltinguna.

Fyrirmæli stjórnarskrárinnar varðandi gildistöku á stjórnarskrárbreytingu eru alveg ótvíræð. Það er ætlazt til þess, að fram fari sérstakar kosningar og breytingin sé samþykkt að nýju á nýkjörnu þingi, áður en hún tekur gildi. Allir vita, að á því er verulegur annmarki í framkvæmd að fá fram við almennar kosningar raunverulegan vilja þjóðarinnar um eitt einstakt mál. Menn hafa ævinlega sterka tilhneigingu til þess hér á landi — og það er svo vafalaust víðar að fylgja sínum flokkum, að kjósa eftir stefnumálum og eftir dægurmálum og þetta er vissulega nokkurt vorkunnarmál. Þetta hefur mörgum Íslendingum verið ljóst lengi. Það sést m.a. á því, að úr ýmsum áttum hafa komið fram till. um að efna til sérstaks stjórnlagaþings í sambandi við þá breytingu, sem allir vita að þarf að gera á stjórnarskrá lýðveldisins og þá jafnframt að setja inn í stjórnarskrána ákvæði um það, að henni skuli jafnan breytt á þann hátt. Nú verðum við að viðurkenna það, að slík tilhögun, sérstakt stjórnlagaþing, tryggir ekki að fullu, að hlutlaus athugun fari fram á þessum málum, þannig að flokkasjónarmiða gæti ekki. En það eykur líkurnar fyrir því stórkostlega, að stjórnarskráin sé tekin fyrir á vettvangi, þar sem ekki liggur fyrir að ræða og taka ákvarðanir um önnur þjóðmál. En vitanlega er það höfuðnauðsyn í sambandi við breytingar á grundvallarlögunum að fá fram óháða skoðanamyndun almennings í landinu.

Þetta hefur löngum reynzt erfitt, eins og ég hef vikið að. Núna, við þá stjórnarskrárbreytingu, sem hér er til meðferðar, hefði þetta þó í eðli sínu átt að vera tiltölulega auðvelt, vegna þess að breytingin núna, er eingöngu um breytingu á kjördæmaskipun og kosningatilhögun og það var alveg fyrirsjáanlegt, að nýjar kosningar færu fram strax með haustinu. Nú kom það nokkuð fram í áróðri við kosningarnar og m.a. í mínu kjördæmi, að færi svo, að andstæðingar kjördæmabyltingarinnar efldu Framsfl. að því marki, að hann næði meiri hluta, þá mundi hann nota þá meirihlutaaðstöðu, sem fengin væri vegna kjördæmamálsins, til þess að sitja í ríkisstj. í 4 ár. Þetta var vitanlega fullkomin fjarstæða, því að slíkur meiri hl. gat ekki farið með stjórn landsins í langan tíma af þjóðfélagslegum ástæðum, sem þarflaust er að skýra fyrir hv. dm.

En sem sagt, það átti að vera tiltölulega auðvelt núna að halda stjórnarskrármálinu einangruðu og láta kosningarnar snúast um það eitt. En hvað skeður? Þegar undirbúningur kosninganna hófst, byrjuðu stuðningsflokkar kjördæmabyltingarinnar æðisgenginn áróður. Þeir sögðu: Málið er til lykta leitt nú þegar. Það er ekki verið að kjósa um þetta mál. — Í þessu fólst náttúrlega megn fyrirlitning á allri sjálfstæðri hugsun, auk þess sem slíkt tal var beinlínis andstætt bókstaf stjórnarskrárinnar. Nei, nú á að kjósa um allt annað, en kjördæmamálið, sögðu þessir flokkar. Sjálfstfl. sagði, að kosið skyldi um „aldrei aftur vinstri stjórn“, og ég man, að frambjóðandi Sjálfstfl. í Suður-Múlasýslu talaði mikið um það frelsi, sem ætti nú að kjósa yfir sig með því að efla Sjálfstfl., og eyddi í það löngum kafla úr sinni ræðu. Frambjóðendur Alþfl. héldu því fram, að nú ætti að kjósa um stefnu ríkisstj. Menn ættu að tjá henni traust og virðingu með atkvæði sínu vegna frábærra afreka í sambandi við afgreiðslu fjárlaga t.d. og meðferð efnahagsmálanna almennt Alþb., a.m.k. austur frá hjá okkur, talsmenn þess, þeir héldu því fram, að nú ætti sérstaklega að kjósa um landhelgismálið, það eina mál, sem á dagskrá var, sem fullkomin þjóðareining ríkti um. Allir flokkarnir þrír lögðust á eitt í þessu efni: Ekki kjósa um kjördæmamálið, kjósa um allt annað! Framsfl. einn lagði málið fyrir alveg á eðlilegan hátt. En rödd Framsfl. hlaut að drukkna að verulegu leyti í samstilltum herópum hinna þriggja, sem ráða margföldum blaðakosti.

Sterkar líkur benda því til þess, að kosningarnar hafi ekki snúizt um kjördæmabreytinguna nema að litlu leyti. Samstilltur og óskammfeilinn áróður þriggja flokka hafði tilætluð áhrif, enda gullu hróp þeirra allt fram á kvöld hins 28. júní. Svo fór fram talning atkvæða. Það varð hlé og blöðin tóku sér hvíld á mánudaginn. En síðan hófust hrópin að nýu, og þau voru enn samstillt, engu síður en fyrir kosninguna, en nú kvað bara við allt annan tón: þrír fjórðu kjósenda hafa greitt kjördæmabreytingunni atkvæði, einn fjórði á móti! Slíkar voru fyrirsagnir blaða þríflokkanna eftir kosningarnar og náðu yfirleitt yfir þvera síðu. Nú var enginn vafi, um hvað var kosið. Nú hafði verið kosið um kjördæmamálið og ekkert annað en kjördæmamálið, sögðu þríflokkarnir.

Þessi framkoma þriggja flokka við síðustu kosningar er í hæsta máta ósæmileg. Hér hefur verið hafður í frammi í einu hinu stærsta þjóðmáli einhver hinn ódrengilegasti áróður, sem sögur fara af í íslenzkri landsmálabaráttu. Svona vinnubrögð dæma sig vitanlega sjálf og það má mikið vera, ef þeir, sem fyrir þeim stóðu, eiga ekki eftir að gjalda fyrir það síðar, þótt þeir í krafti fjármagns og áróðurstækni geti e.t.v. varið sig meiri háttar áföllum þeirra vegna.

Ég mun ekki að þessu sinni ræða efnisatriði þess frv. til stjórnskipunarlaga, er nú liggur fyrir hv. d. Það gefst tækifæri til þess síðar. En ég vildi þegar við þessa 1. umr. láta í ljós skoðun mína á þeim endemis vinnubrögðum, sem stuðningsflokkar kjördæmabreyt. hafa viðhaft við meðferð málsins, bæði innan þingsins og utan.