10.08.1959
Efri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á s.l. vori var samþ. á Alþ. breyt. á stjórnarskrá Íslands og fól hún það í sér, að kjördæmaskipun þeirri, sem þá hafði að undanförnu gilt hér, yrði breytt á þá lund, sem frv. fjallaði um. Það var flestum, ef ekki öllum landsmönnum orðið ljóst undanfarin ár, að sú kjördæmaskipun og tilhögun alþingiskosninga, sem hér gilti, var með öllu úrelt orðin og fékk ekki staðizt til lengdar, ef við eigum að haga stjórnskipun okkar eftir meginreglum lýðræðisins. Þetta er ekkert einstakt fyrir Ísland, heldur hafa margar eða flestar þjóðir aðrar, sem búa við lýðræðisskipulag, orðið öðru hverju að breyta kjördæmaskipun og kosningatilhögun eftir breyttum þjóðháttum, eftir breyttum atvinnuháttum og tilflutningum fólks í landinu.

Þegar velja skyldi nýja skipan hér til að fullnægja lýðræðiskröfum, voru einkum þrjár leiðir, sem til greina komu. Ein var sú, að eintóm einmenningskjördæmi skyldu höfð, önnur, að landið skyldi gert allt að einu kjördæmi og kosið hlutfallskosningum og þriðja leiðin sú, að landinu skyldi skipt í nokkur stór kjördæmi, þar sem kosið yrði hlutfallskosningum og síðan jafnað með uppbótarþingsætum. Síðasta leiðin var valin af ýmsum ástæðum og er ég ekki í vafa um, að hún muni reynast happasælust fyrir íslenzkt þjóðfélag. Þessi leið var valin af ýmsum ástæðum, en m.a. má benda á það, að þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar um menningu, sögu, tungu og allan lýðræðislegan hugsunarhátt, Norðurlandaþjóðirnar fjórar, hafa allar nú um langan aldur búið einmitt við þetta skipulag. Allar þessar fjórar þjóðir hurfu á sínum tíma frá meirihlutakosningu í einmennings- eða fámenniskjördæmum og til þess fyrirkomulags að hafa stór kjördæmi með hlutfallskosningum og að nokkru leyti uppbótarsætum. Við þetta skipulag hafa Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar búið frá 30-40-50 árum og heyrast mér vitanlega engar raddir í þessum löndum um, að hverfa beri frá því skipulagi og til meirihlutafyrirkomulags eða einmenningskjördæma aftur. Miðað við þessa reynslu m.a. er þess að vænta, að hin nýja skipan hér gefist vel.

Ég vil í þessu sambandi minnast á það, að frá hendi andstæðinga þessa frv. hefur því stundum verið hreyft og haldið fram til stuðnings þeirra máli, að í Finnlandi hafi hlutfallskosningar í stórum kjördæmum gefizt svo illa, að liggi við stjórnleysi á köflum með þeirri ágætu þjóð. Hér er um algera rökfölsun að ræða, þegar þessu er haldið fram. Það er vitanlegt, að erfiðleikar Finna um stjórnarmyndanir nú að undanförnu stafa alls ekki af kosningafyrirkomulaginu, heldur eingöngu af utanaðkomandi ástæðum fyrir þá áþján og þær beinar og óbeinar hótanir og þvinganir, sem hinn voldugi granni þeirra beitir þá. T.d. var það eftir síðustu kosningar í Finnlandi, að þá höfðu allir flokkar þar í landi nema kommúnistar náð samstöðu um að mynda stjórn og vinna saman og ástæðan til þess, að sú stjórnarsamvinna fór út um þúfur og stjórnin varð að segja af sér, var eingöngu hin utanaðkomandi þvingun. Það er því ekki minnsti fótur fyrir því, að kosningafyrirkomulagið í Finnlandi eigi nokkurn þátt í þeim erfiðleikum, sem þeir hafa átt við að etja um stjórnarmyndanir að undanförnu.

Þetta fyrirkomulag, sem samþ. var á síðasta Alþ. með miklum þingmeirihluta, eða þessar till. voru svo bornar undir þjóðina með þeim hætti, sem stjórnarskráin sjálf ætlast til, en hún segir, að þegar breyt. er gerð á stjórnarskránni, samþ. á þingi með venjulegum hætti, skuli þing rofið, efnt til nýrra kosninga og ef hið nýkjörna þing samþykkir stjórnarskrárbreyt. óbreytta, verður hún að lögum og fær gildi sem stjórnskipunarlög. Þessum fyrirmælum stjórnarskrárinnar hefur í einu og öllu verið hlýtt. En eftir að málið hefur í því formi, sem stjórnarskráin sjálf ætlast til, verið lagt fyrir kjósendur, er niðurstaðan sú af kosningunum, að á hinu nýkjörna þingi eiga sæti 33 þm., sem allir höfðu í kosningunum og fyrir þær lýst yfir stuðningi við þetta mál, en 19 þm., sem höfðu lýst afstöðu sinni gegn því. Það er því ljóst, að ekki aðeins mikill þingmeirihluti, heldur mikill þjóðarmeirihluti er fylgjandi þessari stjórnarskrárbreyt. Þó mun fylgi stjórnarskrárbreyt. með þjóðinni vera miklu meira, en þingmannatalan segir til um, vegna þess að til þessa þings var kosið eftir hinni gömlu og úreltu kjördæmaskipun, sem hefur gefið andstæðingum frv. miklu fleiri þm. en þeir eiga nokkurn rétt á eftir atkvæðamagni sínu og fylgi með þjóðinni.

Ég ætla ekki að hafa þessi inngangsorð fleiri, en stjskrn. hefur fjallað um þetta frv. nú, ekki náð um það samstöðu, en meiri hluti hennar, þ e. 5 nm. af 7, mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.