23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Það er af ýmsum búið að ræða allmjög þetta mál, sem hér er til umr., kjördæmaskipunarmálið og sjálfsagt ekki auðið að komast hjá endurtekningum um mörg atriði og þá kannske hin veigamestu. Hins vegar er að mínu áliti hér eitt hið þýðingarmesta og örlagaríkasta mál, sem borið hefur að höndum í hv. Alþingi um langa tíma og þorri manna í þessu landi hlýtur að láta sig miklu varða. Það er því eðlilegt, að umræður nokkrar eigi sér hér stað og hlýtur enda svo að verða, áður en yfir lýkur. Ég tel mig skyldan að láta í ljós álit mitt að því er varðar þetta málsefni og ég þori að fullyrða um leið, að meiri hluti kjósenda í mínu umdæmi er mér samdóma í öllum höfuðatriðum.

Eins og kunnugt er, hafa gerzt þau stóru tíðindi, að áformað er að leggja niður öll 27 kjördæmin utan Reykjavíkur, gömul og gróin umdæmi, sem þjóðin hefur búið við um langa hríð eða allan þann tíma, sem hún hefur runnið eitt sitt mesta framfaraskeið, bæði í fjárhagslegum, atvinnulegum og félagslegum efnum. Á þeim grunni hefur þjóðin byggt upp sitt land og sig sjálfa af hinum mesta myndarbrag og atorku og jafnvel svo vel hefur til tekizt, að ótti hefur gripið ýmsan góðan manninn um það, að of hratt hafi verið farið yfir.

Hin gömlu kjördæmi hafa ásamt kosningatilhögun allri getað orkað til þessarar undirstöðu, sem án vafa hefur mátt teljast í grundvallaratriðum hin merkasta, þó að nú sé henni flest til foráttu fundið. Hér er gerð tilraun til þess að umturna þeirri skipan, þessari gömlu skipan og taka upp nýja, sem kjördæmabyltingarmenn hefja til skýja og telja hinn eina sanna veg til lýðræðis og jafnréttis, sbr. ummæli síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv. En lýðræði og jafnrétti, það er eins og þetta tvennt hafi ekki verið til staðar í þessu þjóðfélagi, fyrr en þegar til kemur og framkvæmd verður sú skipan, sem stefnt er að með fyrirliggjandi frv. Nú skal taka upp hlutfallskosningakerfi í fáum, en stórum kjördæmum, kerfi, sem sýnist þó vera að ganga sér til húðar, þar sem það áður ríkti um nokkurt skeið og reynsla var fengin af slíku fyrirkomulagi.

Byltingaráformið er komið nokkuð áleiðis að

markinu, en þó vantar herzlumun. Því er enn tími til þess að drepa málinu á dreif, eins og mikill meiri hluti fólks í viðkomandi kjördæmum, kjördæmunum, sem skal leggja niður, raunverulega óskar eftir og önnur málefni af þýðingarmeira tagi verði tekin fyrir til íhugunar og nauðsynlegrar afgreiðslu. Allt um kring eru verkefnin fyrir þing og stjórn, sem krefjast bráðrar úrlausnar, fjárhagsefni hvers konar, sem komin eru að strandi eða jafnvel rekin upp á sker, 12 mílna deilan í varhugaverðri flækju, sem greiða þyrfti sem allra fyrst, háskalegur skortur á samhentri og traustri ríkisstj., sem hafi að bakhjarli öflugan meiri hluta þings og þjóðar. Á meðan þannig er ástatt, er kröftunum eytt í óviðurkvæmilegan hættuleik að vanhugsaðri breytingu á rótgróinni kjördæmaskipan, leik, sem helzt sýnist til þess gjörr að knésetja, ef auðið væri, hann stjórnmálaflokk í landi hér, sem þó lengst og bezt hefur unnið að framförum þjóðarinnar bæði til lands og til sjávar, því að vissulega munu byltingarmenn ekki sjá fram á þá sérstöku aukningu sinna þingfulltrúa, að skipt geti neinu verulegu máli og allra sízt eftir að úrslit eru kunn orðin úr síðustu alþingiskosningum. Framsfl. kemur svo til með að halda mestu af sínu þegar í stað. Er því að ætla, að slétt verði nokkurn veginn um góma að öðru leyti en því, að mörg hin einstöku gömlu kjördæmi hefðu þá misst varanlega af þeim möguleika að halda sínum sérstöku þingfulltrúum. Hefðu þá byltingarmenn ekkert eftir nema erfiðið, kostnaðinn og svo sárindin af því að hafa átt hlut að byltingu, sem fátt leiddi gott af, en því fleira illt og ómaklegt, sérstaklega í garð þeirra, sem sízt skyldi til höggva, heldur fremur hlífa.

Hvers eiga dreifbýliskjördæmin að gjalda eða það fólk, sem sveitirnar byggir? Hefur ekki einmitt það fólk um aldaraðir sinnt hinu nytsamasta starfi í fjárhags- og andlegum efnum þjóðarinnar og verið ævinlega hin örugga brjóstvörn í frelsis- og framfarabaráttu þjóðarinnar? Hinir sérstöku hagsmunir þessa fólks ættu eftirleiðis þá undir högg að sækja og í vök að verjast, þegar kjördæmahristingurinn yrði fullgjör. Þetta er auðsætt og ég sé ekki, að nein rök haldbær séu til staðar, sem gagni mótmælum í því efni.

Er þá komið að raunverulegum kjarna málsins. Hér er beinlínis ráðizt að dreifbýlinu, aldagömlum rétti þess og sérstöðu, rétti til þess að eiga sinn eða sína sérlegu fulltrúa á Alþingi, kjörna af héraðsbúum án íhlutunar þéttbýlis og áhrifa þess. Hafa sveitirnar til þess unnið að hljóta slík örlög? Hafa þær verið sá fjötur um fót þéttbýlinu og þjóðinni yfirleitt? Hafa þær fengið óhóflega í sinn hlut af réttindum, aðstöðu og fjármagni við úthlutun gæða til þegn- anna úr sameiginlegum sjóði og því mál, að slíku linni? Er hinn sérlegi fulltrúaréttur sveitanna, sem fram að þessu hefur verið í heiðri haldinn, sá fleinn í holdi þéttbýlismanna, að óþolandi sé? Eða skal dreifbýliskjördæmunum refsað fyrir það, að fólkið þar þykist fremur eiga skjóls að leita, þar sem Framsfl. er?

Það kom glögglega í ljós í mínu kjördæmi, að margir voru þeir sjálfstæðismenn, sem í raun og veru höfðu óbeit á þessu kjördæmabrölti, ekkert síður en við framsóknarmenn. Þetta er vitað og sjálfsagt hefur svo verið víðar og kannske alls staðar. Hins vegar kom það einnig fram, að eftir áróður af öllu tagi, eins og fram hefur komið hér í ræðum á undan, eftir áróður af öllu tagi án nokkurs tilsparnaðar héldu flokksbönd Sjálfstfl. meir og betur en ætla hefði mátt í upphafi. Sjálfstæðismenn héldu því sleitulaust fram í kosningabaráttunni, að um allt og þá ekki sízt um gerðir vinstri stjórnarinnar væri kosið, allt nema kjördæmamálið, það mál væri í raun og veru til fullnustu afgreitt og aðeins formið eitt eftir. Sjálfsagt hafa þessar blekkingar og margar fleiri villt verulega um fyrir kjósendum og þeim fleiri en færri. Ég þori að fullyrða, að í mínu kjördæmi hefði mikill meiri hluti kjósenda goldið neikvæði við, ef kjördæmamálið hefði verið lagt þannig fram, að svara skyldi játandi eða neitandi framkomnum brtt. á skipun kjördæmanna og er vafalítið, að víðar hefði sama orðið upp á teningnum. Fólkið úti um landsbyggðina vill raunverulega og eðlilega ekki leggja niður kjördæmi sín, þó að með því að keyra málið í flokksfjötra og með skírskotun til hollustu við flokkinn og flokksforingja hafi verið unnt að halda því að mestu leyti á seil í þetta sinn.

Í rauninni hefur byltingarmönnum tekizt að koma í veg fyrir, að nauðsynlegt þjóðaratkvæði fengist um málið, eins og stjórnarskráin ætlast í eðli sínu til. Á þeim tíma, sem stjórnarskrá landsins var upphaflega samin og lengi fram eftir, voru ekki stjórnmálaflokkar til í þeirri mynd, sem nú er. Helzt voru það kirkjunnar málefni, sem skiptu fólki í flokka, enda geymir stjórnarskráin alveg sérstaklega ákvæði um þjóðaratkvæði, þegar málefni kirkjunnar varðar. Það sýnir ljóslega, á hverri leið stjórnarskrárlöggjafinn hefur verið og það er alveg sýnt, að hér þarf breytingar við, að mikilvægustu málefni verði leyst úr flokksviðjum sem allra mest og þau fengin í einföldu formi þjóðinni til samþykktar eða synjunar. Þá loks væri hægt að tala um þjóðarviljann, sem enga eða litla samleið þarf að eiga með flokksvilja. Stjórnarskrárbreytingar eiga að vera hafnar yfir flokka og sjónarmið þeirra. Sannast sagna er því eftir að fá úr því skorið, hver þjóðarviljinn í þessu máli sé í raun og veru.

Ég hef leyft mér að ræða hér lítils háttar þetta mál, að vísu nokkuð lauslega, og þetta er skoðun mín á þessu kjördæmamáli svokallaða, skoðun mín sem fulltrúa sveitakjördæmis hér á hv. Alþingi. En ég vil jafnframt telja mig kunnugan og vinveittan höfuðborginni, sem er nú höfuðþéttbýlisstaður lands vors og ég er svo vinveittur henni, að mér dytti ekki í hug að fylgja máli, sem henni væri að mínu áliti til óþurftar. Miklu fremur vildi ég styðja hennar málefni og efla, því að þar liggur við sæmd Íslendinga að gera vel við sína höfuðborg ekki síður, en aðra landshluta. En í þessu efni fæ ég ekki séð, að hennar hagur aukist hið minnsta, þó að þessi byltingaráform nái fram að ganga og þau verði framkvæmd. Ég vil miklu fremur halda því fram, að hlutur höfuðborgarinnar verði rýrari eftir en áður. Hennar gengi hlýtur að vaxa, ef hlut sveitanna er haldið fram og þeim veitt aukið svigrúm til áframhaldandi framfara á þeim réttindagrundvelli, sem verið hefur. Og hið sama má segja um annað þéttbýli sem höfuðborgina. Afnám gömlu kjördæmanna 27 er að mínu áliti alvarlegt spor aftur á bak, og um það spor yrði öll þjóðin samstiga.

Af þessum mínum hugleiðingum hlýt ég að draga þá lokaályktun, að það sé þjóðinni allri fyrir beztu að fella það frv. til breytinga á stjórnarskrá ríkisins, sem hér liggur fyrir, nema breytingar til bóta fengjust á gerðar. Þeir flokkar, sem að frv. standa, hljóta að hafa séð, að þeirra hlutur verður ekki sá stóri vinningur, sem þeir höfðu e.t.v. í upphafi búizt við. Þeir hljóta að hafa tekið eftir því, að áformað hlutfallskosningakerfi er ekki þess umkomið að auka á veg og hagsæld íslenzku þjóðarinnar fram yfir hið gamla kerfi, en einmitt og miklu fremur líklegt til þess að auka á glundroða og reikult stjórnarfar, sem þjóð okkar má þó sízt við. Og víst mega þessir flokkar vita það, að Framsfl. mun hæglega lifa af þá hryðju, sem yfir hann skyldi koma og honum tjón vinna. Ef óánægja ríkir um stjórnarskrána, sem eðlilegt má teljast í ýmsum greinum, þá er ekkert nær sanni, en að taka hana í einu lagi til allsherjar endurskoðunar, rækilegrar og illindalaust, og leggja niðurstöður að vandlega yfirveguðu ráði fyrir þing og þjóð. Slíkar tillögur ættu einvörðungu að miðast við hag þjóðarinnar allrar í heild og hennar framtíðarheill. Þessi háttur um verkbrögð yrði líklegastur til fremdar, samþykkt framlagðs frv. óbreytts hið gagnstæða.