23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar efnahagsmálalöggjöf vinstri stjórnarinnar var til meðferðar á Alþ. vorið 1958, flutti hv. 3. þm. Reykv. (EOl) langa ræðu, svo sem hans er vandi. Í þeirri ræðu kom það greinilega fram, að þessi hv. þm. stefndi að því að hefja samstarf við Sjálfstfl. og hafði lítinn áhuga á langlífi þáv. ríkisstj. Ræða sú, sem hann flutti hér áðan, kom mér því ekki á óvart. Ég hafði vitað það fyrr, að hann hygði á samstarf við Sjálfstfl., því að það kom fram í þeirri ræðu, sem ég vitnaði til hér áðan, að hann taldi, að með þeim flokki væri hægt að starfa, það væri hægt að fá hann til að gleyma landbúnaðarsjónarmiðum þeim, sem framsóknarmenn gleymdu ekki. Hitt kom meira á óvart, að þessi hv. þm. skyldi fara að kalla Alþfl. verkalýðsflokk og telja sig alltaf hafa löngun til samstarfs við hann. Það hafði ég ekki heyrt greinilega frá hans hendi a.m.k. um langt skeið. Er það nýlunda og veit ég ekki, hvað veldur.

Hv. 3. þm. Reykv. gaf þá skýringu á vinstri stjórn, að vinstri stjórn væri það, þegar tveir verkalýðsflokkar sætu í stjórninni, þriðji aðilinn skipti þar ekki máli. Hann gæti verið Sjálfstfl. eða þá Framsfl. eftir atvikum. Ekki veit ég, hvernig hv. 1. þm. Reykv. (BBen) kann að taka þessa skýringu, þar sem hann hefur lýst því yfir, að kjörorðið í síðustu kosningum væri: „Aldrei framar vinstri stjórn.“ Það er því ekki hugsanlegt, að hann hafi hugsað sér, að þessi skýring gæti komið fram í sambandi við vinstri stjórn.

Það var ekki undarlegt, þó að hv. 3. þm. Reykv. eyddi miklum tíma í að reyna að kenna öðrum um fall vinstri stjórnarinnar. Hann veit sem er, að sú stjórn var vinsæl og þjóðin vildi að hún sæti áfram. Hv. 3. þm. Reykv. vann hins vegar dyggilega að því, að það samstarf fór út um þúfur, eins og ég hef áður tekið fram.

Þessi hv. þm. hélt því fram, að kjördæmamálið væri mikið réttlætismál. En þó skaut því nú upp, að það hefði komið fram hjá Alþfl. 1942 í hefndarskyni, af því að Framsókn hefði komið honum út úr ríkisstj. Ekki hefði ég nú haldið, að það þyrfti að hefja réttlætismál í hefndarskyni. Það kom líka fram í ræðu þessa hv. þm., að Framsókn gæti sjálfri sér um kennt, að þetta mál væri fram komið á þann hátt, sem raun ber vitni um. Af hverju þarf að vera að koma því yfir á Framsfl., ef hér er sérstakt réttlætismál, sem þjóðin fagnar? Ég sé ekki ástæðu til, að það þurfi að eigna Framsfl. það frá bæjardyrum flutningsmanna.

Þessi hv. þm. hélt því líka fram, að verkalýðurinn í landinu væri betur settur eftir stjórnarskrárbreytingar. Verkalýðurinn í landinu hefur alltaf getað haft áhrif á stjórnmálin. Það, sem hefur staðið honum fyrir þrifum, er sá klofningur og sú sundrung, sem hefur verið innan verkalýðssamtakanna. Þessi hv. þm. hefur tekið sinn þátt í því. Það vita allir, að það er einmitt kommúnistafl., sem einna bezt hefur gengið fram í því að halda þessari sundrung við, þó að gerð hafi verið tilraun til þess af frjálslyndari mönnum að sameina til sameiginlegra átaka, eins og gert var með stofnun Alþb. Þar var stefnt að því að reyna að ná verkalýðnum úr löndum kommúnistaflokksins og stofna frjálslyndan flokk. Þannig var að því unnið á fyrstu árum Alþb., nú er það hins vegar liðinn tími. Hv. 3. þm. Reykv. tókst svo dyggilega með kommúnistafl. að eyðileggja vinstra samstarfið og þar með Alþb., að fylgi Alþb. hrundi svo greinilega sem raun bar vitni um í síðustu kosningum.

Það var því ekki undarlegt, þó að þessi hv. þm. væri að tala um samvizkubit. En það var ekki samvizkubit annarra manna, sem hann átti við, heldur sitt eigið samvizkubit. Öll hans ræða hér áðan gekk út á það að reyna að réttlæta það samstarf, sem hann hefur hafið við Sjálfstfl. og ætlar sér að halda áfram. En hann fær að vita það í kosningum framvegis eins og hingað til, að verkalýðurinn í þessu landi ætlast ekki til, að þess háttar vinstri stjórn verði sett upp, heldur vinstri stjórn í anda þeirrar stjórnar, sem starfaði undir forsæti Hermanns Jónassonar.

Þegar hæstv. fyrrv. forseti Alþ., þm. A-Húnv. fyrrv., Jón Pálmason, talaði hér í kjördæmamálinu á s.l. vori, þá sagði hann, sem rétt var, að þetta væri stærsta mál, sem fyrir Alþingi hefði komið. Það er því ekki að ástæðulausu, að það sé minnt á það, hvernig með þetta mál hefur verið farið af hálfu flutningsmanna, sem telja sig vera að berjast fyrir réttlætismáli þjóðarinnar vegna.

Þegar þetta frv. var fyrst lagt fram hér á hv. Alþ., þá fylgdi því lítil grg., — grg., sem er minni en venja er til að fylgi með þáltill., sem þm. vilja nokkuð skýra. Í þessari grg. voru þó fullyrðingar, sem ekki fá staðizt, eins og bent var á hér í útvarpsumr. um það mál s.l. vor. Þegar þetta mál var tekið til meðferðar hér á hæstv. Alþ., flutti 1. flm. örstutta ræðu í sambandi við útvarpsumr., en aðrir flm. þess eyddu sínum tíma mest í það að deila hvor á annan, því að þeir höfðu þá ekki tekið upp jafninnilegt samstarf og nú er orðið. Og þegar umr. fóru að hefjast um þetta mál hér á hæstv. Alþ. og við Framsóknarflokksmenn tókum þátt í þeim umr., þá var það bara kallað af flm. málþóf, sem var tæplega þinglegt og annað eftir því. Það var ekki ástæða til að vera að eyða tímanum í þessa umr. að dómi flm., enda voru þeir ekki að ómaka sig til þess að taka mikinn þátt í þeim umr. Og það var ekki fyrr en búið var að særa flm. og aðra fylgismenn þessa máls til þess að taka þátt í umr., að þeir fóru að gera það hér á hæstv. Alþ. Stefnan var hins vegar sú, að umr. skyldu vera sem minnstar og málið fara fram í kyrrþey.

Þegar út í kosningabaráttuna kom í vor, þá var það á allra vitorði, að þessar kosningar fóru fram um þetta mál. En hverju var haldið fram af fylgismönnum málsins? Var því haldið fram, að það ætti að kjósa um þetta mál, næsta Alþ. ætti um það að fjalla, en til þess væri ekki kosið með venjulegum hætti? Nei, því var ekki haldið fram. Þar sem ég kynntist málum, sagði sjálfstæðisframbjóðandinn: Það á ekki að kjósa um kjördæmamálið eingöngu, heldur um vinstri stjórnina. Það er hún, sem á að fordæm, og það á að nota kjörorðið: Aldrei framar vinstri stjórn. — Alþb.-frambjóðandinn hélt því ekki heldur fram, að það ætti að kjósa eingöngu um kjördæmamálið. Nei, það var landhelgismálið og þáttur þeirra í landhelgismálinu og þátttaka þeirra í vinstri stjórninni og svo það, að Framsókn hefði rofið það samstarf. Það var þetta, sem átti að kjósa um, en ekki kjördæmamálið. Og Alþfl.–frambjóðandinn hélt því líka fram, að það ætti ekki að kjósa um kjördæmamálið, það ætti að kjósa um stefnu ríkisstj. Það var stefna hæstv. ríkisstj., sem kjósendurnir áttu að kjósa um og þeir, sem vildu votta ríkisstj. traust sitt, áttu auðvitað að fylgja honum. En svo, þegar kosningarnar eru afstaðnar og það er búið að leggja málið fyrir þjóðina á þennan hátt, þá er því haldíð fram, að það hafi ekki verið kosið um neitt annað en kjördæmamálið. Það vita þó þessir hv. þm., sem tóku þátt í kosningabaráttunni og þeir frambjóðendur aðrir, sem það gerðu, að þannig var ekki frá málinu gengið í þeirri baráttu. Þjóðinni var sagt, að hún ætti að kjósa um almenn stjórnmál, en ekki um kjördæmamálið eitt. Þess vegna var sú niðurstaða, sem fékkst af kosningunum, ekki sú, sem til var ætlazt með kosningunum og hugsuð er með þessu ákvæði stjórnarskrárinnar.

Ef eingöngu hefði verið barizt um kjördæmamálið í kosningunum og því haldið fram, að það eitt mála væri það, sem um væri barizt í þessum kosningum, þá væri niðurstaðan, sem fékkst, rétt og þjóðarviljinn sá, sem greint hefur verið. En það var einmitt forðazt að halda því að fólkinu, að það væri kjördæmamálið, sem kosið væri um. Þess vegna liggur ekki fyrir neinn ákveðinn vilji fólksins um kjördæmamálið.

Mér er kunnugt um það, að margir af kjósendum í mínu kjördæmi, sem voru andstæðingar kjördæmamálsins, fylgdu Sjálfstfl. að málum, og þeir létu það ráða, þegar að kjörborðinu kom.

Þess vegna er viðhorfið til þessa máls nú með öðrum hætti, en það hefði átt að vera, að þessum kosningum afstöðnum, ef fylgismenn málsins hefðu lagt það fyrir þjóðina svo sem við framsóknarmenn gerðum.

Nú er því hins vegar haldið fram, að við drögum rangar ályktanir af kosninganiðurstöðunni, þegar við bendum á þetta.

Og viðbrögðin, sem nú blasa við, eru þau sömu og voru hér s.l. vor. Það á að reyna að hraða málinu sem mest, svo að fólkinu í landinu gefist sem minnst kostur á að fylgjast með því. Allt er gert til þess að sem minnst beri á því, sem hér er að gerast. Þegar við þm. komum hér til þings, þá er haldið fram í blöðum þríflokkanna, að nú sé ekkert annað að gera en samþykkja málið á nýjan leik, framsóknarmenn séu að vísu vísir til að fara að hefja hér málþóf og umr. um þetta mál, en slíkt eigi alls ekki við og þeir séu svo fráleitir, að þeir séu meira að segja farnir að flytja hér á hæstv. Alþ. þáltill., þó að á þessu sumarþingi sé.

Ég verð að segja það, að ef það er ástæðulaust að ræða stærsta mál, sem fyrir Alþ. Íslendinga hefur komið, meira en venja er til um smámál, til hvers er þá sett í þingsköp, að hvert mál skuli fara í gegnum þrjár umr. í hvorri deild, ef það á ekki að vera trygging fyrir því, að máli sé ekki flaustrað áfram og þm. og þjóðin í heild fái að fylgjast með umræðum og gera sér grein fyrir málum? Og hvenær á það við að ræða mál almennt og ræða mál rólega, ef það er ekki þegar stærsta mál, sem fyrir Alþ. þjóðarinnar hefur komið, er á ferðinni?

Og það er enn þá ástæða til að ræða þetta mál, ekki sízt vegna þess, að í síðustu kosningum var staðið að þessu máli af hálfu fylgismanna þess eins og ég hef hér lýst. Og af hverju er svo verið að reyna að hraða þessu máli í gegnum þingið bæði í vor og eins nú? Það er vegna þess, að það þarf að leyna fyrir þjóðinni, hvað hér er að gerast. Það þarf að reyna að fá þjóðina til þess að átta sig ekki á því, að það er verið að skerða rétt héraða landsins utan Reykjavíkur með því að afnema rétt þeirra til þess að velja sinn sérstaka þingfulltrúa. Það er verið með þessu máli að breyta öllu félagsmálakerfi landsmanna. Ef þessi stjórnarskrárbreyting verður að stjórnarskrá lýðveldisins, þá er enginn vafi á því, að okkar félagsmálakerfi, hlýtur að breytast í samræmi við þetta. Það hljóta að verða teknar upp hlutfallskosningar í verkalýðsfélögum og öðrum stórum félögum, sem foringjar þeirra hafa þó ekki til þessa viljað fallast á. Ef menn athuga félagsmálakerfi okkar, þá er það augljóst, að það er í verulegum atriðum sniðið eftir sama viðhorfi og er hér á Alþ. Og þess vegna hlýtur það að fara svo, ef þessi skipan á einhverja framtíð fyrir sér, að þá hlýtur okkar félagsmálakerfi einnig að breytast í sambandi við það.

Og hvers vegna er svo verið að þessu? Er það vegna þess, að fólkið í landinu hafi sjálft óskað eftir því? Ég spurði um það hér í umr. í vor, hvort kjósendur í kjördæmum landsins hefðu almennt óskað eftir því, að kjördæmi þeirra yrðu lögð niður og upp yrðu tekin stór kjördæmi. Því var ekki svarað þá og mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið gert enn þá. Það hafa engar óskir komið upp um það nú. Því mun hins vegar reynt að halda fram, að þar sem þríflokkarnir höfðu meiri hluta kjósenda, þar hafi fólkið viljað þetta. En það var bara kosið um annað en þetta, og það voru fyrst og fremst flokksböndin, sem voru látin halda í þessum kosningum.

Nei, það, sem hér er verið að gera, er að neyða upp á fólkið úti um landsbyggðina kjördæmaskipan, sem það vill ekki. Það verður við hana að búa, hvort sem því líkar betur eða verr, og þessi skipan mun ekki leiða til neins samstarfs hjá þessum héruðum, því að þeim er ekki ætlað annað sameiginlega, en kjósa fulltrúa til Alþ., hvernig sem þau á annað borð líta á það. Það er ekki verið að stofna þarna nýjar félags- eða fjárhagseiningar, heldur aðeins verið að neyða þessi héruð til þess að kjósa saman alþm., og annað er það ekki.

Þessi skipan mun þess vegna ekki verða til þess að létta undir samstarf héraða, heldur til þess að búa til ný deiluatriði, sem ekki voru til staðar áður og þetta er gert til þess, að flokkarnir uppskeri réttilega af fylgi sínu eins og fylgismenn frv. halda fram. Breytingin á að greiða fyrir því, að kommúnistaflokkurinn geti vaxið og dafnað í þessu landi, eins og hv. 3. þm. Reykv. hefur greinilega tekið fram. Hins vegar mun það sýna sig hér eftir sem hingað til, að þjóðin aðhyllist ekki stefnu kommúnista og þeim mun þess vegna ekki takast að fá fylgi út á þetta eitt. Þetta á að greiða fyrir því, að Sjálfstfl. nái meiri hluta á Alþ. og ekki er nokkur vafi á því, að af flm. þessa máls mun sá flokkur græða mest, þó að hins vegar muni hann ekki ná þessu marki nú a.m.k. í náinni framtíð. Og þetta á að vera til þess að tryggja Alþfl. líf, enda þótt honum hafi gengið illa að halda fylgi og útlitið núna sé ekki á þann veg, sem þessi flokkur hugði.

Eftir síðustu kosningum að dæma ætti Alþb. að fá einum þm. fleira, en hann hafði á síðasta Alþingi og Alþfl. einum þm. færra. Þetta er nú öll uppskeran af því, sem til er sáð með þessum breytingum. Hins vegar héldu þessir menn, þegar þeir voru að reikna á s.l. vetri, að þeim mundi takast að reikna Framsfl. út úr dæminu, hann yrði nú áhrifalaus flokkur, svo að þeir gætu þess vegna ráðið sínum málum, án þess að hann hefði þar nokkur áhrif á. Það hefur hins vegar sýnt sig, að fólkið í landinu lítur öðruvísi á það. Því er nú fullkomlega ljóst, að Framsfl. er sá eini íhaldsandstæðingur, sem nokkuð dugir fyrir það. Þess vegna eru fleiri og fleiri, sem sameinast um Framsfl., og hann mun verða sá andstæðingur Sjálfstfl., sem mun verða höfuðandstæðingurinn, bæði til sveita og sjávar, hér eftir. Þessum mönnum mun þess vegna ekki takast að eyða Framsfl. með þeirri löggjöf, sem þeir eru nú að setja.

Eins og ég tók fram áðan í upphafi máls míns í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Reykv., þá var það hans höfuðsjónarmið, að það væri hægt að fá Sjálfstfl. til þess að gleyma dreifbýlissjónarmiðinu, sem væri ekki hægt með Framsfl. Og það er þetta sameiginlega takmark þessara flokka, sem að er stefnt. Það var þegar byrjað á því í fyrravetur að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda úti um landsbyggðina og á því á að verða áframhald. Það kom greinilega fram í ræðu hjá hv. 1. þm. Reykv. hér á s.l. vetri, þegar hann taldi, að fjárfestingin, sem úr mætti draga, væri framkvæmdir kaupfélaganna. Það er þessi stefna, sem er sameiginleg fyrir þessa flokka og það er þessi stefna, sem er undirstaðan undir því, sem hér er verið að gera.

Enda þótt það séu nú í upphafi þings gerð hálfgerð hróp að okkur um það, framsóknarmönnum, að við eigum nú ekki að vera að tefja fyrir hér á Alþ. með málþófi, eins og það er kallað og það er hafin ádeila á okkur í blöðunum, áður en þing hefur starf og nokkur maður farinn að taka hér til máls, þá munum við, framsóknarþm., líta á það og telja það skyldu okkar að benda þjóðinni á, hvað hér er að gerast. Við munum benda henni á það, svo sem við höfum gert, að það er verið að leggja í rúst það félagsmálakerfí, sem hefur verið uppistaðan í allri hennar sigurgöngu í sjálfstæðisbaráttu, bæði landsins og héraðanna í heild. En það er verið að taka upp kerfi, sem hefur reynzt öðrum þjóðum til falls og átti að nokkru leyti þátt í því að leiða yfir þjóðirnar hörmungar og sorgir, svo sem hlutfallskosningakerfið gerði í Þýzkalandi. Það er verið að taka hér upp kerfi, sem á minnkandi fylgi að fagna í heiminum, vegna þess að það hefur ekki reynzt eins og haldið var í fyrstu.

Það eitt er víst, að við framsóknarmenn munum ekki telja eftir okkur að vara við því, sem hér á að gera, og haga okkur í þeirri baráttu eins og okkur þykir rétt hverju sinni.