11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði alls ekki að taka aftur til máls undir þessum umr., en af því að hv. 6. þm. Reykv. (GTh) fór hér að segja sögu, sem ég áreiðanlega þekki betur en hann, sökum þess að ég er eldri maður og hef verið lengur hér á þingi en hann, þá þykir mér rétt að gera ofur litla athugasemd við þessa sögu.

Í fyrsta lagi var það, að hann var að tala um, að það hefðu verið fleiri flokkar og fleiri listar í kjöri hér áður fyrr, meðan ekki voru hlutfallskosningar, heldur en aftur síðar. Hann tók árið 1916 til dæmis um það. Þá voru hlutfallskosningar um land allt, þá voru kosnir sex landskjörnir þm. með hlutfallskosningum og listarnir, þessir mörgu listar, voru í kjöri við þær kosningar. En í flestum kjördæmum var það fyrirtæki hvers einstaks frambjóðanda að bjóða sig fram og valt á ýmsu um fylgi og margir voru þá í kjöri og náðu meira að segja kosningu, sem ekki lýstu yfir fylgi við nokkurn sérstakan flokk. En að svo mörgum aðilum datt í hug að bjóða fram við landskjörið var auðvitað vegna þess, að það fór fram landskjör, því að annars hefði þeim ekki getað komið til hugar, að þeir næðu kosningu.

Sama er að segja um það, þegar fyrst var kosið hlutfallskosningu í bæjarstjórn í Reykjavík. Þá voru ekki pólitískir flokkar, sem buðu fram. Það voru kvenfélög og alls konar félagsskapur í bænum, Iðnaðarmannafélag, ef ég man rétt og alls konar félög önnur, sem þá buðu fram.

Einmitt á þessum árum, um 1916, var flokkaskipun hér á landi alls ekki skýr. Það höfðu verið tveir aðalstjórnmálaflokkar, Heimastjórnarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, áður fyrr, en þeir voru komnir í nokkra upplausn og þá meðfram vegna þess, að deilan við Dani var þá svo til að enda og eiginlega voru ekki aðrir stjórnmálaflokkar til í landinu þá, en þessir tveir. Sjálfstfl. var að vísu klofinn, flokksbrotin voru kölluð af öðrum langsummenn og þversummenn og þeir buðu fram tvo lista, eða hvort brotið bauð sinn lista fram. Sigurður Eggerz var efsti maður á öðrum þeirra, Einar Arnórsson á hinum. Og ég held, að það, sem hv. 6. þm. Reykv. nefndi hinn eldri tíma í þessu efni, sanni ekki neitt um það, hvort hlutfallskosningar fjölgi flokkum eða ekki og afsanni ekki þá kenningu, að líklegt sé, að hlutfallskosningar fjölgi flokkum. Það voru 5 flokkar í kjöri við síðustu kosningar og 6 við kosningarnar næst áður. Og hvernig stóð nú á því, að bæði Þjóðvarnarflokkurinn og Lýðveldisflokkurinn svokallaði fóru að bjóða fram? Þeir höfðu ekki nokkra von um að koma manni á þing annars staðar, en í Reykjavík, þar höfðu þeir von um það, vegna hlutfallskosninganna í Reykjavík. Þess vegna höfðu þessir flokkar menn í kjöri. Það er alveg gefið mál.

Ég skal svo ekki eyða tíma til að ræða frekar um þetta.

En svo vék hv. þm. að sögu Framsfl. og fór þar rangt með að ýmsu leyti. Hann rakti þá sögu ekki í réttri tímaröð. Ég ætla að breyta því í rétta tímaröð. Það er alveg rétt, að Benedikt Sveinsson féll við kosningar í Norður-Þingeyjarsýslu vorið 1931. En það var ekki stjórn Framsfl., sem stóð fyrir því að fella hann. Það kann að vera, að einn mikill áhrifamaður í Framsfl. hafi stutt að því, en flokkurinn sem slíkur gerði það ekki. Það voru heimamenn, sem það gerðu. Það var einmitt samþykkt á fundi í Framsfl., þar sem allir þm. flokksins voru, það var meðan stóð á óspektunum út af þingrofinu 1931, að allir þm. flokksins skyldu vera í kjöri í næstu kosningum, Benedikt Sveinsson eins og aðrir. Þess vegna er það, að það voru Norður-Þingeyingar sjálfir eða hluti þeirra, sem vildi skipta um þm., en ekki flokksstjórnin og ekki flokkurinn. Og þm. flokksins verða þó að teljast, eins og þá var a.m.k., frekar stjórn flokksins, því að það var ekki komið eins fast skipulag og nú er á flokkana. Það er rétt, að 1933 voru tveir þm. Framsfl. reknir úr flokknum sökum þess, að þeir neituðu að styðja stjórn, sem flokkurinn hafði samþ. að standa að og styðja. Ég skal nú ekki segja, hvort þetta hefur komið fyrir með sama hætti áður. Ég veit þó, að flokkar hafa áður rekið menn. Þegar ég var unglingur, kom það fyrir, að mikils metinn þingmaður var rekinn úr sínum flokki. Það var Guðlaugur Guðmundsson bæjarfógeti á Akureyri. Hann var rekinn úr flokki, sem þá hét Þjóðræðisflokkur, fyrir það, að hann var með því að leggja síma til landsins og um landið, sem flokkurinn var á móti. Og það verð ég að segja, að ef nokkurn tíma á að reka mann úr flokki, þá virðist mér það helzt vera það, ef hann stendur ekki að sömu stjórn og flokkurinn í heild sinni, því að ef nokkuð á að vera flokksmál, þá er það þó stuðningur við stjórn.

Þegar svokölluð nýsköpunarstjórn var mynduð, var einhver þrjózka í sumum sjálfstæðismönnum og þeir voru hálft um hálft að lýsa yfir því, að þeir styddu ekki þessa stjórn, — ég held þeir hafi verið 5 eða 6. Það varð nú ekki mikið úr þeirri mótstöðu, þeir létu sig flestir og lutu flokknum. En einn af þessum þm. lét ekki undan og lýsti hreinni andstöðu. Hann var ekki kannske beinlínis rekinn úr flokknum, en hann fékk sína refsingu. Hann hafði áður um allmörg ár verið forseti sameinaðs Alþingis, honum var sparkað úr því og svo var hann sendur til annars lands fljótt á eftir, að vísu í virðulega stöðu, en a.m.k. flokkurinn kærði sig ekki um að hafa hann lengur á þingi. Ég held því, að það þurfi ekkert að tala um það, að Framsfl. hafi mest flokksvald allra flokka og eitt er víst og það er það, að skipulag Framsfl. er slíkt, að fólkið á að ráða. Eftir flokkslögum Framsfl. nú eiga fulltrúar fólksins heima í héruðum að ráða því, hverjir eru frambjóðendur flokksins. Ég efast um, að það séu jafnskýr ákvæði um það í öðrum flokkum.

Ég sé, að það er kominn tími til að gefa fundarhlé og ég skal ekki orðlengja þetta frekar. En ég held, að hv. 6. þm. Reykv. þurfi ekkert að vera með aðdróttanir til Framsfl. um það, að þar sé meira flokksvald og miðstjórnarvald en t.d. í Sjálfstfl. — [Fundarhlé.]