11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. (GíslJ) gerði nokkrar athugasemdir út af því, sem ég hafði sagt. Flestar voru þær ónýtar og ég lít á þær eins og meinakindur, sem eru sama sem sjálfdauðar. Ein var þó allstór ásökun á Framsfl., því að hann sagði, að aldrei hefði sveitunum og dreifbýlinu verið greitt þyngra högg — eða eitthvað á þá leið, sagði hann — en þegar Framsfl. hefði fellt frv. um jafnvægissjóð. Í þessu er mikill misskilningur hjá hv. þm., eins og oft vill henda á þeim bæ. Frv. þetta lagði hæstv. þáverandi forsrsh., Ólafur Thors, fyrir þingið sem stjórnarfrv. Það kom aldrei til úrslitaatkvgr., því að hann tók það aftur á þinginu. Framsfl. greiddi því aldrei þetta högg. En annað gerði Framsfl., sem líklegt er að hafi verið sveitunum meira hagræði, en þótt fram hefði gengið þetta frv., sem hv. þm. Barð. átti þátt í að semja og var vitanlega annt um, því að hann er mjög ræktarsamur við sínar hugmyndir: Framsfl. beitti sér fyrir því, að tekið var upp á fjárlög atvinnuaukningarfé, sem hefur orðið dreifbýlinu ákaflega mikils virði, en eftirlæti hv. þm. Barð., núverandi stjórn, lækkaði að verulegu leyti í vetur, við afgreiðslu fjárlaganna.

Ég hygg að þetta sé nóg um það atriði.

En það, sem kom mér nú fyrst og fremst til þess að biðja um orðið, var ræða hv. 6. þm. Reykv. (GTh). Hann er nú víst ekki mættur hér núna aftur eftir hléið, en forseti gefur ekki grið með bið, og þess vegna verð ég að minnast á ræðu þm., þó að hann sé ekki viðstaddur.

Hann hélt því fram, að hlutfallskosningar væru ákaflega heppilegt fyrirkomulag og við Íslendingar hefðum sönnun fyrir því, að þær leiddu ekki til smáflokkaþróunar. Hann hélt því fram, að bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík, sem farið hafa fram eftir hlutfallskosningafyrirkomulagi lengi, sýni það, að ekki sé mikil tilhneiging til smáflokkaþróunar, því að aðeins 5 flokkar hafi boðið fram við síðustu kosningar. Það, sem hefur hjálpað Reykjavík í þessum efnum, er það, að hún hefur jafnan miðað sig við landsmálaflokka í kosningum til bæjarstjórnar og það hefur verið boðið fram í Reykjavík eftir stefnum landsmálaflokkanna. Aðalfyrirkomulag í kosningum hefur verið einmenningskjördæmafyrirkomulag utan Reykjavíkur og þess vegna hefur ekki í landsmálunum getað þróazt flokkafjöldi. Reykjavík hefur þannig notið landsbyggðarinnar, að því er snertir það, að flokkafjölgunin hefur ekki orðið meiri.

Hann vill, eins og hann gerði nú raunar í vor og honum var svarað upp á þá, halda því fram, að Norðurlöndin séu ákaflega góð fyrirmynd, að því er þetta snertir, því að þar séu hlutfallskosningar. En það hlutfallskosningafyrirkomulag, sem verið er nú að taka hér upp, er ekki nákvæmlega sniðið eftir því, sem er á Norðurlöndum. Í Noregi, sem hann nefndi, er ekkert uppbótarkerfi, engin uppbótarþingsæti, en þau skipta ákaflega miklu máli hér í þessu sambandi. Langt er frá því, að höfðatölureglu sé fylgt þar. Í Svíþjóð er tvenns konar fyrirkomulag á kosningunum til þingsins. Amtafyrirkomulagið grípur þar inn í og að því er það snertir, þá hefur það svipuð áhrif einmitt og við, sem stóðum að fylkjaskipunartill., hugsuðum okkur að fylkin hefðu hér á landi.

Hann vill mæla á móti því, að vandræði Finna í stjórnmálum stafi af þeirra hlutfallskosningakerfi. Hann segir, að þau stafi af því, að þeir séu í nábýli við þjóð, sem þeir eigi mjög örðugt í sambýlinu við og verki mikið inn í þeirra pólitík. En það er ekki það nágrenni, sem veldur því, að það eru 8 flokkar í Finnlandi. Það er grundvöllurinn fyrir kosningafyrirkomulaginu, sem kallar fram þessa flokkaþróun og veikir þá við að þola hið sterka, áhrifaríka nábýli.

Hv. 6. þm. Reykv. lýsti því yfir, að hann vildi í mörgum efnum breyta stjórnarskránni og hann væri þeirrar skoðunar, að það ætti að gera á henni heildarendurskoðun hið allra fyrsta. Og hann sagði annað, að hann teldi, að 79. gr., sem ég hef mikið vitnað í við umr. þessa máls, væri eitt af því, sem þyrfti að breyta, það lægi sem sé fyrir að sínu áliti að taka upp það ákvæði, að allar breytingar, sem gerðar væru á stjórnarskránni, ættu að leggjast undir þjóðaratkvæði. Og hann gekk lengra, en ég hef gengið. Hann sagðist álita, að ýmis meiri háttar mál ættu að fá slíka meðferð að leggjast undir þjóðaratkvæði. Þar af leiðandi kom hann nákvæmlega inn á mína skoðun og annarra framsóknarmanna um það, hvernig ætti að fara að, þegar fyrir liggja brtt. við stjórnarskrána. Og þess vegna þykir mér það ákaflega undarlegt og algerlega í mótsögn við þessi orð, sem hann virtist tala af fullri sannfæringu og ætlast til að tekin væru þannig, að hann skuli ekki hafa gengið inn á till. okkar um að leggja þessa breytingu stjórnarskrárinnar, sem hér er verið að ræða, undir þjóðaratkvæði sérstaklega og það einmitt fyrir það, að þetta er eitt af þeim atriðum í stjórnarskránni, nefnilega kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, sem hann sagði að væri viðkvæmast og erfiðast viðfangs til að fá samkomulag um. Hvers vegna vildi hann ekki einmitt í þessu þýðingarmikla atriði, að málið væri borið undir þjóðina til samþykktar eða synjunar eitt út af fyrir sig við atkvgr.? Hann gat ekki neitað því og gerði enga tilraun til þess, að heimilt hefði verið að gera þetta samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar, enda var það gert, þegar lýðveldisstjórnarskráin 1944 var afgreidd. Nei, í þessu kemur fram sérstök veila í framkomu hv. 6. þm. Reykv. og yfirlýsingu hans.

Hann vildi mótmæla því, að þjóðinni hefði ekki verið ljóst, að við kosningarnar síðustu hafði líka átt að taka afstöðu til breytinganna á stjórnarskránni. En hann sagði líka: „Meira að segja má vera, að eitt mál við slíkar kosningar hafi áhrif á atkvæði þessa kjósanda og annað á atkvæði hins.“ Með því hreint og beint lýsti hann því yfir, að stjórnarskráin hefði verið sett undir atkvæði á þann hátt, að verið gæti, að einn og annar hefði greitt atkvæði, án þess að það væri með tilliti til hennar. Atkvgr. í kosningunum er því samkvæmt hreinni yfirlýsingu hans ekki eingöngu atkvgr. um stjórnarskrárbreytinguna. Og hvers vegna er þá slíkur maður á móti því, að hrein atkvgr. eigi sér stað, eins og við höfum lagt til?

Þá minntist hann á það, að ég hefði talað um, að hætt væri við því og raunar sjálfgefið, að flokksstjórnir mundu fá aðstöðu til þess að hafa meiri áhrif, en áður á framboð og það mundi verða flokksstjórnarvaldið, sem réði framboðum og því, hverjir í framtíðinni færu með umboð fyrir fólkið. Og hann vildi halda því fram, að mér færist ekki um þetta að tala, vegna þess að Framsfl. hefði verið sá flokkur, sem hefði beitt sterklegast flokksstjórnarvaldi. Og hann gekk svo langt í átt til mín, að hann benti á það, að einmitt í mínu kjördæmi væri dæmi um þetta, sem hefði komið fram við kosningarnar til þings 1946, þegar Jónas Jónsson var í kjöri og Björn Sigtryggsson á Brún. Hann vildi halda því fram, að þá hefði flokksstjórnarvaldið spillt þessum kosningum. Þetta er reginfjarstæða. Hann gat ekki tekið gleggra öfugdæmi en þetta, því að það var fulltrúaráðið í Þingeyjarsýslu, sem ákvað framboðin. Meiri hluti fulltrúaráðsins ákvað, að Jónas Jónsson skyldi vera í kjöri. Minni hlutinn ákvað aftur á móti, að Björn Sigtryggsson skyldi vera í kjöri. Og það er að vísu rétt, að miðstjórn Framsfl. mælti með Birni Sigtryggssyni, en heimastjórnin, þ.e.a.s. frelsið í flokknum, það var svo mikið, að almenningur réð og varð ekki fyrir nokkru hnjaski af hálfu flokksstjórnarinnar, ekki nokkru. Þetta var talið sjálfsagt í þeim flokki. Og þetta er einmitt sterkasta sönnunin fyrir því, að innan Framsfl. ríkir lýðræði. Og ég hefði haft gaman af því, ef hv. 6. þm. Reykv. eða einhver, sem hér er, t.d. hv. þm. Barð., sem er nú framgjarn og hýr á brá, vildi sýna fram á, að sambærilegt dæmi væri til í Sjálfstfl. um lýðfrelsið. Nei, þetta dæmi var mesta fjarstæða. Og að því er snertir annað dæmið, sem hann nefndi, býst ég við, að aðrir svari, enda er þegar búið að svara því að nokkru eða jafnvel öllu leyti af hv. 1. þm. Eyf.

Ég er ekki í neinum vandræðum að gefa skýrslu um þetta, að því er Þingeyjarsýslu snertir. Ég var þá í liði því í meiri hlutanum í fulltrúaráðinu, sem studdi Jónas Jónsson og þetta gat gerzt í Þingeyjarsýslu, án þess að varanleg sundrung yrði í flokknum. Hvergi stendur svo kannske flokkurinn betur saman en þar, þrátt fyrir þetta. Og það er einmitt af því, að við vitum það, framsóknarmenn, að þetta verður að geta átt sér stað og við þolum svona lýðræðisfyrirkomulag.

Þá fór hv. 6. þm. Reykv. að minnast á hið væntanlega stóra kjördæmi, sem ég er í, Norðurlandskjördæmi eystra og hann vildi halda því fram, að því væri gefinn aukinn hlutur. Það þótti mér nú satt að segja hlægilegt, þegar það er vitað og viðurkennt, að það er fyrir borð borið samkvæmt reglum þeim, sem hinir svonefndu þríflokkar settu sér, þegar þeir gerðu samning um kjördæmamálið. Í Norðurlandskjördæmi eystra ættu eftir fólksfjöldareglunni, ef tekið væri hæfilegt tillit til hennar, að vera sjö þingmenn, en eru nú bara 6 skv. frv.

Ég var að hugsa um það, mér þykir verst vitanlega, að þm. er ekki við, — en ég má til að segja það samt, að ég var að hugsa um það, hvernig á því gæti staðið, að maður með svo hárfínar taugar eins og hann er auðheyrilega, úr því að hann heyrði klökkva í rödd minni, þegar ég var að flytja hér ræður í gær og dag, án þess að þar væri nokkurt klökkvamál eða nokkur klökkvi til, — maður með svona hárfínar taugar skuli geta verið í hópi þeirra, sem vilja taka rétt af dreifbýlinu, vilja skerða sjálfstæði fólksins úti á landsbyggðinni, sjálfstæðið, sem það hefur og það hefur ekkert misnotað gagnvart öðrum landshlutum eða þéttbýlinu. Ég var að velta fyrir mér, hvernig gæti á þessu staðið, að hann skuli ekki skilja það, að samkvæmt kjördæmabyltingarfrv. er stórlega gengið á hlut byggða landsins — og svo mjög, að til mikillar ógæfu mun verða, ef einhver ófyrirsjáanleg góð öfl grípa ekki inn í. En undir lok ræðu hans skildi ég þetta loksins. Hann sagði nefnilega, að nær væri að kalla byggðastefnuna, sem talað hefur verið um í sambandi við þetta mál, óbyggðastefnu. Þá varð mér ljóst, að hann er svo óskyggn út fyrir þéttbýlið, út fyrir sína borg, að honum finnst, að sveitir landsins, sem þó eru byggðar fólki, sem við þekkjum margir vel, séu óbyggðir. Ég hef eiginlega ekki heyrt öll ljótara orð hrjóta af munni manns í þessum umræðum og átti ég sízt von á slíku af hv. 6. þm. Reykv. Hann er nefnilega sjálfur hvorki meira né minna en Höður hinn blindi, — Höður hinn steinblindi í þessu máli, — svo mikill þéttbýlismaður er hann, svo lítið þekkir hann land sitt þar fyrir utan.