11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þetta eru aðeins fáein orð. Ég hefði ekki tekið til máls, ef hv. 6. þm. Reykv. hefði ekki beinlínis skorað á mig að svara hér því, sem hann beindi til mín.

Ég vek athygli á því, að þegar hv. 6. þm. Reykv. nefnir dæmi úr sögu Framsfl., — ég vakti athygli á því áðan og vek athygli á því enn, — þá þarf hann að fara meira, en aldarfjórðung aftur í tímann til þess að geta fundið dæmi. Ég skoraði á hann áðan að nefna einhver dæmi síðan og hann nefndi ekki neitt. Ég ætla ekki að fara, þó að það væri ástæða til, að svara þessu með langri ádeilu á Sjálfstfl., en hann hefur þetta bara öðruvísi, en við höfum það a.m.k. í Framsfl. Þar, ef ágreiningur er um framboð á röðuðum lista, tekur flokksstjórnin að sér að láta strika þá út, sem hún er óánægð með og breyta röðinni á listanum, eins og saga er um, og veit hv. 6. þm. Reykv. áreiðanlega, við hvað ég á. En ef á að tala um lýðræði í Sjálfstfl., þá er sannleikurinn sá, að það er ekkert til. Það er ekki talað um, hvort það sé mikið eða lítið úti um landið. Nærtækasta dæmið er það, að það er svo laust við það víða, að það séu til flokksfélög, sem t.d. ákveða fulltrúa á landsfund, að þau eru ekki til í mörgum kjördæmum. Ég skal nefna dæmi. Ég sé, að hv. þm. N-Ísf. er að skrifa hjá sér, en ég skal þá benda honum á það, að það var verið að stofna flokksfélögin núna í kjördæmi formannsins í vetur og veit hann sennilega um það. Hverjir útnefndu fulltrúana þá? Það er ekkert launungarmál, að fulltrúar, sem mæta hér á landsfundi og ákveða stefnu flokksins, eru tilnefndir af flokksstjórninni, valdir af flokksstjórninni og borgaður ferðakostnaður fyrir þá til þess að fá þá til þess að koma hingað. (Gripið fram í.) Það er ekkert sussum, sussum, því að ég hef talað við fulltrúa, sem hafa viðurkennt það fyrir mér, sem ég þekki mjög vel.

Hv. þm. er að tala um mikið eða lítið lýðræði í Framsfl. Það hefur allt verið hrakið fyrir honum og dæmi, sem hann nefnir, eru aldarfjórðung aftur í tímann. Þá ætti hann að minnast lýðræðisins í sínum eigin flokki, sem væri ástæða til að gera hér að umtalsefni, en ég skal láta undir höfuð leggjast í þetta sinn.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði um, að stjórnarkreppan í Finnlandi stafaði ekki af því, að þar væru margir flokkar og hlutfallskosningar. Hvernig færi hann að koma á stjórnarkreppu, ef það væru meirihlutakosningar í einu landi? Hvar eru stjórnarkreppurnar, þar sem eru meirihlutakosningar í löndunum? Hvar er það? Þess vegna leiðir það af hlutarins eðli, að það stafar af hlutfallskosningum, vegna þess að stjórnarkreppur yfirleitt tíðkast ekki, þar sem meirihlutakosningar eru. Í meginatriðum skiptast kjósendurnir í tvo flokka venjulega, þó að til séu fámennir flokkar, sem liggja þar utan við stundum og það liggur í hlutarins eðli, að stjórnarkreppa verður ekki í þessum löndum, eins og ég benti á í seinustu ræðu. Þess vegna stafar vitanlega stjórnarkreppan í Finnlandi og Hollandi af hlutfallskosningunum, vegna þess að þær skapa marga flokka.

En það, sem hann breiddi sig út yfir, var réttlætið í þessu máli og hann spurði mig að því, hvort ég vildi í raun og veru fallast á það að hafa einmenningskjördæmi um allt landið og þá í Reykjavík. Það er alveg rétt hjá honum, að það hefur ekki verið tekin afstaða til þess, hvort það ætti að breyta því fyrirkomulagi, sem gildir í Reykjavík frá 1916, enda hefur það sýnt sig og sýndi sig, meðan einmenningskjördæmin voru alls staðar, að einmenningskjördæmin réðu alveg ferðinni um þróunina og komu í veg fyrir, eins og ég minntist á áðan, fjölgun flokka. En hann sagði, að það væri þokkalegt lýðræði, ef það yrðu einmenningskjördæmi í Reykjavík t.d. við bæjarstjórnarkosningar. Þá mundu þeir fá alla þm. Það er fjarri því, að þetta sé rétt. Það er nú m.a. þannig, að Sjálfstfl. í Reykjavík hefur haft meiri hluta fulltrúanna í Reykjavík, og sýnir það hve þetta er fullkomið kerfi eða hitt þó heldur, án þess að hafa meiri hluta kjósendanna fyrr, en við seinustu kosningar. Er það ekki rétt? (Gripið fram í: Nei, það er ekki rétt.) Ja, hvenær var það þá? (Gripið fram í: Það hefur oftast verið.) Það hefur ekki oftast verið. Nei, það hefur ekki oftast verið. Og dæmin eru nærtæk líka frá Keflavík og Sauðárkróki og fleiri stöðum, þar sem hlutfallskosningar voru við seinustu bæjarstjórnarkosningar. Þar eru þeir, sem ráða, í minni hluta, bæði í Keflavík og á Sauðárkróki.

Svo er annað náttúrlega, sem þessi rök hans, ef rök skyldi kalla, stranda algerlega á. Hann slær því föstu, að ef einmenningskjördæmi væru í Reykjavík eða annars staðar, þá fengi meiri hlutinn, t.d. í Reykjavík, alla fulltrúana. Þetta er þvert ofan í reynsluna alls staðar annars staðar, því að þar sem stað eins og Reykjavík, væri skipt í einmenningskjördæmi, án þess að ég taki á þessu stigi nokkra afstöðu til þess, þar sýnir það sig, að fulltrúarnir skiptast milli flokkanna í hinum mismunandi kjördæmum og þessir flokkar eru í meiri hluta í einu kjördæmi, aðrir í meiri hluta í hinu kjördæminu. Ef Reykjavík væri skipt í 15 kjördæmi við bæjarstjórnarkosningar, þá er alveg víst, að andstæðingar Sjálfstfl. mundu vera í meiri hluta í mörgum bæjarhlutum. Þetta er ekkert annað, en blekking. Það hefur hvergi skeð, svo að ég viti, þar sem bæjum hefur verið skipt. Og það sýnir bezt, að það er ekki til neins að slá þessu föstu. Hvernig er það í Englandi og Bandaríkjunum? Fær meiri hlutinn alla fulltrúana alls staðar? Nei, síður en svo. Vitanlega skiptist það þannig, að minni hlutinn hefur að lokum fulltrúa í mörgum kjördæmum, alveg eins og þegar bæ er skipt. Þess vegna er það ekkert annað, en fullkomin blekking að halda því fram, að skipting Reykjavíkur eða einmenningskjördæmi yfirleitt þýði það, að meiri hlutinn í landinu fái fulltrúana í öllum kjördæmum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að lengja þetta mál og endurtek það að lokum, að ég vildi óska þess, að samþykkt þessa máls yrði ekki til þess tjóns fyrir okkar þjóðfélag, sem allar líkur benda til að það verði. Og ég vil jafnframt vona, að sá tími sé skammt undan, að breyting verði á þessu hér og fullkomnara stjórnskipulag tekið upp í þessu landi ,en þessi ómynd, sem nú er verið að samþykkja.