23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði dregið að kveðja mér hljóðs aftur, vegna þess að ég gerði ráð fyrir því sem sjálfsögðum hlut, að höfuðtalsmaður eða höfuðtalsmenn Sjálfstfl. í d. gerðu grein fyrir viðhorfi flokksins nú eftir kosningarnar. En þar sem hæstv. forseti var, eins og eðlilegt var, þar sem enginn hafði kvatt sér hljóðs, að slíta umr., þá kvaddi ég mér hljóðs, þótt talsmenn Sjálfstfl. hafi ekki enn þá talað. Mun það vottur þess, að þeir ætli sér ekkert að segja eða hafi ekki neitt ætlað sér að segja við þessa 1. umr. málsins.

Má þetta alveg tvímælalaust til stórtíðinda teljast, því að ég hugsa, að það sé einsdæmi í sögu Alþingis, að mál eins og þetta hafi verið lagt fyrir hv. Alþ., án þess að þeir menn, sem mestan þátt hafa átt í málinu frá byrjun og bera það í raun og veru fram og uppi fyrst og fremst, segðu eitt einasta orð til þess að skýra viðhorf sitt og þá allra sízt, að slíkt hafi nokkru sinni skeð um mál eins og stórfellda breyt. á sjálfri stjórnskipan landsins.

Með þessu tel ég, að Alþ. sé sýnd óvirðing, sem er með öllu óviðeigandi. Það má vera, að með þessu ætli þessir „stóru“ menn, sem standa fyrir þessu stóra máli, að sýna okkur óvirðingu, sem tölum gegn málinu. En hafi þeir ætlað að gera það með þessu móti, þá er það alveg misskilið. En þeir gera annað. Þeir sýna þeirri stofnun óvirðingu, sem við þó allir ættum að virða, hvað sem við álitum hver um annan.

Það má vera, að sjálfstæðismönnum þyki málstaður sinn þannig og afstaða öll nú um þessar mundir þannig vaxin, að þögnin hæfi bezt. Og má vera, að þeir hafi nokkuð til síns máls í því. En það er samt engin frambærileg afsökun fyrir þessu, sem nú er fram komið.

Ég mun ekki bæta hér við það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu í dag um afstöðu sjálfstæðismanna sérstaklega í sambandi við þetta mál. Ég vék nokkuð að henni, sumpart sér í lagt og sumpart í sambandi við það, sem ég sagði um afstöðu flokkanna þriggja. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Á hinn bóginn mun ég svara hér nokkuð því, sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) tók fram til svars þeirri ræðu, sem ég flutti hér í dag.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði í fyrsta lagi og lagði á það megináherzlu í sínu langa máli, að það væri alveg sérstök lífsnauðsyn fyrir verkamenn í landinu að fá fram þá stjórnarskrárbreyt., þá breytingu á kjördæmaskipuninni, sem nú væri efnt til og það hefði verið alveg óhugsandi, að verkalýðurinn í landinu hefði getað fellt sig við að leysa kjördæmamálið eftir þeim leiðum, sem komu til greina af hendi framsóknarmanna.

Ég vil athuga ofurlítið þessa fullyrðingu hv. þm., því að hér er mikið í fang færzt af hans hendi að halda þessu fram.

Framsfl. hefur lagt fram miðlunartillögu í kjördæmamálinu, sem hann lét einnig greinilega vita um innan vinstri stjórnarinnar, áður en hún fór frá, sem sé þá málamiðlun að fjölga þingmönnunum á þéttbýlissvæðunum jafnmikið og þeir vilja, sem nú standa fyrir stjórnarskrármálinu. Um þetta var því ekki ágreiningur. En Framsfl. vildi jafnframt alls ekki fallast á að leggja niður héraðakjördæmin og setja í staðinn upp aðeins 7 stór kjördæmi.

Það er þetta og þetta eitt, sem ber á milli í kjördæmamálinu varðandi lausnina á stjórnarskrármálinu. Þetta er auðvitað mjög stórt grundvallaratriði, sem getur alveg skipt sköpum fyrir þjóðina á næstunni, eins og við höfðum sýnt fram á í þeirri málefnabaráttu, sem um þetta hefur verið háð. En það er alveg eftir enn og óleyst verkefni af hendi hv. 3. þm. Reykv. að sýna fram á það með rökum, að það sé sérstakt hagsmunamál fyrir verkamenn í landinu að leggja niður gömlu kjördæmin og innleiða þess í stað sjö ný kjördæmi einvörðungu, — að það sé algerlega óhugsandi, að verkamenn í landinu geti sætt sig við héraðakjördæmin og það sé sérstakt hagsmunamál fyrir þá að leggja þau niður. Hv. þm. á alveg eftir að sýna fram á, að það sé nokkur heil brú til í fullyrðingu hans um þetta. Mun þessi fullyrðing því reynast honum léleg afsökun fyrir því að eiga að því meginþátt að rífa niður vinstra samstarfið til þess að taka saman höndum við sjálfstæðismenn um að koma fram þessari breytingu á kjördæmaskipuninni, enda hygg ég sannast að segja, að sá verkamaður sé vandfundinn í þessu landi, sem mundi vilja taka undir þessi rök hv. þm. eða þessar afsakanir, sem áttu þó að vera undirstaða að allri afstöðu Alþb. og kommúnista um þetta mál.

Þá þrástagaðist hv. 3. þm. Reykv. á því, að Framsfl. hefði verið staður í stjórnarskrármálinu, — afturhald, — íhald, — hefði alls ekki skilið, að það þyrfti að gera neinar breytingar á kjördæmaskipun landsins og hefði aldrei skilið. Þess vegna hlyti það svo að fara og hefði svo farið nú, að vinstri flokkarnir, sem hann kallaði, hefðu ekki átt í annað hús að venda en til Sjálfstfl., íhaldsins, sem þeir kalla, til þess að leysa kjördæmamálið. Þeir hefðu orðið að gera það ekki aðeins núna, heldur oft áður. Og hv. þm. greindi til sönnunar þessu, að það, sem framsóknarmenn hefðu haft til málanna að leggja, hefði verið að innleiða í landinu einmenningskjördæmi einvörðungu, –afturhaldsstefna Framsfl., sem hann kallaði. Það hefði nánast verið móðgandi við þessa flokka að stinga upp á slíku.

En hv. 3. þm. Reykv. stakk bara aðalatriðinu í þessu efni algerlega undir stól. Hann sleppti því ósköp einfaldlega að greina frá því, að Framsfl, var allan tímann — og gerði það vitanlegt — reiðubúinn til þess að leysa kjördæmamálið eftir málamiðlunarleiðinni, sem hann síðar lagði fram á Alþingi. Og það er ekki að innleiða eintóm einmenningskjördæmi í landinu, heldur að fjölga kjördæmakjörnum þingmönnum, þar sem fólkinu hefur fjölgað mest og innleiða þar að vísu nokkur einmenningskjördæmi, en láta uppbótarþingsætin standa og héraðakjördæmin.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að með því að vera algerlega staður í kjördæmamálinu hefði Framsfl. setið af sér betri lausn, og hann sagði í því sambandi, að flokkurinn hefði „máske að einhverju leyti getað fengið betri lausn“, eins og hann orðaði það á einum stað í ræðunni. Og er þetta orðalag gott sýnishorn af málflutningnum. Sannleikurinn í þessu máli er einfaldlega sá, að Framsfl. stóð fullkomlega við það, sem hann hét, þegar efnt var til vinstra samstarfsins, að leita að málamiðlunarleiðum í kjördæmamálinu og gerði það ljóst, að hann vildi fallast á málamiðlun, sem hefði verið fullnægjandi fyrir þá, sem nú standa fyrir þessu máli, eins og hv. 3. þm. Reykv., ef þeir hefðu ekki lagt á það ofurkapp sem aðalatriði að fella héraðakjördæmin niður.

Það var sá ágreiningur, sem ekki var hægt að brúa, eins og eðlilegt er, því að þar er algerlega um grundvallarskoðanamun að ræða.

Í þessu sambandi vil ég einnig minnast hér á atriði, sem kom fram í ræðu háttv. 3. þm. Reykv. Hann sagði, að þm. S-M. hefði verið að tala hér um eitthvað, sem héti byggðastefna og flokkastefna í kjördæmamálinu og slíkt væri algerlega út í hött, sagði hv. 3. þm. Reykv. Fór hann í því sambandi að tala um, að það væri langt síðan gert hefði verið ráð fyrir flokkum í stjórnarskrá og kosningalögum landsins o.s.frv.

Ég vil rifja það upp með örfáum orðum, hvað það er, sem ég kalla byggðastefnu í kjördæmamálinu og hvað það er, sem ég kalla flokkastefnu.

Byggðastefnan í kjördæmamálinu er einfaldlega sú að miða kjördæmaskipunina fyrst og fremst við byggðarlögin, að ætla byggðarlögunum í landinu rétt til þess að kjósa sér sérstakan fulltrúa eða sérstaka fulltrúa, ef þeir eru fleiri, til Alþingis. Þetta kalla ég byggðastefnuna í kjördæmamálinu og tel það síður en svo út í hött.

En aftur á móti er til önnur stefna í þessu máli, og hún er sú, að það verði að svipta byggðarlögin þessum rétti til að kjósa sér sérstakan fulltrúa, því að ef sá réttur haldi áfram að vera, þá komi ekki út nákvæmlega rétt þingmannatala á Alþingi fyrir flokkana. Það geti sem sé farið þannig, að flokkarnir hafi ekki á Alþingi nákvæmlega jafnmarga þingmenn og þeir eiga að hafa miðað við kjósendatölu sína í landinu öllu. Og þessir menn segja: Það er aðalatriðið, að þetta komi rétt út fyrir flokkana, og þess vegna verður réttur byggðarlaganna að víkja fyrir rétti flokkanna. Það verður að nema byggðaréttinn burt til þess að auka líkurnar fyrir því, að flokkarnir fái sinn rétt.

Þetta eru tvær stefnur í kjördæmamálinu, byggðastefnan og flokkastefnan. Menn geta kallað þær öðrum nöfnum, ef þeir vilja, en þarna liggur grundvallaratriðið í öllu málinu.

Annars vegar eru þeir, sem vilja eins og áður byggja á byggðarlögunum og rétti fólksins í þeim. Hins vegar eru hinir, sem vilja miða stjórnarskrána og kosningalögin fyrst og fremst við flokkana og þeirra hagsmuni og hitt verði að víkja. Það er eins og áður hefur verið sagt, annars vegar eru þeir, sem líta þannig á, að það sé eðlilegast, að flokkarnir í landinu lagi sig eftir stjórnarskipuninni og byggðarlögunum, en hins vegar eru hinir, sem vilja laga stjórnarskipunina eftir flokkunum, — sem ekki sjá neinn fastan punkt í þjóðlífinu yfir höfuð nema flokkana, — eins og þeir þá líka eru nú fastir eða hitt þó heldur, sífelldum breytingum undirorpnir.

Sannleikurinn er sá og það mun eiga eftir að koma betur í ljós framvegis, að það er stórfellt óheillaspor að yfirgefa byggðastefnuna í kjördæmamálinu og taka nú upp á því að miða hér fyrst og fremst eða svo að segja einvörðungu við flokkasjónarmiðin. Þó að það sé sagt núna af forráðamönnum þessa máls, að þeir vilji taka tillit til byggðanna, nokkurt tillit, með því að hafa þó sjö hólf, þá er því jafnframt lýst yfir, að þetta sé aðeins áfangi, lokamarkmiðið, eina réttlætið sé það, að allir hafi flokkarnir þingmannatölu í samræmi við kjósendafjöldann. Og það þýðir, að lokatakmarkið í hugum allra þessara manna hlýtur að vera það, að landið verði raunverulega — raunverulega, segi ég, hvort sem það verður formlega eða ekki — eitt kjördæmi að lokum, ef það þarf til þess, að allt verði rétt frá sjónarmiði flokkanna. Þetta þýðir, að þeir geta fallizt á það, að fólk í afskekktari byggðarlögum landsins kjósi tiltölulega fleiri þingmenn en þeir, sem búa í þéttbýlustu héruðunum, þ.e.a.s., þeir geta fallizt á þetta því aðeins og á meðan þetta fólk kýs flokkana í nákvæmlega sömu hlutföllum og fólkið á þéttbýlissvæðunum gerir. Ef þetta fólk, sem býr víðs vegar í fjarlægari héruðum frá höfuðborginni, tekur upp á því að treysta einum flokki betur, en öðrum fyrir sínum málum, þá hlýtur sá flokkur að hafa tiltölulega fleiri þingmenn miðað við kjósendatölu en aðrir.

En þá koma bara þessir menn, sem núna standa fyrir kjördæmabreytingunni og segja: Nú er aftur orðið ranglæti, nú er aftur orðinn skakki í þessu máli, sem þarf að jafna og þá verður aftur rokið í stjórnarskrána, eins og við höfum séð að gert hefur verið, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar. Og þannig verður haldið áfram, vegna þess að flokkastefnan í kjördæmamálinu getur ekki leitt til annars en áframhaldandi skrefa í þessa sömu átt, að útþynna gersamlega þann sérstaka rétt, sem fólkið í byggðarlögunum hefur haft.

Að vera að tala um það, að einhver flokkur hafi sérstakan rétt í sambandi við fyrirkomulag á kjördæmaskipuninni, er vitanlega ekkert annað, en hrein fjarstæða. Enginn flokkur hefur neinn sérstakan rétt. Allir flokkar hafa sömu möguleika til þess að keppa um hylli þess fólks, sem býr í þessum kjördæmum, með því að sinna málefnum þess. Það má vel vera, að þetta fólk vilji frekar aðhyllast einn flokkinn en annan. Þá er það ekki fyrir það, að sá flokkur hafi nokkur sérréttindi, heldur er það fyrir hitt, að fólkið í þessum byggðarlögum hefur nokkuð sérstakan rétt, sem það notar á þann hátt, að það felur þeim, sem það treystir bezt, forráð sinna mála. Og það er þetta, sem á að taka af mönnum núna með því að breyta kjördæmaskipuninni eins og til stendur.

Þetta var um kjördæmamálið, sumpart af því tilefni, sem hv. 3. þm. Reykv. gaf, sumpart vegna þess, að nauðsynlegt er blátt áfram að taka fram þessi atriði einu sinni enn og máske oftar, áður en endanlega verður gengið frá þessu örlagaríka máli.

En það voru fleiri punktar, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist á, sem ástæða er til þess að rekja örlítið.

Það er fyrst þetta, að honum gerðist tíðrætt hér um vinstra samstarf og hverjir hefðu sundrað vinstra samstarfi og slitið vinstra samstarfi. Og hann sagði: Hv. 1. þm. S-M. er frægur fyrir að hafa slitið öllu vinstra samstarfl, sem hann hefur komið nálægt. — Þetta var efni þess, sem hann vildi sagt hafa. En hver var það, sem fyrstur tók spaðann til þess að grafa undan vinstri stjórninni? Hver stakk fyrstu skóflustunguna í sambandi við það verk? Ég ætla, að það hafi verið hv. 3. þm. Reykv., svo að ekki verði um villzt. Það var þessi hv. þm., sem frá öndverðu vann á móti vinstra samstarfinu innan Alþb. og var því mótfallinn frá byrjun. Og það var þessi hv. þm., sem beitti sér af alefli gegn efnahagslöggjöfinni 1958 og hóf í framhaldi af því stórfellda sókn á vinstri stjórnina í blaði sínu og með öllum hugsanlegum ráðum til þess að koma vinstra samstarfinu fyrir kattarnef. Og honum tókst það með aðstoð þeirra afla, sem núna standa ásamt honum að því að lögleiða nýju stjórnarskrárbreytinguna.

Fyrst var unnið saman að því að eyðileggja vinstra samstarfið og síðan að því að búa til nýja samsteypu, sem byrjar með því að tefla fram þeim minnsta, Alþfl., og láta hann leggja til ráðh. Síðan átti að byggja upp í kringum þennan litla kjarna hina nýja valdasamsteypu á stjórnarskrármálinu og þeirri stefnu í efnahagsmálum og fjárfestingarmálum, sem er grundvöllurinn fyrir því, sem nú er verið að gera.

Og þetta gerist smátt og smátt. Einn liðurinn er sá að reyra þetta núna fastar saman eftir kosningarnar með því að gera nú allsherjar bandalag um allar aðaltrúnaðarstöður þingsins og allt, sem máli skiptir í því sambandi og svo er meiningin að halda áfram, ef þessir menn fá að ráða, ef ráðin verða ekki tekin af þeim. En um það veit enginn. Það gæti orðið.

En það er alveg ljóst, hvað verið er að fara og hafi einhver verið í vafa um það, að hverju stefnt er, til að mynda af hendi hv. 3. þm. Reykv., sem hefur nú sölsað undir sig öll ráðin í Alþb., sem kallað er, kannske haft þau allan tímann, ég veit það ekki, — hafi einhver verið í vafa áður, þá getur enginn verið í vafa lengur.

Hann lýsti því hér með fjálglegum orðum og af mikilli mælsku fyrst, hvað Framsfl. væri óbilgjarn og hefði alltaf verið það, það hefði eiginlega aldrei verið hægt að tjónka neitt við framsóknarmenn. Þeir hefðu viljað öllu ráða og öllu ráðið, skildist mér og slíkt hefði hlotið að enda með skelfingu. Það hefði hlotið að enda þannig.

Við skulum nú athuga fyrst, hvernig þessi fullyrðing, — við vitum, í hvaða skyni hún er flutt, við sjáum allir, hvert stefnt er, — en við skulum athuga, hvernig hún fær staðizt. Hvað hefur verið sagt um þetta mál áður, úr þessum sömu herbúðum? Hefur því verið haldið að mönnum, að Framsfl. hafi ráðið öllu í vinstri stjórninni, t.d. núna síðast? Hefur því yfir höfuð verið haldið að mönnum? Ekki hef ég orðið var við það. Ég hef orðið var við hitt, að forustumenn úr flokki hv. 3. þm. Reykv. hafa bókstaflega ætlað að rifna af monti yfir því, hvað þeir hafi komið miklu til leiðar í samvinnunni við Framsfl. og hvað þeir hafi ráðið miklu.

Raunar allt, sem nýtilegt hafi verið framkvæmt og hafi hreint ekki verið svo lítið, hafi þeir gert, þeir hafi ráðið því, þeir hafi komið því í framkvæmd. Heldur kemur þetta illa heim við þessar fullyrðingar hv. 3. þm. Reykv. nú, enda vitum við ákaflega vel, af hverju hv. 3. þm. Reykv. er að gera sig broslegan með því að halda þessu fram. Þetta er bara vegna þess, að hann vill vinna með öðrum en framsóknarmönnum. En hverjir þessir aðrir eru, það er nú líka farið að skína nokkuð greinilega í það, hefur raunar gert áður, því þegar þessi hv. þm. hafði lokið því að lýsa frekju Framsóknar, sem kalla mætti og því, að hún hafi öllu ráðið og þeir engu fengið ráðið, sem þó gerðu raunar allt, eftir því sem upplýst hefur verið áður, þá tók hann sér fyrir hendur að gera grein fyrir því, hvað væri vinstri stjórn og hvað væri vinstri samvinna. Og niðurstaðan af þeim kafla var ósköp einföld. Hún var þessi: Það geta alveg eins verið vinstri stjórnir með sjálfstæðismönnum eins og framsóknarmönnum, alveg eins með íhaldinu og Framsókn, ef maður vildi orða það á því máli, sem áður tíðkaðist. Það gæti alveg eins verið vinstri stjórn. Það færi bara eftir því, hvað gert væri og aðallega eftir því, hverjir væru í stjórninni með íhaldinu. Og þá var það svona fyrir kurteisis sakir, að hv. 3. þm. Reykv. talaði um verkalýðsflokkana og sagði, að ef Sósfl. og Alþfl. væru báðir með, þá væri það víst áreiðanlega vinstri stjórn, þó að íhaldið væri þriðji aðilinn og vinstra samstarf væri það alveg hreinlega. Hann hafði Alþfl. með fyrir kurteisis sakir eða af einhverjum hagkvæmisástæðum í bili. En niðurstaðan af öllum þessum hugleiðingum hjá hv. þm. varð hreinlega sú, að ef kommúnistar væru í stjórn, þá væri það vinstri stjórn, hvað sem hún gerði og með hverjum sem það væri.

Hvers vegna er verið með þessar útlistanir? Hvers vegna var þetta ekki sagt fyrir kosningarnar? Ég hef aldrei heyrt þetta fyrr. Fyrir kosningarnar var alltaf verið að tala um vinstra samstarf eins og hugsjón af hendi Alþb., einhverja sérstaka hugsjón. Og ég held, að allir, sem hlustuðu á það, hafi staðið í þeirri meiningu, að það þýddi samvinnu vinstri flokkanna, sem kallaðir hafa verið og alveg áreiðanlega. En nú heyrum við allt annað. Vinstri stjórn, það er sem sagt hver sú stjórn, sem kommúnistar eru í, það mundi vera túlkuð vinstri stjórn. Og þá getum við svona hér um bil séð, hvaða hlut þeir ætla sér, ef í það fer, þessir menn, sem fara víðs vegar um landið og vilja láta kjósa sig á þing sem alveg sérstaklega einlæga, skelegga forustumenn fyrir vinstra samstarfi og engum öðrum sé hægt að treysta í því sambandi.

En þetta kemur okkur ekkert á óvart, sem til þekkjum, þó að þetta hafi ekki komið svona greinilega fram áður, svo að ég minnist þess. Þetta er bara staðfesting á því, sem við höfum sagt þjóðinni undanfarið. Við höfum sagt þjóðinni, að þau öfl innan Alþb., sem rifu niður vinstra samstarfið, hafa raunverulega verið að vinna að því að koma upp samvinnu með Sjálfstfl., fyrst í gegnum kjördæmabreytinguna, síðan í gegnum þá fjárfestingar og efnahagsstefnu, sem á að koma á eftir. Hér er bara hreinlega staðfesting á þessu, eins greinileg og verða má, fram komin. Hitt er svo aftur annað mál, hvort úr þessu verður, því þó að hv. 3. þm. Reykv. hafi undanfarið viljað þetta og vilji þetta enn, þá hefur hann ekki ævinlega ráðið og sérstaklega er alveg óvist, hvort megin þorri þess fólks, sem enn hefur kosið Alþb., ljær máls á því að fylgja því áfram, eftir að það er ljóst orðið, hvað forustumenn Alþb., sem nú ráða þar öllu, meina með vinstri stefnu og vinstra samstarfi og hvert þeir yfir höfuð eru að fara. Þannig er svo langt í frá, að þó að menn langi í eitt og annað og þó að það virðist kannske í dag ekki alls ólíklegt, að slík óskhyggja gæti rætzt, þá er alveg óvíst, hvað framtíðin ber í skauti sínu í þessu efni. Það er alveg óvíst. Línurnar eru að skýrast meir og meir í þessum efnum. Það eru byrjaðar breytingar í þjóðmálum landsins og sú þróun, sem vottar fyrir, getur mjög auðveldlega haldið áfram og sett strik í reikninginn hjá þeim aðilum, sem fyrir löngu eru búnir að leggja áætlun langt fram í tímann um það, hvað eigi að koma út úr öllu þessu. En viljinn er augljós og eftir þennan dag er hann enn augljósari, en hann hefur áður verið.

Að lokum svo aðeins eitt atriði til viðbótar, sem ég vil minna á. Ég minnti hér á það, hvernig kosningabaráttan var háð og hverju haldið var fram í kosningunum, fór þar að vísu ákaflega fljótt yfir sögu. Og ég minnti á í því sambandi, hvað farið væri að gerast nú hér á Alþingi um samstarf flokka og samsteypur og annað slíkt, val í trúnaðarstöður með meiru og ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði um þetta hér í dag.

En hv. 3. þm. Reykv., talsmaður stjórnarliðsins og stjórnarskrárliðsins, sagði, að þetta væri allt ákaflega eðlilegt og bara það, sem menn hefðu átt að búast við og þetta væri í raun og veru sjálfsagður hlutur. En ég segi: Ef þessir menn töldu það alveg eðlilegt og sjálfsagðan hlut, að þetta þing hlyti að byrja með algerri samstöðu þessara þriggja flokka um val í trúnaðarstöður og allt annað, ef þeir hefðu álitið, að það hlyti að byrja með því, að Alþýðubandalagsmenn t.d. kysu Bjarna Benediktsson, hv. 1. þm. Reykv., sem forseta sameinaðs þings, og að Sjálfstfl. aftur kysi forráðamenn Alþb. til æðstu trúnaðarstaða í þinginu og það yrði þannig algert samstarf um málefni og afgreiðslu þingmála, hvers vegna sögðu þeir þá þjóðinni, að það væri verið að kjósa t.d. um vinstra samstarf, það væri verið að kjósa um herferð gegn kommúnismanum, eins og Sjálfstfl. hélt fram. Hvers vegna sögðu þeir þetta í kosningunum, ef þeir höfðu hitt í huga? Það er spursmálið. Og ef þeir álíta nú það sem algerlega sjálfsagðan hlut, eins og líka er, að það eigi að snúa sér að stjórnarskrármálinu og samþykkja það eða fella á þessu aukaþingi fyrst og fremst, — ef þeir álitu það fyrir fram sjálfsagt, að þannig ætti að halda á málum og ekki taka neitt annað fyrir, hvers vegna sögðu þeir þá ekki þjóðinni, að það ætti að kjósa um stjórnarskrármálið til þessa aukaþings og hún ætti fyrst og fremst að taka afstöðu til þess, því að það væri málið, sem yrði afgr. núna á þessu aukaþingi, og annað ekki?

Hvers vegna sögðu þeir þjóðinni ósatt? Hvers vegna reyndu þeir að gefa alranga mynd af ástandinu með því að segja mönnum að kjósa til svona aukaþings um flokkastefnur, um það, hvort það ætti að vera vinstri stjórn eða ekki vinstri stjórn, um það, hvort það ætti að halda uppi herferð gegn kommúnismanum, eins og Sjálfstfl. lagði mikla áherzlu á, o.s.frv.? Hvers vegna komu þeir ekki hreinlega fram gagnvart þjóðinni og sögðu, um hvað átti að kjósa og hvað það var, sem þeir ætluðu að gera? En það var það, sem þeir ekki gerðu og það var það, sem ég gagnrýndi alveg sérstaklega í minni ræðu hér í dag og gagnrýni enn og sýnir, að þeir víssu, að það mundi ekki vera hægt að fá raunverulega nægilegan stuðning við það, sem þeir ætla að gera í stjórnarskrármálinu, ef drengilega var að öllu farið. Þess vegna var gripið til þess ráðs að reyna að merja út meiri hluta með málinu á röngum forsendum í flokkaviðjunum. Og það er þetta, sem ástæða er til þess að gagnrýna og það er þetta, sem veldur því, að það er alveg eðlilegt og skylda þessa þings að reyna að finna leiðir til þess, að þjóðin geti raunverulega sagt skoðun sína um kjördæmamálið án þess að blanda því inn í viðhorf til flokkanna eða önnur óskyld mál.