06.08.1959
Neðri deild: 11. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Stjskrn. hefur athugað þetta mál allgaumgæfilega og eins og fram kemur í nál. einnig haft nána samvinnu við stjskrn. Ed. Nefndin hefur flutt sameiginlega allmargar brtt. á þskj. 14 og stendur hún öll sameiginlega, eins og ég sagði, að þeim, en hins vegar er það svo, eins og fram kemur í nál. bæði meiri hl. og minni hl. á þskj. 15 og 17, að minni hl. n., þeir þm. Gísli Guðmundsson og Páll Þorsteinsson, skilar séráliti og er í heild á móti löggjöfinni og það er vegna þess ágreinings, sem verið hefur á milli flokkanna hér á þingi um kjördæmabreytinguna, sem hins vegar nú eins og áður er tekin upp í kosningalögin í 5. gr. Þessir tveir hv. þm. standa hins vegar að því, ef frv. verður samþ., að flytja við það þær brtt., sem þeir telja vera til bóta og samkomulag hefur verið um innan n. — Ég vil strax taka það fram, að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess umfram þær brtt., sem eru á þskj. 14, að flytja e.t.v. brtt. við þær og einnig fylgja öðrum brtt. eða flytja aðrar brtt.

Um brtt. á þskj. 14 skal ég fara nokkrum orðum og þá fyrst taka það fram, að þær eru í raun og veru við fyrstu sýn miklu meiri, en fram kemur, við nánari athugun og aðallega leiðir þessar mörgu brtt. af því, að nokkur mistök voru við samningu frv., þannig að ekki voru teknar inn í frv. brtt. þær, sem hlaut að leiða af þeirri breytingu hinnar nýju stjskr., að felld er niður heimild stjórnmálaflokka til þess að bera fram landslista. Þetta þurfti að leiðrétta og er mikið af brtt. eingöngu við það miðað. Um þessar einstöku brtt. skal ég svo reyna að gefa í sem stytztu máli þær skýringar, sem ég held að nægja mundu.

Fyrsta brtt. er við 3. gr. Hefur staðið í kosningalögunum um lengri tíma þetta ákvæði: „Gift kona telst fjárráð, þótt hún eigi óskilið fjárlag með manni sínum.“ Þetta leiðir af hlutarins eðli og annarri löggjöf, og er því óþarft að taka það fram og af þeirri ástæðu lagt til, að það falli niður.

Þá er lagt til í 2. brtt., að í 6. gr. breytist 3. mgr., þar sem segir, að í hreppum, þar sem kjördeildir eru færri en fjórar, eigi 20 kjósendur, sem búsettir eru í sama hreppshluta, rétt á, að hann verði gerður að sérstakri kjördeild, ef þeir krefjast þess, áður en kjörskrá hefur verið lögð fram, enda sé þessi hluti hrepps afskekktur og erfitt um kjörsókn þaðan að áliti yfirkjörstjórnar. Þessi heimild breytist að því leyti, að það sé nægjanlegt, að 15 kjósendur óski þess. Á það er að líta, að samgöngur eru að vísu miklu greiðari nú, en áður var og virðist af þeim sökum ekki ástæða til þess að fækka þessu, en á hinn bóginn hafa sumar byggðir orðið afskekktari, en áður vegna þess, að býli hafa í stöku stöðum og einstöku hreppum farið mjög í eyði og það aftur á móti virðist eðlilega ýta undir þá ósk, að réttara væri að hafa heimildina bundna við færri menn, en ella og varð n. sammála um það. Mundi þetta þá einkum taka til þess, þar sem örfáir bæir eru afskekktir, að þeim yrði hlíft við að sækja kjördeild um langan veg og liggja fyrir við nánari athugun dæmi þess, að fólk á afskekktum bæjum þarf kannske að fara allt upp í þriggja klukkutíma ferð í bíl, ef það ætlar að fara í aðra kjördeild, en fær ekki að kjósa á þessum stað, þar sem þó eru mjög fáir kjósendur saman komnir. Hitt vil ég svo leggja áherzlu á, að það ber auðvitað að gjalda varhug við, að þessi heimild sé misnotuð.

3. brtt. er við 10. gr., og það er nýmæli. Efni þess er það, að í kaupstöðunum, þar sem kjördeildir séu fleiri en ein, skipi yfirkjörstjórn umboðsmenn til þess að hafa með höndum yfirstjórn undirkjörstjórnanna á hverjum kjörstað, að svo miklu leyti sem hún hefur ekki sjálf aðstöðu til þess að koma slíkri yfirstjórn við. Þetta virðist vera næsta eðlilegt. Í kaupstöðunum, þar sem margar kjördeildir eru, þarf að vera samræmi í afstöðu og úrskurðum undirkjörstjórnanna. Þessu hefur verið auðvelt að koma við hér í Reykjavík. Þá hefur yfirkjörstjórnin setið á fundum allan daginn og hún hefur haft með höndum yfirstjórn undirkjörstjórnanna. En það er annars staðar þannig ástatt, ef við tökum t.d. Norðurlandskjördæmi eystra, þar er næststærsti kaupstaður landsins, Akureyri, sem áður hefur verið skipt í margar undirkjörstjórnir, yfirkjörstjórn er ekki á Akureyri, heldur fyrir þetta stóra kjördæmi og ekki víst, að hún hafi aðstöðu eða aðsetur á Akureyri á kjördeginum, og mundi þá í slíku tilfelli skipa umboðsmenn til þess að fara með yfirkjörstjórnina fyrir sína hönd. Sama tilvik gæti að sjálfsögðu verið annars staðar í kaupstöðunum. Í samræmi við þetta er svo bætt við því, sem var ekki áður í kosningalögunum, að yfirkjörstjórnir skuli jafnan vera reiðubúnar til þess að mæta fyrirvaralaust á fundi á kjördegi til ákvarðana og úrskurða í sambandi við kosningar, ef með þarf.

Þá er 4. brtt., við 13. gr. Þar hefur verið gert ráð fyrir því í kosningalögunum, að allir skipstjórar á íslenzkum skipum, ótiltekið bæði um stærð og atvinnuhætti skipanna, gætu verið kjörstjórar og í samræmi við það er síðar í lögunum lögð sú skylda á alla skipstjóra á íslenzkum skipum að hafa tiltekið magn af kjörgögnum fyrir hendi, þegar kosningar fara í hönd. Hér sýnist n. rétt að takmarka þessa heimild, eins og lagt er til í a-lið 4. brtt., að kjörstjórar séu aðeins skipstjórar á íslenzkum skipum í millilandasiglingum og á fjarlægum miðum. Er síðari gr. breytt með hliðsjón af þessu varðandi það að hafa tiltæk kjörgögn. Það sýnist engin ástæða til að hafa í skipum, sem eru hér við land, kjörgögn, enda hefur þetta ekki verið notað í framkvæmd og styðst þess vegna bæði við venju og það, sem telja má eðlilegt í þessu sambandi.

Svo er bætt við þessa 13. gr. nýmæli, svo hljóðandi: „Ef kjörstjórar eru í framboði, skulu þeir víkja sæti og varamenn gegna störfum þeirra og ekki má utankjörfundarkosning fara fram á heimili frambjóðanda.“ — Það sýnist næsta óeðlilegt, að kjörstjóri, sem er í framboði, geti haft með höndum utankjörfundarkosninguna og eins óviðkunnanlegt, að utankjörfundarkosning fari fram á heimili þess manns, sem er í framboði, en þetta hefur stundum átt sér stað, enda heimilt að lögum. En n. telur, að það sé rétt að breyta þessu, bæði sé það í samræmi við ýmis önnur hliðstæð ákvæði og óviðkunnanlegt, ef fyrir þetta er ekki tekið.

Smávægileg brtt. er við 21. gr., það er 5. brtt. Hún er um það, að hafi komið menn með aðfinnslur um kjörskrá, annaðhvort að þeir hafi fallið út eða aðrir ranglega verið teknir inn og ef þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, geta ekki sjálfir mætt, þegar um þessi mál er fjallað, þá hafi þeir rétt til þess að senda umboðsmenn fyrir sina hönd, og virðist það sjálfsagt.

Þá komum við að 6. brtt., sem er við 26. gr., og hana leiðir eingöngu af því, að heimildin til að bjóða fram landslista fellur niður og ekki önnur leiðrétting á henni.

7. og 8. brtt, eru af sömu sökum fram bornar. 28. gr. í frv. er um framboð landslista og fellur niður og þar af leiðandi er skipt greinum, sem á eftir koma, aðeins til að halda greinatölunni, og eru brtt. 7 og 8 við það miðaðar, þannig að 28. gr. í frv. fellur niður, en 29. gr. er breytt í samræmi við það, að landslisti er ekki borinn fram, en auk þess er hún klofin, þannig að greinatalan haldist óbreytt.

Þá er 9. brtt., við 30. gr. Hún er einnig aðeins í sambandi við landslistana og engin efnisbreyting önnur, en af því leiðir, að heimildin til að bera þá fram, fellur niður.

10. brtt. er við 33. gr. og einnig eingöngu breyting, sem leiðir af því, að landslistaframboð eru ekki leyfð.

Sama er að segja um 11. brtt., við 34. gr. Geri ég ráð fyrir, að menn sjái þetta auðveldlega, þegar menn bera það saman við frv.

12. brtt. er við 35. gr. og hún er einnig af sömu rótum runnin vegna landslistanna. Einnig 13. brtt., við 38. gr., en þar falla niður úr frv. 39. og 40. gr., sem fjalla um landslistaframboð, og 38. gr. svarar til þess, sem í frv. er 41. gr. og 38. gr. Það sama er að segja um 14. brtt., að 39. gr. orðist eins og þar stendur, en það var áður 2. málsgr. 38. gr., og er gerð að sérstakri grein til þess að halda greinatölu óbreyttri í frv.

Svo koma 15. og 16. brtt. Þær eru um það, hvernig eigi að merkja listana. Það eru óbreytt ákvæðin eins og þau eru í frv., en varð að taka það hins vegar upp í brtt., vegna þess að greinatala breytist á greinunum. En ég vil taka það sérstaklega fram, að um þetta út af fyrir sig er ekki samkomulag innan stjskrn., að listarnir skuli merktir með bókstöfum. Það var töluvert mikið rætt, bæði sameiginlega milli stjórnarskrárnefnda Ed. og Nd. og eins sérstaklega innan stjskrn. Nd., að fella niður þennan eldri hátt að merkja listana ákveðnum bókstöfum og þá aðallega stungið upp á því að kenna þá aðeins við þann stjórnmálaflokk, sem þeir væru fram bornir fyrir. Það kunna þess vegna að koma fram um þetta brtt. á síðara stigi málsins, vegna þess að þó að þetta sé flutt hér í brtt., þá var það, eins og ég sagði áðan, aðeins vegna þess, að greinatalan breyttist, en ekki vegna þess, að út af fyrir sig væri samstaða innan n. um það, að svo skyldi þetta vera með listabókstafina. Þetta taldi ég nauðsynlegt að taka sérstaklega fram nú á þessu stigi málsins.

17. brtt., við 42 gr., leiðir eingöngu af ákvæðinu um það, að landslistarnir eru felldir niður, og engin önnur breyt., sem í henni felst.

Svo kemur 18. brtt., við 47. gr. Hana leiðir af þeirri breyt., sem búið er að leggja til að gerð verði á 13. gr. Þar stóð áður „sérhver skipstjóri á íslenzku skipi,“ en er nú lagt til, að skipstjórar þeir, sem eru kjörstjórar við atkvgr. utan kjörfundar samkv. 13. gr., þ.e.a.s. aðeins skipstjórar í millilandasiglingum, skuli gæta þess, að til séu í skipinu fyrir hverjar alþingiskosningar nægar birgðir kjörgagna til utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Að öðru leyti er ekki breyt. á 47. gr.

Þá eru 19. og 20. brtt. Þær eru eingöngu afleiðingar af því, að ákvæðin um landslista falla niður, við 51. og 53. gr., og þarf ekki að skýra það nánar.

Næsta brtt., sú 21. í röðinni, er við 62. gr., og það er nokkurt nýmæli. Eins og verið hefur, hafa kjósendur, sem mátti með allmikilli vissu ætla að gætu ekki sótt kjörfund, vegna þess að þeir áttu að leggjast t.d. undir uppskurð og urðu væntanlega á spítala, hins vegar innan síns hrepps og kaupstaðar eða barnshafandi konur, sem gerðu ráð fyrir, að þær mundu verða forfallaðar á kjördegi, ekki getað neytt síns kosningarréttar, eins og greinin er orðuð, vegna þess að þessir aðilar máttu þá ekki kjósa áður, af því að þeir voru staddir innan kaupstaðar eða hrepps, þar sem þeir áttu að kjósa. En gr. tekur aðeins til þess, að það sé heimilt fyrir þá að kjósa utan kjörfundar, sem staddir eru eða gera ráð fyrir að vera staddir utan þess hrepps eða kaupstaðar, þar sem þeir standa á kjörskrá, þá er kosning fer fram. Og til þess nú að bæta nokkuð úr þessu, sem oft hefur komið fram að væri nokkuð ósanngjarnt og hefur að vissu leyti líka verið farið nokkuð í kringum í framkvæmdinni, þá er lagt til, að við þessa gr. bætist ný mgr., eins og þarna er orðað, að sömu heimild, þ.e.a.s. til að greiða atkv. utan kjörfundar, hafi þeir, sem samkv. læknisvottorði er ráðgert að dveljast muni á sjúkrahúsi á kjördegi, einnig barnshafandi konur, sem ætla má að muni verða hindraðar í að sækja kjörfund á kjördegi. Þetta þýðir það, að sá, sem gerir ráð fyrir að vera á sjúkrahúsi á kjördegi, þarf, ef hann ætlar að kjósa utan kjörfundar og verður innan síns hrepps eða kaupstaðar, að fá læknisvottorð um þetta, en getur þá fengið að kjósa. Það er ekki krafizt í þessu, eins og gr. er hér orðuð eða nýja till., að barnshafandi konur þurfi í þessu sambandi að hafa neitt læknisvottorð, en hins vegar er lögð sú skylda á báða aðilana, þá sem gera ráð fyrir að vera á sjúkrahúsi og barnshafandi konur, síðar í brtt., sem ég skal þá víkja að, að ef hin ráðgerðu forföll eru ekki fyrir hendi á kjördegi, þá ber þeim að gefa sig fram á kjörfundi eins og öðrum, sem héldu, að þeir mundu ekki verða innan síns hrepps eða kaupstaðar, og kosið hafa utan kjörfundar, en eru svo komnir aftur í sinn hrepp eða kaupstað. Þá ber þeim skylda til að tilkynna komu sína á kjörfundinum, og þá eiga þeir að greiða atkv. þar, en utankjörfundaratkv. á að vera ógilt eða leggjast til hliðar og það eru bæði viðurlög við því, ef þessi tilkynningarskylda er ekki uppfyllt og eins eru ákvæði um það, að slíkt atkv. sé ógilt, ef það sannist fyrir kjörstjórninni, að viðkomandi sé staddur innan hreppsins eða kaupstaðarins á kjördegi og hafi ekki gefið sig fram.

Þá kem ég að 22. brtt. Það er umorðun á 66. gr. og þó í raun og veru frekar á 67. gr., eins og hún er í frv., vegna þess að 66. gr. fellur niður, því að þar er eingöngu ákvæði um landslista. Og þá verður 67. gr., sem nú er 66. gr. og orðast eins og stendur í brtt., en er engin efnisbreyting á henni önnur en sú, að henni er skipt í tvennt til þess að halda greinatölunni, og síðasta mgr. kemur svo í 23. brtt. um það, að 67. gr. orðist á þann hátt, sem þessi málsl. var áður orðaður, að umboðsmenn framboðslista skuli hafa aðgang að bók þeirri, sem um getur í 1. málsgr. 66. gr.

Ég kem þá að 24. brtt., sem er við 71. gr., og sú brtt. er nýmæli. Hún er um það, að nægjanlegt sé að koma bréfi með utankjörfundaratkv. í einhverja kjördeild þess kjördæmis, þar sem hlutaðeigandi kjósandi er á kjörskrá, en þegar svo stendur á, að bréfi er komið í aðra kjördeild, en þá þar sem hlutaðeigandi kjósanda hefði borið að kjósa, skal undirkjörstjórn geta þess sérstaklega í kjörbókinni og senda slík bréf aðskilin til yfirkjörstjórnar. Þetta þótti n. rétt að taka upp núna vegna stækkunar kjördæmanna. Áður var það svo, að það þurfti að koma utankjörfundaratkv., ef það var ekki áður komið, en á kjördegi, í viðkomandi kjördeild, þar sem aðili átti að kjósa. Það sýnist í sjálfu sér vera óþarfi. Nú höfum við stór kjördæmi, þar sem t.d. Vestfirðir eru eitt kjördæmi og Austfirðir eitt kjördæmi og mundi þá vera nægjanlegt fyrir þann, sem er á kjörskrá t.d. í Vestfjarðakjördæmi eða Austfjarðakjördæmi og eins annars staðar, að koma utankjörfundaratkv. sínu í einhverja kjördeild, og mundi það stuðla að því að gera honum greiðara að koma sínu atkv. fram. En þegar svo stendur á, að því er ekki komið í kjördeildina, þar sem viðkomandi átti að kjósa, setur hún þetta atkvæði ekki í kjörkassann, eins og hún ella mundi gera, heldur skráir þessi atkvæði sérstaklega og sendir þau aðskilin til yfirkjörstjórnarinnar og yfirkjörstjórnin, þegar að talningu kemur, mundi þá athuga þessi atkvæði, hvort viðkomandi aðili sé á kjörskrá í kjördæminu og setja atkvæðaseðilinn í kjörkassa, áður en talning hefst.

25. og 26. brtt. stafa aðeins af því, að ákvæði um landslista eru felld niður og eru aðeins bútaðar sundur gr., vegna þess að 79. gr. fellur algerlega niður, þar sem hún innifelur eingöngu ákvæði varðandi landslistana og þá gert eins og áður til þess að greinatalan haldist óbreytt. Sama er að segja um 27. og 28. brtt., við 85. og 86. gr.

Í 29. brtt. er smávegis nýmæli. Þar er svo kveðið á í frv. og var áður í kosningalögunum, að, ef kjósandi framkvæmi einhverja skekkju, merki vitlaust á seðil sinn o.s.frv., þá sé honum heimilt að afhenda kjörstjórninni hinn fyrra seðil og kjósa aftur. Svo var ákvæði um það, að kjörstjórnunum væri heimilt að láta þessa kjósendur víkja frá atkvæðagreiðslunni að sinni og halda atkvgr. áfram, unz allir aðrir kjósendur, sem viðstaddir eru, hefðu átt kost á að greiða atkvæði og er skylt að nota þessa heimild, ef hætta er á, að kjörseðlaforðinn endist ekki. N. var sammála um að fella þetta niður, m.ö.o.: að það verður strax að afgreiða viðkomandi aðila, sem þannig stendur á um, að hann hefur eyðilagt kjörseðilinn sinn og vill fá nýjan kjörseðil. Í lögunum virðist vera óviðeigandi að gera ráð fyrir því, að kjörseðlaforðinn né ekki nægjanlegur í hverri kjördeild og ber auðvitað að sjá til þess, að það komi ekki fyrir.

Þá kemur 30. brtt., sem er við 92. gr., og hana leiðir af því nýja ákvæði, sem ég gerði grein fyrir áðan í sambandi við 62. gr., að þeir, sem ætla að vera á sjúkrahúsi og barnshafandi konur, sem ráðgera að vera forfallaðar, megi kjósa utan kjörfundar, en þessir aðilar eiga eins og aðrir, sem 92. gr., tekur til, að tilkynna það, ef forföllunin er ekki lengur fyrir hendi og viðkomandi aðili er staddur innan síns hrepps eða kaupstaðar og þá á hann að geta greitt atkvæði aftur á kjörfundinum, en utankjörfundarseðill hans kemur þá ekki til greina eftir kosningu. Þessa brtt. leiðir m.ö.o. af brtt. við 62. gr.

31. brtt., sem er við 94. gr., leiðir af brtt. 29 við 91. gr.

Þá er 32. brtt., mjög smávægileg, við 100. gr. þar er kveðið á um það, hvernig fara skuli, þegar atkvgr. er slitið og m.a. sagt, að þegar umslögunum hefur verið lokað, sem kjörgögnin eru í og á að ganga frá þeim og því næst, stendur þar, skuli oddviti, er bókun er lokið og kjörbókin hefur verið undirrituð af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef viðstaddir eru, ganga frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók, í strigapoka þeim, er atkvæðakassanum fylgir og binda vandlega fyrir og senda þetta svo til yfirkjörstjórnarinnar. Hér er skotið inn smávægis heimild, að ef undirkjörstjórnir óski, megi senda afrit af kjörbókinni og þurfi ekki að þvæla henni, þessu frumriti, fram og aftur, en þá beri líka allri kjörstjórninni að skrifa undir afritið og umboðsmönnum. En þetta er sem sé lagt á vald kjörstjórnanna, heimild til þess að senda afrit af kjörbókinni eða eftirrit úr kjörbókinni.

33. brtt., við 103. gr., er eingöngu afleiðing af því, að landslistar falla niður og 34. brtt. sömuleiðis. Þar er tekin upp öll orðunin á 105. gr., sem er í frv. og eina breytingin frá því, sem í frv. er, er það, að 5. liðurinn, hvenær atkvæði skuli teljast ógilt, fellur niður, af því að hann fjallar um það, hvernig eða hvenær atkvæði telst ógilt, vegna þess að menn hafa merkt við landslista, en á ekki lengur við.

Þá er smávægileg brtt. við 106. gr. Þar stendur, að atkvæði skuli ekki meta ógilt, þó að gallað sé, ef greinilegt er, hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði, þó að merkt sé aftan við listabókstaf, þó að kross sé ólögulegur o.s.frv. Þessu orðalagi er aðeins vikið við og sagt: „Þannig skal taka gilt atkvæði, þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann.“ Það er til þess, að ljósara sé, að þó að merkt sé ofan við eða neðan við eða eitthvað til hliðar við bókstafinn, þá sé það jafngilt og þó að merkt sé framan við, eins og tilskilið er annars staðar í lögunum, en ekki aðeins bundið við, að krossað sé aftan við bókstafinn. Þetta mun sennilega hafa verið skilið á svipaðan hátt í framkvæmdinni áður og er mjög smávægilegt.

Það er hins vegar rétt, að það komi fram hér, að það hafi verið rætt innan n., sem er hins vegar framkvæmdaratriði, að ástæða væri til að gera kjörseðlana nokkuð öðruvísi úr garði, en verið hefur. Það hefur verið nokkuð mikil spássía á kjörseðlunum og það hefur stundum valdið ágreiningi. T.d. er A-listi fremstur og strik fyrir framan listann og ef strikað er fyrir framan þennan lista í raun og veru eða þetta strik, á sjálfa spássíuna, þá gæti verið ágreiningur um það, en mun í flestum tilfellum hafa verið skilið svo, að A-listanum bæri þetta atkvæði. Einnig hafa verið spássíur fyrir ofan og þá hafa krossar verið alveg fyrir utan reiti listanna, en þó beint fyrir ofan viðkomandi lista. Stundum hefur atkvæði verið ógilt af þessum sökum og stundum talið gilt. Lang æskilegast væri í framkvæmdinni að útbúa listana þannig, að engar spássíur væru þarna fyrir hendi. Það mundi koma í veg fyrir, að nokkur vafi gæti leikið á, hvort atkvæðið væri gilt af þessum sökum, sem ég nú hef talað um.

Þá er 36. brtt. og hún er við 107. gr. Þar hafa því miður orðið mistök í prentuninni, því að þar er kveðið svo á, að 107. gr. skuli orðast eins og þar stendur. 1. mgr. er rétt, en 2. mgr. á ekki þarna að vera. Ég hefði álitið, að þetta væri nægjanlegt að leiðrétta, en það er rétt, að það komi til nánari athugunar. En ákvæðið í 2. málsgr. er það, að sé kosningu frestað samkv.

128. gr., megi talning atkv. aldrei fara fram, fyrr en kosningu er hvarvetna lokið. Það kemur að þessum breyt. síðar, en þetta á að vera aftan við 102. gr. frv., þar sem ákvæði er um talningu atkv.

37. brtt. er að öllu leyti umorðun 109. gr. Hún er eins og hún var áður í kosningal., nema hvað orðalag breytist á stöku stað, vegna þess að landslistaframboðin falla niður.

Þá komum við að 38. brtt., sem er við 110. gr., og sú gr. fjallaði um það að finna út, hvað frambjóðendum teldust mörg atkv. á lista og hvaða áhrif það hefði, ef röð frambjóðenda væri breytt eða ef framþjóðandi væri strikaður út á listanum. Nm. eru allir sammála um það, að áhrif útstrikananna séu allt of mikil, eins og nú er. Í Reykjavík, þar sem eru 12 frambjóðendur og 12 varamenn, fær 1. maður 24/24 parta af atkv. listans, þeim sem ekki hefur verið breytt, annar maður 23/24, þriðji 22/24 o.s.frv. Af þessu leiðir, að það þarf ekki nema 1/24 part til þess að strika út mann og til þess að breyta þannig röð listans, og það eru rétt rúmlega 4%. Það virðist ákaflega óeðlilegt, að rétt rúmlega 4% af kjósendunum geti breytt röð listans, ef 95–96% vilja hafa hana óbreytta. Áhrifin af breytingunum eru mest, þar sem flestir eru frambjóðendur. Í 6 manna kjördæmunum er það 1/12 og í 5 manna kjördæmunum er það 1/10 eða 10% eftir eldri reglunni, sem geta ráðið því í framkvæmdinni að breyta röð listans og t.d. fellt mann frá kosningu, þannig að næsti maður nær kosningu, þótt aðeins tíundi hluti kjósendanna hafi breytt röðinni. Í einhverju af stóru kjördæmunum t.d., þar sem listi fær 1,000 atkv., þurfa ekki nema 100 menn að breyta röð á efsta manni til að fella hann niður í annað sæti og hliðstætt um aðra frambjóðendur á listanum.

Hér hafa komið til álita nokkuð mismunandi aðferðir, sem taka mætti upp til þess að gera áhrifin minni af breytingum og útstrikunum og lýðræðislegri, því að það er í sjálfu sér mjög ólýðræðislegt, að svona lítill hluti kjósenda, eins og ég hef nú gert grein fyrir, geti haft þau verulegu áhrif, sem fyrir liggur eftir eldri ákvæðum og allir nm. eru sem sagt sammála um, að það beri að takmarka þennan rétt kjósendanna meira, þannig að það þurfi meiri hluti þeirra að gera breyt. en áður hefur verið, til þess að það geti ráðið úrslitum um, hverjir nái kosningu. Segja mætti t.d., að það þyrfti einhvern tiltekinn hluta af kjósendum, 20%, 30% eða 50% eða eitthvað svoleiðis. En n. hefur tekið upp í brtt. 38 að svo stöddu þá till. að fylgja í aðalatriðum sömu reglu og áður við útreikninginn, en þó þannig, að eins og gr. er nú orðuð, þurfa helmingi fleiri að breyta, en áður var, til þess að breyt. eða útstrikun hafi áhrif og þeim árangri er náð með annarri reikningsaðferð, sem aðallega felst í því, að samkv. 2. málsgr. skal kjósandi alltaf fá fyrst þau atkv., sem listinn fær og honum ber á listanum eftir þeim hlutföllum, sem ég vék að áðan, eins og engu hafi verið breytt. Síðan bætist þar við þau atkv., sem hann fær á óbreyttum listum og svo þau atkv., sem hann fær á breyttum listum, alveg eins og áður var eftir 110. gr. Menn sjá á þessu, þegar dæmunum er stillt upp í framkvæmd, að reglan verkar þannig, að það þurfa u.þ.b. helmingi fleiri kjósendur að breyta listanum, til þess að úrslit hafi.

Nú vil ég taka það fram, að innan n. finnst sumum, að hér sé í raun of skammt gengið, því að þetta eru þá innan við 20% kjósenda í 5 manna kjördæmunum, sem geta breytt lista með þessum hætti, liðlega 15% í 6 manna kjördæmunum og um 8% í Reykjavík og það er náttúrlega ákaflega lítill hópur kjósendanna, þótt það séu um 8% í kjördæmi eins og Reykjavík, sem geta haft þarna veruleg áhrif. Það er ekki heldur hægt að neita því, að það blandast nokkuð inn í þetta, að þegar í raun og veru má segja, að ekki komi fram almennur vilji kjósenda um að breyta röð, þá veldur þetta bæði óánægju og misklíð manna á milli og mönnum finnst, að þeir séu órétti beittir, að sárafáir menn geti valdið þeim umbrotum að fella þá niður úr því sæti, sem þeir ella áttu að hafa á listanum.

Um þetta mætti, eins og ég sagði, hafa fleiri aðferðir, annaðhvort að miða við einhverja tiltekna prósenttölu eða hafa reikningsdæmi, eins og hér er stillt upp, eða þá með öðrum hætti, sem t.d. verkaði eitthvað meira, en þessi regla, sem hér er stillt upp, gerir. Við höfðum hugsað okkur í n. að athuga þessa grein betur á milli umr. og munum því taka þessa 38. brtt. aftur til 3. umr.

39. og 40. brtt. leiðir eingöngu af því, að ákvæðin um landslista eru felld niður.

Þá koma ákvæðin í 122. gr. um uppbótarþingsætin. Á því eru gerðar nokkrar orðalagsbreyt., sem leiðir af því, að landslistaframboðin falla niður. Þannig er ekki boðinn fram landslisti, heldur á, þegar kosningunni er lokið, að gera flokkunum landskjörslista, þannig að rita skal á lista í stafrófsröð nöfn allra frambjóðenda flokksins, sem hafa ekki náð kosningu í kjördæmi. Síðan er fundið samkv. sömu reglu og áður, hvað hverjum flokki ber mörg uppbótarsæti og þegar á að fara að reikna það, hvaða frambjóðendur hvers flokks fái uppbótarsætin, þá er einnig beitt sömu reglunni og áður, þ.e.a.s. að fyrst kemur þá hjá hverjum flokki á þessum landskjörslista til með að hreppa sætið sá, sem hæsta hefur atkvæðatölu, hann verður efstur, en sá, sem að honum frágengnum hefur atkvæðatölu, er nemur hæstri hundraðstölu gildra kjörseðla í kjördæmi hans, verður næstefstur o.s.frv. Er hér óbreytt gamla reglan um úthlutun uppbótarsætanna, að fyrst komi til greina þeir, sem hæsta atkvæðatölu hafa, síðan hundraðshluta og svo koll af kolli.

42. brtt. er efnislega sú sama og var áður, en er um það, hverjir frambjóðendur á landskjörslista, sem eigi hljóta uppbótarþingsæti, verði varamenn og ákvæðin um það eru efnislega óbreytt frá því, sem áður va, og þeir halda áfram að verða varamenn á þessum landskjörslista eftir þeim breyt., sem gerðar voru ekki alls fyrir löngu á kosningal., svo lengi sem listinn endist.

43. brtt., við 126. gr., umorðun hennar, er engin efnisbreyting, aðeins leiðir af því, að landslistaframboðin falla niður.

44. brtt. er við 127. gr. Þar leggur n. til að komi ný málsgr., en hún er nákvæmlega samhljóða 2. mgr. 133. gr. kosningalaganna, eins og þau voru og töldum við við nánari athugun, að þessi mgr. ætti ekki að falla niður. Greinin er um það, ef Alþingi hefur úrskurðað ógilda kosningu lista þingflokks eftir almennar alþingiskosningar og uppkosning hefur farið fram og skal þá landskjörstjórn, ef samanlagðar atkvæðatölur þingmanna og þingmannatala þeirra gefa nú ástæðu til slíks, leiðrétta fyrri niðurstöður um úthlutun uppbótarþingsæta, jafnvel þótt landskjörinn þm. missi við það umboð sitt. Þetta getur farið þannig, ef uppkosning er, að við uppkosninguna nær sæti listi t.d., sem ekki hafði þingsæti áður. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á úthlutun uppbótarþingsætanna, þannig að hún getur breytzt. Þessi flokkur kannske missir þá við þetta uppbótarsæti, sem hann ella mundi hafa. Það er eðlilegt. En svo er hins vegar hið gamla ákvæði, sem talið er rétt að haldist, um það, að þó að framboðslisti flokks fjölgi við sig atkvæðum við uppkosningu, þá miðist uppbót flokksins aldrei við hærri atkvæðatölu, en honum var reiknuð eftir aðalkosninguna og flokkur, sem við aðalkosninguna hefur ekki náð þingsæti í kjördæmi, en nær því við uppkosningu, fær ekki við það rétt til uppbótarþingsætis. Þetta er vegna þess, að ef uppkosningin er í einu kjördæmi, liggur fyrir í öllum öðrum kjördæmum, hvernig kosningaúrslitin eru og þá gæti verið freisting t.d. fyrir flokk, sem hefði enga von í þingsætinu, eða kjósendur þess flokks að breyta algerlega afstöðu sinni og greiða nú atkv. gerólíkt því, sem þeir áður gerðu, til þess að koma t.d. að ákveðnum frambjóðanda, sem hefði ella kannske minni líkur eða listi heldur en 3. listinn til þess að koma að manni. Menn hagnast á því, ef sá nær kosningu, sem í síðustu kosningunni er kjörinn, en við það hagnast ekki listinn, þegar úthlutað er uppbótarsætum, og er það byggt á því, að menn geti ekki, eftir að kosningaúrslitin liggja fyrir í öllum öðrum kjördæmum, hagað atkv. sínum þannig, að það geti orðið af þeim ástæðum til góðs flokki við úthlutun uppbótarsæta, sem ella hefði ekki orðið honum til góðs. Þetta virðist eðlilegt við nánari athugun málsins og erum við því sammála um að leggja til, að þessi mgr. bætist við 127. gr.

Þá er 45. brtt. Hún er við 128. gr., en í þeirri grein er ákvæði um það, ef kosning ferst fyrir: „Nú ferst kosning fyrir í einhverri kjördeild á hinum ákveðna kjördegi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum og kveður þá undirkjörstjórn innan viku til kjörfundar að nýju.“ Menn hafa velt því fyrir sér, hvernig fara bæri að, ef kjörfundurinn væri byrjaður og síðan kæmu óviðráðanleg atvik, eins og óveður, við skulum segja jökulhlaup, gos eða annað slíkt, sem gersamlega hindruðu kosninguna og þá eru engin ákvæði um það í eldri l., hvernig fara skuli að. Þess vegna er 45. brtt. fram borin, að undirkjörstjórnin geti frestað kosningu í kjördeild, eftir að hún er hafin, ef hún telur óviðráðanlegar ástæður eins og óveður hindra það, að kosning geti fram haldið og allir kjörstjórnarmenn eru þá sammála um frestunina, enda komi til samþykki yfirkjörstjórnar. Um þetta ákveður þá yfirkjörstjórn í Reykjavík. Ef kosningu hefur verið frestað af slíkum sökum, á að kveðja til hennar innan viku, eins og segir í fyrri mgr. um það, ef kosning ferst fyrir. Hér þyrfti sennilega að bæta við ákvæðum um það og mætti gera það við 3. umr., hvernig fara skuli með kjörgögnin, ef kosning hefur farizt fyrir. Það er víst nægilegt að vísa til eldri heimilda um það, sem fyrir hendi eru, þegar ákveðið hefur veríð, að kjörfundirnir skyldu vera tveir eða heimilt væri að hafa kjörfundi tvo og þar hefur verið ákveðið nánar um það, hvernig fara skuli með kjörgögnin, ef frestað er kosningu, til næsta fundar.

Síðasta brtt. er aðeins formleg vegna þeirra breyt., sem áður eru gerðar.

Ég kem þá að lokum að því, að innan n. hefur verið rætt um það, að rétt væri, að í kosningal. nú væru ákvæði til bráðabirgða, hliðstætt því, sem hefur verið áður, einu sinni eða tvisvar, og a.m.k. í kosningalögunum 1942. Þar var ákvæði til bráðabirgða um það, að við fyrstu kosningarnar, sem fram færu, eftir að þessi lög tækju gildi, — sem nú eru fyrirsjáanlega haustkosningar, — skuli vera heimild til þess utan kaupstaðanna að hafa tvo kjördaga. Það mál mun verða athugað á milli umr., en sýnist ekki óeðlilegt, að slíku bráðabirgðaákvæði væri fléttað hér inn í.

Ég hef nú lokið við að fara yfir allar þessar brtt. og ég vil vona, að hv. þm. hafi getað fylgzt með, hvað raunverulega felst í þessum brtt., og sjá þá, eins og ég sagði í upphafi, að sumar eru kannske næsta lítilfjörlegar og aðrar eingöngu til leiðréttinga, vegna þess að heimildir til að bera fram landslista falla niður.

Margt gæti að sjálfsögðu komið til álita um aðrar breyt. á kosningal., en stjskrn. hefur nú ekki farið lengra í sínum brtt. en það, sem allir hafa verið einróma sammála um. En nokkur atriði hafa verið rædd í stjskrn., sem menn hins vegar hafa ekki verið allir sammála um og það kann auðvitað að koma að því, að slíkar brtt. verði bornar fram af einstökum þm. Ég get t.d. getið um yfirkjörstjórnirnar. Menn eru nokkuð skiptra skoðana um þessa nýju skipan, sem tekin er upp í frv., að tilteknir embættismenn eigi að skipa yfirkjörstjórnir, sumir vilja fara öðruvísi að, t.d. að Alþ. kjósi yfirkjörstjórnirnar og jafnvel að annar háttur yrði á hafður. Ég geri ráð fyrir, að um þetta komi fram sérstakar brtt.

Það liggur því fyrir, að það má vænta þess, að n. athugi sjálf frv. milli umr., og enda þótt hún hafi eftir fremstu getu reynt að ganga þannig frá þessu, að engar misfellur séu á því, þá kann að koma í ljós, að okkur hafi eitthvað yfir sézt og gefist þá tóm til þess að leiðrétta það á milli umræðna. Eins má búast við því, að einstakir nefndarmenn og að sjálfsögðu aðrir þm. kunni að vilja gera frekari breytingar á, en hér er lagt til.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en læt máli mínu lokið og legg til, að þessu máli verði vísað til 3. umr., þegar þessari umr. er lokið.