10.08.1959
Neðri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

3. mál, kosningar til Alþingis

Steindór Steindórsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið tilkynnt, verður útbýtt nú í d. tveimur brtt. við frv. það til kosningalaga, sem nú er til umr., sem ég á þátt í. Aðra brtt. flytjum við í félagi hv. 3. þm. Reykv. (EOl) og hina flyt ég einn.

Ég vil fyrst ræða ofurlítið um fyrri brtt., þá sem við stöndum að tveir, hv. 3. þm. Reykv. og ég og er um breytingu á kjördegi.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, standa óbreytt hin gömlu ákvæði um, að kjördagur skuli vera hinn síðasti sunnudagur í júní. Brtt. okkar hljóðar þannig, að í staðinn fyrir síðasta sunnudag kemur annar sunnudagur í júní, þ.e.a.s. kjördagurinn færist fram á vorið um hálfan mánuð. Hann getur, ef sú brtt. verður samþykkt, orðið í fyrsta lagi 7. júní og í síðasta lagi hinn 14.

Ástæðurnar fyrir þessu vil ég rekja í stuttu máli. Ef vér lítum á þær breytingar, sem gerðar hafa verið á kosningalögunum fram að þessum tíma, miða þær yfirleitt í þá átt eða a.m.k. tiltekinn hluti þeirra að gera kjósendum léttara fyrir að neyta kosningarréttar síns. Ef vér lítum á elzta fyrirkomulag kosninganna, þegar kjörstaður var einn í hverju kjördæmi og hver kjósandi varð að koma þar og greiða atkvæði í heyranda hljóði og vér berum það saman við það, sem nú er, þá sjáum vér, hversu geysilegur munur er á því. Vér sjáum, að í fyrsta lagi eru náttúrlega komnar leynilegar kosningar, það er nú sér á parti, en er vér lítum aðeins á hitt, þá er kjördæmunum skipt í fjöldamarga hluta með mörgum kjörstöðum, og þar að auki er kjósendum gefin heimild til þess að kjósa utan kjörstaðar, ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki verið heima hjá sér eða innan sinnar kjördeildar á kjörfundi. Og sennilega miðar það einnig í sömu átt, að ákveðinn hefur verið með lögum fastur kjördagur, mig minnir, að fyrr gæti það verið nokkuð af handahófi ákveðið eða réttara sagt: það væri sinn kjördagurinn fyrir hverjar kosningar, þó þori ég ekki að fullyrða, að ég muni það rétt. Ég geri ráð fyrir því, að einnig hafi það verið gert til þess, að mönnum væri léttara að mæta á kjörstað, að ákveðinn er sunnudagur til kosninganna, en ekki kosið á virkum degi. Nú má segja, að í margra frídaga landi eins og okkar sé það ekki óeðlilegt að nota sunnudag til kosninga, enda þótt ég búist við, að það tíðkist ekki annars staðar í löndum kristinna manna og að frá því sjónarmiði sé það kannske ekki alls kostar viðfelldið.

Vér sjáum þá, að það er tilætlunin að reyna að velja þann kjördag, sem megi vera mönnum sem heppilegastur, hvernig sem á stendur, bæði með tilliti til árstíðar og tilliti til atvinnuhátta.

Ef vér lítum á utankjörstaðaratkvæðagreiðsluna, þá er hún sprottin af illri nauðsyn og það er vitanlegt, að það er hverjum og einum manni léttara og eðlilegra í sjálfu sér að kjósa á kjörstað á kjördegi heldur, en að ganga fyrir einhvern embættismann, sem valinn er sem kjörstjóri og greiða þar atkvæði sitt, auk þess sem utankjörstaðaratkvgr. fylgir það, að þar verður að skrifa meira eða minna, en á kjörstað er einungis gerður kross og einmitt þessi skrift hefur valdið því, eins og vér vitum, að mörg atkvæði verða ónýt hverju sinni. Af þeirri ástæðu er því fullkomlega skylt að gera það, sem unnt er, til að draga úr utankjörstaðaratkvgr., að svo miklu leyti sem lögin geta kveðið á um slíkt. Þau eiga a.m.k. að stuðla frekar að því að draga úr henni, heldur en að auka hana. Einnig skulum vér ekki dyljast við þann sannleika, að í sambandi við mikla utankjörstaðaratkvgr. fer fram á marga lund harðvítugri áróður og á alla lund óþægilegri kjósendum, heldur en þó sá áróður, sem rekinn er fyrir venjulegar kosningar á kjördegi. Kjósandi, sem fluttur er einn eða farið er með einum á kjörstað utan kjörfundar, er í sjálfu sér á ýmsa lund háðari þeim, sem honum fylgir, heldur en hinn, þó að honum sé ekið á kjörstað. Þetta er líka ástæða til þess að draga úr utankjörfundaratkvgr., ef unnt væri.

Sá kjördagur, sem nú er í lögum og er óbreyttur í frv., hefur á sínum tíma verið settur þannig, að hann væri á marga lund heppilegur, eins og þá stóðu sakir. Hins vegar er nú komið svo, að hann er settur á þeim tíma ársins, að það hlýtur óhjákvæmilega að leiða af honum, að þar verður meira um utankjörstaðaratkvgr. en vera mundi, ef kjördagurinn væri nokkrum tíma fyrr að vorinu. Það er vitað, að þegar kemur fram í miðjan júní og raunar nokkru fyrr, þá tekur t.d. síldveiðiflotinn allur að búast á veiðar. Og þegar kjördagur er seinni hluta júnímánaðar eða jafnvel allt að síðasta degi júnímánaðar, eins og t.d. hann var nú við síðustu kosningar, 23. júní, þá er undantekningarlaust að kalla má hvert eitt einasta skip, sem síldveiðar stundar, komið á haf út. Og allir þeir menn, sem á flotanum eru, hafa því hlotið að greiða atkvæði utan kjörstaðar og verið komnir burt frá heimilum sínum að meira eða minna leyti, þegar meginkosningabaráttan hófst. Það hefur þannig verið hvort tveggja í senn, að þeim hefur verið meinað að koma á kjörstað og greiða sitt atkvæði þar og þeim hefur líka verið meinað að fylgjast með eða taka þátt í þeirri baráttu, sem fram fer dagana á undan kjördegi, sem vitanlega er alltaf mest um síðustu dagana og síðustu vikurnar. Það má því segja, að þetta hvort tveggja sé ótrúlega mikið tillitsleysi, sem tekið er til svo mikilvægs hluta af kjósendum eins og alls þess mikla fjölda manna, sem síldveiðarnar stunda.

Það má segja, að þetta sé kannske augljósasta dæmið um það, að kjördagur er of seint að vorinu. En það má líka minna á það, að ýmiss konar aðrar fjarvistir eru farnar að vera meiri og verða stöðugt meiri og meiri, eftir því sem líður á júnímánuð. Sumarleyfisferðir eru nú einu sinni orðnar þáttur í okkar þjóðlífi, sem vér getum ekki komizt fram hjá og menn leitast við að taka eitthvað af þeim svo snemma sem unnt er og það verður sjaldan fyrr en seinni hluta júnímánaðar. Atvinnu margra manna er þannig háttað, að þeir hafa oft kannske ofurlítið hlé, einmitt síðari hluta júnímánaðar og grípa því þá stundina, ef þeir þurfa að ferðast eitthvað, annaðhvort vegna brýnna nauðsynja eða sér til skemmtunar. Ég hygg, að flestir, sem komið hafa nálægt kosningum, hafi orðið þess varir meira eða minna, að það er mikið los og rót komið á fólkið einmitt síðari helming júnímánaðar, rót, sem er enn þá tiltölulega miklu minna fyrri hluta þess mánaðar.

En það er vitanlega á fleira að líta, en þetta eitt. Vér verðum einnig að líta á þá, sem heima sitja, sem hvorki þurfa, vilja né geta farið að heiman og kjósa þess vegna á kjördegi. Þeir eru vitanlega alltaf fleiri en hinir og ef þeirra hlutur væri verulega skertur með flutningi kjördagsins um þennan hálfa mánuð, þá er það vitanlega ekki unnt, ef um væri að ræða verulega skerðingu á þeirra rétti. En ef vér skoðum nú það mál ofan í kjölinn, þá er þar ákaflega lítið á þeirra hlut gengið.

Þegar þessi kjördagur var settur á sínum tíma, voru, eins og allir hv. þm. vita jafnvel og ég, harla ólíkar kringumstæður og aðstæður því, sem nú er. Ég geri ráð fyrir, að þessi dagur hafi þá einkum verið ákveðinn með tilliti til strjálbýlisins og sveitanna, en þá voru voryrkjur allar mun síðar á ferðinni, en þær eru nú, sláttur byrjaði miklu seinna. Og einmitt þegar kom undir mánaðamótin júní-júlí mátti gera ráð fyrir, að þar yrði ofur lítið hlé á þeim hlutum. Slíkt hlé er orðið fyrr núna. Voryrkjum er lokið fyrr, og sláttur byrjar fyrr, þannig að í mörgum sveitum landsins er hann kominn af stað einmitt þegar komið er að kjördegi, í síðustu viku júní og jafnvel fyrr, þannig að frá þessu sjónarmiði hafa aðstæðurnar breytzt svo verulega, að ég mundi álita jafnvel heppilegra að hafa þann kjördag hálfum mánuði fyrr, en nú er fyrir allan þorra manna í sveitum landsins.

Annað mál er samgöngurnar. Þar hafa breytingarnar þó kannske orðið enn stórfelldari og enn þá augljósara, að það er ekki brýn þörf á að draga kosningar fram undir lok júnímánaðar vegna vega.

Þegar þessi kjördagur var ákveðinn, voru fæstir fjallvegir á landinu öðruvísi en ruddir og það hefði ekki hvarflað að nokkrum manni þá, að unnt væri að ryðja snjó af vegum að nokkru ráði fyrr en guð og lukkan lét hann hverfa af sjálfu sér fyrir vorleysingunni. Nú vitum vér það, að fjallvegir eru opnaðir mjög snemma og það er orðið nú áreiðanlega jafngreiðfært, ef ekki greiðfærara um flesta landshluta síðast eða jafnvel snemma í maí og jafnvel siðast í apríl, heldur en var í júní fyrir 30–40 árum. Þess vegna er ekki heldur ástæða til að firrast það að flytja kjördaginn þannig, að hann verði fyrr að vorinu, en áður.

Ég geri ráð fyrir því, hvað samgöngur snertir, að það sé ekki eingöngu miðað við kjósendurna sjálfa. Það er nú sjaldan, eftir að komið er fram í maí eða júníbyrjun, að það sé ekki fært innsveitis, bæði til að komast á kjörstað og til að komast á kjörfundi. Hitt er annað mál, að það verður náttúrlega líka að taka tillit til hv. frambjóðenda, ekki sízt þegar kjördæmin eru orðin svo stór, sem nú verður. En ég held nú samt af þeim kynnum, sem ég hef af vegum og samgöngum á landinu, að mér sé óhætt að fullyrða það, að eftir að kemur að ráði fram í maímánuð og mikið yfir mánaðartíma býst ég nú varla við að menn taki til yfirreiða um kjördæmin, — en eftir að komið er fram á þann tíma, þá séu vegir það greiðir, að frambjóðendur geti komizt óhindraðir ferða sinna og flutt kjósendum fagnaðarboðskap sinn.

Það mætti ef til vill segja, að það hefði verið ástæða til að ganga enn róttækar til verks og hafa kosningadag fyrr á vorinu. Við flm. höfum þó ekki viljað ganga lengra, og ég held, að það væri kannske ekki alls kostar heppilegt eða a.m.k. það mætti finna fleira á móti því, en á móti þessari færslu. T.d. fyrsti sunnudagur í júnímánuði, sem er nú orðinn viðurkenndur sem helgidagur sjómanna, það er óheppilegt að fara að hagga við honum aftur vegna kosninga og að fara fram í maímánuð mundi vera fullsnemmt. Þess vegna er það þessi dagurinn, sem hér hefur verið hallazt að.

Þetta var önnur brtt.

Hin brtt. er við 4. liðinn af þeim brtt., sem stjrskrn. flytur hér. Ég stend einn að þeirri breytingu.

Þegar við gengum frá þessum till. í stjskrn., mun hafa verið fullkomin samstaða um meginstefnuna, eins og hv. frsm. benti á, þá meginstefnu að draga úr áhrifum útstrikana og tilfærslna á framboðslistum. Og ég held satt að segja, að það sé ekki ágreiningsatriði milli nokkurra manna, a.m.k. engra þeirra, sem ég hef átt tal við hér í Alþingi, að það þurfi að gera eitthvað í þessum efnum.

Það er sýnt, að eins og þetta hefur verið fram að þessu, er raunverulega örfáum mönnum gefinn óeðlilega mikill réttur. Það geta tiltölulega fáir menn innan heils kjördæmis ráðið því, hvort maður fær þingsetu eða ekki, þegar til færslu milli sæta á listum þurfti ekki nema um 10% í 5 manna kjördæmum, og mér skilst, að eins og atkvæðatölur voru nú síðast, muni þingmaður geta náð þar kosningu með 600–700 atkvæðum. Og þá sjáum vér, að það eru ekki ýkjamargar útstrikanir og það er tiltölulega létt að koma þeim af stað. Að 60–70 manns eigi að ráða meiru, en hinir 600–700, sem eftir eru, það finnst mér ekki ná nokkurri átt og þar er yfirleitt enginn ágreiningur um. Hitt er það, sem hefur verið meira um talað, — ég vil kannske varla segja um deilt, það væri of sterkt að orði kveðið, — hversu langt ætti að ganga í því að takmarka þennan útstrikunarrétt kjósendanna. Hv. 1. þm. Skagf. (ÓlJ) lét orð falla að því við umr. hér síðast, að raunverulega væri ekki óeðlilegt að banna útstrikanir með öllu, þar sem ekki kæmi á móti sá réttur kjósandans að bæta mönnum inn á listann. Og satt að segja virtist það reyndar ekkert óeðlilegt, að þar væri meiri hl., sem réði, að annaðhvort stæði listinn óhaggaður eða þá ef farið væri að strika út, þá yrði a.m.k. helmingur þeirra, sem atkv. greiddu, að má manninn út af listanum. Þó hefur víst enginn nm. viljað ganga svo langt að setja það upp í 50%.

Það hafa því komið fram tvær reikningsreglur, sem þarna er um að ræða, þ.e.a.s. reikningsregla, sem er í brtt. og hins vegar önnur, þar sem í staðinn fyrir 2/3, þ.e. í staðinn fyrir, að deilt er með þremur, þá verður deilt með 4. Ég hef ekki nákvæmlega orðanna hljóðan fyrir mér, þannig að ég geti sagt það orðrétt, en í staðinn fyrir, að í brtt. n. er gert ráð fyrir þriðjungadeilingu eða margföldun með brotinu 2/3, verður eftir till. minni fjórðungadeiling. Annars er reglan eins. En útkoman verður dálítið önnur, þar sem með þeirri reglu, sem núna er, þarf útstrikanir til að fella mann úr sæti, eins og hér hefur verið getið, í Reykjavík 12%, í 6 manna kjördæmum 231/13% og í 5 manna 273/11%. Með þeirri reikningsreglu, sem tekin er upp í brtt. minni, verða áhrifin þau, að hér í Reykjavík þarf 16%, í 6 manna kjördæmum 3010/13% og í fimm manna kjördæmum 364/11%. M.ö.o.: þar sem þetta verður áhrifamest, þarf rúmlega þriðjungur kjósenda að strika manninn út, svo að hann færist niður um sæti og satt að segja finnst mér það ekki of mikið tiltekið.

Hv. frsm. minntist á það, sem rætt var um, að það væri kannske ekki alls kostar eðlilegt, að það væri mismunur á milli kjördæma. En þó finnst mér það ekki óeðlilegt, einmitt af þeim rökum, sem hann nefndi hér og ég fer ekki að endurtaka það.

Það er verið að útdeila brtt., svo að þér sjáið hér nákvæmlega orðamuninn. Það stendur, að í staðinn fyrir 2/3 í 110. gr. komi 3/4, og í staðinn fyrir þriðjung atkvæða komi fjórðungur atkvæða og áhrifin eru þessi, sem ég gat áðan, það verða 16%, 3010/13% og 364/11%.

Málið liggur þá raunverulega þannig fyrir: Það er fullkomin samstaða í meginatriðum að takmarka útstrikunarréttinn eitthvað. Það er einungis það, sem ágreiningur er um milli aðalbrtt. og brtt. minnar við þá brtt., að í staðinn fyrir 12–27% komi 16–36%, sem þurfa að strika út mann, svo að sæti hans breytist, hann færist niður um sæti eða upp um eitt sæti.

Það má ætla, ef vér lítum á þetta, að verið sé að takmarka þarna rétt kjósandans að einhverju ofurlitlu leyti, en þá verðum vér samt að líta á annað: Ef allir kjósendur væru nú saman komnir, þegar verið væri að samþykkja listana, og greiddu atkvæði, þá eru ákaflega miklar líkur til þess, að röð listanna yrði samþykkt hverju sinni með nokkrum meiri hluta kjósenda, annars væri ekki hægt að koma honum saman. Við getum sett dæmið þannig upp: Listinn yrði samþykktur með nokkrum meiri hluta, kannske oft litlum, en í hvert sæti, ef greitt væri atkvæði um hvern mann um sig, yrði hann samþykktur með nokkrum meiri hluta kjósenda. Ef svo sama regla og gilt hefur fram að þessu ætti að gilda, getur örlítið brot aftur á móti fellt vilja þessa meiri hluta og eins og ég sagði áðan: deilan er um, hve stórt þetta brot á að geta orðið.

Við þær kosningar, sem nú fara í hönd, má gera ráð fyrir því, að það verði kannske meiri tilhneiging til breytinga og tilfærslna á listum, en áður hefur verið við hlutfallskosningar, vegna þess að kjördæmin eru stærri og fleiri annarleg sjónarmið geta komið fram. Í staðinn fyrir það, að áður hafa útstrikanirnar oft stafað beinlínis af persónulegum ástæðum, — ja, mér liggur við að segja óvild, eða einhverri smámunasemi, þá geta nú komið til mismunandi sjónarmið héraða og annað því um líkt. Þess vegna álít ég, að það sé bráðnauðsynlegt einmitt á þessu þingi að setja rammari skorður við því, að þessar tilfærslur geti haft alvarleg áhrif um úrslit kosninganna. E.t.v., þegar menn eru búnir að venjast þessu, væri hægt að breyta því aftur, ef mönnum svo sýnist. Ég hef enga trú á því, að menn geri það, þegar þetta væri einu sinni komið í kring. En einmitt vegna þessara sérstöku ástæðna vil ég leggja áherzlu á, að það verði gengið svo langt sem þessi till. mín gefur tilefni til, því að mér finnst satt að segja varla mega vera minni hömlur á þessu útstrikanafargani öllu saman.