10.08.1959
Neðri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Breyt. sú, sem nú á að gera á stjórnarskrá hins íslenzka lýðveldis, felur það í sér, að miklar breyt. verður jafnframt að gera á kosningal., eins og rakið hefur verið í umr. um þessi mál. Eitt af því, sem óhjákvæmilegt er að breyta í kosningal., er skipun yfirkjörstjórna í sambandi við stækkun kjördæmanna.

Hin gamla regla í gildandi kosningal. hefur verið sú, að sýslumaður í hlutaðeigandi héraði hefur verið oddviti yfirkjörstjórnar, en sýslunefnd eða bæjarstjórn hefur kosið 2 yfirkjörstjórnarmenn til eins árs í senn úr hópi kjósenda í kjördæminu.

Í frv. því, sem nú liggur fyrir um breyt. á kosningal., er gert ráð fyrir því, að sú regla verði tekin upp í hinum væntanlegu stóru kjördæmum, að þrír embættismenn, sýslumenn eða bæjarfógetar, sem þar eru búsettir, skipi yfirkjörstjórn. Við fulltrúar Framsfl., sem sæti áttum í stjskrn., gátum fallizt á þá skipan, sem í frv. greinir og það kom fram í umr. í n., enda tekur stjskrn. í heild ekki upp breyt. á þeirri gr. frv., sem um þetta fjallar. En nú fyrir skömmu hefur verið útbýtt hér í d. brtt. á þskj. 25, sem fluttar eru af þremur hv. þm., sem sæti áttu í stjskrn. Nd., og fyrsta brtt. á því þskj. fjallar um það, að tekin skuli upp sú skipan á kosningu yfirkjörstjórna, að þær skuli kosnar af sameinuðu Alþingi á sama hátt og landskjörstjórn.

Það kemur ekki fram í till., eins og hún liggur fyrir á þskj. 25, hvar þessir menn, sem hæstv. Alþ. á að kjósa í yfirkjörstjórn í kjördæmunum, eigi að hafa búsetu, en mér heyrðist, þegar ég kom hér inn í d., fyrsti flm. lýsa því, að þskj. mundi verða endurprentað með leiðréttingu, sem færi í þá átt. Það er einnig eftirtektarvert, að í þessari brtt. kemur það ekki fram, til hve langs tíma kosningin á að gilda, hvort sameinað Alþ. á að kjósa yfirkjörstjórn árlega eða hvort kjörtímabil þeirra verður eitthvað lengra.

Við, sem eigum sæti í stjskrn. þessarar d. af hálfu Framsfl., getum ekki fallizt á að gera þá breyt. á þessari skipan, sem í brtt. hinna þriggja þm. felst. Við teljum það óeðlilegt, en hefðum eftir atvikum, eins og ég tók fram áðan, getað fallizt á þá skipan, sem ráðgerð er í frv.

Þrír sýslumenn eða bæjarfógetar mundu líta á starf sitt í yfirkjörstjórn að okkar dómi ópólitískt. Þetta eru menn, sem vanir eru að gegna dómarastörfum og kveða upp úrskurði án tillits til pólitískra skoðana. En með því að láta kjósa þessa menn af sameinuðu Alþingi, þá er næsta eðlilegt að líta svo á, að yfirkjörstjórnarmenn séu þá fulltrúar hinna pólitísku flokka, þeir séu kosnir til þess starfs beinlínis af hinu pólitíska valdi á hæstv. Alþ.

Hér er og um meira að ræða en það eitt, hvaða menn gegna þessum störfum. Sú regla, sem farið hefur verið eftir að undanförnu, hefur grundvallazt á því, að héruðin sjálf færu með þetta vald og réðu því, hverjir skipuðu yfirkjörstjórn, þar sem sýslunefndir hafa átt að kjósa meiri hluta þeirra, þ.e. 2 menn af 3, en dómarinn í hverju lögsagnarumdæmi hefur verið sjálfkjörinn oddviti yfirkjörstjórnar.

Með þessari till. er stefnt að því að færa þetta vald utan úr héruðunum og í hendur Alþ. Héruðunum á ekki lengur að vera það fært eða treystandi til þess að hafa þetta vald með höndum og ráða þessu heima fyrir. Á þetta getum við fulltrúar Framsfl. ekki fallizt. Við leyfum okkur því, ég og hv. þm. N-Þ. (GíslG), að bera fram brtt. við brtt. á þskj. 25. En þar sem svo skammt er liðið, síðan þskj. var útbýtt, hefur ekki unnizt tími til að láta prenta brtt. okkar, og verð ég því að bera hana fram skriflega og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni. En brtt. okkar er efnislega um það, að fyrri málsgr. 1. brtt., þ.e.a.s., sem merkt er tölul. 1 á þskj. 25, umorðist og verði þannig:

„Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn.

Í Reykjavík kýs bæjarstjórn fimm menn í yfirkjörstjórn og fimm til vara. Hlutfallskosningu skal viðhafa, ef bæjarfulltrúi krefst þess. Annars staðar kýs hver sýslunefnd og bæjarstjórn í kjördæmi einn mann, er sé búsettur í hlutaðeigandi sýslu eða kaupstað, í yfirkjörstjórn og annan til vara.

Nú er tala hinna kjörnu yfirkjörstjórnarmanna ójöfn og skipar ráðherra þá úr þeirra hópi oddvita yfirkjörstjórnar og varamann hans. Sé tala hinna kjörnu yfirkjörstjórnarmanna jöfn, skipar ráðh. einn mann úr hópi annarra kjósenda í kjördæminu í yfirkjörstjórn, og sé hann oddviti yfirkjörstjórnar. Ráðh. skipar einnig varamann oddvita.

Kosning yfirkjörstjórnarmanna og skipun oddvita gildir til fjögurra ára í senn.“

Ég skal að lokum taka það fram, að í gildandi kosningalögum er svo fyrir mælt, að yfirkjörstjórnir skuli kjósa árlega. Ég efast um, að þeirri reglu hafi verið fylgt í framkvæmd, að því er snertir bæði undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir og virðist eðlilegt, að kjörtímabil þeirra geti verið hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnarmanna og kjörstjórnir séu kosnar t.d. fjórða hvert ár að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum.

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa breytingartillögu.