23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hv. 1. þm. S-M. (EystJ) sagði.

Hv. 1. þm. S-M. spurði, hver það hefði verið, sem hefði stungið fyrstu skóflunni til þess að eyðileggja vinstri stjórnina og vildi beina því til mín, að ég hefði verið að eyðileggja hana með þeirri afstöðu, sem ég tók í maí 1958 varðandi efnahagslöggjöfina.

Það er dálítið einkennilegur mælikvarði og einkennilegur prófsteinn, sem hv. 1. þm. S-M. leggur á afstöðu til vinstri stjórnar og vinstri stefnu. Hans afstaða virðist vera sú, að menn séu með vinstra samstarfi, svo framarlega sem menn beygja sig fyrir Framsókn, þegar hún leggur ákaflega mikla áherzlu á einn hlut. Ég álít það fyrst og fremst vera að reyna að varðveita vinstra samstarf, ef menn standa fast á því að framfylgja vinstri stefnu.

Eitt af því, sem þarna var deilt um, var, hvort horfið skyldi frá þeirri verðstöðvunarstefnu, sem vinstri stjórnin frá upphafi hafði beitt sér fyrir og Alþb. alveg sérstaklega stóð fast á, en Framsfl., af því að hann hefur alltaf verið „interesseraður“ í verðbólgu á Íslandi, vildi að horfið væri frá og tekin upp sú stefna, sem þá var byrjað á mjög í okkar óþökk allra Alþýðubandalagsmanna, að hverfa frá verðstöðvunarstefnunni og láta verðbólguna byrja á ný, með þeim afleiðingum, sem það hafði. Og hvað gerði ég í þessu sambandi? Ég varaði við þessu. Ég varaði mjög ýtarlega við þessu í umr. hér í þessari hv. d., þar sem ég einmitt sagði Framsfl., það má segja kannske, til syndanna, hvað hann væri óbilgjarn í sínu samstarfi við verkalýðsflokkana um að taka ekki nægilegt tillit til þeirra vilja, m.a. vegna þess, hvað hann var sterkur sem þingflokkur, þó að hann væri veikari, en báðir hinir hvað atkvæðatölur snerti við þær kosningar, sem gáfu hins vegar ekki rétta mynd af hans fylgi. Það var þess vegna einmitt að minni hálfu verið að vara við því, að þarna væri verið að stíga skakkt spor og það var af umhyggju fyrir vinstri stjórn og vinstra samstarfi. Ég hafði áður gert þetta sama án þess að gera það opinberlega. Ég varaði líka við þessu innan vébanda vinstri stjórnarinnar, þegar núverandi Seðlabanki var settur á stofn og öll sú vitleysa gerð og allt það einræðisskipulag, sem í sambandi við það er. Við skulum ekki fara að rekja það allt saman hér. En það er hægt að rekja það, hvenær sem vera skal og það var ekki gert vegna þess, að ég vildi vinstri stjórn feiga, heldur vegna þess, að ég vildi vinstri stjórn góða. Og hv. þm. Framsfl. þyrftu kannske ekki að vera að flytja hér till. núna viðvíkjandi húsnæðismálunum og öðru slíku, svo framarlega sem það hefði verið eitthvert vit í því, hvernig bankamálunum hefði verið ráðið til lykta, þegar vinstri stjórnin gerði það vorið 1957. Ég vísa því þess vegna algerlega frá mér.

Sá maður, sem frá upphafi gat aldrei hugsað sér að vera til lengdar í stjórn með okkur, var hv. 1. þm. S-M., enda var það honum svo erfitt vegna hans eðlis. Hann er það afturhaldssamur, hann unir aldrei til lengdar án þess að eyðileggja slíka stjórn á endanum, enda tók hann alveg réttilega fram, að ég hefði sýnt fram á, hvernig hann hefði farið að við allar þær stjórnir, sem hefðu verið eitthvað í þá át, og gat ekki hrakið eitt einasta af því. Hann drap vinstri stjórnina á nákvæmlega því sama sem hann drap allar hinar, á hagsmunamálum alþýðu, á hagsmunamálum verkalýðsins. Hann heimtaði ýmist gerðardóm, gerðardóm og gerðardóm eða þá löggjöf á Alþ. um að lækka launin. Hann hefur drepið þær allar, svoleiðis. Svo kemur hann og segir, að það séu aðrir, sem séu að drepa vinstra samstarfið eða vinstri stefnu í landinu.

Hann spyr og virðist ekki hafa fengið svar við því, — ég er þó búinn að gefa það oft, — af hverju verkalýðurinn hafi alveg sérstaklega verið andvígur einmenningskjördæmunum. Er það nú nokkuð að undra? Ég skal segja honum, hvað einn af okkar ágætu Alþb.—mönnum úti í einu af þeim kjördæmum, þar sem oft hefur verið harðast barizt á milli Framsóknar og Sjálfstfl., sagði í vor, þegar við vorum að ræða þar um undirbúninginn á þessu. Hann sagði: Mikil breyting verður það, þegar maður loksins losnar út úr þessum einmenningskjördæmum. Þá getur einn kjósandi, sem vill kjósa t.d. með verkalýðshreyfingunni, farið að kjósa það bezta, það, sem hann raunverulega vill, hann þarf ekki alltaf að vera að kjósa það skárra af tvennu illu, sem sé annaðhvort Framsókn eða Sjálfstfl.

Einmenningskjördæmin hafa verið þannig víðast hvar, að Sjálfstfl. og Framsfl. hafa svo að segja haft helmingaskipti í þeim og það eru þessi helmingaskipti, sem Framsfl. sérstaklega virðist hafa viljað innleiða um allt land eða sem allra víðast. Það væri þá helzt að skilja Reykjavík út undan þeirri blessun, af því að það kemur Framsfl. ekki eins vel þar.

Nei, það, sem gerir að verkum, að verkalýðshreyfingin hefur alveg sérstaklega hagsmuni af því að fá stærri kjördæmi, en einmenningskjördæmin eru, er möguleikinn á því að geta sameinað verkalýðshreyfinguna á stærra svæði til stærri átaka um þau verkefni, sem alþýðunni á þessum stöðum eru lífsnauðsyn. Það er einfaldlega til þess að geta sameinað hana betur. Þá er þessi kjördæmabreyting einmitt hvað snertir þessi stóru kjördæmi eitthvert allra þýðingarmesta spor, sem stigið hefur verið í sambandi við lýðræðisþróunina á Íslandi til þess að skapa góðan grundvöll að einingu verkalýðshreyfingarinnar. Hitt er svo annað mál, hversu vel hún kann að nota þann grundvöll. En grundvöllurinn er skapaður með því betur en nokkru sinni var hugsanlegt í sambandi við einmenningskjördæmi.

Þá sagði hv. 1. þm. S-M., að Framsókn hefði alltaf verið reiðubúin til þess að semja um kjördæmamálið í vinstri stjórninni. Jæja. Mikið er nú hægt að fullyrða eftir á. Hún var aldrei reiðubúin til að semja og var þó talað við hana um það. Hún passaði meira að segja að slíta stjórnarsamstarfinu og það sem fyrst, áður en nokkuð væri gert til þess að reyna að fara að semja. Hitt skal ég aftur á móti játa, að það má vel vera, að Framsókn hafi verið reiðubúin til að semja, þegar hún var búin að spila öllu út úr höndunum á sér. Þegar hún var búin að svíkja það, sem hún var búin að lofa í vinstristjórnarsáttmálanum, þá hefur hún kannske verið til í það. Þá var það of seint. Ég veit, að það er þetta, sem hv. 1. þm. S-M. alltaf er í vandræðum með gagnvart sinni samvizku og gagnvart ásökunum hans eigin flokks, að hann og aðrir aðalforingjar flokksins eru ásakaðir um að hafa spilað út úr höndunum á þeim möguleikum til samninga og það er rétt. Þeir samningamöguleikar voru búnir að vera, þegar vinstri stjórnin var búin að vera sjálf, þegar Framsókn hafði slitið þeim, en þeir voru til, á meðan vinstri stjórnin var til.

Hvernig sýndi svo Framsókn og sérstaklega hennar foringjar þennan hug, að þeir vildu semja, meira að segja eftir að þeir höfðu slitið vinstristjórnarsamvinnunni? Þeir gerðu það þokkalega á flokksþinginu sínu. Út á hvað gekk það? Að stefna skuli að því að koma upp sem flestum einmenningskjördæmum í landinu og afnema landskjörið, afnema uppbótarsætin. Gegn hverjum var þessu stefnt? Var þessu stefnt gegn Sjálfstfl.? Var Framsfl. að sýna sig sem hinn mikli flokkur lýðræðis og vinstri stefnu í landinu, umbótaflokkur, sem bæri hag verkalýðs fyrir brjósti? Var hann að sýna það með því að heimta tóm einmenningskjördæmi á landinu og afnám á landskjörinu? Framsfl. vissi ósköp vel, að landskjörið var frá upphafi eitt af því, sem verkalýðurinn og verkalýðsflokkarnir höfðu barizt fyrir og einmenningskjördæmin voru það, sem þeir höfðu barizt á móti og reynt að fá stærri kjördæmi. Hverjum var verið að bjóða samvinnu? Var það vinstra samstarf, sem var verið að beita sér fyrir á flokksþingi Framsóknar með þessari till. um kjördæmamálið? Nei, það var verið að bjóða Sjálfstfl. samvinnu, sem var vitað að Sjálfstfl. alltaf hafði verið til í. Sjálfstfl. var til í það í kringum 1951–52, ef ég man rétt, eða a.m.k. partur af honum var til í það að koma á eintómum einmenningskjördæmum í landinu og afnema landskjörið. Gæfa verkalýðshreyfingarinnar var sú, að Framsfl. og Sjálfstfl. náðu aldrei saman, á meðan þeir voru svo að segja á sömu skoðun í þessu máli, þó að bæri á milli, hvernig það skyldi vera í Reykjavík. En hvað er það, sem gerist, þegar Framsókn er búin að slíta vinstra samstarfinu? Hún býður Sjálfstfl. upp á samstarf um að koma upp eintómum einmenningskjördæmum í landinu, afnema landskjörið, m.ö.o. reyna að þurrka verkalýðsflokkana út af Alþingi. Þetta var vinstra samstarfið. Það var ekki verið að bjóða Alþfl. og Alþb. samstarf með því að samþykkja þá ákvörðun að stefna að einmenningskjördæmum og afnámi landskjörs, það hlaut hverjum manni á flokksþingi Framsfl. að vera ljóst. Það var verið að bjóða Sjálfstfl. upp á slíkt samstarf. Og hvað hefði framkvæmdin á þessari flokkssamþykkt Framsóknar þýtt. Hún hefði þýtt, — ja, við skulum bara taka sem dæmi núna, að Reykjavik hefði fengið að haldast, — hún hefði þýtt, að verkalýðsflokkarnir hefðu haft tvo menn á Alþingi, Framsókn og Sjálfstfl. hefðu haft helmingaskipti um hin sætin. Þetta var það, sem Framsfl. hugsaði sér sem vinstri lausn, eftir því sem hv. 1. þm. S-M. talar, svona stefna í kjördæmamálinu. Nei, það þýðir ekki fyrir hv. 1. þm. S-M. að koma hér og segja, að vottur af Framsókn hafi verið reiðubúinn til þess að semja. Við munum enn þá eftir hnefahögginu, sem það flokksþing Framsóknar var og hafi verið einhver efi hjá okkur ýmsum um, hvort það bæri að taka höndum saman við Sjálfstfl. um að leysa kjördæmamálið, þá var það Framsóknarflokksþingið, sem gerði út um, að það stóðu allir saman um að leysa málið eins og það var leyst.

Svo kom hv. 1. þm. S-M. með það, að það væri óskaplegur fjandskapur við dreifbýlið í öllu því, sem nú væri verið að gera og ég held, að annar hv. þm. Framsfl. hafi jafnvel komið inn á það, að það hafi andað eitthvað köldu til þess frá mér. Mér liggur við að spyrja: Hvernig væri byggðin í þeim þremur landsfjórðungum, sem Framsókn og Sjálfstfl. höfðu í sjö ára ríkisstj. helmingaskipti um að reyna að eyða, ef við, sem nú stöndum í Alþb., hefðum ekki haft forgöngu um það 1944 að mynda þá nýsköpunarstjórn, sem setti stórútgerðina úti um allt land og lagði grundvöllinn að þeim stórútvegi, sem nú á sér stað á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi? Hvernig hefði ástandið í þessum landsfjórðungum og þar með dreifbýlinu verið, ef Framsókn hefði fengið að ráða þá, þegar hún bauð Sjálfstfl. samstjórn með sér 3. okt. 1944 og vonaðist með því móti eftir að geta myndað stjórn með Sjálfstfl. einum, bolað báðum verkalýðsflokkunum út úr stjórn og hindrað alla nýsköpun atvinnulífsins? Hvernig skyldi ástandið á Íslandi hafa verið þá, þegar hv. 1. þm. S-M. hélt því fram, að það væri sú hreina vitleysa af þjóðinni að ætla að fara að kaupa sér framleiðslutæki og leit á togarana eins og hvert annað gums, sem enginn vissi hvað ætti að gera við, þegar þeir væru loksins komnir? Ég er hræddur um, að það hafi þvert á móti verið umhyggja Sósfl. fyrir dreifbýlinu, fyrir því fólki úti um allt land, sem vinnur hörðum höndum og þarf að fá góð tæki til þess að vinna með, — ég held það hafi verið sú forsjálni og sú umhyggja, sem bjargaði því, að Framsókn og Sjálfstfl. skyldi ekki takast að eyða byggðum landsins, þegar þeir tóku saman um hernámsstefnuna eftir 1947. Ég held þess vegna, að einhver raunhæfasti grundvöllur, sem hafi verið lagður að uppbyggingunni um allt land, hafi verið lagður þá.

Hvað gerði svo Framsókn, þegar hún tók saman við Sjálfstfl. eftir 1949 og þegar þau stjórnuðu ein saman? Ég veit ekki, hvort hv. 1. þm. S-M., sem virðist nú halda, að allt sé vinstri stjórn, ef Framsókn er í því, meinar, að það hafi verið einhvers konar vinstri stjórn, sem tók við þá, en það hefur aldrei verið litið á það þannig. Ég held, að þá hafi nú keyrt um þvert bak um afturhaldið á Íslandi. Og hvernig var hugsað um dreifbýlið? Hvernig var hugsað um dreifbýlið á árunum 1949–56, þegar enginn togari var keyptur handa dreifbýlinu, ekki einn einasti, 5.000 bílar fluttir til landsins og hernáminu skellt á, og hvað gerði hv. 1. þm. S-M. fyrir dreifbýlið þá? Jú, hann gaf bændum og öðrum mönnum úti um allt land ávísanir á herstöðvavinnu suður á Keflavikurflugvelli og hann hafði helmingaskipti við íhaldið um það. Það er þess vegna alveg óþarfi að vera að ráðast á okkur, sem stöndum í Alþb. fyrir, að það hafi skort umhyggju fyrir dreifbýlinu og hagsmunum þess fólks, sem þar starfar. Það eru aðrir hagsmunir, sem Framsókn hefur borið fyrir brjósti, heldur en þeir, hagsmunir þess fólks, þegar hún hefur verið í ríkisstjórn, ekki sízt þegar hún hefur verið í ríkisstjórn með Sjálfstfl.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. S-M. kom inn á, hvað væri vinstri stjórn, þá var hann dálítið að snúa út úr því, sem ég sagði. Ég tók það einmitt fram í sambandi við nýsköpunarstjórnina, að hún hefði nú aldrei verið kölluð vinstri stjórn. Hins vegar það, sem hlýtur að vera alltaf einkenni — og þá endurtek ég það, sem ég sagði í dag — á hverri vinstri stjórn, það er, að hún reki vinstri stefnu, að það takist að knýja fram í henni vinstri stefnu. Það er það, sem hlýtur að vera einkennið. Og það, sem ég lýsti yfir, var, að svo fremi sem báðir verkalýðsflokkarnir bæru gæfu til að standa saman í slíkri stjórn, þá ættu þeir að hafa möguleika til þess að hafa slík áhrif á slíka stjórn, að hún væri raunverulega vinstri stjórn.

Og svo spyr hv. 1. þm. S–M.: Hvað er það, sem núna er að gerast? Það, sem raunverulega fyrst og fremst sker úr um, hvort það er íhalds- og afturhaldsstefna uppi í þjóðfélaginu eða ekki, er afstaðan gagnvart lífskjörum almennings. Það eru mörg mál önnur, sem út af fyrir sig menn getur greint á viðvíkjandi hvað sé vinstri, hvað sé hægri, hvað sé framsækið og hvað sé afturhaldssamt, en það, sem er venjulega grundvallaratriðið, þegar á að útkljá um, hvort það sé framsækin stjórn, vinstri stjórn eða annað slíkt eða hvort það sé íhalds- og afturhalds– eða hægri stjórn, það er afstaðan gagnvart lífskjörum fólksins. Sú stjórn, sem stefnir að því að reyna að knýja það fram, að lífskjör almennings séu rýrð, séu gerð verri, hlutur verkamannsins, bóndans, sjómannsins sé gerður lakari, — sú stjórn, sem fylgir slíkri stefnu, það er stjórn, sem stefnir í íhalds– og afturhaldsátt eða vill gerast hægri stjórn. Hins vegar sú stjórn, sem vill vinna að því að bæta lífskjör almennings, gera þau betri, gera hlut hins vinnandi manns í þjóðfélaginu meiri og betri, sú stjórn er venjulega kölluð vinstri stjórn og hennar stefna vinstri stefna.

Og hvernig liggja línurnar í íslenzka þjóðfélaginu viðvíkjandi þessu núna? Það kom eins skýrt og greinilega fram og frekast er hægt að hugsa sér. Ég skal taka það fram, ég hef oft tekið það fram, bæði í umr. undir kosningarnar og áður, að vinstri stjórnin gerði margt gott, mjög margt gott og um það, sem hún gerði gott, þar áttu Alþb. og þess forustumenn og þess ráðh. sérstaklega fyrst og fremst miklar þakkir skildar. Vinstri stjórnin vanrækti vissa hluti þrátt fyrir áminningu Alþb. og þessara ráðh., og um þá vanrækslu, hvort heldur við viljum taka hernámsliðið, 15 togarana, kjördæmamálið eða annað slíkt, þar áttu ekki sízt þeir voldugu forustumenn Framsfl., sem í henni sátu, sinn part af sökinni fyrir vanræksluna. Vinstri stjórnin hafði sem sagt gert mjög margt gott og virtist hafa unnið vel að því. Vinstri stjórnin vanrækti vissa hluti og við þykjumst hafa unnið að því að reyna að hindra, að hún vanrækti þá, en ekki getað komið í veg fyrir það. En af hverju sprakk hún? Hún sprakk á því, að Framsfl. heimtaði, að laun almennings yrðu með lögum frá Alþingi lækkuð um 8%. Á því sprakk hún. Hv. 1. þm. S-M. tilkynnti, að ef verkalýðsflokkarnir ekki gengju að svona hlut, þá væri stjórnarsamstarfinu slitið. Á þessu sprakk hún alveg ótvírætt. Það þýðir, ef maður vill nota þá skilgreiningu á hægri og vinstri, sem ég var með hér áðan viðvíkjandi lífskjörum almennings, að Framsfl. heimtaði, að vinstri stjórnin tæki hægri stefnu, skæri niður lífskjör almennings í staðinn fyrir að varðveita þau og jafnvel bæta þau. Og á þessu hafði þessi sami hv. foringi Framsóknar sprengt hverja slíka stjórn, þar sem hann hafði verið í samvinnu áður við t.d. Alþfl., einmitt á slíkum kröfum um launalækkanir, gerðardóm í því sambandi og annað slíkt.

Og hverjir voru sammála, eins og sýndi sig eftir á, um, að það skyldi lækka laun með lögum? Sjálfstfl. bauð okkur upp á ríkisstj. á eftir, eins og ég tók fram í dag, um að lækka launin um 6%. Við sögðum nei. Ég segi þetta sérstaklega vegna þess, að ef hv. 1. þm. S-M. heldur, að það sé eitthvað sérstakt, sem við séum að leita eftir að mynda stjórn með Sjálfstfl., þá hefðum við getað það nú þegar, við hefðum getað staðið í þeirri stjórn, ef þið haldið, að það sé okkur keppikefli að vera fyrst og fremst í ríkisstjórn, hvern andskotann sem hún gerir. Við erum alveg ósmeykir við að standa að ríkisstjórn, ef þess er þörf. Við þurfum ekki vegna skulda Sambandsins að fara inn í ríkisstj. Við förum inn í ríkisstj., svo framarlega sem við álítum, að við getum gert þar það mikið fyrir okkar umbjóðendur, fyrir alþýðu þessa lands eða fyrir okkar þjóð í heild, að við viljum taka ábyrgð á slíkri ríkisstj. Við spyrjum þá ekki að því, hver það er, — það er alveg rétt, við erum jafnt reiðubúnir á morgun til að mynda stjórn með Framsfl., ef við næðum samkomulagi um þau mál, sem ætti að gera, eins og við mundum vafalaust mynda stjórn með Sjálfstfl., svo að ég tali nú ekki um Alþfl., þegar við bara næðum samkomulagi um þau mál, sem þarf að gera í slíku þjóðfélagi.

En svo að ég viki aftur að því máli, sem vinstri stjórnin sprakk á, 8% launalækkun og því, sem það sprakk á, að við værum í einhverri stjórn með Sjálfstfl. og Alþfl. í dag, 6% launalækkun, hverjir sameinuðust svo á eftir um að lögbjóða launalækkun hér á Alþ., um að stefna í hægri stjórn raunverulega og í hægra stjórnarfar? Þeir, sem sameinuðust um það, voru Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. Það eru þessir þrír flokkar, sem í því máli, sem fyrst og fremst sker úr um, hver sé höfuðstefna í þjóðfélaginu, hægri eða vinstri stefna, það eru þessir þrír flokkar, sem eru sammála um þetta. Þeir standa saman um þennan niðurskurð. Við stóðum einir á móti honum. Þeir standa meira að segja saman um að lýsa því yfir allir saman, að þeir séu með gengislækkun eftir kosningar. Við erum á móti því.

Ég er orðinn það gamalreyndur í íslenzkri pólitík, að ég veit ósköp vel, að þessir flokkar ætla sér í næstu kosningum að slást hver á móti öðrum. En það þarf ekki nema að leggja saman tvo og tvo til þess að sjá, hverjir það eru, sem heyra saman í ríkisstj. Það eru þeir, sem eru sammála um þau grundvallaratriði í stefnu, sem fyrst og fremst öll íslenzk pólitík markast af og það eru efnahagsmálin. Þeir, sem eru sammála um að skera niður við almenning í landinu, skera niður laun þess vinnandi fólks, þeir koma til með þrátt fyrir allt sitt lýðskrum í kosningum að taka saman eftir þær kosningar, vegna þess að það verður málið, sem átökin verða um. Ég veit, að Framsfl. er svo sem reiðubúinn til þess að tala óskaplega mikið „vinstri“ fyrir þessar kosningar og þetta er sá eini sanni vinstri flokkur og allt saman slíkt. Af hverju? Af því að hann ætlar að reyna að útvega sér dálítið betri aðstöðu til helmingaskiptanna við íhaldið, þegar hann fellst á gengislækkunarstjórn, launalækkunarstjórn með því eftir næstu kosningar.

Það er aðeins um þetta, sem er verið að bitast. Það dugir engin hræsni við okkur í því. Við þekkjum of vel, hvernig þeir haga sér. Þess vegna er ekki vert, að við förum að ræða þau mál nú. Það verður líka kannske komið að þeim á þinginu einhvern tíma áður en lýkur, svo að það er ekki viðkunnanlegt. Ég vildi aðeins segja þetta af því tilefni, sem hv. 1. þm. S-M. gaf í sínum svörum.