11.08.1959
Neðri deild: 14. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

3. mál, kosningar til Alþingis

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það hefur áður verið rætt um það að þeir flokkar, sem standa að kjördæmabreytingunni, hafi í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar lagt á það höfuðáherzlu að reyna að drepa málinu á dreif, eins og þeir hafa getað og láta önnur mál skyggja á kjördæmabreytinguna í áróðrinum, eftir því sem þeir hafa getað komið því við. Það hefur verið bent á það áður, að t.d. Sjálfstfl. hafi lagt höfuðáherzlu á það í áróðrinum, að kosningarnar snerust um afstöðu manna til vinstri stjórnarinnar. Það hefur verið bent á það, að Alþb. hafi lagt höfuðáherzlu á mörg önnur mál umfram kjördæmamálið, eins og t.d. landhelgismálið. Það hefur verið á það bent, að Alþfl. hafi talið, að kosningarnar snerust um traust eða vantraust á ríkisstjórnina. Svona mætti lengi telja og hefur verið vitnað til skrifa í blöðum flokkanna, sem stóðu að kjördæmabreytingunni, áður í umræðum á háttv. Alþingi.

En það eru ekki eingöngu ákvæði stjórnarskrárinnar, sem eru þýðingarmikil í sambandi við breytingar á kjördæmaskipuninni. Það eru einnig ýmis ákvæði í kosningalögunum sjálfum, sem snerta beint sjálfan kosningarréttinn, eins og t.d. ákvæðin um úthlutun á uppbótarþingsætum, sem eru hin þýðingarmestu, svo að dæmi sé tekið.

Ég man eftir því á framboðsfundunum fyrir kosningar, að talsmenn eða frambjóðendur þríflokkanna voru spurðir að því, hvaða stefna vari ríkjandi meðal þeirra flokka, sem beita sér fyrir breytingum á kjördæmaskipuninni, í sambandi við úthlutun á uppbótarþingsætum, hvort það væri meiningin að halda sömu reglum í þessu efni og verið hefur eða hvort menn hugsuðu til breytinga. Þessar spurningar virtust koma meira og minna flatt upp á frambjóðendurna, þeir höfðu ekki neina ákveðna sameiginlega stefnu í þessu efni og varð ógreitt um svör. Þó töldu þeir helzt, að það mundi ekki vera ætlað að gera breytingar á þessu, en eins og ég sagði áður, þá var þeim ógreitt um svör. Þannig er það ljóst, að það eru ekki eingöngu ákvæðin um breytingar á kjördæmaskipuninni, sem hafa verið lögð fyrir þjóðina með þeim hætti að reyna að hylja þau reykskýi annarra mála, heldur voru einnig ákvæði, sem kveðið er á um í kosningalögunum, sem þríflokkarnir tjáðu sig ekki sérstaklega um fyrir kosningarnar.

Það hafa verið bornar fram hér við umr. margar brtt. við upphaflega lagafrv. um ýmis efni og nú hefur borið á því í vaxandi mæli, að einstakir þm. hafi borið fram brtt. um ákveðin efni og vil ég taka sum af þessum atriðum til nokkurrar nánari athugunar.

Það hefur verið rætt mikið um og bornar fram margar till. um verkanir á tilfærslum á listum og útstrikunum. Flestir hafa verið á þeirri skoðun, að það væri ástæða til að minnka nokkuð þá verkun, sem tilfærslur hafa í þessu efni og útstrikanir og hafa fært fram sem röksemdir fyrir þessu, að það væri óeðlilegt, að tiltölulega mikill minni hluti kjósenda gæti kveðið á um það, hverjir væru kosnir, þvert ofan í fullkomið traust og kosningu margfalds meiri hluta kjósenda. Ég hygg, að þetta sjónarmið eigi mikið til síns máls. Það kann að vera spurning um, hvað langt á að ganga í þessu efni og margs er að gæta. Í frv. sjálfu var í 110. gr., að því er mig minnir, kveðið á um þessar reglur, eins og það var lagt fyrir upphaflega. Síðan hafa komið fram brtt. frá stjskrn. um það, hvernig 110. gr. ætti að orðast og þar hefur komið fram ný regla frá því, sem áður var, sem er nokkuð flókin eins og þessar reglur raunar allar. Þá hefur komið fram á þskj. 26 brtt. frá hv. 9. landsk. þm. um það að herða enn að í þessu efni og minnka áhrif þau, sem tilfærslur og útstrikanir hafa á röð frambjóðenda á listum. Það er sjálfsagt álitamál í þessu efni, hvað langt á að ganga, fullkomið álitamál. Og það eru mörg sjónarmið, sem þar koma til álita. Það er t.d. hægt að líta á þetta frá sjónarmiði kjósandans sjálfs, sem vill neyta þess réttar að gera tilfærslur á listum eða útstrikanir. Ætla má, að hann vilji, að tilfærslurnar og útstrikanirnar hafi sem mestar verkanir. Það má líta á þetta frá sjónarmiði flokksstjórnanna og þar getur komið tvennt til: annars vegar það, að flokksstjórnirnar vilji gjarnan hafa möguleika á því að skipuleggja sjálfar tilfærslur eða útstrikanir, ef uppstillingarnar eru gerðar gegn þeim og svo hins vegar það, að ef verkanir tilfærslna og útstrikana eru tiltölulega litlar, þá mætti segja, að það væri verið að auka vald flokksstjórnanna meira, en áður hefur verið. Ég mundi telja eðlilegt, að það væri reynt að fara eins konar bil beggja í þessu efni og vildi aðeins tjá mig um brtt. á þskj. 26, að ég teldi hana ekki vera til bóta frá því, sem er í brtt. 23, þar sem þessi regla er miðuð við 2/3, en aftur á móti á þskj. 26 er miðað við 3/4, sem gengur lengra í þá áttina að minnka áhrif tilfærslna og útstrikana.

Ef maður lítur á þessa 110. gr., eins og hún á að orðast eftir till. frá stjskrn., þá er þetta langt mál og flókið og það þarf mikla athugun til þess að gera sér fulla grein fyrir því, hvernig tilfærslur og útstrikanir verki. Það er engin ástæða til þess að geta ætlazt til þess, að almennur kjósandi geti gert sér fulla grein fyrir því, hvernig atkvæði hans verkar í þessu efni, því að reglurnar eru svo flóknar.

Ég minnist þess, að það var skrifað um það nokkru fyrir kosningarnar, að því er ég held í Reykjavíkurbréfi Mbl., að hlutfallskosningar væru „fegursta kosningaaðferðin“. Það hafði einhver sagt það og blaðið tók undir það, að það væri fegursta kosningaaðferðin. Ef við athugum nú þessar reglur, fyrst og fremst reglurnar um kjördæmin, hlutfallskosningarnar í kjördæmunum, síðan þessar reglur um áhrifin af tilfærslum og útstrikunum, þá verð ég að segja það, að mér finnst þær ekki fallegar. Það verkar ekki þannig á minn fegurðarsmekk, að mér finnist þessar reglur vera fallegar. Þessi regla hérna, þessi mjög svo flókna regla í 110. gr., þessi langa og flókna regla, ekki finnst mér hún vera falleg. Það er nú stundum svo, t.d. með málverk, að mönnum finnst þau ekki falleg, ef menn sjá þau of nærri sér og það þarf að líta á þau úr dálitilli fjarlægð, til þess að þau njóti sín. Mér finnst þessar reglur yfir höfuð vera dálítið svipaðar málverki, þannig að maður þurfi að líta á þær úr dálítilli fjarlægð, til þess að þær séu fallegar og maður njóti þeirra, helzt úr svo mikilli fjarlægð, að maður geti ekki lesið það, sem þar stendur og sjái bara myndarlegar greinar og langar og ekkert annað. Um þetta atriði, að þetta séu fegurðarreglur og hlutfallskosningar séu fegursta kosningaaðferðin, á það get ég ekki fallizt fyrir mína parta.

Ef kosningafyrirkomulagið væri öðruvísi, en hér er gert ráð fyrir, ef t.d. um einmenningskjördæmi væri að ræða, þá kæmu slíkar reglur sem þessar ekki til neinna greina. Þá þyrfti ekki flóknar og langar útskýringar á því, hvernig atkvæði manna verkaði í ýmsum tilfellum. Þá væri um meirihlutakosningu að ræða og það væri sá frambjóðandinn, sem fengi meirihluta eða hæsta atkvæðatölu, sem væri kjörinn og þar með lægi sú einfalda regla mjög ljóst fyrir. Það er mikill munur á þessu tvennu og það væri miklu auðveldara fyrir almenning og almenna kjósendur í landinu að skilja til fulls verkanir atkvæðis síns, ef um væri að tefla einmenningskjördæma fyrirkomulag.

Þá eru reglurnar í kosningalögunum eða frv. til kosningalaganna um framboð náttúrlega mjög þýðingarmiklar, sem koma fram hér í 27. gr. frv. í 6. kafla, um framboð.

Þessar reglur eru mjög þýðingarmiklar með tilliti til þess, að hve miklu leyti eða hverra skilyrða á að krefjast til þess, að nýir flokkar geti fengið rétt til þess að bjóða fram frambjóðendur. Það má sjálfsagt deila um það, hvort það eigi að setja einhverjar skorður í þessu efni eða ekki og í öðru lagi, hve miklar skorður og koma í því sambandi til athugunar þær röksemdir, sem hafa verið bornar fram af okkur, þeim sem eru andvígir kjördæmabreytingunni, að við teljum hættu á því, að þessi nýja kjördæmaskipun muni, þegar tímar líða fram, leiða af sér fleiri flokka í landinu, en verið hefur og vissulega fleiri flokka, en ástæða væri til að ætla að mundu verða stofnaðir, ef um einmenningskjördæmafyrirkomulag væri að ræða. Það gæti því komið til athugunar, hvort ástæða væri til að krefjast strangari skilyrða fyrir framboðum, en gert er ráð fyrir í þeim kafla frv., sem fjallar um framboðin. Skilyrðin eru í raun og veru fyrst og fremst fólgin í því, að í Reykjavík er krafizt 100–200 meðmælenda og í öðrum kjördæmum 50–100.

Þessu er talsvert misjafnlega farið í öðrum löndum. Í Danmörku er þetta t.d. þannig, að þar er krafizt 10 þús. meðmælenda fyrir nýja flokka, til þess að þeir fái rétt til þess að taka þátt í þingkosningum. Ef það er borið saman við þessa reglu, sem hér er, þá hygg ég, að þetta sé hlutfallslega strangara í Danmörku, en gert er ráð fyrir í frv. og í öðru lagi þess að gæta, að erfiðara er að mynda samtök í stórum stíl, eins og þegar um er að ræða þúsundir kjósenda, heldur en þegar um er að ræða fáa kjósendur, eins og hér er gert ráð fyrir að þurfi. Ein, tvær eða þrjár skipshafnir geta komið sér saman um framboð og boðið fram frambjóðendur og úr því gæti orðið flokkur.

Menn velta því fyrir sér talsvert, hvaða ástæður liggi til grundvallar þessum breytingum á kjördæmaskipuninni og kosningalögunum, hvaða hvatir það eru hjá flokkunum, sem liggja til grundvallar þessu, hvers vegna þeir séu að þessu og hvers vegna þeir vilji gera það, eins og gert er ráð fyrir í frv. til breytinga á stjórnarskránni, sem er fellt inn í frv. til laga um kosningar til Alþingis. Það eru sjálfsagt mismunandi ástæður, sem valda þessu hjá flokkunum. Kommúnistar vilja að sjálfsögðu kerfi, sem leiðir til upplausnar, einfaldlega vegna þess, að þeir vilja feigt frjálst stjórnskipulag og stjórnarfar. Þeirra hlutverk og hugsjón er að koma á kommúnistísku hagkerfi, eins konar Sovét- Íslandi, ef svo mætti að orði komast. Þeir eygja ekki möguleikann á að koma slíku í framkvæmd með fylgisaukningu í frjálsum lýðræðiskosningum. Þess vegna vilja þeir koma á upplausn og byggja síðan hugsjónaþjóðfélag sitt upp af rústum núverandi þjóðskipulags. Þeirra afstaða í þessu efni er því augljós og eðlileg.

Um Alþfl. gildir það, að hann er að verja tilverurétt sinn eða tilveru sína og gengur svo langt í þeirri baráttu, að hann skirrist ekki við að brjóta kosningabandalag sitt við Framsfl., eins og kunnugt er alþjóð. Hefði verið eðlilegra, að flokkurinn hefði látið einar kosningar líða og slitið þar með því pólitíska samstarfi, sem stofnað var til með hinu svokallaða Hræðslubandalagi og síðan þar á eftir hugsað til breytinga á kjördæmaskipuninni í landinu.

Á hinn bóginn velta menn því fyrir sér, hvers vegna Sjálfstfl. skuli nú ganga fram fyrir skjöldu um að koma á stórum kjördæmum með hlutfallskosningum. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá þeim flokki um, að hann muni aldrei ganga að slíkri skipan, fárra og stórra kjördæma.

Nú verða menn að hafa hugfast, að kjördæmaskipunin er ekkert dægurmál. Um það, hvernig menn vilja hafa hana, hljóta ætíð að liggja til grundvallar sömu röksemdirnar og sömu ástæðurnar. Þetta mál er því ekki dægurmál, heldur stefnuskrármál. Það er því eðlilegt, að menn verði undrandi, þegar Sjálfstfl. kúvendir skyndilega í kjördæmamálinu, kemur fram með nýja stefnuskrá í þessu mjög svo þýðingarmikla máli.

Sjálfstfl. hefur ekki gefið fullnægjandi skýringar á þessari kúvendingu. Foringjar hans hafa að vísu sagt, að hlutfallskosningakerfið sé betra en blandað kerfi. Hins vegar liggja ekki fyrir, svo að mér sé kunnugt um, neinar sérstakar aðdáunaryfirlýsingar frá Sjálfstfl. eða foringjum hans um ágæti hlutfallskosninga almennt séð. En hver er þá ástæðan? Það skyldi þó aldrei vera, að Sjálfstfl. tæki flokkshagsmuni fram yfir þá hagsmuni þjóðarinnar að búa við traust og ábyrgt stjórnarfar?

Sjálfstæðisflokkurinn hugsar sér einmitt að fljóta á þeirri upplausn, sem hin nýja kjördæmaskipun er líkleg til að skapa, þegar fram líða tímar. Hann getur ekki gleymt því, á hverju áratugavöld flokksins byggjast í Reykjavík. En völd bæjarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík byggjast á því, að það er engin samstæð heild, eða fyrst og fremst á því, að það er engin sameiginleg stjórnarandstaða. Hlutfallskosningarnar hér í Reykjavík tryggja framboð þriggja til fjögurra stjórnmálaflokka eða fleiri við bæjarstjórnarkosningar. Og Reykvíkingum finnst það skárra að búa við slappa og reikula stjórn bæjarins, en að kjósa yfir sig sundurleitan hóp stjórnmálaflokka, sem engin trygging er fyrir að komi sér sæmilega saman. Það er þó kapítuli alveg út af fyrir sig að ræða, hvernig Sjálfstfl. í Reykjavík framkvæmir stefnuskrá flokks síns, þar sem hann hefur öll völd og eru talsverðar hugleiðingar manna á meðal um það, að mönnum finnst ekki, að flokkurinn framkvæmi stefnu sína um frjálst framtak og einstaklingsrekstur í Reykjavík eins og vænta mætti, þar sem hann hefur öll völd í hendi sinni og hefur haft um langa hríð.

Sjálfstæðismenn hafa í kosningunum í Reykjavík mjög haldið fram hinni svonefndu glundroðakenningu. Er hún fólgin í því, að skárra sé að styðja Sjálfstfl. áfram, en að efla skipta andstöðu til valda. Á þennan hátt hefur Sjálfstfl. haldið völdunum í Reykjavík um áratugi.

Á þessu fyrirkomulagi er sá annmarki, að stjórnarandstaðan er sundurleit og óheilsteypt. Ef hún hins vegar væri ein heild, væri öðru máli að gegna. Þá væri engin hætta á, að með því að kjósa stjórnarandstöðuna væri verið að kjósa neinn glundroða. Hlutfallskosningar viðhalda þessu fyrirbrigði og tryggja sundrungu flokkanna og þetta veit Sjálfstfl. mætavel og það er þetta, sem hann ætlast til. Hann álítur, að hlutfallskosningar í stórum kjördæmum muni leiða til þess, að flokkurinn geti notað glundroðakenninguna í landsmálum á sama hátt og hann hefur notað hana hér í Reykjavík. Hann vonast til þess, að svipuð verði þróunin hér og hún er t.d. í Noregi, svo að dæmi sé nefnt. Þar bjóða mjög margir flokkar fram til kosninga. T. d. í kosningunum 1957 munu 10–11 flokkar hafa boðið fram frambjóðendur. Ég hef hér í höndunum eins konar fréttatilkynningu frá norska utanrrn. um seinustu kosningar í Noregi til Stórþingsins, kosningarnar 1957. Þar er flokkaskiptingin þannig, að Verkamannaflokkurinn hefur 78 þingsæti og hinir flokkarnir 5 til samans 12. Það er dálítið fróðlegt að lesa smákafla þessarar fréttatilkynningar í sambandi við það, sem ég var að tala hér áðan um glundroðakenninguna, sem Sjálfstfl. hefur haldið fram. Í þessari fréttatilkynningu segir á þessa leið:

„Eins og oft áður er höfuðbaráttan í þessum kosningum milli Verkamannaflokksins annars vegar, Íhaldsflokksins, Frjálslynda flokksins, Bændaflokksins og Kristilega þjóðflokksins og Kommúnistaflokksins hins vegar. Um útkomuna er erfitt að spá. Það er ljóst, að fjöldinn af kjósendum í Noregi hefur verið tiltölulega staðfastur á s.l. árum og það er lítil ástæða til þess að álíta, að það muni verða stórar breyt. til neinnar ákveðinnar áttar. Á hinn bóginn getur tiltölulega smár hluti kjósenda valdið því, að Verkamannaflokkurinn tapi sínum hreina meiri hluta í Stórþinginu.“ Og svo kemur að lokum: „Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að norsk blöð hafi undanfarið hugleitt og skrifað mikið um það ástand, sem mundi skapast í landinu, ef Verkamannaflokkurinn tapaði sínum hreina meiri hluta.“

Þarna er dálítið svipað ástatt og er í Reykjavík, að því leyti til, að það, sem við blasir, ef Verkamannaflokkurinn tapar sínum hreina meirihluta, eða það mætti a.m.k. halda því fram, að það væri e.t.v. eins konar glundroði, ef hinir flokkarnir, sem enginn hefur hreinan meiri hl., þyrftu að koma sér saman um samsteypustjórn í landinu.

Þá vil ég næst víkja hér að nokkrum brtt., sem hafa verið bornar fram við frv., eins og það lá fyrir eftir 2. umr. hér í hv. þd.

Það er brtt. á þskj. 27 frá hv. 9. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykv. um að færa kjördaginn fram frá síðasta sunnudegi í júnímánuði og komi í stað þess annar sunnudagur í júnímánuði. Ef þetta hefði gilt núna í vor, hefði kjördagurinn sennilega komið upp á 14. júní. Ég hygg, að menn muni það vel, að einmitt um þetta leyti, — það mun hafa verið 6. eða 7. júní, — kom mikið áfelli og stórhríð um mikinn hluta landsins, eða norðanvert Austurland, Norðurland og Vestfirði, þannig að samgöngur á landi tepptust algerlega um hríð. Svo aftur um 17. júní kom annað áfelli, nærri því eins slæmt og það fyrra og endurtók sig sama sagan í mörgum landshlutum. Þetta sýnir það, að jafnvel þó að samgöngur hafi batnað mjög á síðari árum, þá er það þó svo, að snemma á vorin og jafnvel allt fram yfir miðjan júnímánuð er hætta á, að slíkir atburðir eins og þessir geti gerzt, að snjókoma geti valdið miklum óþægindum allt fram á þann tíma og við því er í raun og veru ekkert að gera. Þess vegna held ég, að það sé óhyggilegt að breyta til og réttara að halda við það, sem nú er, að seinasti sunnudagur í júnímánuði verði áfram almennur kosningadagur. Sérstaklega á þetta að sjálfsögðu við úti um landsbyggðina, þar sem veðráttan getur hamlað samgöngum, eins og ég hef nú tekið fram.

Þá er önnur brtt. frá þessum sömu hv. þm. á þskj. 29, þar sem lagt er til, að 4. og 5. mgr. 99. gr. frv. falli niður. En þessi ákvæði í 99. gr. frv. eru einmitt um það, sem mætti kalla friðhelgi kjördagsins, þ.e.a.s. um þau atriði, hvort á að taka upp aftur þann hátt að heimila stjórnmálaflokkunum að senda fulltrúa inn á kjörfundi til þess að skrifa upp þá, sem eru búnir að kjósa og hafa síðan samband við sínar kosningaskrifstofur með slíkar upplýsingar. Ýmislegt fleira er hér, sem þessir hv. þm. leggja til að verði fellt niður. Ég vildi aðeins lýsa minni skoðun á þessu, að ég teldi ekki til bóta að taka upp aftur það, sem búið er að breyta í þessu sambandi. Ég hygg, að breyt., sem gerð var nýlega, hafi yfirleitt reynzt heldur vel og ekki ástæða til þess að taka upp aftur þetta fyrra fyrirkomulag.

Þá er á þskj. 32 brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. um það að auðkenna bifreiðar. Ég hefði álitið, að svipuðu máli gegndi í þessu efni. Það hefur verið reynt um hríð að banna það, að bifreiðar væru auðkenndar einstökum stjórnmálaflokkum og ekki er hægt að sjá, að það hafi komið að sök.

Hér er á þskj. 25 brtt. um yfirkjörstjórnir, hvernig þær eigi að vera skipaðar og hvernig þær eigi að skipast. Brtt. er frá hv. 3. þm. Reykv., hv. 9. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. Þessi breyt. er mikil frá því, sem áður var lagt til.

Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til, að yfirkjörstjórnir skuli skipaðar ákveðnum embættismönnum, sem eru búsettir í kjördæmunum og þannig kom frv. fram fyrst. Síðan hafa 3 þm. úr þremur flokkunum, sem standa að kjördæmabreyt., lagt hér fram nýja till. í sambandi við þetta atriði. Nú er það svo, að sú skipan hefur verið á, að yfirkjörstjórnir væru kosnar af sýslunefndum og bæjarstjórnum og oddamaðurinn skipaður af ráðh. í þeim tilfellum, þar sem sýslumaður er ekki búsettur í kjördæminu, annars væri sýslumaður eða bæjarfógeti sjálfskipaður formaður. M.ö.o.: valdið í þessu efni hefur algerlega verið úti í byggðunum. Það hefur verið ákveðið þannig í l. Með þessari breyt. er verið að færa raunverulega valdið í sambandi við skipun yfirkjörstjórna úr byggðunum, utan af landsbyggðinni til Alþ. hér í Reykjavík. Það hefðu margir álitið, að það væri nóg að verið, þegar nýlega er búið að leggja niður 27 kjördæmi utan Reykjavíkur og svipta þau kjördæmi, sem notið hafa þessa mikla réttar í stjórnarskránni, þessum rétti til að minnsta kosti nokkurrar frambúðar og það væri ástæða til þess að láta staðar numið í sambandi við það að svipta einstakar byggðir þessum þýðingarmiklu réttindum og það væri a.m.k. stöðvuð í bili sú þróun að flytja valdið utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur eða til Alþingis hér í Reykjavík. En það virðist vera svo, að allt sé á sömu bókina lært í þessu sambandi. Það virðist vera svo, að það sé ekki nægilegt að svipta landsbyggðina þessum þýðingarmiklu réttindum í stjskr., heldur þurfi að ganga á lagið og ganga áfram á eitt ákvæði l. eftir annað og í öllum tilfellum á þá sveifina að svipta landsbyggðina völdum og flytja þau suður til Reykjavíkur. Þessi till. mun áreiðanlega vekja athygli úti um landið. Það mun vekja athygli, að það er farið að ráðast á önnur réttindi byggðanna en þau, sem ákveðin eru í stjórnarskránni sjálfri og þetta vekur grunsemdir um það, að stefnan sé ein og hin sama, stefnan sé í þá áttina að svipta landsbyggðina þeim réttindum, sem henni hafa verið ákveðin í landslögum og stjórnarskrá á undanförnum árum og áratugum.

Ég fyrir mína parta er algerlega andvígur þessari brtt., sem hér kemur fram, og tel hana vera hina mestu fjarstæðu og algerlega ástæðulausa, enda hafa þeir, sem sömdu frv. upphaflega, ekki séð neina ástæðu til þess að haga þessu á þennan veg. Þegar stjórnarskráin verður tekin til gagngerðrar endurskoðunar, sem væntanlega verður fyrr en seinna, ef miðað er við yfirlýsingar þingflokka í því máli, þá er áríðandi að dreifa ríkisvaldinu miklum mun meira út um landsbyggðina en nú er, þ.e.a.s. auka völd héraðanna.

Nú hefur verið ákveðið eða svo gott sem, að hin stóru kjördæmi sendi þm. til Alþingis. Þar með er komin ný heild í stjórnskipunina. Þeir, sem eru fylgjandi þeirri skipan mála, geta auðveldlega aukið völd héraðanna eða kjördæmanna, þeirra nýju stóru kjördæma, með því t.d. að setja sérstaka löggjöf um réttindi kjördæmanna. Eðlilegt væri, að kjördæmin réðu sjálf ýmsum af sínum sérmálum. Þar til mætti nefna t.d. samgöngumál, hafnarmál, fræðslumál, tryggingamál, yfirstjórn sveitarstjórnarmálefna og jafnvel gjaldeyrismál að einhverju leyti. Það hafa komið fram kröfur frá einstökum byggðarlögum, eins og t.d. Vestmannaeyjum, man ég eftir, þar sem þeir telja eðlilegt, að þeir hafi aðstöðu til þess að ráðstafa að einhverju leyti þeim mikla gjaldeyri, sem Vestmanneyingar afla til þjóðarbúsins. Það væri nær fyrir kjördæmabyltingarflokkana að vinna á þennan hátt að auknu jafnvægi í þjóðfélaginu í stað þeirrar lúsarleitar, sem nú á sér stað í því efni að svipta landsbyggðina réttindum, sem héruðin hafa áður haft. Kjördæmin mega ekki einu sinni kjósa sér yfirkjörstjórnir, hvað þá meira.

Nei, stefna þríflokkanna gagnvart landsbyggðinni virðist vera mörkuð, að ganga sífellt lengra og lengra í því að rýra hana réttindum, sem landsbyggðinni hafa verið veitt áður í stjórnarskrá og öðrum landslögum. Það er sannarlega kominn tími til þess fyrir fólkið úti um landsbyggðina að spyrna fótum við þeirri hættulegu þróun, sem hér á sér stað og kjósa fulltrúa til þings, sem vinna að því að lögfesta aukin réttindi byggðanna á þingi, í stað þess að rýra réttindin með markvissum hætti, eins og nú virðist eiga sér stað, ekki aðeins í sambandi við hinar byltingarkenndu breyt. á kjördæmaskipuninni, heldur og með ýmsum hætti í breyt. í löggjöfinni sjálfri.