11.08.1959
Neðri deild: 14. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Við höfum nú heyrt í dag í sumum tilfellum nokkuð annan tón, en í fyrri umræðum um þetta frv., sem hér er nú til meðferðar, að sumir séu með fullan fjandskap við byggðir landsins eða fullan fjandskap við heilar stéttir þjóðfélagsins og ég sé ekki ástæðu til að fara neitt frekar út í þá sálma, en það eru aðeins brtt. þær, sem fram hafa komið, sem ég vildi víkja lauslega að.

Ég flyt sjálfur brtt. á þskj. 32 við 17. kaflann, um óleyfilegan kosningaáróður og kosningaspjöll, en sú brtt. er við það, að bannað hefur verið með breytingum á kosningalöggjöfinni, ekki alls fyrir löngu, að hafa flokksmerki, lista eða önnur slík auðkenni á bifreiðum, meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma. Um þetta urðu nokkrar deilur á sínum tíma. En þó hef ég aðallega skilið þá, sem settu inn þetta ákvæði þannig, að þeir vildu koma í veg fyrir, að bifreiðar á kjördegi yrðu notaðar eins og áróðurstæki og því er þetta sett inn í grein, sem að öðru leyti fjallar um, að það sé óleyfilegur kosningaáróður, eins og greinin hefst og kosningaspjöll að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum o.s.frv., eins og næsti töluliður hér á undan segir og því hafði ég haldið, að það mundi núna, þegar við erum að breyta kosningalögunum að öðru leyti, geta náðst samkomulag um það, sem lagt er til í minni brtt., að hafa mætti flokkseinkenni á framrúðu bifreiðar, eins og það er orðað, sem sé ekki stærri en 7 cm í þvermál, þ.e.a.s. að hver flokkur gæti haft smáauðkenni á bifreiðunum, sem væri honum til hægðarauka og starfsmönnum hans við kosninguna og að nokkru leyti kjósendum líka í sambandi við heimkeyrslu og annað. Það er gleggra fyrir þá að gera sér grein fyrir, hvert þeir eiga að snúa sér til þess að fá bifreiðar til þess að flytja sig heim frá þeim flokki, sem hefur ekið þeim á kjörstað, oftast eða alltaf eftir eigin beiðni kjósandans sjálfs. Hér getur að sjálfsögðu ekki verið um neinn áróður eða áróðursgildi í slíku auðkenni að ræða eins og þessu.

Um þetta þarf í sjálfu sér ekki fleiri orð að hafa. Sjálfur hef ég hins vegar sniðið till. svona, vegna þess að það er nýlega búið að breyta þessu ákvæði, en annars mundi ég heldur vilja fella ákvæðið í 4. tölulið algerlega niður og láta það vera á mati hvers flokks fyrir sig, að hve miklu eða litlu leyti hann vill auðkenna sínar bifreiðar. Við lifum enn í frjálsu þjóðfélagi og ef flokkarnir fara út í þá sálma, sem eru til leiðinda, þá er það þeim sjálfum fyrir verstu og þetta á við það, sem hv. 10. landsk. sagði áðan um upplímingar á spjöldum, auglýsingum og flokksmerkjum fyrir kjördag, að það hefði orðið til leiðinda fyrir síðustu kosningar hér í Reykjavík. Ég held, að þetta sé alveg rétt og skal ekki mótmæla því, að það hafi ekki verið til neinnar ánægju, sennilega ekki fyrir neinn flokkinn. En þá er ég aftur á þeirri skoðun, að ég vil ekki setja um þetta löggjöf, heldur að flokkarnir eigi sjálfir að finna til ábyrgðar sinnar í þessu efni og haga framkomu sinni þannig, að sómasamlegt sé fyrir þá og þannig, að engum sé til leiðinda. Og þegar slíkar misfellur hafa komið fyrir, hefði ég álitið, að flokkarnir væru aðilar, sem væri hægt að treysta til þess að koma í veg fyrir það og mættu þeir hafa að sjálfsögðu í sambandi við kosningar á miklu fleiri sviðum samvinnu og samráð sín á milli um það, hvernig kosningastarfseminni og kosningaáróðrinum er hagað, en sjálfur er ég á móti því að rígbinda þetta í löggjöfinni, hvernig vera skuli.

Ég skal svo aðeins víkja lauslega að öðrum brtt., sem fram hafa komið frá Páli Þorsteinssyni og Gísla Guðmundssyni, hv. þm. A-Sk. og hv. þm. N-Þ., í sambandi við yfirkjörstjórnirnar. Það var ekki samkomulag um það innan stjskrn., hvort eigi að breyta ákvæðinu, eins og það var í frv., eða láta það standa óbreytt og það er rétt, að menn geri sér grein fyrir því, að það kom þegar fram í stjskrn. mjög djúptækur ágreiningur um það, hvernig ákvæðið var í frv. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, að fram komi frá einstökum þm. brtt. um þetta. Við fluttum um það brtt. á þskj. 25, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 9. landsk. þm., að Alþ. skyldi kjósa þessar yfirkjörstjórnir og síðan, eftir að sú brtt. var flutt, er flutt brtt. á þskj. 30 frá þessum þm., sem ég nefndi áðan.

Ég er alveg sammála hv. 9. landsk. þm., sem talaði áðan, að ég skil ekki þann hugsunarhátt, sem fram kemur í ræðu hv. 2. þm. N-M., að það sé með till. á þskj. 25 verið að taka eitthvert vald af byggðunum. Ég skil ekki svona hugsunarhátt og ég er alveg undrandi, þegar hv. þm. segir, að slík brtt, eins og þessi muni áreiðanlega vekja athygli úti á landi. Ég veit, að framsóknarmenn vilja með þetta eins og annað reyna að spinna upp úlfúðina gegn því svokallaða Reykjavíkurvaldi. En Reykjavíkurvaldið ræður a.m.k. ekki enn þá öllu hér í sölum Alþ. og hér er ekki verið að fela bæjarstjórninni í Reykjavík eða Reykjavíkurvaldinu, eins og það er kallað, að ákveða þetta, heldur er það fulltrúasamkoma, sem þjóðin sjálf hefur kosið sér, sem fólkið úti á landi hefur kosið, sem á að kjósa þessar yfirkjörstjórnir. Og það er alveg rétt, að till., eins og hún var í frv. um yfirkjörstjórnirnar, er alls ekki þannig, að byggðunum sé þar fengið sérstakt vald til þess að velja sína yfirkjörstjórnarmenn, því að þegar þeir eru kosnir eða skipaðir, sýslumennirnir og bæjarfógetarnir, verður það ekki neitt vald, sem er hjá byggðunum til þess, heldur er það ráðh. á hverjum tíma, sem gerir það. Þess vegna má segja, að það sé í raun og veru verið að taka valdið úr höndum framkvæmdavaldsins, þ.e.a.s. ráðh. og færa það yfir í hendur Alþ. Auk þess getur þessi skipun, sem ráðgerð var í frv., komið mjög undarlega við, vegna þess, eins og okkur er öllum kunnugt um, hversu þessir aðilar hafa verið mjög riðnir við pólitík, bæði í framboði og þingmennsku hjá flestum flokkum þingsins fyrr og síðar. Í því sambandi er auðvitað rétt að gera sér grein fyrir því og viðurkenna, að hér er um embættismenn að ræða, sem hvílir á dómaraskylda og mundu því kannske rækja þetta starf sitt í anda slíkrar embættismennsku og dómaraskyldu. En á það fellur að sjálfsögðu nokkur tortryggni og eðlilega frá pólitískum andstæðingum, þegar haft er í huga, hvað störf þessara manna blandast oft mikið inn í stjórnmálin.

Sama má segja um það, sem ekki hefur verið hér til umr. eða rætt sérstaklega nema af hv. frsm., till. á þskj. 30 frá hv. þm. A-Sk. og hv. þm. N-Þ., að þeir gera ráð fyrir því, að í Reykjavík sé yfirkjörstjórnin eins og áður kosin hlutfallskosningu, fimm menn og fimm til vara. Munurinn í Reykjavík er þá bara sá, að eftir till. okkar þremenninga, sem flytjum brtt. á þskj. 25, er það Alþ., sem kýs yfirkjörstjórnina í Reykjavík, en eftir hinum till. kýs hins vegar bæjarstjórnin 3 manna kjörstjórnir væntanlega á a.m.k. 7 kjörstöðum í Reykjavík, eins og verið hefur í síðustu kosningum, því að það er annars staðar lagt til, að í kaupstöðum, þar sem eru margar kjördeildir og fleiri kjörstaðir, kjósi bæjarstjórnin áfram kjörstjórnir, þannig að það má segja, að þarna verði einn milliliður fram yfir það, sem áður hefur verið, það verði undirkjörstjórnirnar og svo kjörstjórnir á hverjum kjörstað í kaupstöðum, þar sem fleiri kjörstaðir eru og þær kjósa bæjarstjórnirnar eins og yfirkjörstjórnir áður og svo yfirkjörstjórn kosin af Alþingi. En um önnur héruð landsins gildir eftir þeirra till, það, að þar á hver sýslunefnd og hver bæjarstjórn í kjördæminu að kjósa einn mann, sem sé búsettur í hlutaðeigandi sýslu eða kaupstað, í yfirkjörstjórnirnar. Á þessu finnst mér vera verulegur hængur, vegna þess að þessir aðilar, bæjarstjórnirnar og sýslunefndirnar, eru pólitískir aðilar, sem kosið er í rammpólitískum kosningum, eins og öllum er kunnugt um, víðast hvar á landinu. Og svona fyrirkomulag eins og þetta, þegar þessir aðilar eiga að kjósa bara einn mann hver fyrir sig, leiðir hæglega til þess, að mjög pólitískir aðilar eðli málsins samkvæmt, bæjarstjórnir og sýslunefndir, kjósi kannske algerlega einlita og pólitíska yfirkjörstjórn í kjördæminu. Það þarf ekki að vera, en skv. till. getur iðulega leitt til þess og mundi sjálfsagt verða um pólitískar og mjög pólitískar kosningar að ræða, sem gætu fengið þessa niðurstöðu, að allir nm. væru af sama flokki. Það finnst mér ákaflega óeðlilegt, en eðlileg sú hugsun, að yfirkjörstjórnir séu þannig skipaðar, að nokkrar líkur séu til, að fleiri flokkar og kannske allir þingflokkar hafi fulltrúa í þessum nefndum. — Svo á ráðh. að skipa oddamanninn, þar þraut byggðavaldið. Ekki máttu þeir kjósa sér formann sjálfir, þessir menn heima í byggðunum, heldur á að flytja valdið til ráðh. í Reykjavík, ef tala yfirkjörstjórnarmanna er ójöfn og ef hún er jöfn, þá fór líka byggðavaldið, því að þá á ráðh. að kjósa einn mann úr hópi annarra kjósenda í kjördæminu í yfirkjörstjórn og hann á að vera oddviti, en ekki máttu þeir heima í byggðinni leysa úr þessum vanda.

Að efni málsins til er ég þess vegna andvígur þessari till. og tel á henni það mikil missmíði, að hún mundi vera í framkvæmdinni fjarri því eins hagkvæm og eðlileg skipun og við leggjum til í brtt. okkar á þskj. 24.

Ég vil aðeins fara örfáum orðum um kjördaginn. Ég viðurkenni mjög margt af því, sem fram kom hjá hv. 9. landsk. þm. Hins vegar fannst mér hann taka allt of djúpt í árinni, alveg sérstaklega þegar hann talar um augsýnilegan fjandskap við heilar stéttir í sambandi við að vilja ekki flytja kjördaginn um 2 víkur í júnímánuði og þá sérstaklega sjómannastéttina. Það er að vísu alveg rétt, að þessi skipun að hafa kjördaginn seinast í júní kemur mjög illa við þann mikla fjölda manna, sem stundar síldveiðar að sumrinu til og væri ákaflega æskilegt að geta komið þessu öðruvísi við. Hins vegar er á það að minna, að flestir þessir menn eru úr kaupstöðum og kauptúnum, þar sem þeir eiga tiltölulega hægt um vik að greiða atkvæði utan kjörstaðar, áður en þeir fara í þessa atvinnuleit. En ef aðeins væri um að ræða kjördaginn og mest það, sem fram fer í sambandi við kosningar, færi fram þá, mundi ég vera með því, að dagurinn væri fluttur og væri, eins og lagt er til hér, annar sunnudagur í júní. Hins vegar hef ég ekki getað fallizt á þetta, þegar við ræddum þetta innan n., vegna þess að það er svo margt, sem fer fram fyrir kjördaginn og þá hef ég í huga yfirreið um landið, eins og kunnugt er, frambjóðenda og annarra stjórnmálamanna til þess að kynna stefnur flokkanna og sjónarmið og það má búast við því, eftir því sem kjördæmin verða stærri, að þá dragi ekki úr þessu. Þess vegna er það svo, að ef kjördagurinn er fluttur fram, þá tel ég mesta annmarkann í sambandi við það, að miklu erfiðara yrði að stofna til fundarhalda og yfirreiðar um landið, eins og vera ber og vera á í lýðfrjálsu landi, á hæfilegum tíma fyrir kjördag, sem alltaf yrði mánuður, hálfur annar mánuður eða jafnvel kannske meira. Mig rekur minni til þess í mörgum tilfellum, hversu erfitt hefur verið að komast um landið fyrir frambjóðendur og aðra stjórnmálamenn til fundarhalda, þó að kjördagurinn væri í lok júnímánaðar, þegar menn hafa þurft að leggja á sig slíkar ferðir og þá kjósendurnir auðvitað þurft að koma til fundanna og samkomuhaldanna, kannske í maímánuði, fyrri hlutann af maí, um miðjan maí eða því um líkt, sem alltaf hlýtur eitthvað að verða óhjákvæmilega. Þetta sker úr í mínum huga um það, að svo stöddu, þó að ég skuli alveg viðurkenna það, að ég hef átt nokkuð erfitt með að gera upp hug minn í þessu sambandi. En a.m.k. mótast viðhorf mitt ekki af neinum fjandskap til neinnar stéttar í þessu þjóðfélagi. Það eitt er víst.

Ég man ekki, að það sé fleira, sem ég þarf að taka fram í sambandi við brtt. eða tel ástæðu til að svo komnu.