11.08.1959
Neðri deild: 14. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

3. mál, kosningar til Alþingis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það liggja fyrir allmargar brtt. við frv. og sést af því, að skoðanir eru nokkuð skiptar um ýmis atriði þess.

Eitt af þeim atriðum, sem menn greinir á um, hvernig bezt sé að koma fyrir, er val manna í yfirkjörstjórnir. Þannig er þetta nú, að bæjarstjórnir og sýslunefndir velja meiri hl. af yfirkjörstjórnunum. Sýslumenn og bæjarfógetar eru lögum skv. oddvitar yfirkjörstjórna í þeim kjördæmum, þar sem slíkir embættismenn eru búsettir, en svo eru allmörg kjördæmi hér á landi, þar sem hvorki er sýslumaður né bæjarfógeti búsettur og þá er það þannig skv. enn gildandi lögum, að ráðh. skipar formann yfirkjörstjórnar. Þetta held ég að hafi vel gefizt — a.m.k. þar, sem ég þekki til. Í frv., sem hæstv. ríkisstj. lét semja, er hins vegar gert ráð fyrir nýju fyrirkomulagi, þannig að ákveðnir embættismenn, sýslumenn og bæjarfógetar, búsettir í hinum nýju kjördæmum, eigi að skipa yfirkjörstjórn og sé um fleiri slíka embættismenn að ræða á svæðinu, en þarf í kjörstjórnina, þá veljist þeir í hana, sem elztir eru. En það hefur komið fram, að í stjskrn. hér í hv. d. hefur orðið nokkur ágreiningur um þetta og því liggja hér frammi brtt. um það.

Á þskj. 25 flytja 3 hv. þdm. till. um það, að yfirkjörstjórnir í öllum kjördæmum skuli kosnar hlutfallskosningu á Alþ. Með þessu er verið að veita þingflokkunum valdið til þess að velja menn í yfirkjörstjórnir — eða lagt til, að þeim verði fengið þetta vald. Ég held, að það sé búið að gera allt of mikið af því nú á þessu þingi að samþykkja till., sem ganga í þá átt að auka vald stjórnmálaflokkanna, og þurfi heldur við fyrsta tækifæri að draga úr því heldur en auka enn við. Ég held, að það sé heppilegra, ef menn geta ekki fellt sig við þá skipan, sem er í frv., að hafa þetta vald, eins og verið hefur, í höndum bæjarstjórna og sýslunefnda, og það er hægt að gera — koma því svo fyrir með því að samþykkja brtt. á þskj. 30, þar sem gert er ráð fyrir, að allar sýslunefndir og bæjarstjórnir í hinum nýju kjördæmum kjósi menn í yfirkjörstjórnir.

Þá er hér brtt. á þskj. 27 frá 2 hv. þm. um það, að framvegis skuli kjördagur vera annar sunnudagur í júnímánuði, en ekki síðasti sunnudagur í júnímánuði, eins og nú er. Ég vil mæla gegn þessari till. Ég vil benda á það, að þetta yrði miklu óhagkvæmara fyrir bændur og aðra menn í sveitum landsins. Einhver mesti annatími hjá bændum og öðru sveitafólki er sá tími að vorinu, þegar sauðburður stendur yfir, og það hefur oft verið svo undanfarin ár, að bændur hafa ekki getað sleppt sauðfé af húsi fyrr, en um miðjan júnímánuð. Þetta er því ákaflega erfiður tími fyrir bændur og aðra, sem vinna við landbúnaðinn.

Það var talað um það áðan af hv. 10. landsk. þm., að það væri mjög óhentugt fyrir sjómenn, að kjördagurinn yrði síðasti sunnudagur í júnímánuði, eins og verið hefur. En ég vil þó benda á það, að sjómenn hafa þann möguleika og hafa haft að kjósa utan kjörfundar, áður en þeir fara að heiman til að stunda veiðar fjarri heimilum sínum. Þetta hafa sjómenn að sjálfsögðu gert, þeir sem hafa stundað sjó annars staðar, en á heimamiðum og hafa því ekki getað verið heima á kjördegi. Þessi möguleiki er aftur ekki fyrir bændur og annað sveitafólk, sem á annríkt á heimilum sínum, sérstaklega vissan tíma að vorinu, eins og ég hef þegar getið um. Þeim er ekki heimilt að kjósa utan kjörfundar fyrir kjördag, ef þeir gera ráð fyrir að verða heima á kjördegi. Þeim er þetta ekki heimilt, jafnvel þó að annríkið sé svo mikið á heimilunum, að þeim sé illmögulegt að sækja kjörfund, ef kjörfundadagurinn er snemma í júnímánuði. Ég vil því leggja gegn þessari brtt. á þskj. 27.

Þá er enn ein brtt., sem ég vil minnast á. Hún er á þskj. 29, frá hv. 9. landsk, og hv. 3. þm. Reykv. Þessi till. fjallar um það að fella niður 4. og 5. mgr. úr 99. gr., en í þessum mgr. eru ákvæði um það, að umboðsmönnum lista sé óheimilt að hafa kjörskrá eða aðra slíka skrá meðferðis á kjörfundi og rita nöfn þeirra, sem kjósa og senda upplýsingar um slíkt út af kjörfundinum. Á Alþ. 1957 voru gerðar breyt. á l. um kosningar til Alþingis, og þar voru m.a. sett inn þessi ákvæði, sem þessir hv. þm. vilja nú fella niður. Í aths., sem fylgdu lagafrv. 1957, segir um þessa breyt., með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessari grein er lagt bann við því, að sendar séu frá kjörfundi upplýsingar um það, hverjir neyta atkvæðisréttar síns. Hefur það farið mjög í vöxt hin síðari ár, a.m.k. í kaupstöðum, að flokkarnir noti rétt sinn til að hafa umboðsmenn í kjördeildum fyrst og fremst til að fylgjast með því, hverjir hafa kosið og hverjir ekki. Á þeirri vitneskju, sem þannig fæst, er síðan byggð kosningasmölun, sem telja verður óæskilega og raskar þeirri leynd og þeim friði um kosningarréttinn, sem hver maður á að njóta.

Meiri hl. Alþingis féllst þá á þessar röksemdir og samþykkti þessi ákvæði og ég tel ekki rétt að fella þessi ákvæði nú úr lögum. Ég tel enga ástæðu til þess að gefa njósnurum flokkanna aftur aðgang að öllum kjörfundastofum til þess að stunda þar njósnir um það, hverjir komi til að neyta atkvæðisréttar síns.