11.08.1959
Neðri deild: 14. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

3. mál, kosningar til Alþingis

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það eru hér nokkrar till., sem fyrir liggja, sem ég vildi minnast nokkrum orðum á og ætla ég þá fyrst að víkja að till., sem er á þskj. 25 og flutt er af þremur hv. alþm., en það er seinasta till., nr. 4, sem ég vildi fara um nokkrum orðum.

Það er nú kunnugt þeim, sem þekkja til okkar sögu, að á þeim tíma, er Danir fóru hér með vald, var það eini réttur kjósenda eða landsmanna að mega senda skjöl til stjórnarvaldanna með undirskriftum, þar sem þeir létu afstöðu sina koma í ljós. Þetta var sá eini réttur, sem landsmenn höfðu þá. Þrátt fyrir það, þótt þessi réttur væri ekki meiri en þetta, mun reynslan samt hafa orðið sú, að hann hafi borið verulegan árangur og orðið til þess að þoka ýmsu áleiðis í okkar sjálfstæðisbaráttu. Þess vegna held ég, þó að réttur og frelsi landsmanna sé nú orðið að ýmsu leyti, meira en áður var, að þá sé mjög vafasamt að ráðast verulega á þennan rétt og helzt afnema hann með öllu, eins og mér virðist hér vera stefnt að, því að enn getur það verið þannig, að það sé heppilegt fyrir kjósendur að hafa aðstöðu til þess, þegar aðrar leiðir kunna að vera lokaðar, að láta sitt álit uppi við valdhafana á þennan hátt. Það er komizt þannig að orði í till., að menn megi ekki láta uppi vilja sinn með undirskriftum um stuðning eða andstöðu við ákveðin málefni, sem heyra undir Alþ., eftir að almennar alþingiskosningar hafa verið ákveðnar. Mér finnst, að þetta orðalag: „eftir að almennar alþingiskosningar hafa verið ákveðnar“ — sé nokkuð teygjanlegt. Við skulum taka t.d. núna, að þó að það sé ekki búið að auglýsa alþingiskosningar, þá má hins vegar segja, að það sé búið að ákveða alþingiskosningar, því að það liggur fyrir ákveðinn vilji um það hjá meiri hl. þings og ríkisstj., að þær fari fram eftir tiltölulega stuttan tíma. Svo þegar þeim alþingiskosningum er lokið, er einnig skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar vitað, að það eru ákveðnar nýjar kosningar að fjórum árum liðnum, nema einhverjar nýjar ákvarðanir verði um það teknar og þess vegna má a.m.k. túlka þetta þannig, að eiginlega liggi alltaf fyrir ákvörðun um það, hvenær næstu kosningar eigi að fara fram, í okkar stjórnskipunarlögum, nema eitthvað sérstakt komi til og einhver undanþáguákvæði séu notuð. Þess vegna held ég, að með því orðalagi, sem er á till., sé það nokkuð teygjanlegt, hvenær það er, sem kjósendur mega ekki láta uppi vilja sinn með þessum hætti. En satt að segja finnst mér, að það væri þó hið langbezta, að þessi till. yrði ekki samþykkt og kæmi ekki til framkvæmda, vegna þess að hún takmarkar gamlan rétt, sem kjósendur hafa haft og mér finnst á margan hátt eðlilegt að þeir haldi áfram án frekari takmarkana en nú er. Og ég verð að segja það, alveg sérstaklega af því að hæstv. forseti þessarar d. á hér hlut að máli, að mér finnst eiginlega hálfeinkennilegt, að hann skuli vera kominn inn á þá braut að vilja taka þennan frumstæða rétt af kjósendum, vegna þess að oft hefur hann staðið að því, að menn notfærðu sér þessi réttindi. Ég held, að það væri hyggilegast af flm. við nánari athugun málsins að taka þessa till. aftur, vegna þess að hún bætir ekki okkar stjórnarhætti eða eykur ekki rétt kjósenda, eins og nú er talað um að sé tilgangurinn með þeirri stjórnarskrárbreyt., sem verið er að gera, heldur verður til þess að takmarka hann. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði.

Mér finnst þá rétt að koma að þeim till., sem hér liggja fyrir og snerta sérstaklega friðhelgi kjördagsins.

Það liggur fyrir till. frá hv. 10. landsk. um, að ekki skuli höfð uppi áróðursspjöld, áróðursborðar, flokksmerki og merki lista eða önnur slík auðkenni í kjördæminu á kosningadaginn, eftir að kjörfundur er hafinn. Ég held, að eftir þeirri reynslu, sem við höfum fengið, muni þessi breyt. vera til bóta. Það bar allmikið á því í Reykjavík, sérstaklega fyrir seinustu kosningar, að það væri háð eins konar barátta milli flokkanna með áróðursspjöldum og áróðursborðum. Það voru sjálfstæðismenn, sem höfðu forgöngu um þetta, aðrir flokkar töldu sér ekki annað fært, en mæta þessu á sama hátt og láta Sjálfstfl. sjá, að hann væri ekki einn ráðandi hér í bænum og það verður áreiðanlega gert aftur, ef Sjálfstfl. heldur þessari venju áfram og ekki verða sett um það nein ný ákvæði. Ég held hins vegar satt að segja, að hér sé um þá starfshætti að ræða, að það væri til bóta að setja ákvæði um það í kosningalögin, að menn væru lausir við þessa áróðursborða. Ég mun þess vegna verða fylgjandi þessari till., sem er á þskj. 28.

Aftur á móti liggur hér fyrir önnur till., sem einnig snertir friðhelgi kjördagsins, á þskj. 29, frá tveimur hv. þm., og hún stefnir alveg í gagnstæða átt við það, sem till. hv. 10. landsk. fer fram á, því að hún stefnir tvímælalaust í þá átt að auka ófriðhelgi kjördagsins, ef svo mætti að orði komast. Ef þessi till. yrði samþ., má taka upp þann gamla hátt aftur, að flokkarnir geti sent sína njósnara inn í kjörstofurnar til þess að fylgjast með því, hverjir kjósa, svo að það sé hægt að elta þá upp á eftir, sem eru ekki búnir að kjósa og kæra sig kannske ekki um það. Það er áreiðanlegt, að sú breyt., sem var gerð í þessum efnum — að banna þetta — af hálfu vinstri stjórnarinnar, þegar hún fór með völd, varð til stórra bóta um að gera kjördaginn menningarlegri og losa kjósendur við óhæfilega smalamennsku og njósnastarfsemi og þess vegna held ég, að það væri til hins verra að samþykkja þessa till. og hverfa aftur til þess fyrirkomulags, sem áður var.

Ég held, að það fari tvennt saman, ef við viljum vinna að því að treysta friðhelgi kjördagsins: að samþykkja þá till., sem er á þskj. 28, en fella hins vegar till., sem er á þskj. 29.

Mér finnst þá rétt að víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem hér liggja fyrir í sambandi við 110. gr. og snerta rétt manna til útstrikana. Því hefur verið yfir lýst af hálfu þeirra flokka, sem standa að þeirri stjórnarskrárbreytingu, sem nú er verið að ganga frá endanlega í Ed., að einn megintilgangurinn með henni væri að jafna kosningarréttinn, sem hefði áður verið óeðlilega ójafn meðal landsmanna.

Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að það ákvæði í kosningalögum, sem hefur valdið einna mestum órétti milli kjósenda í þessum efnum, er ákvæðið um útstrikanir, vegna þess að örlitlum minni hluta kjósenda, t.d. í Reykjavík eitthvað um 6%, hefur verið mögulegt að ráða meiru vegna þess ákvæðis, en 94% kjósenda og sjá allir, um hvílíkan órétt er hér að ræða. Það hefði þess vegna mátt ætla, að þegar þrír flokkar réðust nú í það að gera ráðstafanir til þess að gera kosningarréttinn jafnari, væri hér eitthvað meira, en lítið stefnt í lýðræðisáttina, ef hefði mátt leggja upp úr þessu lýðræðisskrafi þeirra. En samkvæmt þeim till., sem hér liggja fyrir, eru þeir nú ekki komnir lengra en það, að 12% kjósenda eru látnir hafa meiri rétt en 88%, þ.e.a.s. ef um t.d. 9 manna hóp er að ræða, þá á einn maður að fá að ráða meiru en 8 menn. Mér sýnist, að þetta dæmi, sem hér liggur fyrir, bendi til þess, að það sé ekki eins mikil alvara hjá þríflokkunum um að jafna rétt kjósendanna og þeir hafa verið að tala um að undanförnu og þótzt þurfa að gera stórar og fyrirhafnarmiklar breytingar á stjórnarskrá landsins til þess að gera þennan rétt jafnari.

En hver er nú ástæðan til þess, að þríflokkarnir ganga ekki lengra í lýðræðisáttina í þessum efnum, en raun ber hér vitni um? Jú, það er sagt af þeirra hálfu, að þetta sé gert af þeirri ástæðu, að þeir vilji halda valdi hinna vondu flokksstjórna í skefjum. Flokksstjórnirnar geti haft aðstöðu til þess og hafi oftast nær aðstöðu til þess að ráða því, hvernig listarnir séu útbúnir og þess vegna sé rétt að gefa kjósendunum, þó að það sé lítill minni hluti, þó þetta vald til að hamla upp á móti ofríki flokksstjórnanna. En ef við athugum þá reynslu, sem fyrir liggur í þessum efnum, komumst við að þeirri niðurstöðu, að það er í raun og veru allt annað, sem er hér á bak við. Það, sem er hér raunverulega á bak við, er það að vernda vald flokksstjórnanna og flokksklíknanna, því að í þeim örfáu tilfellum, sem fyrir liggja um það, að útstrikanir hafi átt sér stað í verulegum mæli, voru það flokksklíkurnar eða flokksstjórnirnar, sem hafa verið þar að verki. Það hefur gerzt með þeim hætti, að einhver maður, sem hefur ekki verið í náðinni hjá flokksstjórninni eða flokksklíkunni, sem ráðið hefur, hefur vegna áhrifa frá kjósendum komizt inn á framboðslista og þá hefur flokksstjórnin eða flokksklíkan beitt því valdi, sem hún hefur yfir flokkskjarnanum, til þess að láta strika þennan mann út. Við höfum frægt dæmi fyrir okkur í þessum efnum, sem sannar, að það er rétt, sem ég er hér að segja. Það var fyrir nokkrum árum, að hv. 2. þm. Reykv. núverandi komst inn á lista hjá Sjálfstfl. hér í Reykjavík í andstöðu við flokksstjórnina og flokksklíkuna, sem réð hér í bænum, vegna þess að hann hafði það mikið fylgi kjósenda á bak við sig, að flokksstjórnin taldi sér ekki fært að útiloka hann, — og hver var þá aðferðin, sem flokksstjórnin greip til til þess að hefna sín á þeim kjósendum, sem knúðu fram þessa skipan listans í hennar andstöðu? Aðferðin var einfaldlega sú að láta strika þennan mann út og fella hann þannig frá kosningu. Það er þetta vald, sem raunverulega er verið að verja áfram, þetta vald flokksklíknanna og flokksstjórnanna til þess að geta hreinsað óþæga menn út, sem menn vilja endilega halda í og vilja þess vegna ekki ganga lengra í lýðræðisáttina, en raun ber hér vitni um. Þess vegna fer því fjarri, sem menn eru helzt að halda fram þessu ákvæði til réttlætingar, að það sé verið að hamla á móti valdi flokksstjórnanna eða flokksklíknanna, heldur er þvert á móti verið að gera hið gagnstæða. Það er reynt að hafa þennan minni hluta svo lítinn, að flokksstjórnin með sínum harða kjarna geti haft áhrif á það að strika út mann, sem hún kærir sig ekki um.

Við vitum hins vegar, að meðal óbreyttra kjósenda hafa aldrei komið fyrir svo víðtæk samtök, að það hafi haft áhrif á lista. Ef þessi réttur til útstrikana og tilfærslna hefur haft áhrif á lista, þá er það eingöngu vegna þess, að harður flokkskjarni með flokksklíkuna eða flokksstjórnina í fararbroddi, hefur beitt sér fyrir því og þess vegna er bezt að segja það, sem er sannleikur þessa máls, að með því að halda þarna í rétt mjög lítils minni hl. er verið að halda í rétt flokksstjórnarinnar til þess að hafa áhrif á skipan lista, ef hún telur sér hann óhagstæðan. Þess vegna er það mikil blekking, þegar verið er að tala um það, að með þessu ákvæði sé verið að vinna á móti ofurveldi flokksstjórna.

Ég mun þá koma að seinustu brtt., sem fyrir liggja og ég ætla að gera hér að umtalsefni. Það mun nú annaðhvort vera búið eða í þann veginn að afgr. stjórnarskrárfrv. frá Ed. Með því verki er áreiðanlega verið að vinna eitt hið mesta óhæfuverk, sem nokkru sinni hefur verið unnið í þingsögunni, með því að skerða stórkostlega vald byggða og héraða frá því, sem verið hefur, en það er vitanlega einn megintilgangur þessarar stjórnarskrárbreytingar. Það var alls engin þörf að ráðast á vald héraðanna eða sérstöðu til þess að tryggja þéttbýlinu aukna þingmannatölu, eins og réttlátt var, heldur var þetta eingöngu gert vegna þess, að menn töldu vald héraðanna og byggðanna of mikið og þess vegna yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að skerða það.

Því hefur að vísu verið haldið fram af formælendum stjórnarskrárbreytingarinnar, að það væri síður en svo þeirra tilætlun, að skerða vald héraðanna og vald byggðanna, heldur ætti það að fá að haldast áfram að verulegu leyti, þrátt fyrir það þótt kjördæmin væru lögð niður, sýslurnar ættu að halda áfram, kaupstaðirnir ættu að halda áfram o.s.frv. En ég held, að það sé táknrænt um hið sanna í þessum efnum, sem er að gerast hér í hv. Nd., á sama tíma og verið er að afgreiða stjórnarskrárbreytinguna frá Ed. Það, sem er að gerast hér á Nd. á sama tíma er, að það er verið að halda áfram þeirri stefnu, sem við framsóknarmenn höfum haldið fram að sé mörkuð með stjórnarskrárbreytingunni, þ.e. að þurrka út héruðin og sýslurnar sem allra mest og það er gert með því fyrirkomulagi, sem lagt er til að hér verði tekið upp í sambandi við yfirkjörstjórnirnar. Í stað þess, að það vald var áður úti í héruðum að útnefna yfirkjörstjórnirnar, er ætlunin að færa þetta vald í hendur Alþingis.

Það er algerlega rangt, sem kom hér fram hjá hv. 10. landsk. þm., að það væri einhver sérstök till. Framsfl. að láta bæjarfógeta og sýslumenn úti um land fara með þetta vald. Sú till. hefur aldrei komið frá Framsóknarfl. Hún hefur legið hér fyrir í frv., sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi og það hefur alltaf verið ætlun framsóknarmanna að gera við þetta brtt. eins og nú liggur hér fyrir hv. d., þó að það hafi ekki verið gert fyrr, en nú við 3. umr. En það, sem verður skorið úr í sambandi við þá atkvgr., sem hér fer fram, er raunverulega það, hvort framsóknarmenn hafa haft rangt fyrir sér, þegar þeir voru að halda því fram, að tilgangurinn með stjórnarskrárbreytingunni væri að draga úr byggðavaldinu, eða hvort þríflokkarnir hafa haft rétt fyrir sér, þegar þeir voru að halda því fram, að þeirra tilgangur væri alls ekki sá að þurrka út héruðin og sýslurnar, þó að kjördæmin væru afnumin.

Með þeirri brtt., sem þeir leggja nú fram, er gengið lengra í þessa átt, og það ætti að vera kjósendum í dreifbýlinu sönnun þess, að ef þeir mæta ekki kjördæmabyltingunni á þann hátt að þoka sér betur saman um einn flokk og tryggja sér á þann hátt, að réttindaskerðingin, sem hér hefur verið samþykkt, verði þeim ekki eins bagaleg og ella, þá muni þeir fá meira af slíku, meira af svipuðu og því, sem hér liggur fyrir í till. frá þríflokkunum um það, að valdið til að ráða vali yfirkjörstjórna skuli vera algerlega frá þeim tekið. Sú till. er fólkinu í dreifbýlinu ný hvatning til þess að standa betur saman um einn flokk og svara þessum árásum á þann hátt og hún er á sama hátt hvatning til þess fólks í þéttbýlinu, sem vill viðhalda jafnrétti í byggð landsins og ber tryggð til sinna heimahaga, að fylkja sér um einn flokk til þess að draga úr áhrifum þeirrar kjördæmabyltingar, sem hér hefur verið gerð.