02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. hefur nú klofnað í þessu máli og meiri hl, skilað nál. á þskj. 577 og leggur til, að frv. verði samþ.

Ég skal ekki hafa mörg orð fyrir þessu máli, málið er einfalt og öllum þm. orðið ljóst. Við teljum í meiri hl., að sú breyt., sem í þessu frv. felst, sé til bóta og að hún sé eðlileg í samræmi við aukin verkefni og verksvið Búnaðarbankans frá því, sem verið hefur, og í öðru lagi til eðlilegs samræmis við það fyrirkomulag, sem er í öðrum hliðstæðum bönkum ríkisins.

Ég sé, að hv. minni hl., 1. þm. Norðurl. v. (SkG), skilar nál. á þskj. 594, þar sem nokkuð eru reifuð ýmisleg atriði í sambandi við þetta mál. Ég skal ekki mikið út í það fara, en mér finnst, að þetta sé að nokkru leyti einstætt nál. frá þessum hv. þm. þann tíma, sem ég hef setíð með honum í fjhn. Þetta er miklu fremur pólítísk rolla en grg. fyrir afstöðu til málsins og því miður hefur nú þessi ágæti og gamalreyndi þm. fallið fyrir þeirri freistingu að semja nál. fyrir ríkisútvarpið fremur en fyrir þingsalina og málið sem slíkt.

Eitt er þó mjög áberandi í sambandi við þetta nál., að þar eru tíunduð ýmis atriði, sem minni hl. telur að styðji að því, að vafasamt sé, eins og hann segir, að þessi breyt. verði gerð og þar með komist meiri hl. í bankaráði í hendur þeirra manna, sem nú standa að stjórn landsins, en allar þær röksemdir, 1, 2, 3, 4, 5 og 6, eins og leggja sig, sýna, í hversu hörmulegu ástandi Búnaðarbankinn og sjóðir hans voru og hafa verið að undanförnu, á þeim tíma, sem framsóknarmenn hafa haft þarna alveg hreinan meiri hl. og verið áhrifamenn í stjórn landsins. Hvort svo einhverjar tillögur hafa verið felldar eða ekki, þá má víst leita að mörgum fleiri till. fyrr og síðar í Alþingistíðindunum, þar sem menn hafa freistað að renna einhverjum frekari stoðum bæði undir veðdeildina og aðrar deildir Búnaðarbankans, og ég held, að framsóknarmenn eigi enga sérstöðu í því fremur en aðrir þm. hér, sem margir og oft og tíðum hafa freistað þess að koma fram umbótum á því máli að styrkja veðdeild Búnaðarbankans. Sjálfstæðismenn hafa flutt um það till., og það hefur strandað í seinni tíð ekkert siður á framsóknarmönnum, meðan þeir fóru með völdin og stjórn landsins og á meðan þeir höfðu aðstöðu til að ráða þessum málum. Og ef þeir hefðu unnið betur að þessum málum, meðan þeir voru og hétu, hefði ekki þurft að kvarta undan þeim erfiðleikum, sem þessir sjóðir og Búnaðarbankinn að þessu leyti standa í núna.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Eins og fram kemur í nál. okkar, var einn nm., hv. 3. þm. Reykv. (EOI), ekki viðstaddur afgreiðslu málsins, en við hinir þrír nm. leggjum til, að frv. verði samþykkt.