16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

164. mál, efnahagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu um þetta mál frekar en hæstv. forsrh. Ég vil aðeins lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli vera komið hér fram. Það er mjög ánægjulegt að fá strax á þessu þingi ástæðu til þess að fara að endurskoða alla efnahagsmálalöggjöf hæstv. ríkisstj. og mjög gott, að hún skyldi sjá svona snemma, hver nauðsyn væri á því, og af því að þetta mál fer nú til þeirrar nefndar, sem ég á sæti í, gefst mér tækifæri til þess að benda ríkisstj. á, hvað það er fleira, sem hún þarf að athuga í efnahagsmálalöggjöf sinni, heldur en þetta atriði.

Mér þykir mjög vænt um þær yfirlýsingar, sem fram komu hjá hæstv. forsrh., þar sem hann sagði, að úr því að fram hefðu komið óskir frá útvegsmönnum um, að þetta, sem þeir ættu að borga, fengi að borgast á lengri tíma, þá væri náttúrlega ekkert við það að athuga, fyrst þeir hefðu óskað þess, og sjálfsagt að verða við því. Og ég vona, að það verði hið sama látið ganga yfir alla aðra, sem eiga að greiða ákveðnar upphæðir. Hann sagði hér sjálfur, hæstv. forsrh., að þeir, sem eiga að greiða, verði að mestu að ráða um það. M.ö.o.: allir þeir, sem fá sín byggingarlán og allt mögulegt annað slíkt, þeir verða að fá að ráða mestu um það, hvernig þeir greiða þetta, og þetta er alveg ágæt fyrirmynd að lengja tímann svona, tvöfalda hann nokkurn veginn. Hér hafa menn aðeins farið fram á lengri frest til þess að borga, og ég býst við, að það verði ýmsir, sem vilja fara sömu leið og útvegsmenn í þessu, og ég þykist þá vita, að hæstv. ríkisstj. muni taka mjög vel í þeirra óskir, fyrst það þarf ekki meira til, sérstaklega þegar það kemur nú til, eins og hæstv. forsrh. lýsti yfir, að útgerðarmenn ætla meira að segja sjálfir að borga þetta, m.ö.o. ekki láta aðra borga. Hinir, sem alltaf eru vanir að verða að borga sjálfir, eins og þeir, sem byggingarlánin fá og annað slíkt, þeir ættu þá að eiga því meira upp á pallborðið hjá hæstv. ríkisstj., þegar þeir fara fram á að fá lengri frest til þess að borga og ætla sjálfir að borga, eins og þeir eru vanir, og þarf ekki að taka það sérstaklega fram, eins og hæstv. forsrh. sá ástæðu til nú í sambandi við útvegsmennina, það væri víst eitthvað nýtt. Ég álít þess vegna, að það sé víssulega tími til kominn, að lögin. um efnahagsmál verði endurskoðuð, og það sé mjög þarft verk, sem hæstv. ríkisstj. hefur falið fjhn. þessarar deildar að gera, að taka nú þessi mál til rækilegrar endurskoðunar, og þó að það sé aðeins þessi eina litla grein, sem þarna er um að ræða, sem aðeins er ein lína, þá ætti þetta að geta orðið allmiklu meira, þegar það kemur frá n. aftur.