16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

164. mál, efnahagsmál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú kannske ekki ástæða til þess að ræða svo mjög mikið um þekkta frv., sem hér liggur fyrir. En hins vegar gefur það, nokkurt tilefni til umr. um efnahagsmálin almennt, því að það er vitanlega ekki nema lítil úrbót og kemur að mjög takmörkuðu gagni að gera einhverjar smábreytingar á efnahagsmálalöggjöfinni frá 20. febr., jafnvel þó að það verði gerðar margar fleiri breytingar minni háttar eins og þessi, þá mundi það ekki miklu skipta. Það, sem skiptir langsamlega mestu máli og ber að stefna að, er að breyta alveg um efnahagsmálastefnu, því að það gildir um þetta, eins og oft hefur verið sagt, að það þýðir ekki að vera að setja nýja bót á gamalt fat, það bætir lítið úr. Menn þurfa miklu frekar að dubba sig upp í það að fá sér ný föt, og þau föt, sem hér er reynt að klæða þjóðina í, eru orðin úrelt og slitin fyrir meira en 40 árum, og þess vegna er alveg þýðingarlaust að ætla að reyna að dubba eitthvað upp á þau eða framfylgja þessari stefnu. Það, sem þarf, er að breyta alveg um efnahagsmálastefnu og hverfa frá þeirri, sem mörkuð var í efnahagslöggjöfinni frá 20. febr.

Mér finnst rétt í tilefni af því, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að minnast nokkuð á þær forsendur, sem sagt er að hafi legið til þess, að efnahagslöggjöfin var sett á sínum tíma. Af hálfu hv. stjórnarsinna er því nú oft haldið fram, þegar önnur rök þrjóta, að það hafi verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir eins og þessar eða einhverjar svipaðar vegna þess, hvernig vinstri stjórnin skildi við í þessum málum. Þetta er þó þýðingarlaust fyrir stjórnarsinna að segja, vegna þess að þeirra eigin orð og yfirlýsingar liggja fyrir um það, að þetta sé með öllu rangt. Í þeirri úttekt, sem hagfræðingar Sjálfstfl. gerðu á efnahagsástandinu haustið 1958, þegar vinstri stjórnin lét af völdum, kom það glöggt fram, að það, sem þeir töldu að þá þyrfti að gera til þess að tryggja sæmilega afkomu ríkisins og atvinnuveganna áfram, var að taka aftur þá kauphækkun, sem hafði verið knúin fram sumarið 1958 af Sjálfstfl. Og þetta var gert þá strax á því næsta þingi af Sjálfstfl. og Alþfl., og þess vegna þurfti ekki lengur að vera að basla með neinn slæman arf frá vinstri stjórninni af þessum ástæðum. Staðreyndin var líka sú, að viðskilnaður vinstri stjórnarinnar, t.d. hvað snerti afkomu ríkissjóðs og gjaldeyrisafkomu, var þannig, að þar var um mjög ríflega afganga að ræða. Bara með því að rifja þessar staðreyndir upp, þá sýnir það alveg nægilega, að það er fullkomlega út í hött, þegar stjórnarsinnar eru að halda því fram, að það sé nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir svipaðar og þær, sem fólust í efnahagslöggjöfinni, vegna viðskilnaðar vinstri stjórnarinnar.

Hitt er hins vegar rétt, að ríkisstj. Emils Jónssonar, sem fór með völd á s.l. ári, jók uppbætur og niðurgreiðslur umfram það, sem áður hafði verið, um 250–300 millj. kr. Þennan halla var hægt að jafna á siðasta ári vegna þess, hve vel vinstri stjórnin hafði skilið við í sambandi við afkomu ríkissjóðs og gjaldeyrisafstöðuna. En þegar kom fram á þetta ár, þurfti að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til að afla nýrra tekna til að vega á móti þeim halla, sem hafði þannig skapazt. Og það kom líka fram í ræðu, sem hæstv. forsrh. flutti í Varðarfélaginu um það leyti, sem ríkisstj. hans settist í stólana, og hann endurtók svo aftur um síðustu áramót, að það mundi þurfa 250 millj. kr. til þess að jafna þennan halla. Miðað við þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan, hefur hallinn ekki verið þetta mikill, vegna þess að hann sagði, að afkoma útflutningssjóðs hefði reynzt betri en gert hefði verið ráð fyrir, þegar efnahagslöggjöfin var sett, svo að það hefði ekki einu sinni þurft að afla þessara 250 millj. kr., sem ríkisstj. taldi þó nauðsynlegt um síðustu áramót, ef svipuðu efnahagskerfi yrði haldið og þá var búið við. En það kom einmitt skýrt fram hjá hæstv. forsrh. í áramótaræðu hans og við önnur tækifæri, að ef horfið yrði að því ráði að taka upp annað kerfl en það, sem búið var við, og taka upp nýja stefnu í efnahagsmálum, eins og hann orðaði það í áramótaræðunni, þá kynni að þurfa að gera einhverjar meiri og víðtækari ráðstafanir en afla þessara 250 millj. kr. Og það hefur líka vissulega reynzt þannig, að vegna þess að ríkisstj. hvarf frá því ráði að reyna að búa við og endurbæta það kerfi, sem áður var, heldur taka upp nýja efnahagsmálastefnu, þá hefur sannarlega þurft að leggja á margfalt meiri álögur en þær, sem talað var um um seinustu áramót, því að það hefur verið sannað hér í d. og því hefur ekki verið á móti mælt, að álögurnar eru nú orðnar um 1100–1200 millj. kr. eða rúmlega fjórum sinnum meiri en þær þurftu að vera samkv. yfirlýsingu forsrh, um áramótin, ef fylgt hefði verið óbreyttu efnahagskerfi. Og það var ekki aðeins, að hæstv. ríkisstj. færi í það að hafa gengisbreytinguna miklu meiri en þörf var á, því að hér í hv. d. hafa verið færð rök að því, án þess að ríkisstj. og hennar stuðningsmenn hafi gert nokkuð til þess að bera á móti því, að það hefði verið nægilegt að skrá dollarann 30 kr., — en það var ekki nóg, að ríkisstj. hefði gengisfallið miklu meira en nokkur þörf var fyrir, heldur bætti hún við hinum stórfelldustu nýjum álögum, eins og tveimur nýjum sölusköttum og mörgum öðrum hækkunum. Þess vegna er niðurstaðan nú orðin þannig samkv. hinni nýju efnahagsmálastefnu, sem þó reyndar er gömul, eins og ég mun víkja að seinna, sem ríkisstj. tók upp og mörkuð er í l. frá 20. febr., sem nú er verið að ræða um breyt. á, að álögurnar eru orðnar meira en fjórfalt meiri en þær þurftu að vera samkv. því, sem sjálfur hæstv. forsrh. sagði hér um seinustu áramót, ef ekki hefði verið tekin upp ný efnahagsmálastefna.

En hvernig víkur því við, að farið er inn á þá braut að leggja á þjóðina fjórfalt meiri álögur en nokkur þörf er fyrir, ef marka á þær yfirlýsingar, sem forsrh. gaf hér um áramótin seinustu? Hver er ástæðan til þess, að það er farið inn á þessa braut? Því er fljótsvarað. Það er vegna þess að ríkisstj. vill taka upp nýtt og annað efnahagskerfi en það, sem hefur verið búið við undanfarna áratugi. Og þetta nýja efnahagskerfi, sem hún ætlar að taka upp, er við það miðað, eins og einn af talsmönnum ríkisstj., hv. 6. landsk. þm. (BK), hefur fært rök að hér í d., það er við það miðað að taka upp fyrirkomulag stórkapítalismans í landinu. Það miðar að því, að hér vaxi upp í framtíðinni fáir sterkir auðkýfingar, sem ráði yfir mestu af atvinnutækjunum og fjármagninu, en þetta þýðir að sjálfsögðu, að það verður að skerða hlut alls almennings í landinu, því að við það, að upp rísi nokkrir auðkýfingar í landinu, vaxa ekki þjóðartekjurnar, það verður jafnmikið eftir til skiptanna eftir sem áður. Og ef nokkrum fáum mönnum er úthlutað mjög stórum hluta af þjóðartekjunum, verður það að sjálfsögðu til þess, að allur almenningur býr við lakari hlut eftir en áður.

Það, sem hér er um að ræða, er í raun og veru sá draumur Sjálfstfl., sem hans forustumenn hafa alltaf alið, að það yrði aftur horfið til þess tíma, sem var hér á landi fyrir 1927, þegar þjóðin skiptist í fáa ríka menn og fjöldinn allur bjó við örbirgð, horfið aftur til þess tíma, sem var t.d. í Bandaríkjunum fyrir tíð Roosevelts forseta, áður en frjálslynd stjórnarstefna fór að móta stjórnarhættina þar. Og þó að það sé ekki langt um liðið, síðan þessi nýja stefna kom til framkvæmda, þá eru þess þó farin að sjást merki á margan hátt, að hún ætlar að leiða í þessa átt, leiða í þá átt að þrengja kjör alls almennings í landinu, sem síðar meir kann svo að geta leitt til þess, að hér rísi upp fáir auðkóngar, eins og stefnt er að. Fyrstu afleiðingarnar af þessari nýju stefnu eru þær, að kjör alls almennings, láglaunafólks og millistéttafólks, hafa þrengzt stórkostlega frá því, sem áður var. Þetta eru fyrstu afleiðingarnar. En þó á þetta eftir að koma miklu greinilegar fram, þegar fram líða stundir. Kjaraskerðingin hjá almenningi á eftir að verða miklu meiri en hún er nú þegar orðin, Og þetta veldur því að sjálfsögðu, að möguleikar meginþorra einstaklinga til framkvæmda verða miklu minni en þeir hafa áður verið, auk þess sem þeir geta ekki veitt sér ýmsar nauðsynjar, sem eru þeim þó nauðsynlegar vegna daglegrar framfærslu. Og að sjálfsögðu verkar þetta líka þannig, að af þessu leiðir mikinn samdrátt á sviðum atvinnulífsins í landinu og framkvæmda í landinu. Þetta eru fyrstu afleiðingarnar, sem þegar eru komnar í ljós af þessari nýju efnahagsmálastefnu, þ.e. kjaraskerðingin. Önnur afleiðingin, sem þegar er komin fram og leiðir af þessari stefnu, er sú, að það er mjög minnkandi áhugi hjá mönnum fyrir að leggja fé sitt í framleiðslu, og það er þegar byrjað í verulegum mæli, að menn reyni í vaxandi mæli að losa sig við ýmis framleiðslutæki. Það hefur t.d. aldrei verið eins mikið framboð á jörðum og núna, það hefur sjaldan eða aldrei verið eins mikið framboð á vélbátum til sölu og núna, og það heyrist ekki um það núna, að menn séu að ráðast í ný skipakaup eða togarakaup, eftir að þessi efnahagslöggjöf kom til framkvæmda. Þannig fer áhuginn fyrir framleiðslustarfseminni minnkandi, og þetta mun með tímanum og það miklu fyrr en varir leiða til þess, að framleiðslan minnkar, framleiðsluafköstin dragast saman, og það leiðir til versnandi afkomu og atvinnuleysis í landinu. Þetta er önnur afleiðingin af stjórnarstefnunni, að það sjást þess þegar merki, að framleiðslan sé að dragast saman. Hitt er svo annað, að það er ekki aðeins framleiðslan, sem dregst þannig saman, heldur verða það margar framkvæmdir aðrar, eins og byggingarframkvæmdir, sem fara minnkandi, og það er þriðja afleiðingin af þessari stefnu. Fjórða afleiðingin, sem þegar er að verða ljós, er sú, að það mun stefna að auknu ójafnvægi í byggð landsins. Það mun draga úr uppbyggingu á ýmsum stöðum úti um landið, þar sem einkafjármagnið telur ekki gróðavænlegt að koma upp framkvæmdum og þar sem hið opinbera hefur ekki aðstöðu til þess að halda slíkum framkvæmdum uppi vegna samdráttar, sem þar hefur orðið. Þetta verður til þess, að fólkið verður í vaxandi mæli að yfirgefa þessa staði og flytja til þéttbýlisins, þrátt fyrir það þótt atvinnumöguleikarnir fari ekki vaxandi þar, og þess vegna mun fylgja þessu mikil ógæfa, jafnt fyrir þá, sem búa í strjálbýlinu, og þá, sem eru í þéttbýlinu. Fimmtu afleiðingarnar; sem þegar er farið að brydda á vegna þessarar nýju efnahagsmálastefnu, eru þær, að það eru vaxandi líkur á því, að innan tíðar muni skuldasöfnun landsins erlendis aukast stórkostlega frá því, sem nú á sér stað, því að þrátt fyrir það, þó að kjaraskerðingin verði til þess að draga mjög úr kaupmætti almennings og skerði innflutning á þann hátt, þá er hætta á því sökum samdráttar í framleiðslunni, sem ég hef áður minnzt á, að það verði ekki nægur gjaldeyrir til þess að fullnægja þeirri frjálsu stefnu, sem ríkisstj. hefur tekið upp í efnahagsmálunum, og því verði gengið á það lánsfé, sem ríkisstj. hefur útvegað sér heimild til þess að fá erlendis, og fyrr en varir verður þjóðin búin að safna stórfelldum skuldum þar.

Þess vegna, ef maður dregur það saman, þá leiðir þessi efnahagsstefna, sem nú hefur verið tekin upp, í stuttu máli til þess, að kjör almennings versna, að framleiðsluatvinnuvegirnir dragast saman og hætta er á mikilli skuldasöfnun erlendis. Og ég held, að þó að menn sjái ekki meira en þau merki, sem þegar eru komin fram í þessum efnum, þá ætti það að nægja til þess, að menn gripu fyrr eða síðar til þess ráðs að breyta um stefnu, og það ekki sízt þeir, sem hafa haft forustu um að taka hana upp. Það er líka svo komið nú, að stjórnarblöðin eru farin að ræða um það, seinast var það í einu stjórnarblaði í gær, lýsa undrun yfir því, að það skuli ekki hafa verið farið af stað með verkföll, og það er spurt: Ja, hvað er það, sem tefur kommúnistana við það að hefjast handa um verkföll? Er það vegna þess, að þeir hafi ekki meiri áhuga á kjarabótum en þetta? — Þannig er skrifað í einu stjórnarblaðinu í gær. Það er verið að bera það á annan stjórnarandstöðuflokkinn, að hann hafi ekki meiri áhuga á kjarabótum almennings en þetta, að hann sé ekki byrjaður á verkföllum.

Nú býst ég við, að það séu allir nokkurn veginn sammála um, að það væri mikil ógæfa, ef hér kæmi til stórkostlegra verkfallsátaka, óg að það sé skylda allra að reyna að koma í veg fyrir það, að slík þróun elgi sér stað. En hitt er það, að það er hægt að beita löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu svo ranglátlega og með svo mikilli óbilgirni, að launþegar neyðist til þess að reyna að rétta hlut sinn með því að grípa til ráðstafana á öðrum sviðum, og það virðist vera alveg eins og markviss stefna hæstv. ríkisstj. að beita bæði löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi á þann hátt, að alþýðustéttirnar verði neyddar til þess að reyna að rétta hlut sinn á þann hátt, sem þær mundu þó ekki kjósa.

Þetta er málefni, sem hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar þurfa að taka til gaumgæfilegrar athugunar, ef þeir vilja sýna næga ábyrgðartilfinningu. Það er enn hægt að breyta um. Það er enn hægt að hverfa frá þeirri stefnu að meira og minna leyti, sem hæstv. ríkisstj. hefur markað. Það er hægt að draga verulega úr kjaraskerðingunni, sem hún hefur hrundið fram. Það er hægt að draga úr vaxtaokrinu, sem hún hefur komið á. Það er hægt að draga úr lánasamdrættinum, sem hún er að reyna að framkvæma. Það er hægt að hafa framkvæmdirnar meiri en hún stefnir að. Og ég er alveg viss um það, að ef hæstv. ríkisstj. fer inn á þessar brautir og tekur á þennan hátt sanngjarnt tillit til almennings í landinu, þá mun ekki koma hér til neinna verkfalla.

Ég álít þess vegna, að þó að stjórnarblöðin séu nú að ræða um verkföll, þá standi dæmið þannig enn í dag, að það sé fullkomlega á valdi ríkisstj. að koma í veg fyrir það, að til slíkrar óheillaþróunar komi. Og til þess að koma í veg fyrir slíkt, þarf hún ekki annað en að taka til gaumgæfilegrar athugunar þá efnahagsmálalöggjöf, sem hún setti í febrúarmánuði s.l., breyta stórlega frá ýmsu, sem þar er ákveðið, og taka að verulegu leyti upp nýja og heilbrigðari stefnu. Og ef hæstv. ríkisstj. fer inn á þá braut, þá ætti ekki að þurfa að óttast neitt þau verkföll, sem stjórnarblöðin eru farin að tala um.

En hitt verða menn svo að gera sér grein fyrir, að ef áfram verður framfylgt þeirri stefnu kjaraskerðingar og samdráttar, sem nú er stefnt að, og ef þannig er haldið á málum, að hálaunamennirnir, eins og t.d. ráðh. og bankastjórar, fái kjaraskerðinguna að öllu leyti upp bætta og meira en það með lækkun á sköttum og öðrum fríðindum, en stórfelldar byrðar eru hins vegar lagðar á alþýðustéttir landsins og kjör þeirra stórkostlega skert, þá hljóta og verða valdhafarnir að gera sér ljóst, að með slíku háttalagi knýja þeir alþýðustéttirnar fyrr eða síðar til einhverra mótaðgerða gegn slíkri stjórnarstefnu.

Þess vegna á hæstv. ríkisstj. einmitt að nota það frv., sem hér liggur fyrir, til þess að íhuga nú allt sitt ráð að nýju og láta ekki við það eitt sitja að gera þá breytingu, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi og gengur í þá átt að ganga til móts við stétt útgerðarmanna og fiskútflytjenda. Hæstv. ríkisstj. á ekki síður að ganga til móts við aðrar stéttir í landinu, sem bera nú skarðan hlut frá borði vegna hennar aðgerða, og ef hún gerir það og notar þetta frv. til að gera stórfelldar breytingar og endurbætur á allri efnahagslöggjöfinni, þá þarf hún áreiðanlega ekki að óttast þau verkföll, sem stjórnarblöðin voru að skrifa um í gær.