28.05.1960
Neðri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

164. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur ekki orðið sammála um þetta frv., eins og hv. frsm. meiri hl. þegar hefur skýrt frá. Ekki er það vegna þess, að um sjálft innihald þess hafi verið svo mikill ágreiningur í n., heldur er það hitt, að þegar þau efnahagslög, sem samþykkt voru að undirlagi hæstv. ríkisstj, fyrir þrem mánuðum hér á Alþ., koma nú hér aftur til umr., með því að flutt er frv. til l. um breyt. á þeim, þá fannst mér og fleiri nm., okkur, sem erum í stjórnarandstöðu, að full þörf mundi vera að nota þetta tækifæri til þess að endurskoða frv. að nokkru leyti og með þessu frv., sem hæstv. ríkisstj. nú hefur flutt til þess að byrja slíka endurskoðun sjálf, gæfist tilefni til þess að reyna að fá fram, þótt ekki væri nema ofur litlar fleiri endurbætur á frv. en þá, sem frv. sjálft, eins og það er, felur í sér.

Það hefur sem sé komið í ljós á þessum þrem mánuðum, að það efnahagskerfi, sem að vísu aðeins fáir af stjórnarliðum höfðu nokkra trú á, en báðir stjórnarflokkarnir þó fylktu sér um af einhverjum ástæðum, að þetta nýja efnahagskerfi, þetta kreppukerfi, er nú þegar að hrynja. Það hefur ekki þurft lengri tíma en þessa þrjá mánuði til þess, að það sýndi sig, að kerfið dugir ekki. Það liggur þegar fyrir yfirlýsing frá L.Í.Ú. um, að samkv. þessu kerfi verði ekki lagt út í nýja vertíð. Og það er enn fremur greinilegt af þeim yfirlýsingum, að það hefði ekki verið lagt út í þessa vertíð, ef þetta kerfi hefði legið svona fyrir í upphafi hennar, eins og það nú hefur verið framkvæmt. Það var auðsjáanlega aðeins lagt út í þessa vertíð og henni haldið áfram af því, að það er nú einu sinni svo með útvegsmenn og sjómenn á Íslandi, að þegar þeir eru byrjaðir á vertíð, hætta þeir eiginlega ekki, hvað sem á gengur. Það eru ekki fjárhagslegar umþenkingar, sem þar valda mestu um, heldur eru þar að verki veiðimenn, þeir sem fyrst og fremst eru að afla fisks, og þeir stanza ekki í miðjum róðri, þannig að tilfinningin, sem nú ræður yfirleitt hjá útvegsmönnum og fiskimönnum, er sú, að þeir hafi verið blekktir og sviknir, þeim hafi verið haldið gangandi með haldlausum loforðum til loka vertíðarinnar, af því að stjórnarvöld landsins þekkja inn á, að þeir stanza ekki, þegar þeir eru byrjaðir að róa. Og svo þegar vertíðinni er lokið og ekkert meira hægt að gera, lýsir sem sé L. Í. Ú. því yfir, að þessi grundvöllur dugi ekki og það verði ekki lagt út í nýja vertíð að óbreyttum grundvelli.

Spurningin, sem nú liggur fyrir, þegar þessi efnahagsmál eru þess vegna komin til umr. aftur, er sú, hvort hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, og þeir einstakir þm., sem eitthvað kunna að hugsa um þessi mál, vilja taka eitthvert tillit til staðreynda, hvort þeir fást nú þegar til að læra eitthvað af reynslu þessara þriggja mánaða eða hvort þeir þurfa miklu verri og miklu harðvítugri reynslu til þess að læra af því.

Það er m.ö.o. greinilegt, að efnahagskerfið er sjálft byrjað að hrynja. Grundvöllurinn undir því er bilaður. Og það eru ekki bara verkalýðssamtök og bændasamtök, sem segja slíkt, það eru útvegsmannasamtökin, sem segja það líka. Það hefur sýnt sig nú þegar, elns og spáð var af mér og fleirum í þessari hv. d. við umr. hér um efnahagsmálin, að útreikningarnir, sem hagfræðingar ríkisstj., þessir sérfræðingar, sem aldrei koma nærri lífinu, byggðu á, hafa allir reynzt vitlausir, og það, sem í þessu frv. felst, er, að það er byrjað að endurskoða útreikningana, af því að þeir hafa reynzt vitlausir. Spurningin er hins vegar, hvort ríkisstj. fæst til þess að taka tillit til þess, að það er fleira vitlaust í þessu efnahagskerfi en útreikningarnir og á fleiri sviðum en á þessu. Fiskverðið hefur alltaf reynzt vitlaust, og ég mun síðar koma inn á það, hvers konar upplýsingar eru komnar fram á þeim sviðum. Launaskerðingin reynist nú þegar meiri en gert var ráð fyrir og mun verða miklu meiri, þegar lengra kemur fram á. Markaðirnir, sem sérstaklega hæstv. viðskmrh. hefur gefið miklar yfirlýsingar um að hann vildi reyna að viðhalda, markaðirnir, sem hafa verið í austurvegi, um leið og menn vildu reyna að vinna meiri markaði í vesturátt, — markaðirnir í austurvegi eru að eyðileggjast. Það eru slíkar áhyggjur hjá þeim mönnum, sem hafa með söluna þar að gera, að það er þegar búið að skipa eins konar nefnd af hálfu þeirra samtaka, sem þar hafa ábyrgðartilfinningu og eiga sína hagsmuni undir, til þess að reyna eitthvað til að viðhalda þessum mörkuðum, sem ríkisstj. með sínu kreppukerfi er að eyðileggja, vegna þess að þetta kerfi, sem hér er verið að setja upp, er ekki fært um að halda þeim mörkuðum, sem útheimta að einhverju leyti yfirstjórn eða heildarhugsun um okkar viðskiptasambönd í allar áttir. Þegar ríkisstj. stendur nú frammi fyrir því, að útreikningarnir reynast þegar vitlausir, að fiskverðið reynst vitlaust, að launaskerðingin er meiri en reiknað var og verður ekki við hana unað, — frammi fyrir því, að markaðirnir eru að eyðileggjast vegna þessa kreppukerfis, þá er raunverulega spurningin, sem fyrir liggur: Ætlar ríkisstj. að bíða eftir því, að þetta hrynji alveg, hrynji með braki og brestum í rúst, eða er hún til í að reyna að endurbæta þetta kerfi eitthvað?

Sumum fyndist kannske, að það kæmi úr hörðustu átt, ef ég væri að reyna að koma einhverju viti fyrir ríkisstj. um það að láta ekki kerfi hennar hrynja og leggja til við hana, að hún skuli reyna að endurbæta þetta eitthvað. Því er stundum dróttað að mér og mínum líkum, að ég vilji helzt, að allt sé látið hrynja í rúst og það sé bezt að lofa þessu að sýna sig, eða eins og Ibsen orðaði það á einum stað: „Fyrst skal ormurinn út úr skel og afskræming tímans sjást svo vel, að ranghverfan öll snúi út,“ — það sé bezt að lofa þessu kreppukerfi að sýna sig í algleymingi, svo að öll þjóðin fái að kenna á því og sjá, hve vitlaust það sé, og það sé þess vegna ósköp rangt af mér að vara þarna nokkuð við, heldur bíða bara rólegur eftir þeirri byltingu, sem upp mundi rísa, þegar þetta gamla kreppukerfi væri hrunið. Ég fer nú þveröfugt að. Ég reyni hér á þessari stundu að koma ofur litlu viti fyrir hæstv. ríkisstj., að fá hana til að reyna að endurbæta þetta kerfi hennar, áður en það hrynur, fá hana til að læra ofur lítið af þeirri reynslu, sem nú þegar blasir við öllum þeim mönnum, sem eitthvað vilja sjá. Ég geri þetta vegna þess að ég álít það skyldu mína. Við vitum ósköp vel, að harðvítug átök út af vitlausri pólitík skammsýnnar yfirstéttar eru alltaf slæm, fyrir hvaða þjóðfélag sem er, og sé hægt að koma viti fyrir þá, sem hér eiga hagsmuna að gæta, þá er það betra, ef hægt er að fá þá til þess að sjá að sér í tíma. Þess vegna reyni ég nú í maílok 1960, áður en þessu þingi lýkur, að fá hæstv. ríkisstj. og hennar fylgifiska til þess að hugsa, til þess að læra ofur lítið af þeirri reynslu, sem blasir við eftir þriggja mánaða kreppukerfi. Og ég vil segja þeim það um leið og hæstv. ríkisstj., að fari þetta í rúst á næstu mánuðum, þá er það ekki þeim að kenna, sem varað hafa við. Það er nú tækifæri til þess að reyna að endurbæta þetta. Og ég vil minna hæstv. ríkisstj. á, að hún hefur dálítið fordæmi í heiminum í kringum sig, ef hún lítur eitthvað í kringum sig, frá vinum sinum. Hún var ósköp hrifin, þessir flokkar, sem nú sitja í ríkisstj., af því, þeir vildu helzt setja allan heiminn í bál og brand og láta hernema Ísland til þess að varðveita harðstjórn í Suður-Kóreu, sem síðan hefur falsað þar þingkosningar og stjórnað þar með ofbeldi og einræði, blóðugum ofsóknum, og þessi harðstjórn er nú fallin. Hún gæti e.t.v. lært eitthvað af því. Og ef henni finnst of langt síðan, af því að nú eru liðnar nokkrar vikur, þá heyrir hún kannske daglega núna, að það var nýlega að falla ein stjórn í Tyrklandi. Ég held, að einn ráðh. eða jafnvel tveir af hæstv. ráðherrum hafi verið í Miklagarði nýlega og hafi átt að fara í skemmtiferðir um landið á eftir til að sýna það fína lýðræði í Tyrklandi, og það hefur ekki þótt vogandi að senda þá í skemmtiferð á eftir, af því að óróinn hafi verið það mikill í þessu fina Atlantshafsbandalagsríki. Þeir sátu þar með Menderez forsætisráðherra og einhverjum fleirum, og ég vil segja hæstv. ráðh., ef einhver væri, að þessi Menderez forsætisráðherra er í dag í tukthúsinu í Tyrklandi, og ef Atlantshafsbandalagið hefði haldið þarna áfram, þá veit ég ekki, hvort fleiri hefðu lent þar inn líka af ráðh.

Það væri þess vegna kannske rétt fyrir ríkisstj., sem er búin að horfa upp á tvo vini sína, Menderez og Syngman Rhee, vera að falla á undanförnum vikum, að hugsa ofur lítið um það, — þótt að vísu slíkir stórfelldir viðburðir, eins og í þeim löndum gerast, gerist ekki hér hjá okkur á Íslandi, heldur allt með miklu skikkanlegra hætti, þá mætti hún e.t.v. af þessu læra, að það er alltaf skynsamlegt fyrir yfirstétt að reyna að sjá að sér í tíma með það að slaka til, meðan tækifæri er. Það er alltaf ópraktískt fyrir yfirstétt að bíða, þangað til menn eru orðnir svo órólegir, að hún byltist frá völdum. Og ég skal aðeins segja, hvað ég á við, þegar ég er að tala um yfirstétt í þessu sambandi. Ég á fyrst og fremst við verzlunarauðvaldið í Reykjavík. Þar sem rétt er, að þeir hv. stjórnarliðar, sem halda e.t.v., að þeir séu fulltrúar fyrir allar stéttir, geri sér ljóst, fyrir hverja þeir eru að vinna, þá er það, sem gerzt hefur á þessum þremur mánuðum, það, að verzlunarauðvaldið hér í Reykjavík hefur hrifsað til sín völdin yfir efnahagsmálunum, að allt efnahagskerfi Íslands hefur verið mótað einvörðungu með tilliti til ímyndaðra hagsmuna verzlunarauðvaldsins í Reykjavík og að íslenzka þjóðin hefur verið gerð að tilraunadýri fyrir úreltar og vitlausar kenningar, sem þetta verzlunarauðvald enn þá, þótt merkilegt megi virðast, trúir á, e.t.v. að nokkru leyti af því að vestrænir auðhringar, sem standa í nánu sambandi við það, hafa ýtt frekar undir það við að reyna að framkvæma slíkar tilraunir hér á Íslandi. Það hefur þegar sýnt sig á þessum þremur mánuðum, að með yfirráðum þessa verzlunarauðvalds hér, lítillar heildsalaklíku, hefur verið ráðizt á lífshagsmuni eftirfarandi stétta: í fyrsta lagi verkalýðsins og verkalýðshreyfingarinnar allrar, í öðru lagi bændanna og samvinnuhreyfingarinnar allrar, í þriðja lagi útvegsmannanna og útflutningsins á Íslandi. M.ö.o.: 90% af Íslendingum, launþegar og bændur, þeirra hagsmunum hefur verið fórnað fyrir hagsmuni þessa verzlunarauðvalds, en ekki nóg með það, líka hluta af atvinnurekendastétt landsins, þeim, sem með útflutninginn hafa að gera, og þeim, sem framleiða fiskinn eða eiga framleiðslutækin, þeirra hagsmunum hefur verið fórnað fyrir verzlunarauðvaldið, þeim mörkuðum, sem unnir hafa verið fyrir útflutninginn, hefur verið stofnað í hættu, hagsmunum þessa útvegs hefur verið fórnað, og þetta hefur allt saman verið gert undir því yfirskini, að það væri verið að bjarga sjávarútveginum. En þau loforð voru gefin í upphafi, þegar ráðizt var í þessar framkvæmdir, að sjávarútveginum skyldi þó aldrei vegna verr, miðað við sæmilegan afla, með þessum nýju ráðstöfunum heldur en áður hefur verið. Reynslan hefur orðið sú, að þrátt fyrir víðast hvar miklu meiri afla hefur sjávarútveginum vegnað svo illa undir þessum nýju ráðstöfunum, að sjálfir atvinnurekendurnir, sjálfir útvegsmennirnir og þeirra landssamband lýsir því yfir, að það verði ekki oftar gert út upp á þessi býti, út á þennan grundvöll.

M.ö.o.: það liggur fyrir, að skammsýnt verzlunarauðvald, sem með 800 millj. kr. lánsaðstoð vestrænna auðhringa hefur hrifsað til sin yfirráðin yfir efnahagslífi Íslands, það hefur nú þegar skaðað hagsmuni yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, skert lífsafkomu verkalýðs og bænda og stefnt sjálfum útflutningnum og útveginum í hættu með því að eyðileggja þann grundvöll, sem áður var fyrir hendi og hægt hefði verið að skapa fyrir hans útflutningi og fyrir hans starfrækslu. Í 20 ár hefur mönnum verið það ljóst á Íslandi, og það er e.t.v. eitt af því stóra sögulega, sem baráttan fyrir nýsköpun og nýsköpunarstjórnin gerði, að sjávarútvegurinn var settur sem númer eitt íslenzku efnahagslífi. Það var viðurkennd staðreynd eftir 1944, að sjávarútvegurinn og hans hagsmunir væru það, sem Ísland byggði á, og þess vegna yrði að setja það sem númer eitt, þegar verið væri að hugsa um efnahagsgrundvöll Íslands. Þessi staðreynd var t.d. ekki viðurkennd fullkomlega á árunum 1930–1940, þó að staðreyndin væri sjálf til. Það voru alls konar hugmyndir uppi um, að með ýmsum smáiðnaði og öllu mögulegu væri hægt að skapa einhvern annan grundvöll fyrir íslenzkt atvinnulif, og íslenzkum sjávarútvegi fór allt það árabil síhnignandi. Það, sem nú hefur gerzt, er, að þessi staðreynd, sem er og blífur, hún er ekki viðurkennd af núverandi stjórnarvöldum. Það er annað prinsip, það er önnur höfuðregla, sem er gerð að stefnu núv. ríkisstj., og sú regla er sú, að fyrst af öllu skuli vera frjáls verzlun svokölluð, og ef sjávarútvegurinn standist ekki á frjálsri verzlun, þá skuli hann drepast fyrir teoríu frjálsrar verzlunar. Fyrir úreltar hugmyndir um, hvað hægt sé að gera í samkeppni við auðhringana á Vesturlöndum, er hagsmunum sjávarútvegsins fórnað. Og það er þetta, sem menn þurfa til fulls að átta sig á, því að þetta er nú þegar komið í ljós. Þetta sér L. Í. Ú. nú þegar og viðurkennir. En það, sem menn skilja ekki þarna enn þá, eru þær pólitísku rætur, sem til þessa liggja, sú valdabreyting, sem orðið hefur í landinu, sú valdabreyting, að voldug heildsalaklíka hefur hrifsað til sín völdin í núverandi stjórnarflokkum og ræður stefnunni og fórnar fyrir sína stefnu og sína ímynduðu hagsmuni ekki aðeins hagsmunum verkamanna og bænda, heldur líka útvegsmanna og útflutningsins og þar með hagsmunum Íslands, þar með þeim efnahagslega grundvelli, sem Ísland byggir á.

Menn hafa ekki verið að hjálpa sjávarútveginum á undanförnum árum, þegar menn hafa verið að tryggja ákveðið verð fyrir fiskinn og annað slíkt. Menn hafa verið að hjálpa sjálfum sér. Ísland hefur verið að hjálpa sér til að lifa. Menn hafa gert það vegna þess, að menn sáu, að sjávarútvegurinn var grundvöllurinn að lífi Íslands, hinu efnahagslega lífi þess. Þegar þær hugmyndir hafa skotið upp kolli hjá sumum mönnum stundum hér á götunum í Reykjavík, að sjávarútvegurinn væri einhver styrkþegi, þá hefur veruleikinn staðið þar á haus. Það hefur verið svo og svo mikið af öllum landsbúum, sem hafa verið styrkþegar sjávarútvegsins. Það var sjávarútvegurinn, sem var grundvöllurinn fyrir öllu saman. Þetta stóð allt á haus í kollinum á víssum mönnum. Og þess vegna virðist það, sem á að gera nú í dag, vera það að sparka þessum sjávarútvegi endanlega og sparka þar með grundvellinum undan efnahagslegri tilveru og efnahagslegu sjálfstæði Íslands, allt saman til þess að reyna að þóknast vestrænu auðvaldi, sem lánar ríkisstj. 800 millj. kr. og gerir það að skilyrði, að það sé farið að reyna að framkvæma hér af okkur Íslendingum, gera tilraun hér á okkur Íslendingum um úreltar og vitlausar teoríur þess.

Spurningin, sem því liggur fyrir nú við umr. þessa máls, er, hvort hægt sé að fá ríkisstj. til þess að átta sig á þessum hlutum, hvort hún sjái, hvert hún er að fara. Ég geri aðeins smátilraun við þessa umr. til að vita, hvort hægt er að fá ríkisstj. og hennar flokka til þess að sjá að sér. Ég geri ekki tilraun til að endurbæta og gerbreyta kerfinu. Ég geri aðeins tilraun til þess að vita, hvort ríkisstj. sér og er til í að fara að afmá mest áberandi og svívirðilegustu skakkaföllin á því, og ef sú tilraun tækist, þá mundi ég halda áfram, þá mundi ég koma með fleiri tillögur. Þetta á aðeins að vera prófsteinn á það, hvort hægt sé að mæla ríkisstj. máli, hvort hægt sé að koma vitinu fyrir einhverja menn í hennar flokkum eða hvort hún ætlar að bíða eftir örlögum vina sinna, Menderez og Syngmans Rhee, eftir því, að kerfið falli um koll, kreppukerfið falli um koll með braki og bramli, í staðinn fyrir að enn þá væri tækifæri á Íslandi til þess að afnema það ósköp hægt og rólega. Ég geri þessar tilraunir vegna þess, að ég vil, að það sé alveg ljóst, þegar til átaka kemur, átaka, sem rústa þetta auma kerfi, að þá er það ríkisstj., blind ríkisstj., skammsýn, þröngsýn ríkisstj., sem engu viti er hægt að koma fyrir, en vöruð hefur verið við, sem ber ábyrgð á því. Þær brtt., sem ég þess vegna flyt við efnahagslagafrv., eru eftirfarandi, svo sem ég nú skal gera grein fyrir:

Í fyrsta lagi flyt ég ásamt 2 öðrum hv, þm., 2. og 4, landsk., sem geta ekki mætt hér í dag, vegna þess að þeir eru á ráðstefnu verkalýðsfélaganna, sem Alþýðusambandið hefur kvatt til hér í Reykjavík, — ég flyt með þeim till. um að afnema 23. gr. laganna. 23. gr. fjallar um að banna að reikna vísitölu á kaup. 23. gr. var ósvífin árás á helgi þeirra samninga, sem verkalýðsfélögin hafa gert við atvinnurekendur. Það voru afskipti ríkisvaldsins af samningum á milli voldugustu samtakanna í landinu, á sama tíma sem sjálfsagt þykir hér á Alþ., að allir aðrir samningar manna á milli haldist óbreyttir. Ef einn maður hefur samið um ákveðna afborgun í verðbréfi af húseign eða einhverju öðru slíku, vexti og annað slíkt, þá skal það haldast óbreytt, og það þykir ekki rétt að breyta þess háttar samningum. Þá var, þegar 23. gr. var samþ., gripið inn í samninga 30 þús. verkamanna og verkakvenna á Íslandi og þeim samningum breytt með lögum. Síðan voru gerðar beinar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. til þess að leiða ægilega dýrtíð yfir almenning, — dýrtíð, sem reynt var að verja með því, að það væri verið að bjarga sjávarútveginum. En meira að segja hans atvinnurekendafulltrúar viðurkenna nú þegar, að sjávarútvegurinn sé verr staddur en áður eftir þessar dýrtíðarráðstafanir, þannig að ekki var það gert til þess að bjarga honum. Það hefur nú þegar sýnt sig, að útreikningarnir um dýrtíðaraukninguna hafa, eins og allir aðrir útreikningar hinna svokölluðu hagfræðinga eða sérfræðinga, reynzt vitlausir. Dýrtíðin hefur þegar vaxið örar en ríkisstj. gerði ráð fyrir og á eftir að vaxa örar, ef eins heldur áfram. Sú raunverulega dýrtíðarvísitala var nú 1. maí 108.3 stig. Ef fjölskyldubæturnar eru dregnar frá, kemur út 105.49 stig, sem sagt hefur verið frá opinberlega í fréttum. En um 8 stig er dýrtíðarvísitalan þegar hækkuð, um 8 stig er raunverulega búið að skerða laun alls meginþorra manna í landinu nú þegar, og það er búið að skerða afkomu þeirra miklu meira en þetta, vegna þess að þegar eru fallnir niður möguleikar, sem verkafólk hefur haft víða t.d. til eftirvinnu og til þess þannig með löngum vinnutíma að bæta sér upp léleg laun, þannig að lífsafkoman hefur þegar versnað miklu meira en þessu samsvarar. Og ég vil nú spyrja: Er einhver sá þm. til eða jafnvel ráðh., sem lætur sér detta í hug, að íslenzk verkalýðssamtök ætli sér að þola þetta? Er mönnum það ekki alveg ljóst, að þessu verður hent um koll? Og það er ekkert vald til í þessu landi, sem hindrar það.

Verkalýðssamtök landsins koma til með að hækka kaupið. Og atvinnurekendur landsins, ef einhverjir eru, sem ætla að standa á móti slíku, skulu gera sér ljóst, að það er hægt að reka allan íslenzkan þjóðarbúskap án atvinnurekenda, en atvinnurekendur reka ekki neitt án verkamanna. Það er nauðsynlegt, að menn muni, hvað er grundvöllur alls rekstrar: það er vinnuaflið sjálft. Nú þegar er búið að lækka laun um 19% og jafnvel meira í sumum greinum. Nú þegar undirbúa verkalýðsfélög viða um land kauphækkanir í kjölfar slíks. Hvenær muni koma til þeirra almennu launahækkana, hafa verkalýðssamtökin ekki ákveðið enn þá. En eitt er víst, eins og tveir og tveir eru fjórir, að þær launahækkanir koma. Svo vel þekkja hv. þm. stjórnarflokkanna íslenzka alþýðu, að hún er enginn aumingi, sem lætur bjóða sér svona kúgunarráðstafanir.

Spurningin, sem liggur fyrir mönnum í dag, er, hvort stjórnarliðið ætlar að vera blint, eins og Syngman Rhee og Menderez, eða hvort það ætlar að kunna einhvern snefil af stjórnvizku, þá stjórnvizku, sem einkennt hefur sumar yfirstéttir heimsins, sem hafa getað fleytt sér lengur, eins og t.d. enska yfirstéttin, að taka tillit til sterkra hreyfinga í tíma. Og ég vil vara stjórnarliðið við því, að það lítur nokkuð litið í kringum sig í heiminum. Það sér líklega ekki, að það hefur verið bylting á undanförnum árum, t.d. í Afríku, að nýlenduveldin í Evrópu, sem hefðu átt í fullu tré við að reyna að berja niður uppreisnir þar, af því að yfirstéttir Evrópu voru betur vopnaðar en svertingjarnir í Afríku, þau hafa hætt við það, vegna þess að þau sáu, að þarna var að rísa alda, sem þeir réðu ekki við. Og þeir þeirra, sem hafa verið skynsamastir, hafa látið undan í tíma. Þeir, sem eru blindir, eins og í Suður-Afríku, streitast á móti þróuninni. Ætlar hæstv. ríkisstj. og hennar þinglið að halda áfram að streitast á móti þróuninni? Ég veit, að hv. þm. hitta ekki svo launþega hér á Íslandi nú, hvorki úti á landi né hér í Reykjavík, hvorki á meðal starfsmanna jafnvel sjálfs stjórnarráðsins, bankanna, hvað þá á meðal verkalýðsins, að þeir ekki heyri hjá þeim: Þetta er ekki hægt að þola. — Hvaða rödd er það, sem er algengasta röddin, jafnvel ef menn koma bara austur í Árnessýslu? Röddin er þessi: Hvenær ætlar Dagsbrún að fara af stað? Það er komið svo, að þorri allra verkamanna og bænda bíður eftir því, að verkalýðurinn í Reykjavík fari af stað, og margir eru farnir af stað nú þegar. Það er ríkisstj. ein og hennar þinglið, sem sér ekkert og skilur ekkert. Þess vegna viljum við, sem flytjum þessa brtt. á þskj. 540, reyna að koma ofur litlu viti fyrir hæstv. ríkisstj., fá hana til þess að viðurkenna, að það sé þó a.m.k. sanngjarnt, að verkalýðurinn fái upp bætta þá dýrtíð, sem hún hefur vitandi vits eða kannske í blindri trú á hagfræðinga leitt yfir hann með því að láta samninga verkamanna og atvinnurekenda taka gildi. Atvinnurekendur geta þá sjálfir sagt, hvort þeir vilja ekki standa við þá samninga, sem þeir hafa gert. Þeir um það. Það hefur verið talað hér um það, að atvinnurekendur og verkamenn ættu að eigast við sjálfir. Látum þá eigast við. Látum þá íslenzka atvinnurekendur, ef þeir vilja, stöðva atvinnureksturinn, ef þeim finnst það nær en borga verkafólki sínu sæmilegt kaup að greiða 12% í vexti til bankanna. Það, sem er farið fram á með brtt. á þskj. 540, er þess vegna aðeins, að ríkisstj. hætti að skipta sér af samningum verkamanna og atvinnurekenda, að hún láti samningana vera í gildi, að hún sé ekki að sletta sér fram í þetta, og vísitalan taki fullt gildi á ný. Látum svo atvinnurekendur um það, ef þeir segjast ekki geta bætt sinn atvinnurekstur þannig, að þeir standi undir slíkum hækkunum. Allar þjóðir í kringum okkur eru að hækka laun hjá verkafólki. Ef íslenzkir atvinnurekendur geta ekki hækkað laun hjá verkafólki, þá hafa þeir ekkert að gera með að vera að draslast við að reyna að stjórna íslenzku atvinnulífi. Þeir verða að gera svo vel að sýna það í einhverju, að þeir verðskuldi það, að þjóðin feli þeim að stjórna atvinnulífinu, að ríkisbankarnir láni þeim lánin, sem geri þeim mögulegt að stjórna því, og ég veit, að þorri atvinnurekenda mundi treysta sér til þessa. Það eru margir duglegir og framsýnir atvinnurekendur á Íslandi, sem kunna að reka sín fyrirtæki.

Ég vil vekja athygli hæstv. ríkisstj, og þm. hennar á því, að nú eru saman komnir hér í Reykjavík og verða í dag og á morgun fulltrúar fyrir allan þorrann af öllum verkalýðsfélögum Alþýðusambands Íslands, fulltrúar fyrir upp undir 30000 íslenzka verkamenn, fulltrúar fyrir helminginn af íslenzku þjóðinni. Verkalýðurinn í Alþýðusambandinu er réttur helmingur íslenzku þjóðarinnar með sínu skylduliði. Og þeir starfsmenn í landinu, bæði hins opinbera og annarra, sem mynda 25% þjóðarinnar, eru flestir lítt betur settir en verkalýðurinn og hafa fulla samúð með þeirri baráttu, sem hann kemur til með að heyja.

Spurningin, sem liggur fyrir í dag, er, hvort hæstv. ríkisstj, og stjórnarlið fæst til þess að taka eitthvert tillit til óska og vilja þessa fjölda eða hvort á að láta það ganga, eins og gengið hefur stundum á undanförnum áratugum, að verkalýðssamtökin verði alltaf að sækja sinn rétt með harðvítugum og dýrum og stundum jafnvel löngum verkföllum. Og ég vil minna á, að það eru ekki atvinnurekendur sjálfir, sem hafa nú sagt upp samningunum. Það er eingöngu stjórnarliðið hér á Alþ., sem hefur slett sér fram í þetta með þessari 23. gr., með því að afnema vísitöluna, — slett sér fram í samningana og ógilt með kúgunarlögum atriði úr frjálsum samningum verkamanna og atvinnurekenda. Og ég vil minna menn á, ef þeir skyldu vera búnir að gleyma því, hvaða afleiðingar það hefur haft, þegar slíkt hefur verið gert á undanförnum árum. Vil ég minna t.d. á gerðardómslögin í janúar 1942 og hvað það þýddi. Og það eru menn á Alþ. enn þá frá þeim tíma, sem voru með að setja þau og hafa séð og skilið, hvers konar glapræði það var. Og það er leitt, ef menn þurfa á 20 ára fresti að gera sama glapræðið aftur og aftur og uppskera samsvarandi ávexti af því. Þess vegna vil ég eindregið leggja til við hv. þd., að hún samþ. brtt. á þskj. 540 um að fella niður 23. gr.

Þá flyt ég enn fremur brtt., — ég sé raunar, að hv. 1, þm. Norðurl. v., sem er með mér í fjhn., flytur líka svipaðar till., — um að fella burt 31., 32. og 33. gr. laganna. Það eru greinarnar um afnám okurlaganna og um kúgunarráðstafanir gagnvart sparisjóðum og kaupfélagssjóðum úti um land. Það hefur nú þegar sýnt sig, að þær kúgunarráðstafanir, sem gerðar voru með því að hækka vextina upp í 12% gagnvart atvinnulífi landsins, hafa þegar haft mjög skaðlegar afleiðingar, eins og bent var á og við var að búast. Þessar blindu ráðstafanir gagnvart atvinnurekstrinum á Íslandi eiga sér yfirleitt enga stoð í neinni heilbrigðri fjármálapólitík. Það er alveg einstakt atriði, að lagt skuli hafa verið út í slíkt á Íslandi. Það er eins og sé verið að gera leik að því að reyna að brjóta niður þá, sem eru smáir, sérstaklega smáir atvinnurekendur, en hafa verið bjartsýnir og stórhuga við að leggja í framkvæmdir. Ríkisstj. og hennar stjórnarflokkar eru sérstaklega að leggja sig í líma til þess að níðast á bændum og öðrum smáatvinnurekendum og drepa þá með háum vöxtum. Á sama tíma eru stórlaxarnir í landinu, skuldugustu mennirnir í landinu, þeir menn, sem skulda milljónir og milljónatugi, — það er bætt við þá lánum nú undanfarna 3 mánuði, bætt við þá lánum, en þeir smáu drepnir. Og það er hart, að menn skuli vera að gera það að því er virðist að gamni sínu að fara yfir í slíka pólitík. Og ef menn vilja finna eitthvert vit á bak við þetta, þá er það aðeins eitt, það er það, að drepa eigi niður millistéttirnar, hina svokölluðu bjargálna, sjálfstæðu smáatvinnurekendastétt, til þess að safna öllu fjármagni hjá þeim, sem voldugastir eru. En þetta hefur ekki aðeins þegar haft afleiðingar gagnvart ýmsum smáatvinnurekendum og bændum, þetta hefur líka haft mjög áþreifanlegar afleiðingar gagnvart þeim hluta af alþýðu manna, sem mundi reyna að byggja sér hús. Það sér nú þegar á, t.d. í Hafnarfirði, að það eru færri, sem leggja í það að byrja að byggja hús nú í ár, heldur en var í fyrra. Ætli það sé ekki hægt að telja þá á annarri hendinni, sem leggja í það í ár, ætli það hafi ekki verið upp undir 40 í fyrra? Sömu dæmum kynntist ég nýlega á Selfossi, og þannig mun það vera víðast hvar úti um land. Þann stórhug alþýðunnar að reyna að koma þaki yfir höfuðið á sér er líka verið að brjóta á bak aftur með þessari okurpólitík ríkisstj. og með hennar lánabönnum. Á sama tíma er svo Seðlabankinn látinn vera að kreppa að innlánsdeildum kaupfélaganna og sparisjóðum úti um land, sem sé einmitt á þessum stöðum, þar sem fólkið sérstaklega þurfti að fá aðstöðu og tækifæri til þess að bjarga sér sjálft. Ofan á allt þetta er svo sjálfur útflutningurinn, sem á að vera sá efnahagslegi grundvöllur að öllu þjóðlífinu, látinn greiða í vexti af endurkaupavíxlunum 91/2 %. Ég veit ekki, hve vitlausir þeir menn eru, sem stjórna atvinnuvegum Íslands núna, en í venjulegu kapítalistísku þjóðfélagi þykir 10% gróði sæmileg afkoma. M.ö.o.: Seðlabankinn er í dag látinn taka 91/2% vexti af því fé, sem lánað er til að mynda gjaldeyri Íslands, allan þann gjaldeyri, sem m.a. hæstv. ríkisstj. byggir allar sínar tekjur og öll fjárlögin á. M.ö.o.: ef hér væri venjulegt auðvaldsskipulag, þá þýddi það, að Seðlabankinn er látinn taka allan þann gróða, sem eðlilegt væri að normöl fyrirtæki gæfu af sér. Dettur nú nokkrum manni í hug, þegar svona ráðstafanir eru gerðar, að verkalýðurinn, sem er hinn aðilinn, því að allt, sem þarna er skapað, skiptist í tvennt: vinnulaunin annars vegar og það, sem fer til fjármagnsins, hins vegar, — dettur nú nokkrum mönnum í hug, þegar verkalýðurinn í landinu horfir upp á svona arðskiptingu, að Seðlabankinn einn er látinn taka til sín í vexti allt, sem einn atvinnuvegur ætti að gefa af sér, ekkert skilið eftir handa útveginum, að það sé hægt að taka nokkurt tillit, t.d. í sambandi við vinnudeilur, til manna, sem svona ráðstafanir fremja? Það eru vitlausir menn, sem þarna eru að verki, og það er auðséð, að Sjálfstfl. er búinn að gleyma nokkuð miklu af því, sem var verið að reyna að troða í hausinn á honum á nýsköpunarárunum. Þá var honum kennt það, að til þess að reka atvinnuvegina á Íslandi skyldum við lána útveginum með 21/2 % vöxtum, og það tókst að drasla útgerðarauðvaldinu á Íslandi út í nýsköpunina á grundvelli þess.

Það er auðséð, að því litla, sem hægt var að kenna Sjálfstfl. þá, er hann búinn að gleyma í þeim ameríska skóla, sem hann hefur gengið í. Út frá öllu venjulegu hagfræðilegu sjónarmiði, ekki bara frá marxistísku hagfræðilegu sjónarmiði, heldur frá venjulegu borgaralegu og kapítalistísku hagfræðisjónarmiði eru þetta eintómar vitleysur, sem þarna er verið að gera. Ég var að tala um það, að Seðlabankinn tæki 91/2 % í vexti af endurkaupavíxlunum. Það er hart, að það skuli meira að segja vera til kapítalistar á Íslandi, sem láta bjóða sér svona meðferð. En þó að það séu til kapítalistar og milljónamæringar á Íslandi, sem eru svona aumir gagnvart stofnunum eins og Seðlabankanum og einhverjum embættismönnum og ríkinu, þá mega þeir ekki halda, að verkalýðurinn á Íslandi sé svo aumur, að hann láti bjóða sér svona meðferð. Þess vegna vil ég nú gefa ekki aðeins þeim, sem bera hagsmuni húsbyggjenda, bænda og smáatvinnurekenda fyrir brjósti, heldur líka þeim, sem kynnu að skilja eitthvað ofur lítið í auðvaldsskipulaginu sjálfu, að það nái auðvitað ekki nokkurri átt að láta Seðlabankann taka jafnvel af endurkaupavíxlunum 91/2 % í vexti, — gefa þeim kost á að breyta þessu.

Ég hef um nokkurt skeið átt sæti í bankaráði Landsbankans. Löngum undanfarin ár hefur það verið eitt aðalumræðuefni, sem allir hafa verið sammála um og ég held næstum því bankastjórar og bankaráð fleiri banka en Landsbankans, að það næði ekki nokkurri átt, að það væru greidd 41/2 % í vexti af endurkaupavíxlunum. Viðskiptabankarnir hafa fengið 1/2% þá, Seðlabankinn 4%. Það hefði verið kannske eðlilegt að greiða 21/2 % og viðskiptabankarnir hefðu fengið 1% eða 11/2% og Seðlabankinn 1%. Þetta var eitt af því, sem var sjálfsögðust ráðstöfun til þess að reyna að koma íslenzkum útflutningsatvinnuvegum á eðlilegan grundvöll. En hvað er gert í staðinn fyrir að breyta þessu í þessa átt, eins og gert hefði verið, ef Sjálfstfl. hefði haft eitthvert vit í kollinum, eins og partur af honum hafði 1944? Hvað er gert? Jú, það er farið í að hækka þessa vexti upp í 91/2 %. Og ég auglýsi eftir því, hvort það er einhver maður hér í þessari hv. d„ hv. þm., sem vildi reyna að verja þessa ráðstöfun, og ég gef þeim kost á því að fella burt þessar greinar, sem grundvallað er á allt þetta okur.

En sem sé, mér er það alveg ljóst, að jafnvel þótt það væri gert, þá er þar með ekki búið að afnema þetta kreppukerfi ríkisstj. Þetta eru frá minni hálfu aðeins tilraunir til þess að vita, hvort nokkru viti sé hægt að koma fyrir hæstv. ríkisstj. og hennar fylgifiska, og svo framarlega sem það tækist nú við þessa eða næstu umr., þá teldi ég það lofa nokkru góðu um framhaldið. En ef það er ekki hægt, þá eru það þeir, sem blindir eru, sem bera ábyrgð á afleiðingunum.

Í þriðja lagi flyt ég svo brtt. á þskj. 541, brtt. 2 á því þskj., að við bráðabirgðaákvæði efnahagslaganna bætist nýr liður um, að kosin verði 5 manna nefnd til þess að rannsaka, hvaða orsakir liggi til þess, að fiskverð til sjómanna í Noregi er miklu hærra en fiskverð til útgerðarmanna hér á landi og miklu hærra en það verð, sem íslenzkum hlutarsjómönnum er greitt. Ég birti í mínu nál. þrjár skýrslur sem fskj., sem ættu að geta fengið menn til þess að hugsa ofur lítið um þetta mál. Þessi fskj. eru í fyrsta lagi það lögbundna verð til hlutarsjómanna, sem ríkt hefur frá 1. febr. 1959. Í öðru lagi er í fskj. II það verð á fiski til útgerðarmannanna, sem var frá 16. febr. til 20. maí í ár, samkvæmt samningi milli Landssambands ísl. útvegsmanna annars vegar og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Skreiðarsamlagsins hins vegar. Og síðan birti ég í þriðja lagi sem fskj. III verð á fiski til norskra fiskimanna frá Norges Ráfisklag eins og það er umreiknað í íslenzkar krónur með kaupgengi — kaupgengi, ekki sölugengi — á norskum krónum, 532.85. Og það kemur í ljós við athugunina á þessu, að verðið, sem greitt er í Noregi, er frá tvöfalt til fimmfalt hærra en hér og að norskir sjómenn fá t.d. fyrir kg af þorski frá kr. 4.21 upp í kr. 4.80. Ég geri það að till. minni, að þetta sé rannsakað, hvernig á þessu standi. Þarna geri ég sem sé ekki till. um breytingu, en ég geri það að till., að skipuð sé sérstök 5 manna nefnd af þinginu til þess að rannsaka, hvernig á þessu standi. Og nú vil ég segja það við hæstv. ríkisstj. og hv. þdm.: Það liggur fyrir yfirlýsing nú í dag fyrir okkur, áður en við förum nú heim af þessu þingi, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, að það verður ekki gert út á næstu vertíð samkvæmt þeim efnahagsgrundvelli, sem núverandi efnahagslög fela í sér. Það liggur m.ö.o. fyrir yfirlýsing um, að þessi efnahagsgrundvöllur hefur þegar brostið, og það verður að skapa annan, áður en næst verður gert út. Nú er ég sjálfur búinn að upplifa það hér í um 20 ár, að við byrjun hverrar vetrarvertíðar standi Alþingi, stundum ráðþrota, stundum með harðvítugum deilum, stundum kannske undir heppilegri og góðri stjórnarforustu, frammi fyrir vandkvæðum sjávarútvegsins og þar með þjóðfélagsins alls, um hvort gert verði út, og eitt af því, sem við deilum venjulega um og deilt hefur verið um allt þetta árabil, það eru ákveðnar tölur í sambandi við þann svokallaða efnahagsgrundvöll, hvaða verðiag beri að reikna, hvaða verðiag sé hægt að reikna. Það er ákaflega hart, að það skuli aldrei hafa getað legið fyrir neinar tölur í þessu efni, sem menn væru sammála um. Það er hart, að í hvert einasta skipti, sem um þessi mál er rætt, skuli einn aðili segja: Það þarf svona mikið, — og annar aðili segja: Það þarf svona mikið, — og að það sé ómögulegt að koma sér niður á og vera sammála um einföldustu tölurnar viðvíkjandi útgerðarkostnaði og öllu mögulegu slíku í þessu sambandi. Og nú vil ég gera tilraun til þess, að þegar næst kemur til átaka í þessum efnum, þá standi menn ekki upp og einn aðili segi: Það er hægt að gera út upp á þetta hér, — og hinn segi: Það er ekki hægt, heldur verður það að vera öðruvísi. — Ég vil gefa hæstv. núv. ríkisstj., ef hún skyldi lafa svo lengi, sem ég tel mjög ólíklegt, tækifæri til þess að leggja þá a.m.k. upp í hendurnar á sinum eftirkomendum nokkurn tölulegan grundvöll í þessum efnum, og af því að ég veit, að hæstv. ríkisstj. mænir til alls, sem kemur frá Ameríku eða þar er gert, sem mikillar fyrirmyndar, þá vil ég minna hana á, að þegar amerískir atvinnurekendur og verkamenn deila, þá er einn hlutur, sem þeir þurfa ekki að rífast um, og það er, hvort það sé gróði eða hve mikill gróði af amerískum atvinnufyrirtækjum. Það liggur skýrt fyrir í skýrslum, opinberum, staðfestum skýrslum yfirvalda. Þess vegna ætti að geta legið fyrir næst, þegar þessi efnahagsmál og grundvöllur þeirra verður tekinn til umr.: hvað er framleiðslukostnaður á íslenzkum fiski, hvernig er um verðið á olíunni og öðru, sem til sjávarútvegsins þarf að kaupa, hvernig er með sambærilegt t.d. í Noregi, að hve miklu leyti býr íslenzkur sjávarútvegur við öðruvísi aðstæður, að hve miklu leyti eru hlutirnir hér og hvaða hlutir eru það þá, sem eru dýrari, og þess vegna: hvað er það, sem hægt er að breyta? Það er ákaflega harðvítug staðreynd, að íslenzkir sjómenn, sem framleiða tífalt á við norska sjómenn, — ekki vantar afköstin, ekki vantar framleiðslugetuna hjá íslenzkum sjómönnum, — að þeir skuli sem sé fá minna fyrir hvert kg af fiski og það svona miklu, miklu minna en norskir. Og menn þekkja þá ekki íslenzka sjómenn, ef menn halda, að þeir uni við slíkt. Þess vegna vil ég eindregið skora á hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn að samþykkja þessa till., nr. 2 á þskj. 541, um skipun slíkrar n. og gera þar með mögulegt, að það væri búið að rannsaka þetta, áður en til næstu vertíðar kemur.

Mér er ósköp vel kunnugt um þá útreikninga, sem farið hafa fram venjulega í desembermánuði hvers árs, um reikningana, sem hraðfrystihúsin og bátaeigendurnir hafa sent, um nefndirnar, sem ríkisstj. hafa sett til þess að endurskoða þessa reikninga, um deilurnar, sem hafa staðið um, hvað í reikningunum stæði. En finnst mönnum það ekki anzi hart að þurfa að standa í svona reikningsuppköstum ár eftir ár og áratug eftir áratug og geta aldrei komið sér saman um að reyna að skapa þarna þannig grundvöll, að allir væru sammála um: Þetta hér eru óhagganlegar tölur. Og svo er bara að rífast um, hvort það eigi að vera svona góð afkoma eða svona léleg eða jafnvel hvort það eigi að vera taprekstur á því.

Þetta eru mínar brtt. Ég vil um leið taka það fram, að ég vil gjarnan gefa hv. þdm. og hæstv. ríkisstj. tækifæri til þess að athuga þær betur en þeir kannske gera nú við 2. umr. þessa máls, og ég mun þess vegna taka þessar brtt. aftur til 3. umr., þannig að þær komi til atkvæða við 3. umr., svo að það sé hægt fyrir ríkisstj. og hennar stuðningsmenn að hafa milli umr. fulla athugun á því, hvort henni þætti rétt að samþ. þær.

Ég vil svo um leið og að lokum endurtaka þá aðvörun, sem ég setti fram í upphafi míns máls: Ég vil vara hæstv. ríkisstj. við, þegar hún sér nú, að hennar efnahagsgrundvöllur er að hrynja, að sjá að sér í tíma, að taka tillit til skynsamlegra till. um endurbætur á hennar kerfi og reyna þannig að breyta því smátt og smátt. Verði slíkt ekki gert, þá er greinilegt, að fyrir morknu, fúnu og óréttlátu kerfi liggur ekkert annað en að því sé hrundið og að verkamenn og bændur og útvegsmenn taki höndum saman um að losa Ísland við það verzlunarauðvald, sem á upptökin að því, að farið er út á þá háskabraut, sem nú hefur verið lagt út á í andstöðu við þjóðarhagsmuni Íslands og í andstöðu við svo að segja 99% af þjóðinni. Verzlun Íslands verður að þjóna atvinnulífinu, sjávarútveginum og öðru slíku. Hitt er ekki hægt. Það viðgekkst hér einu sinni á Íslandi, að hagsmunir verzlunarinnar, einokunarverzlunarinnar dönsku, voru látnir sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru og allt atvinnulíf á Íslandi og tilvera Íslendinga var látin þjóna undir það verzlunarauðvald. Þeir tímar eru liðnir, og íslenzk alþýða mun ekki sætta sig við, að þeir tímar komi aftur, jafnvel þótt verzlunarauðvaldið sé meira eða minna íslenzkt og jafnvel þótt það sé að dingla aftan í vestrænum auðhringum.

Ég hef nú gert grein fyrir þessum mínum brtt. og ástæðunum til þess, að ég flyt þær, og mun um leið óska eftir, að atkvgr. um þær verði frestað til 3. umr., svo að ef hæstv. ríkisstjórn og hennar stuðningsmenn vilja einhverjum sönsum taka, þá hafi þeir tækifæri til þess að læra, m.a. af því, hvernig hefur farið fyrir vinum þeirra, Syngman Rhee og Menderez.