28.05.1960
Neðri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

164. mál, efnahagsmál

Frsm. 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram sérstakt nál. um þetta frv. á þskj. 557 og einnig brtt. á þskj. 545.

Þetta stjórnarfrv. er um breyt. á lögunum um efnahagsmál, sem út voru gefin af forsetanum 20. febr. í vetur. Það er sagt í athugasemdum við lagafrv., að það sé flutt til þess að greiða fyrir samningum, greiða fyrir því, að samningar um fiskverð takist milli útvegsmanna og þeirra, sem fiskinn kaupa. Áður var hæstv. ríkisstj. við mörg tækifæri búin að lýsa því yfir, að hún mundi ekki hafa nein afskipti af samningum milli stéttarfélaga né heldur milli framleiðenda og þeirra, sem kaupa af þeim framleiðsluvöru til vinnslu. Þetta er því alveg í ósamræmi við það, sem stjórnin hefur áður sagt um þá hluti.

Efni frv. er það að lækka útflutningsskattinn, sem ákveðinn er í 8. gr. laganna, um helming, úr 5 niður í 21/2%. Samkvæmt lagafyrirmælunum átti að verja þessum útflutningsskatti til greiðslu á halla útflutningssjóðs. Það hefur gengið mjög illa að fá upplýsingar um það, hvernig hagur útflutningssjóðs raunverulega væri. Það, sem um það mál hefur komið frá stjórnarvöldunum, hefur verið ákaflega ósamhljóða. Það má segja, að það hafi verið eitt í dag og annað á morgun og ekki unnt að fá um þetta nokkra áreiðanlega vitneskju.

Í athugasemdum, er fylgdu efnahagsmálafrv. í febr. í vetur, sagði ríkisstj., að áætla mætti, að ógreiddar kröfur á útflutningssjóð næmu um 270 millj. kr. Þetta sagði ríkisstj. að væri fyrirhugað að borga þannig að taka til greiðslu á því gengishagnað, sem yrði í sambandi við útflutning á vörum, sem hér voru til í landinu 16. febr. í vetur, og áætlaði stjórnin, að þessi gengishagnaður mundi nema um 150 millj. kr. Afganginn af kröfunum á útflutningssjóð, 120 millj., átti samkvæmt fyrirætlunum ríkisstj. að greiða með þessum útflutningsskatti, og það var talið, að skatturinn mundi nema þessari upphæð, 120 millj. kr., á einu ári. Þegar fjhn. fór að fjalla um þetta frv., sem hér liggur fyrir, óskaði hún eftir því að fá vitneskju um, hvernig hagur útflutningssjóðsins væri.

Gera mátti ráð fyrir því, að það lægi ljósar fyrir nú en fyrir 3 mánuðum. Þá var okkur sagt, að kröfurnar á sjóðinn væru nú áætlaðar 293 millj., þ.e.a.s. skuld hans, í staðinn fyrir 270 millj. í vetur, en okkur var einnig skýrt frá því, að nú mætti gera ráð fyrir, að gengishagnaðurinn af útflutningsvörubirgðunum, sem til voru 16. febr., mundi verða 227.5 millj., en ekki 150 millj., eins og sagt var í vetur. Skakkinn er þarna hvorki meira né minna en 77.5 millj. eða nokkuð yfir 50%, og nú er talið, að dæmið líti þannig út, að til þess að greiða að fullu halla útflutningssjóðs eða kröfurnar á hann, þá muni þurfa miklu minna af útflutningsskattinum eða 541/2 millj. minna en áætlað var í vetur.

Þegar hæstv. ríkisstj. lagði fyrir þingið í vetur frv. sitt um efnahagsmál, sagði hún, að gengisbreyt., sem þar var gerð till. um, þar sem lagt var til, að gengi ísl. kr., miðað við erlendan gjaldeyri, skyldi vera 38 kr. hver bandarískur dollar, væri við það miðuð, „að stærsta grein útflutningsframleiðslunnar, þorskveiðar bátanna, beri það sama úr býtum og þær gera með þeim útflutningsbótum, er nú gilda, að öllum sérbótum meðtöldum“. Ríkisstj. hélt því þá fram, að útflutningsatvinnuvegunum öllum væri kleift að greiða 5% útflutningsskatt um eins til tveggja ára skeið, svo framarlega sem aflabrögðin verði sæmileg. Þetta sagði hæstv. ríkisstj. þá, að ákvörðun hennar um hið nýja gengi væri á þessu byggð. En útgerðarmenn segja, að þessir útreikningar hæstv. ríkisstj. hafi brugðizt. Þeir telja sig ekki bera eins mikið úr býtum og þeir áður gerðu, telja því, að grundvöllurinn, sem þessi skattlagning var byggð á, sé hruninn. Sérstaklega eru það þó þeir útvegsmenn í ýmsum verstöðvum á Norður-, Austur- og Vesturlandi, sem áður nutu sérbóta á smáfisk og vissar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs, sem nú bera minna úr býtum öðrum fremur en áður var. Þær sérbætur, sem þeir fengu samkvæmt eldri lagafyrirmælum, gerðu það að verkum, að þeir fengu sama verð fyrir afla sinn og greitt var annars staðar og í þeim verstöðvum, þar sem mestur afli berst á land, en nú fá þeir miklu minna og eru þess vegna tiltölulega miklu verr settir en aðrir útgerðarmenn nú eftir gengisbreytinguna heldur en áður var.

Við meðferð þessa frv. í vetur bar ég fram brtt. um það, að heimilt skyldi að greiða þessar sérbætur á smáfisk, tilteknar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs, eins og áður hafði verið. Þetta var fellt þá hér í hv. d. En þar sem það nú liggur fyrir, að af útflutningsskattinum þarf ekki að greiða nema rúmlega helming, miðað við það, sem áður var áætlað, til þess að jafna halla útflutningssjóðsins, þá tel ég rétt að gera tilraun til þess að fá setta í lögin heimild til þess að greiða þessar sérstöku verðuppbætur, sem ég áðan nefndi, í líkingu við það, sem áður var. Um þetta hef ég flutt brtt. á þskj. 545, og er það fyrsta till., sem þar er borin fram.

Þá legg ég til, að 31. gr. laganna falli niður. Þessi grein er um breyt. á lögum frá 1933, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., og samkvæmt þessari lagagrein frá í vetur hefur verið ákveðin gífurlega mikil hækkun á vöxtum, almennum vöxtum hjá lánastofnunum. Þetta veldur allri framleiðslustarfsemi mjög miklum erfiðleikum og torveldar ákaflega margar nauðsynjaframkvæmdir. Ég tel því mjög þýðingarmikið að fá þessum okurvöxtum aflétt, og sá er tilgangurinn með þessari brtt. minni. — Ég sé, að hv. 3. þm. Reykv. (EOl) flytur einnig till. um þetta efni.

En um leið og þessi grein verður felld niður, þarf að setja inn ákvæði um það, að aftur komi í gildi lög nr. 75 frá 1952, um breyt. á lögunum um bann við okri, dráttarvexti o.fl., og geri ég till. um þetta í 2. brtt. minni, við 2. gr. frv.

Þá legg ég enn fremur til, að 32. gr. l. falli niður. Um það er einnig till. frá hv. 3. þm. Reykv. Skv. heimild, sem veitt var í þeirri lagagrein, hefur ríkisstj. hækkað mjög vexti hjá ýmsum stofnlánasjóðum. Gildir sama um það og hina almennu vexti, að þetta veldur miklum erfiðleikum þeim mönnum, sem fást við atvinnurekstur eða hafa með höndum nauðsynlegar framkvæmdir ýmiss konar. Verði þessi till. samþ. um að fella niður 32. gr. l., leiðir það af sjálfu sér, að aftur komi í gildi þeir vextir, sem giltu 19. febr. í vetur, áður en l. um efnahagsmál voru gefin út. Vextirnir mundu þá færast aftur í það horf, sem þá var.

Enn flyt ég brtt. við 33. gr. l. Í þeirri gr. var ákveðið, að ákvæði 2. mgr. 16. gr. l. nr. 63 frá 1957, um Landsbanka Íslands, skuli ná til innlánsdeilda kaupfélaga og Söfnunarsjóðs Íslands á sama hátt og til banka og sparisjóða. Þessi ákvæði í 16. gr. landsbankalaganna eru um það, að Seðlabankanum sé heimilt að mæla svo fyrir, að bankar og sparisjóðir skuli geyma nokkuð af innlánsfé sínu á reikningi í Seðlabankanum, og nú hefur verið ákveðið skv. þessari lagagr. að krefjast þess, að sparisjóðir og innlánsdeildir kaupfélaga skili til Seðlabankans helmingnum af þeirri sparifjáraukningu, sem verða kann hjá þeim. Það hefur rignt yfir Alþ. mótmælum gegn þessu rangláta lagaákvæði víðs vegar að, síðan það kom til umr. að setja þau fyrirmæli í lög, og þessi ákvæði eru þannig, að þau eru óþolandi. Það, sem nú hefði þurft að gera, var einmitt að veita meira fé til héraðanna úti um land, bæði til atvinnurekstrar þar og til nauðsynlegrar uppbyggingar. En hér er farið öfugt að. Þess er krafizt að íbúar héraðanna afhendi nokkuð af sínu sparifé hingað í Seðlabankann í Reykjavík, þótt þeir hafi þess brýna þörf bæði í sambandi við atvinnurekstur og nauðsynlega uppbyggingu heima í héraði.

Ég tel mjög aðkallandi að fá þetta rangláta ákvæði numið úr lögum, svo að komið verði í veg fyrir, að það valdi meira tjóni en þegar er orðið. Með þessu er beinlínis stefnt að því að stofna til flótta úr sveitum og sjávarþorpum víða um land, þar sem nauðsynlegar framkvæmdir og atvinnurekstur á þeim stöðum er torveldaður svo mjög með þessum fyrirmælum.

En ég tel það ekki nóg að leggja til, að 33. gr. l. falli niður, eins og hv. 3. þm. Reykv. gerir till. um. Með því að fella gr. niður mundi því aðeins verða afstýrt, að féð væri tekið úr innlánsdeildum kaupfélaganna inn í Seðlabankann. En ég tel nauðsynlegt, að reynt sé að girða fyrir það jafnframt, að fé sparisjóðanna sé tekið með sama hætti. Það tel ég einnig mjög þýðingarmikið. Þess vegna legg ég til í minni brtt., að felld sé burt úr 16. gr. landsbankal. heimild hans til að krefjast þess, að sparisjóðirnir geymi nokkuð af sínu innlánsfé í Seðlabankanum. Með því að samþ. þessa breyt. á gr. væri hægt að bjarga hvoru tveggja, sparisjóðunum og innlánsdeildunum.

Ég geri mér nú satt að segja dálitlar vonir um, að þessi till. mín verði samþ., því að ég sá í Morgunblaðinu í morgun smápistil, sem gæti bent til þess, að hæstv. ríkisstj. væri að breyta um stefnu í þessu. Þar er sagt, að víst sé það rétt, að það sé þjóðhættulegt, að ríkisvaldið hafi fullkomna stjórn yfir öllu peningavaldi. Og þar segir enn fremur, að stofnun nýrra og frjálsra banka sé ekki nema einn liðurinn í stefnu núverandi ríkisstj. að færa fjármagnið og hið peningalega vald í vaxandi mæli frá ríkinu og yfir til borgaranna. Ég tel það gott, ef það er svo, að ríkisstj. vilji nú stiga skref í þá átt að færa fjármagnið og hið peningalega vald frá ríkinu og yfir til borgaranna. En það, sem gert hefur verið viðkomandi sparisjóðunum og innlánsdeilduum, er einmitt það að taka féð af borgurunum og færa það inn í ríkisstofnun.

Till. mín er sú, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég geri till. um á þskj. 545, en áskil mér jafnframt rétt til þess að fylgja öðrum till., er fram kunna að koma, eða flytja á síðara stigi málsins fleiri brtt.