30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

164. mál, efnahagsmál

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja hér almennar umr. um þetta mál, aðeins segja nokkur orð um brtt., sem er á þskj. 540, en efni hennar er að fella niður úr efnahagsmálalögunum hina ranglátu og illræmdu 23. gr.

Í grg, fyrir efnahagslögunum sögðu sérfræðingar ríkisstj., að áætlað væri, að sem afleiðing af öllum þeim ráðstöfunum, sem til stæði að gera í þessum efnum, ætti vísitalan að hækka um 13 stig, hins vegar ætti kjaraskerðingin ekki að nema nema 3 stigum, vegna þess að með fjölskyldubótum og niðurgreiðslum á kaffi, sykri og slíkum vörum ætti vísitalan að lækka um 10 stig, þannig að eftir stæðu 3 stig, sem yrði hin raunverulega kjaraskerðing, svo að maður haldi sér aðeins við þetta eitt, sem að vísu er engan veginn rétt og er mjög ranglátt, vegna þess að fjölskyldubótanna verða ekki nærri allir aðnjótandi og kjaraskerðingin leggst þess vegna með öllum þunga á marga launþega. Vísitalan er nú talin vera 105 stig, raunverulega er hún 108 stig, en inn í hana hafa verið tekin 3 stig vegna fjölskyldubótanna og hefur þannig verið lækkuð niður í 105. Þetta var hún talin vera 1. maí, verðlagið 1. maí. Síðan hafa orðið verðhækkanir, sem öllum eru ljósar. Mjólkin hefur hækkað, heita vatnið í Reykjavík hefur hækkað, strætisvagnar hækkað, og aðeins þessar hækkanir munu valda því, að vísitalan mun nú vera komin í um það bil 110 stig, þ.e.a.s. það eru aðeins 3 stig eftir af þeirri hækkun vísitölunnar, sem sérfræðingarnir gerðu ráð fyrir í vetur. Dettur nú nokkrum manni í hug, að þessir útreikningar geti staðizt, að þær verðhækkanir, sem eftir eru að koma fram, séu ekki meiri en það, að nemi 3 stigum í vísitölunni? Náttúrlega dettur engum manni það í hug. Þess vegna er alveg sjáanlegt, að á þessu sviði sem öðrum eru þeir útreikningar og þær sérfræðilegu athuganir, sem áttu að vera grundvöllurinn og undirstöðurnar undir þessum lögum, — það er sýnt, að þær eru rangar og standast ekki. Þess vegna blasir það við núna, að verðhækkanirnar verða meiri en sérfræðingarnir gera ráð fyrir, og þar af leiðandi verður sú kjaraskerðing, sem fólk á að taka á sig, meiri en þeir gerðu ráð fyrir. Ég ætla ekki að fullyrða hér neitt um það, hve mikið vísitalan muni hækka sem bein afleiðing af þessum ráðstöfunum, en mér þætti ekki ólíklegt og tel, að það séu mjög sterkar líkur fyrir því, að hún verði ekki, a.m.k. ekki á haustmánuðum, undir 116–118 stig, en það þýðir á milli 30 og 40 stig í gömlu vísitölunni, og að launþegarnir eigi að þola slíkt bótalaust, það hefði a.m.k. sumum þótt ærið mikið á tímum vinstri stjórnarinnar.

Þessar verðhækkanir eiga sem sagt að skella yfir, án þess að kaupbreytingar verði. Það dettur náttúrlega engum heilvita manni í hug, að slíkt sé framkvæmanlegt, að kaupbreytingar hljóti ekki að fylgja í kjölfar slíkra verðhækkana, þegar vísitalan er bundin og óheimilt er að greiða kaup samkvæmt verðlagsvísitölu.

Strax í vetur, þegar þessi lög voru í undirbúningi hér á Alþingi, mótmæltu fjölmörg verkalýðsfélög og einnig miðstjórn Alþýðusambandsins þeim ákvæðum laganna að nema úr gildi vísitölu á kaup. Nú um helgina hefur verið hér í Reykjavík á rökstólum ráðstefna fulltrúa frá yfir 100 verkalýðsfélögum innan Alþýðusambandsins. Þessi ráðstefna var boðuð til þess að fjalla um kjaramálin, og að sjálfsögðu hefur hún gert það í ljósi þeirra staðreynda, sem nú blasa við öllum, þ.e.a.s. þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. hefur gert. Á þessari ráðstefnu sátu menn af öllu landinu og menn af öllum pólitískum skoðunum, en þrátt fyrir það, þó að svo væri, átti ríkisstj. og stefna hennar ákaflega fáa formælendur á þessari ráðstefnu, og hafi þeir verið þar til staðar og kannske í hjarta sínu verið eitthvað hlynntir því, sem ríkisstj. hefur verið að gera, þá a.m.k. földu þeir það mjög vel. Þessi ráðstefna lét frá sér fara ályktun. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, aðeins að grípa niður á nokkrum stöðum í henni. Í upphafi ályktunarinnar segir svo:

„Frá því að verkalýðsfélögin hækkuðu almennt kauptaxta sína á árinu 1958, hafa kaupgjaldsákvæðin í samningum þeirra tvívegis verið skert með lagaboði og nú síðast með því að afnema með öllu rétt launþega til að fá kauphækkanir eftir vísitölu í vaxandi dýrtíð. Ráðstefnan telur, að með þessum ráðstöfunum hafi samningsbundinn réttur verkalýðsfélaganna verið freklega skertur, og mótmælir því harðlega.“

Þetta undirrita menn af öllum flokkum og öllum skoðunum, sem innan verkalýðshreyfingarinnar eru. Það er fordæmd sú leið, sem farin var í vetur með því að afnema vísitöluna. Í ályktuninni segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðstefnan álítur, að kjaramálum verkafólks sé nú svo komið, að óhjákvæmilegt sé fyrir verkalýðsfélögin að láta til skarar skríða og hækka kaupgjald og hrinda þannig þeirri kjaraskerðingu, sem orðið hefur.“

Og niðurlag ályktunarinnar er þannig: „Ráðstefnan telur því nauðsynlegt, að hvert verkalýðsfélag hefji nú undirbúning að þeirri baráttu, sem óhjákvæmilega er fram undan, og felur miðstjórn Alþýðusambandsins að samræma kröfur félaganna og baráttu þeirra og hafa um það samráð við verkalýðsfélögin eftir þeim leiðum, sem hún telur heppilegastar“.

Þetta var einróma álit þeirrar ráðstefnu verkalýðsfélaganna, sem nú hefur lokið störfum sínum hér í bænum.

Það er ekkert að efast um það, það er alveg sama, hvaða stjórnmálaflokkum menn tilheyra, allir eru sammála um, að það ástand, sem nú hefur skapazt í kjaramálum, getur ekki orðið langvarandi. Það þarf þess vegna ekkert að efast um það, að verkalýðshreyfingin mun ekki þola kjaraskerðinguna. Ég er ekki að segja þetta sem neinar hótanir, þetta eru staðreyndir, og þetta eru viðvaranir. Hæstv. ríkisstj. væri þess vegna nú sæmst að horfast í augu við staðreyndirnar og firra þjóðina þeim vandræðum, sem af stefnu hennar leiðir, og spor í þá átt væri að samþykkja þá brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 540.