30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

164. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er ekki þörf fyrir mig að halda hér langa ræðu. Ég skýrði nokkuð við 2. umr. þessa máls í gær frá viðhorfi mínu og Alþb., og nú hefur það gerzt síðan, eins og hv. 2. landsk. þm. (EðS) var að skýra frá nú, að það viðhorf, sem við höfum fram að þessu reynt að túlka hér á Alþ. og vara ríkisstj. við að halda áfram á þeirri braut, sem hún hefur verið á, heldur hverfa af henni„ — það viðhorf sýnir sig að vera ekki aðeins viðhorf okkar, heldur viðhorf verkalýðsstéttarinnar í heild. Og ég vil aðeins hér lýsa sérstakri ánægju minni yfir þeirri ályktun, sem hv. þm. las nú upp sem einróma ályktun allra fulltrúanna á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands.

Í gær hafði ég tekið til baka bæði þá till. á þskj. 540, sem hv. 2. þm. landsk. gerði nú grein fyrir og kemur nú til atkvæða, og enn fremur þær brtt., sem ég flyt á þskj. 541. Síðan hefur það gerzt við 2. umr. málsins, að bornar hafa verið upp og felldar brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hljóða að miklu leyti eins, eða tvær þeirra alveg eins og mínar brtt. á þskj. 541, í 1. liðnum, sem sé að 31, og 32. gr. falli burt, þannig að skv. þingsköpum er ekki hægt að bera þær upp. Ég tek þess vegna til baka þessar 3 brtt., sem fólust í 1. liðnum á þskj. 541, þannig að þær koma þá ekki til atkvæða, nema þær verði bornar fram í öðru formi. Hins vegar stendur áfram brtt. mín nr. 2 á þskj. 541, um viðbót við bráðabirgðaákvæði laganna, og nú vil ég enn ítreka, að við þessu sé orðið.

Ég fæ satt að segja ekki skilið blindni þeirrar ríkisstj., sem sansast ekki, hvaða viðvaranir sem hún fær. Landssamband íslenzkra útvegsmanna er búið að lýsa því yfir, að núv. efnahagsgrundvöllur sé ófær. Verkalýðsstéttin í landinu er búin að lýsa því yfir, að hún uni ekki þeim launaskerðingum, sem gerðar hafa verið. Engum mun detta í hug, að sjómennirnir muni una lélegri launakjörum en allir aðrir, enda kom það greinilega fram á þeirri sjómannaráðstefnu, sem haldin var í gær. Þessi brtt. mín, nr. 2 á þskj. 541, fer aðeins fram á, að sett sé nefnd af þinginu til þess að rannsaka það til haustsins, hvernig á því standi, að íslenzkir sjómenn, sem afkasta 10 sinnum meira en norskir sjómenn, skuli fá tvisvar til fimm sinnum minna, eða réttara sagt, að norskir sjómenn skuli fá tvisvar til fimm sinnum meira en þeir. Hvers konar blindni má það vera, ef það er ekki hægt að fá stjórnarmeirihlutann hér á Alþingi til þess að samþ., að þetta skuli rannsakað, þannig að þegar til næstu átaka kæmi, þá hefðu menn þó a.m.k. tölugrundvöll til þess að standa á, hvað þetta snertir.

Ég vil þess vegna eindregið skora á hv. þdm. að samþykkja þessa brtt. mína á þskj. 541, um leið og ég vil taka undir um það og herða á því, sem ég sagði hér í gær, eftir þær viðvaranir og ákvarðanir, sem nú hafa borizt frá ráðstefnu Alþýðusambands Íslands, að brtt. á þskj. 540, um afnám 23. gr., sé samþykkt.