01.06.1960
Efri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

164. mál, efnahagsmál

Björn Jónsson:

Herra forseti. Mér hefur ekki enn unnizt tími til að skila nál. mínu um þetta frv., en vildi samt segja um það nokkur orð núna og hef reyndar látið það í ljós við forseta, að ég mundi ekki gera neinar kröfur í sambandi við það, að málinu yrði frestað, þó að stuttur tími hafi verið til þess að skila um það áliti, og ég mun ekki heldur lengja mjög þennan fund nú á síðustu dögum þingsins, þegar ærið er að starfa. En mér finnst samt, að þetta frv. sé þess eðlis, að ekki sé hægt annað en að segja um það nokkur orð, áður en það verður að lögum, sem væntanlega verður innan skamms.

Ég vil þá fyrst minna á það, að eitt meginloforða núv. ríkisstj. við valdatöku hennar var það, að hún ætlaði að koma atvinnuvegunum á það sem hún kallaði „traustan og heilbrigðan grundvöll“. Í upphafsorðum áróðursbæklingsins, sem ríkisstj. lét bera inn á hvert heimili í landinu á öndverðu þessu ári, er vikið að því, að höfuðeinkenni allra þeirra ráðstafana, sem gripið hafi verið til árlega að undanförnu, hafi verið það, að þær hafi allar verið til bráðabirgða, og hafi vegna þeirrar óvissu, sem slíkt skapaði, dregið mjög úr afköstum þjóðarbúsins. Nú sé því höfuðatriðið að skapa traustan, varanlegan og heilbrigðan grundvöll undir atvinnuvegina og tryggja þannig bæði atvinnuöryggi og aukna þjóðarframleiðslu og batnandi lífskjör. Þó að enn sé ekki liðinn nema ársfjórðungur, frá því að hin nýju efnahagslög voru sett, má þó af ýmsu sjá glögg merki um, hvert hald hefur reynzt í þessum fyrirheitum ríkisstjórnarinnar, og varanleik ráðstafananna má m.a. marka af flutningi þessa frv. Ríkisstj. hefur sem sé ekki tekizt að ljúka svo fyrsta þinginu í valdatíð hennar, að ekki yrði óhjákvæmilegt að breyta rekstrargrundvelli sjávarútvegsins þannig að hann fengi 2.5% verðhækkun á afurðum frá því, sem löggjöfin ákvað. Það skiptir auðvitað engu í því sambandi, þó að þessi hækkun sé fengin með lækkun áður lögbundinna gjalda. En eins og menn minnast sjálfsagt allir enn þá, var gengisfellingin algerlega miðuð við afkomu báts á þorskveiðum, eftir því sem ríkisstj. sagði, og allir útreikningarnir miðaðir við það. En þessi staðreynd, að ríkisstj. telur nauðsynlegt að hækka þannig nú þegar, innan 3 mánaða frá því að löggjöfin var sett, verðið til útvegsins, er enn þá athyglisverðari staðreynd, þar sem kunnugt er, að mjög verulegar verðhækkanir hafa orðið á flestum tegundum útfluttra sjávarafurða frá því, að efnahagslöggjöfin var sett.

Nú er að vísu verið að halda því fram og kom m.a. fram í útvarpsumræðunum í gærkvöld, að ástæðurnar fyrir því, að hið þungbærasta í efnahagsaðgerðunum yrði sennilega að standa enn þá lengri tíma, séu þær, að verðfall hafi orðið, frá því að löggjöfin var sett, og þetta frv. hefur líka verið rökstutt með þeirri fullyrðingu. En það rétta er, að frá því að efnahagslöggjöfin var sett, hafa orðið verðhækkanir á skreið, á saltfiski, á fiskimjöll og ef til vill fleiri tegundum sjávarafurða. Nú er látið í það skina, að við gengisfellinguna hafi ekki verið gert neitt fyrir því, sem síldarmjöl og annað fiskimjöl hefur lækkað í verði frá s.l. árí. En í grg. með efnahagsmálafrv. er það hins vegar mjög greinilega tekið fram, að þegar gengið hafi verið ákveðið, hafi líka verið gert ráð fyrir því verðfalli, sem orðið var á fiskimjöli. En síðan um áramót hefur sem sagt það gerzt, að í þeim sölum, sem síðar hafa orðið á fiskimjöli, hefur verðlagið hækkað.

Ef allt hefði því verið með felldu um hátíðleg loforð til handa útveginum um jafngóðan rekstrargrundvöll og gilti s.l. ár, en það var einnig sagt, að svo ætti að vera, og hæstv. sjútvmrh. lýsti þessu mjög hátíðlega yfir fyrir áramótin, þegar hann mætti á landsfundi útvegsmanna, — ef allt hefði verið með felldu um þetta, þá er alveg víst, að nú væri engin ástæða til þess að ívilna þessari atvinnugrein um 60 millj. kr. á ári, eins og nú er gert með þessu frv.

Varanleik efnahagsaðgerðanna fyrir útveginn má svo enn marka af því, að útvegsmenn hafa þegar lýst því yfir, að þeir muni ekki hefja vertíð að nýju, án þess að haldbetri tryggingar fáist um fiskverð og rekstrargrundvöll yfirleitt heldur en loforð sjútvmrh. og ríkisstj. reyndust um s.l. áramót. Og enn hygg ég, að megi kenna varanleikinn í því, að aðgerðir ríkisstj. hafa leitt til þess, að allir samningar, bæði sjómanna og verkafólks, sem við útveginn vinnur, um kaup og kjör eru nú opnir í flestum greinum og raunverulega engir samningar til í landinu. sem ákveða útveginum útgjöld í því sambandi, og enn þá algerlega ófyrirséð, hve miklu þær hækkanir kunna að nema, sem sjómenn og annað verkafólk telur sér nauðsynlegt að knýja fram til mótvægis þeirri miklu kjaraskerðingu, sem það hefur orðið fyrir.

Með efnahagslöggjöfinni var það grundvallarverð, sem útflutningnum var skapað í heild, afhent útflutningshringunum, sem síðan, ásamt stærstu fiskvinnslustöðvunum, sitja yfir hlut útvegsmanna og yfir hlut sjómanna og verkafólks, eins og glöggt má sjá af hinum athyglisverða samanburði á fiskverði til sjómanna og útvegsmanna hér og aftur í Noregi, þar sem það kemur í ljós, að norskir sjómenn og útvegsmenn fá allt að því fimm sinnum hærra verð fyrir fiskinn en íslenzku fiskimennirnir. En gjaldeyrisandvirðið er síðan afhent verzlunarvaldinu, með ótakmörkuðu umboði til ráðstöfunar og væntanlega gróða.

Traustleika og heilbrigði hins nýja atvinnugrundvallar má svo marka af vaxandi og hættulegum markaðserfiðleikum, sem blasa við, ef áfram verður fylgt þeirri stefnu, jafnvel stundinni lengur; í verzlunarmálum, sem er ein helzta undirstaðan í efnahagsaðgerðunum og þeim almenna samdrætti, sem nú þegar er orðinn áberandi í atvinnuuppbyggingunni og í ýmsum atvinnugreinum, en á þó áreiðanlega eftir að koma miklu skýrar fram, eftir því sem tímar líða, ef ekki verður spyrnt við fótum í tíma.

Í þessu sambandi er það t.d. kunnugt þeim, sem fást við bæði innflutning og við markaðsleit, að það væri unnt fyrir okkur t.d. að selja ýmsar sjávarafurðir í miklu ríkari mæli en áður til Tékkóslóvakíu, en þar hafa nú að undanförnu hlaðizt upp innstæður vegna þess, hvað verzlunarinnflutningur þaðan hefur dregizt saman, og þeir eru ekki til viðtals við okkur um nein frekari viðskipti. En á sama tíma eru Tékkar nú í fyrsta skipti að gera verzlunarsamninga við Noreg og kaupa nú af þeim verulegt magn af fiskflökum. Þetta er bara eitt dæmi um það, hvernig markaðsmálum okkar er stefnt í voða með hinu svokallaða verzlunarfrelsi.

Þetta frv. er auðvitað ekki nein lausn á þeim vanda sjávarútvegsins, sem efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafa sett hann í. Það þarf vissulega og áreiðanlega öðrum og meiri aðgerðum að beita og þó fyrst og fremst þeim að tryggja útveginum markaði með gerbreyttri stefnu í verzlunarmálum og með því að létta á honum þeim okurvöxtum og lánahömlum, sem á honum hvíla.

En ríkisstj. hefur sannað með afstöðu sinni til þeirra brtt., sem þm. Alþb. í hv. Nd. fluttu við þetta frv., að hún er enn ákveðin í því að halda fast við öll heimskulegustu og hættulegustu ákvæði efnahagslöggjafar sinnar, enda þótt reynslan hafi þegar sannað, að kerfi hennar fær ekki staðizt í reynd, eins og m.a. má marka af þessu frv. og einnig af því undanhaldi, sem hún hefur verið á varðandi lánamálin. Það er t.d. kunnugt, að í sambandi við uppgjör bátaflotans fyrir síðustu vertíð í Vestmannaeyjum varð það hlutskipti núv. efnahagsmálaráðunautar ríkisstj., Jónasar Haralz, í bankaráði Útvegsbankans að þverbrjóta þær lánareglur, sem ákveðnar höfðu verið, en meginástæðan til þess var sú, að nokkrir og kannske aðallega einn af sérstökum gæðingum ríkisstj. átti þar sérstakra hagsmuna að gæta.

Vegna afstöðu stjórnarflokkanna til brtt. þm. Alþb. í Nd. við þetta frv. tel ég sýnt, að frekari tilraunir en þegar hafa verið gerðar til þess að leiðrétta verstu ákvæði efnahagslöggjafarinnar verður að telja vonlausar nú. Á hinn bóginn má það teljast athyglisvert tímanna tákn, að það skuli verða eitt af síðustu verkum stjórnarflokkanna á þessu þingi að samþykkja þetta frv. og viðurkenna þar með falska undirstöðuútreikninga aðgerða sinna, taka upp útflutningsbætur eða jafngildi þeirra og hefja bein afskipti ríkisvaldsins af kjarasamningum útvegsmanna við fiskvinnslustöðvarnar. En það er kunnara en frá þurfi að greina, að ástæðan til þessa frv. var sú ein, að samningar gátu ekki gengið saman milli útvegsmanna og vinnslustöðvanna, nema þessi breyting, sem hér er fyrirhuguð, yrði gerð.