01.04.1960
Neðri deild: 60. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

112. mál, útsvör

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði búizt við því, að hæstv. fjmrh, mundi svara einhverju af þeim spurningum, sem fram höfðu verið bornar í sambandi við þetta frv., og gat verið, að ég hefði komizt hjá því að taka til máls hér við þessa umr., ef þeim hefði verið svarað. En þar sem það hefur ekki orðið, vil ég fara um málið nokkrum orðum.

Þetta er yfirgripsmikið mál, sem hér er á ferð, og gerir ráð fyrir mjög miklum breytingum á útsvarsmálunum. Frv. var útbýtt hér á kvöldfundi í gær, og þess vegna hefur enn ekki gefizt nema mjög lítill tími til athugunar á því. Ljóst er það þó við lestur frv., að eitt af stærstu atriðum þess er það, að lagt er til, að lögfest verði svonefnd veltuútsvör. Allmörg sveitarfélög, einkum þó kaupstaðir og kauptúnahreppar, hafa notað þessi veltuútsvör að undanförnu, en gengið mjög misjafnlega langt á þeirri braut. Um þetta hafa ekki verið nein bein lagaákvæði. Í útsvarslögum er talað um, að leggja megi á gjaldendur eftir efnum og ástæðum, og hefur verið lítið svo á, að þessi lagastafur veitti heimild til þess að leggja á veltuútsvörin. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, eins og ég sagði áður, að lögfesta þessa tegund útsvara.

Í 5. gr., sem fjallar um útsvarsálagningu í Reykjavík, segir, að upphæð útsvarsins af veltu megi nema allt að 3%, en þó hvergi hærri hundraðshluti. miðað við tegund verzlunar eða þjónustu, en hann var árið 1959, og í grg. með frv. er skýrt frá því, hvaða reglum niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkurbæjar hafi fylgt um álagningu veltuútsvara árið sem leið.

Í 6. gr. eru síðan ákvæði um útsvör í öðrum kaupstöðum, og þar má veltuútsvar vera allt að 3% fyrir vissar starfsgreinar og allt að 2% af öðrum fyrirtækjum, og þar eru engin ákvæði um það, að heimildin takmarkist við það, sem áður hefur viðgengizt í þessum efnum í þeim kaupstöðum.

Í þriðja lagi eru svo ákvæði í 7. gr. um önnur sveitarfélög, og þar er gert ráð fyrir, að veltuútsvörin megi vera jafnhá hlutfallslega og í kaupstöðum utan Reykjavíkur.

Það er ekki auðvelt á mjög skammri stundu að gera sér grein fyrir því, hvernig þessi nýju ákvæði munu verka í framkvæmdinni. En þó er nauðsynlegt að reyna að gera sér þess grein til þess að geta metið þetta frv., sem hér er á ferð, og komizt að raun um, hvað það raunverulega felur í sér. Ég hef þó fyrr í dag reynt að gera mér nokkra grein fyrir þessu og athugað, hvernig þessi ákvæði, ef að lögum verða, mundu koma við í einu héraði, í mínu kjördæmi, þar sem ég er kunnugur. Þar er kauptún, sem er hreppur út af fyrir sig, og þar er allmikil verzlun eða viðskipti við nálægar sveitir, allmargir sveitahreppar, sem hafa þar öll sín viðskipti. Í þessu kauptúni er samvinnufélag, sem hefur meginhluta viðskiptanna í sínum höndum. Samvinnufélagið hefur byggt þar sláturhús og frystihús fyrir kjöt. Það hefur nýlega reist þar mjólkurbú. Það hefur lengi útvegað flestum héraðsbúum eða þeim, sem á verzlunarsvæðinu búa, meginhlutann af þeim vörum, sem þeir þurfa að kaupa til heimila sinna og til atvinnurekstrar. Þarna eru kaupmannaverzlanir einnig, en þær hafa aðeins tiltölulega lítinn hluta af viðskiptunum. Nú hef ég verið að reyna að gera mér grein fyrir því, hvernig útsvarsálagning mundi verða í þessu kauptúni á þessu ári, ef þetta frv. verður að lögum og þær heimildir notaðar, sem í því felast.

Eins og öllum er kunnugt, hefur það verið þannig með útsvör kaupfélaga, að þau hafa greitt útsvör af viðskiptum við utanfélagsmenn eftir sömu reglum og aðrar verzlanir. Hins vegar hafa gilt sérákvæði um greiðslur til sveitarfélaga af viðskiptum kaupfélaganna við félagsmenn. Þeir hafa borgað gjald af húseignum, sem notuð eru við reksturinn, sem önnur fyrirtæki greiða ekki. Þetta hefur lengi verið í gildi. Nú skilst mér, að ef sveitarstjórnin í þessu kauptúni notar heimildir þessa frv., ef það verður samþykkt, þá muni hún geta lagt á veltuútsvör til viðbótar þeim, sem hún hefur lagt á, t.d. s.l. ár, sem nema nokkru meira en hálfri millj. kr., sennilega 550–600 þús. kr. mundi þessi viðbót nema við veltuútsvörin, ef heimildin er notuð að fullu. Ég byggi þennan útreikning á því, að heimilt sé að leggja á öll viðskiptin eða alla veltuna, jafnt á aðkeyptar vörur og innlendar vörur, sem þarna eru teknar til sölumeðferðar og seldar. (Gripið fram í.) Ég kem að því, hæstv. ráðh. S.l. ár var heildarupphæð álagðra útsvara í þessum hreppi 467780 kr. Þar í var samvinnuskattur frá kaupfélaginu eitthvað milli 10 og 20 þús. og svo veltuútsvar, sem það greiddi, og veltuútsvör á öðrum verzlunum. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, að það megi leggja á alla veltuna, bæði aðkeyptar vörur og innlendar framleiðsluvörur, þá skilst mér, að sveitarstjórnin þarna geti lagt á á þessu ári eina millj. kr. a.m.k., hún hafi heimild til þess. En að vísu má hún ekki samkv. ákvæðum frv. innheimta þetta allt, enda hefur hún enga þörf fyrir það, því að í ákvæði til bráðabirgða er talað um, að það skuli vera takmörk fyrir því, hvað útsvörin megi vera mikil samanborið við það, sem áður var. En þetta mundi sveitarstjórnin geta lagt á, og síðan ætti hún að lækka útsvörin hlutfallslega, skilst mér, hjá öllum gjaldendum, þar til þau væru komin niður í þá upphæð, sem sveitarstjórnin má taka í útsvör. Nú er á það að líta, að samkv. frv. um jöfnunarsjóð, sem hér liggur einnig fyrir þessari hv. d., reikna ég með, að þetta hreppsfélag fái úr jöfnunarsjóði af söluskattinum 100 þús. kr. a.m.k., líklega rúmlega 100 þús. kr. Sé nú sú upphæð dregin frá heildarupphæð útsvara árið sem leið, þá er eftir af henni svona 360 þús. kr. Nú má vel vera, að útgjöld aukist eitthvað, og vafalaust gera þau það hjá þessu sveitarfélagi eins og öðrum, m.a. vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálum. En þrátt fyrir það sýnist mér ljóst, að lækkunin á útsvörunum, sem gæti orðið eftir þessum útreikningi ein millj., mundi nema meira en 50%, sennilega 50–60%. Þá yrði niðurstaðan sú, að hinir almennu gjaldendur þar í hreppi slyppu með að greiða í ár 40 eða kannske milli 40 og 50% af þeim útsvarsupphæðum, sem þeir borguðu árið sem leið. En þá munu menn spyrja: Er þetta ekki gott fyrir þá? Hafa þeir ekki verið svo þjakaðir með útsvörum að undanförnu, að það sé gott, að þeir fái þessa lækkun? Um það er það að segja, að ég var að gera athugun á því, að í þessu kauptúni hafa útsvör árið sem leið af tekjum, eftir að þær komu upp í 40 þús., verið heldur lægri en hér í Reykjavík af sömu upphæð og heldur lægri af hærri tekjum. Aftur á móti er það um eignarútsvar að segja þar, að eftir að eignir voru komnar upp í 70 þús., hafa eignarútsvör árið sem leið verið þar nokkru hærri en í Reykjavík, en eignarútsvörin eru tiltölulega lítill hluti af útsvörunum. Ég get enn fremur upplýst það, að í þessu kauptúni munu útsvörin árið sem leið ekki hafa verið hærri tiltölulega en í sumum sveitahreppum í því sama héraði, þeim sveitahreppum, sem hafa sín viðskipti á þessum stað. En nú verður auðvitað niðurstaðan sú, ef þetta verður lögfest og eftir þessu verður farið, að þarna verða teknar stórar upphæðir í sveitarsjóð kauptúnsins af því fólki, sem býr í nágrenninu, af því fólki, sem býr í sveitahreppunum í sama héraði og hefur þarna sín viðskipti.

Ég vil ekki einskorða mig við þetta, þó að ég sé þar kunnugastur. Ég var að reyna að gera mér nokkra grein fyrir því, hvernig útkoman yrði á einum stað hér á Suðurlandi. Ég fékk upplýsingar um það, að í Selfosshreppi hefði heildarupphæð álagðra útsvara 1959 verið tæpar 4 millj. kr., u.þ.b. 3.9 millj. kr. Þarna eru stór fyrirtæki og mikil viðskipti. Þar er eitt af stærstu kaupfélögum landsins staðsett. Mér skilst, að ef heimildin til að leggja veltuútsvör á viðskipti þess væri notuð að fullu, þá gæti útsvar þess hækkað frá því í fyrra um 1700 þús. kr. a.m.k. Á þessum stað er einnig annað stórt samvinnufyrirtæki. Það er Mjólkurbú Flóamanna. Það hefur undanfarið greitt mjög lítið til sveitar, árið sem leið held ég milli 20 og 25 þús., sem er lítið meira en húsaskatturinn, sem hægt er að krefja af því samkv. samvinnulögunum, en þarna mun vera eingöngu um félagsmannaviðskipti að ræða. Þeir, sem leggja þar inn sína mjólk, eru allt félagsmenn í þessu félagi. Ef má skilja frv. þannig, eins og mér sýnist fljótt á litið, að á viðskipti Mjólkurbús Flóamanna, heildarveltu þess, megi leggja 2% veltuútsvör, þá er það 21/2 millj. kr. af 126 millj. kr. sölu. Sé þessu nú bætt við veltuútsvarið, sem við bætist hjá kaupfélaginu, þá eru komnar þarna röskar 4 millj. eða heldur hærri upphæð en öll útsvarsálagningin var í Selfosshreppi árið 1959. Noti hreppsnefndin þar þessa heimild, þá skilst mér, að hún gæti alveg eins og kauptúnið á Norðurlandi, sem ég nefndi, lækkað hin almennu útsvör hjá sér um frílega helming. En hvað er þá að segja um útsvarsbyrðina á Selfossi? Ég fékk þær upplýsingar, að árið sem leið hafi hreppsnefndin þar notað útsvarsstigann frá Reykjavík, en lækkað útsvörin samkv. honum um 10%. Reykjavík mun hafa látið 6.3% lækkun, eftir því sem stendur í grg. með frv., þannig að útsvörin hafa verið heldur lægri á Selfossi en í Reykjavík, miðað við tekjur. Einnig er þess að geta, að hreppsnefndin á Selfossi veitti 10% aukaafslátt á útsvörum þeim, sem greiddu þau fyrir ákveðinn tíma.

Nú kunna menn kannske að segja sem svo: Eru nokkrar líkur til, að slíkar heimildir verði notaðar, þó að þetta sé í lög tekið, þegar það liggur fyrir, að það er ekki brýn þörf að nota þær? En mér sýnist, að það verði mikil freisting fyrir sveitarstjórnir, sem fá slíka heimild upp í hendurnar, að nota hana til þess að geta létt útsvör af öllum þorra manna hjá sér, og það væri þess vegna hægt að gera ráð fyrir því, að heimildirnar yrðu notaðar. Það yrði sennilega illa séð af ýmsum í sveitarfélaginu, ef hreppsnefndir létu það hjá líða að nota heimildir til þess að lækka verulega útsvörin á almenningi í þessum sveitarfélögum. Fleira er á að líta í þessu sambandi. Hvernig fer með þau gjöld, sem tekin verða af þessum almenningsfyrirtækjum, þessum félögum, eins og t.d. Mjólkurbúi Flóamanna, sem er félagsskapur bænda, ekki aðeins í Árnessýslu, þar sem búið er staðsett, heldur einnig í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu? Ekki getur mjólkurbúið tekið þessi feikilegu útgjöld á sig án þess að fá þetta einhvers staðar greitt. Verður þetta dregið frá því verði, sem búið borgar til framleiðenda fyrir mjólkina? Slíkt mundi verða til þess, að bændur gætu alls ekki fengið það verð fyrir sína vöru, sem þeim er ætlað í verðlagsgrundvellinum samkv. l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, og þar með eru tekjur þeirra skertar frá því, sem þar er gert ráð fyrir. Það er hægt að hugsa sér annað líka, að þetta veltuútsvar verði tekið inn í verðlagsgrundvöllinn og útsöluverð á vörunum hækkað sem því nemur. Ég fæ ekki séð, að það væri hægt að hafa þetta öðruvísi, því að ég vil ekki ætla mönnum það, að þeir samþykki slíkar álögur með það fyrir augum, að bændurnir taki þetta á sig, borgi þetta af sínum tekjum.

En nú er ekki nóg með það, að Mjólkurbú Flóamanna þurfi að borga þetta af sinni sölu, þetta veltuútsvar, ef ég skil frv. rétt. Búið selur sínar vörur, mikið af þeim, hingað til Reykjavíkur. Þær eru svo seldar út hér til neytendanna, og þá kemur veltuútsvar enn á þessar sömu vörur. Svo er nú líka hér í einni frvgr. talað um, að það megi leggja veltuútsvar heima í sveitunum á framleiðsluvörur bændanna. Það eru nú sömu vörurnar, svo að þetta fer að verða nokkuð margfalt, þetta veltuútsvar, og það verður allmikil hækkun á mjólkurvörunum ofan á allt, sem á undan er gengið, ef öllu þessu á að bæta við söluverðið.

Ég held, að það sé engin skynsemi í því að taka svona stórt stökk í þessu efni, hækka veltuútsvörin svona gífurlega. Það er engin skynsemi í því að veita einstökum sveitarfélögum möguleika til þess að raka svo að sér fé með veltuútsvörum, að útsvörin í því sveitarfélagi lækki skyndilega um helming eða jafnvel enn meira. Og það sýnist vera alveg fráleitt að samþykkja lög um það, að leggja megi slík veltuútsvör á, sem komi mörgum sinnum á sömu vörurnar. Við vorum nýlega að afgreiða hér frá þingi lög um söluskatt, og þeir, sem að því máli stóðu, töldu honum það til gildis m.a. og ekki sízt, að hann kæmi bara einu sinni á vörurnar, hann væri tekinn á síðasta stigi viðskipta. En forseti Íslands er ekki fyrr búinn að staðfesta þau lög en hér er lagt fram stjórnarfrv. um veltuútsvör, sem leggst á á mörgum stigum, leggst margsinnis á sömu vörurnar. Ég sé ekki, að það sé nokkur heil brú í þessu.

Það lítur út fyrir, að þeir, sem sömdu þetta frv. og settu inn þessar heimildir um veltuútsvör, hafi miðað allt við verst stæðu sveitarfélögin á landinu, þeir hafi athugað það, hvar þessi óeðlilegu veltuútsvör hafi verið notuð í sem ríkustum mæli, og síðan sé það hugmynd þeirra að lögfesta þetta fyrir landið allt, taka þá, sem hafa lökustu aðstöðuna, og færa það yfir alla hina. Það er vitað mál, að aðstaða sveitarfélaganna er misjöfn og afkoma þeirra hefur verið mjög misjöfn að undanförnu. En er ekki skynsamlegra að gera sérstakar ráðstafanir út af þeim, sem lakast standa? Þetta hefur að nokkru leyti áður verið gert með ákvæðunum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Og þetta sýnist mér miklu skynsamlegri aðferð en vera að færa öll sveitarfélög á landinu á þeirra plan, þessara, sem verst eru sett.

Það er ýmislegt fleira í þessu frv., sem ástæða væri til að tala um og verður auðvitað að taka til rækilegrar athugunar. Ég vil nefna t.d. heildverzlanirnar í landinu, sem mér skilst að eigi eins og önnur fyrirtæki að borga veltuútsvör. Heildverzlanirnar eru flestar á einum stað á landinu, einum kaupstað, höfuðborginni, en þær skipta svo við verzlanir úti um allt land. Hvaða sanngirni er í því, að veltuútsvör heildverzlana fari í svo stórum stíl á þann stað, þar sem þær eru staðsettar, veltuútsvör lögð á viðskipti manna um landið allt? Það er komin hér fram till. á þingi um athugun á því að leggja á landsútsvör. Mér finnst ástæða til þess að íhuga það í þessu sambandi.

Ýmislegt er nú óljóst í þessu frv., t.d. hvað það er í raun og veru víðtækt. Eiga ríkisfyrirtæki að greiða veltuútsvar af veltu sinni eftir sömu reglum og önnur fyrirtæki, þó að þau hafi verið laus við það að undanförnu? Það má nefna í því sambandi verzlanir ríkisins, eins og áfengiseinkasölu og tóbakseinkasölu. Eiga þessi ríkisfyrirtæki og ýmis önnur, sem ríkið rekur, að borga einnig veltuútsvar af sinum viðskiptum? Yfirleitt er það svo með ríkisfyrirtækin eins og heildverzlanir einstakra manna og hlutafélaga, að þau hafa viðskipti við menn um land allt, og það, sem fyrst og fremst þarf að athuga í sambandi við þetta stóra mál, er, hvort eigi að lögfesta það fyrirkomulag, að heimilt sé að leggja á veltuútsvör. Þetta þarf að athugast, og ég vil benda á, að það hafa verið uppi áður tillögur um það að hverfa alveg frá slíku. Þetta hefur aldrei verið beinlínis í lögum, en nú virðist vera hugmyndin hjá hæstv. stjórn að lögfesta þetta.

Ég vil benda á, að fyrir nokkrum árum starfaði hér nefnd að athugun á skattamálum. Hún undirbjó t.d. lögin um tekju- og eignarskatt, þau sem nú gilda í aðalatriðum, sem sett voru 1954. Þessi nefnd gerði á sínum tíma till. til ríkisstj. um þessi efni. Í n, þessari áttu sæti Gísli Jónsson alþm., Karl Kristjánsson alþm., Kristinn Gunnarsson, Sigurbjörn Þorbjörnsson og Skúli Guðmundsson. Í ágústmánuði 1955 sendi þessi nefnd till. til fjmrn., sem hún stóð öll að óskipt, og þar voru m.a. ákveðnar till. varðandi þetta mál, sem hér liggur fyrir. Þá var hér almennur söluskattur í gildi, og n. lagði einróma til, að söluskatturinn yrði hækkaður um 25% og þeirri viðbót skipt milli bæjar- og sveitarfélaga eftir fólksfjölda. Jafnframt yrðu afnumin veltuútsvörin og samvinnuskatturinn. Það mun hafa komið í ljós, eftir að þessar till. komu fram, að það var andstaða gegn þeim, sérstaklega frá ýmsum þeim, sem standa að Sambandi ísl. sveitarfélaga, og tili. voru aldrei lagðar fyrir þingið. En mér þætti fróðlegt að heyra frá þeim, sem hafa undirbúið þetta mál og flytja það, hvort það hefði aldrei komið til athugunar hjá þeim við meðferð þessa máls, einmitt þetta að láta sveitar- og bæjarfélögin hafa ákveðinn hluta af söluskatti, e.t.v. eitthvað meira en nú er nýlega búið að ákveða, og hverfa þá alveg frá þessum veltuútsvörum. Þau hafa alltaf leiðinleg verið og illa þokkuð.