04.04.1960
Neðri deild: 61. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

112. mál, útsvör

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að víkja nokkrum orðum að þessu frv. almennt og þeim hugmyndum, sem ég hef haft um sveitarfélögin og afskipti ríkisvaldsins af þeim.

Eins og kunnugt er, segir svo í upphafi okkar þjóðskipulagsfræði, að heimilið sé undirstaðan undir okkar þjóðfélagsmálabyggingu. Þar næst koma sveitarfélögin, sem hafa verið og eru sjálfstæðar einingar innan okkar þjóðfélags, og það hefur jafnan verið skoðun mín, að sjálfstæði þessarar litlu þjóðar hafi m.a. byggzt á því, að innan hennar takmarka hafa verið sjálfstæðar einingar, sem hafa ráðið mikið um sín mál og hafa fengið æfingu í að hugsa sjálfstætt og framkvæma sjálfstætt. Sveitarfélögin hafa verið undirstaðan að þessum félagsskap, og þau hafa verið hvert á sínu sviði lítil sjálfstæð ríki, sem hafa farið með sín mál sjálf. Það er mín skoðun, að það beri nauðsyn til að halda þessum einkennum þjóðarinnar. Ég er hræddur við þá þróun, sem nú á sér stað, að það sækir meira og meira í það að svipta þessar sjálfstæðu einingar rétti sínum til þess að ráða sjálf um málefni sín og þar með að eyða þessum sérstæðu þjóðareinkennum. Og ég held, að okkar sjálfstæði stafi hætta af því, ef við sækjum meira og meira í það að leggja þessi einkenni niður og hverfa inn í fjöldahugsun, og það er ekkert, sem getur orðið okkur eins hættulegt og það, ef þessi sjálfstæðiskennd okkar sljóvgast. Það er mín skoðun, að ríkisvaldið ætti ekki að hafa nema mjög takmörkuð afskipti af sveitarfélögunum, sveitarfélögin ættu sem mest að fara með sín sérmál sjálf og það færi því bezt á því, að þau væru sem sjálfstæðastar stofnanir.

Mér fannst því eðlilegt, að þegar að því kæmi nú, að gerð væri sú breyting, að jöfnunarsjóður færi að veita fé til sveitarfélaganna, þá gæti verið betra að létta af sveitarfélögunum ýmsum þeim gjöldum, sem ríkisvaldið hefur á þau lagt nú um nokkurt árabil. T.d. hefði verið hægt að láta jöfnunarsjóðinn annast greiðslu vegna trygginga, bæði almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga. Með því móti hefði verið hægt að leysa sveitarfélögin út úr þessum þætti, án þess að ríkisvaldið hefði nokkur afskipti af þeim frekar, og þau gætu eftir sem áður farið með sín sérmál önnur á sjálfstæðan hátt. Hins vegar hefur nú verið horfið að því ráði að gera þetta þannig, að ríkisvaldið fær meiri afskipti af málefnum sveitarfélaga en áður hefur verið.

Í framhaldi af þessu er svo hér á ferðinni frv, til laga um bráðabirgðabreytingar á lögum um útsvör. Þetta frv. gefur tilefni til nokkurra hugleiðinga í sambandi við sveitarstjórnarmálin og það, sem það hefur að boða.

Það hefur á síðari árum þróazt meira í þá átt, að hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir hafa samið sér reglur til þess að fara eftir við útsvarsálagninguna. Regla sú, sem var grundvallarsjónarmið hreppsnefnda og niðurjöfnunarnefnda, að leggja útsvör á eftir efnum og ástæðum, þótti að mörgu leyti of rúm, til þess að hún væri framkvæmanleg, ekki sízt þegar fjölmenni gerðist svo mikið, að þeir, sem í þessum nefndum sátu, höfðu ekki tækifæri til þess að meta efni og ástæður gjaldendanna. Þessi þróun mála, að semja sér reglur við útsvarsálagninguna, hefur verið að aukast nokkuð mikið á síðari árum, og hafa hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir verið að leita fyrir sér um það, hvaða reglur hentuðu þeim bezt. Það hefur sýnt sig, að það er mjög breytilegt á hinum einstöku stöðum, hvað hentar þar, og þess vegna hafa þessar reglur verið nokkuð með óskyldum hætti. Það hefur m.a. verið skoðun mín, að það væri erfitt að setja í löggjöf reglur um, hvernig útsvör skyldi á leggja, og ástæðan væri sú, að hér væru svo ólík sjónarmið og ólíkar aðstæður, að ef slíkar reglur ætti að setja, þá yrðu þær að vera svo rúmar, að að þeim mundi verða lítið eða ekkert gagn, ef þær ættu að rúma þau ólíku sjónarmið, sem eru hjá hinum einstöku sveitarfélögum.

Ástæðan til þess, að það hafa komið fram þær hugmyndir, að nauðsyn bæri til að setja í lög reglur um útsvarsálagninguna, hefur fyrst og fremst verið bundin við það, að gjaldendunum hefur fundizt, að hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir hafi misnotað vald sitt í þessu sambandi og þess vegna þyrfti að ganga betur frá reglunum, svo að það væri ekki hægt. Það sýnir sig hins vegar í þessu frv., að það atriði að svipta hreppsnefndir eða niðurjöfnunarnefndir þessu valdi, það er mjög rúmt, og geta þær farið nokkuð mikið eftir sínu höfði við útsvarsálagninguna, þó að þetta frv. yrði að lögum. Í því sambandi nægir að benda á það, að í 3. gr. frv. er hreppsnefndunum og niðurjöfnunarnefndunum heimilað að vefengja skattaframtal, áætla tekjur og eignir, þó að skattayfirvöld hafi metið framtalið gilt. Með þessu móti er hægt að komast fram hjá þessum reglum, ef niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir hafa löngun til þess. Þær þurfa ekki heldur að taka tillit til þess frádráttar, sem skattanefndirnar heimila að gerður sé vegna tapfrádráttar milli ára eða fyrningar. Þetta gerir það að verkum, að þó að þetta frv. yrði að lögum, er á engan hátt betur séð fyrir því atriði, sem gjaldendurnir hafa viljað láta hnýta fastari böndum, að hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir væru mjög bundnar gagnvart þeim, því að þær útsvarsreglur, sem hér er verið að leggja til að verði lögleiddar, eru t.d. fyrir Reykjavík nákvæmlega sömu reglurnar og farið var eftir við útsvarsálagninguna s.l. ár, og hefur það þó verið mjög í efa dregið, að það hafi verið betur fyrir þeim þætti útsvara séð, er að gjaldendum snýr, á þeim stað en annars staðar. Þess vegna sýnir það sig, sem ég og fleiri hafa haldið fram, að það er afar erfitt að setja löggjöf um útsvarsálagningu, ef á ekki að meira eða minna leyti að taka valdið af hreppsnefndum og niðurjöfnunarnefndum hinna einstöku staða. Og þetta er að því leyti verra en ekkert, að hér er verið að hlaða upp vörður, sem er verið að vísa á og hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir, sem með þessi mál fara, hafa því meira vald til þess að hagræða þessum hlutum eftir sínu höfði, eftir að löggjafinn hefur lagt sína blessun yfir þær, eins og hér er ætlazt til.

Ég álít því, að með þessu frv. um útsvarsreglur sé á engan hátt betur séð fyrir rétti gjaldendanna en áður var, en hins vegar sé hér verið að benda þeim, sem með þessi mál fara, á leiðir, sem sumar hverjar eru mjög vafasamar.

Annars er um þetta frv. að segja, að í því eru að öðru leyti ekkert annað en tvö meginatriði, því að hér er verið að lögleiða t.d. fyrir Reykjavík útsvarsstiga, sem hefur gilt þar tvö síðustu ár. Það eru tvö meginatriði í frv. um útsvör. Þau eru þessi: það er verið að gera útsvör fyrra árs frádráttarhæf frá útsvari næsta árs, og í öðru lagi er verið að lögleiða það að leggja veltuútsvar á félagsmannaverzlun samvinnufélaganna.

Fyrra atriðið, að gera útsvarið frádráttarhæft, það er sjónarmið út af fyrir sig, sem má deila um. Það kemur fljótt í ljós, ef farið er að skoða þetta atriði, að hér er um mikið atriði að ræða fyrir þá, sem hafa háar tekjur. Þá getur hér orðið um stórkostlegan mun að ræða. En fyrir mennina með lágu tekjurnar hefur þetta tiltölulega litla þýðingu. Ef tekið er útsvar hjá einhleypum manni með 50 þús. kr. tekjur, lækkar útsvarið um 1385 kr. fyrir það, að fyrra árs útsvar á sömu tekjur er frádráttarhæft. Ef einstaklingur með 70 þús. kr. tekjur er aftur tekinn, þá lækkar útsvar hans um 2700 kr. Ef einstaklingur hefur 100 þús. kr. tekjur, lækkar útsvarið um 5400. Hafi hann 130 þús., þá lækkar það um 8400 kr. Hafi hann 150 þús., þá lækkar útsvarið um 10200 kr. Og hafi hann 200 þús. kr. tekjur, sem útsvar ætti á að leggja, þá lækkar hans útsvar um 14700 kr. Hér er um stefnuatriði að ræða út af fyrir sig, hvort það á með þessu móti að lækka svo mjög útsvör þeirra, sem mestar hafa tekjurnar. Það hefur ríkt sú stefna hér á landi að jafna hlut manna með beinum sköttum, bæði tekjuskatti og útsvari, og þá hefur verið talið eðlilegt, að þeir, sem hefðu breiðu bökin, bæru meiri álögur. Með þessu móti er hins vegar blaðinu snúið við, og er það í samræmi við þá stefnu, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur. Hér er verið að létta af þeim, sem mestar hafa tekjurnar, en auðvitað færist svo gjaldabyrðin aftur yfir á almenning í landinu. Það er ekki hægt að komast hjá því, að þessum tekjum þarf að ná annars staðar, og þeim verður auðvitað náð af hinum almenna borgara með veltufyrirkomulaginu, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur gert að sínu máli.

Í því sambandi er ekki hægt að segja það, að það sé verið að skattleggja eyðsluna, þar sem það verður að leggja á almennar neyzluvörur, eins og gert er með söluskattinum. Hér er því um stefnumál að ræða, og sýnir sig, hvert hæstv. ríkisstj. stefnir í þessu efni. Hitt er svo það, sem snýr að samvinnufélögum í landinu. Með því atriði að leggja veltuskatt á alla vörusölu samvinnufélaganna, er hér brotið í blað. Það hefur verið skoðun löggjafans til þessa, að á samvinnufélögin bæri að líta sem annan aðila í þessu þjóðfélagi en þau félög, sem eru stofnuð sem gróðafélög sérstaklega. Þar kemur og til, að samvinnufélögin eru opin félög fyrir alla, svo að allir þegnar þjóðfélagsins hafa rétt til þess að ganga í þau, en hlutafélög eru hins vegar lokuð, og þess vegna getur ekki hvaða borgari sem er í landinu krafizt þess að fá þar inngöngu. Þetta er þungamiðjan í þessum málum, að það hefur verið talið eðlilegt, að einmitt m.a. þetta atriði skæri nokkuð úr um það, hvort hér væri á ferðinni félag, sem hefði gróðasjónarmið fyrir augum eða almenningssjónarmið.

Þá er annað atriði, sem snýr líka að byggðarlögunum, þar sem þessi félög starfa. Ég vil í því sambandi taka dæmi, að fyrir 30 árum hóf störf í einu byggðarlagi, sem ég þekki til, maður og tók að sér forstöðu fyrir kaupfélaginu þar á staðnum. Á þessu tímabili hefur þetta kaupfélag blómgazt mjög undir hans handleiðslu og er nú orðið mikið og sterkt fyrirtæki. Nú getum við hugsað okkur, að það líði ekki mjög langur tími, þangað til þessi maður hverfur frá störfum í þessu byggðarlagi. Þá gerist það, að inn í hans skrifstofu gengur annar maður og tekur við stjórn á fyrirtækinu. Fyrirtækið heldur áfram því fjármagni, sem hefur safnazt í tíð þessa kaupfélagsstjóra. Það er kyrrt í byggðarlaginu, og það heldur áfram að vera þátttakandi í atvinnu- og uppbyggingarlífinu á staðnum. Með kaupfélagsstjóranum flyzt það ekki burt, þó að hann verði að hætta störfum, annaðhvort vegna aldurs eða vegna þess, að hann kýs að fara að starfa á öðrum stað. Byggðarlagið, sem þetta fjármagn var safnað í, nýtur fjármagnsins áfram, þó að mannaskipti verði. Ef á sama tíma hefði svo setzt að í þessu byggðarlagi athafnamaður, við skulum segja á borð við hv. 3. þm. Austf. (EinS), og honum hefði tekizt að safna álíka fjármagni eða byggja upp sitt fyrirtæki eins og kaupfélagið hefur gert, og hann hverfur einnig burt af staðnum, þá fer með honum fjármagnið, sem hefur safnazt í byggðarlaginu hans vegna á þessu tímabili. Ýmislegt, sem lauslegt er, getur hann flutt með sér, vegna þess að honum þykir hentugra að starfrækja það annars staðar en í þessum kaupstað eða þessu kauptúni. Fasteignir hans verða aðrir aðilar að kaupa, og byggðarlagið verður að endurgreiða þetta á nýjan leik, ef þær verða starfræktar. Hugsum okkur hreppsnefnd, sem hefði gjarnan viljað hlúa að þessum fyrirtækjum. Hún hefði því lagt á þau takmarkaðan veltuskatt, miklu minni en þessi lög heimila henni að gera. Byggðarlagið mun njóta áfram þess fjármagns, sem safnaðist hjá kaupfélaginu, en það yrði byggðarlaginu í óhag að hafa ekki tekið til almenningsþarfa á vegum hreppsfélagsins það fjármagn, sem það gat eftir þessum lögum náð af hinu fyrirtækinu, heldur en láta það flytjast í burt með eigandanum, þegar hann hætti þarna störfum á staðnum. Þess vegna er það ekki einungis skipulagið út af fyrir sig, sem gerir það að verkum, að það er ekki réttmætt að leggja á samvinnufélag sömu álagningarprósentu og á einkafyrirtæki, það er skaðlegt fyrir það byggðarlag, sem þessar stofnanir starfa í.

Þá er það ekki lítið atriði í sambandi við þetta mál, hvernig farið er með framleiðsluvörur t.d. landbúnaðarins. Eins og menn munu vita, þeir sem a.m.k. hafa kynnt sér það, þá er því þannig varið, að kaupfélögin almennt taka þessar vörur í umboðssölu. Þau verzla ekki með þær þannig, að þau hafi hag af því eða tap, heldur er þetta umboðssala, og þau skila framleiðendunum öllu, sem er umfram kostnað. Það er ekki lítið atriði, hvernig með þetta er farið, ef veltuútsvar yrði nú lagt á þessar vörur.

Samkv. því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, er það matsatriði hjá hverri hreppsnefnd eða niðurjöfnunarnefnd, hvernig með þetta skuli fara. Hér er þó um stórkostlegt mál að ræða, og það getur ekki farið nema á annan hvorn veginn, þannig, að annaðhvort dregst þetta frá verði framleiðandans eða þá að það verður að koma fram við sölu á vörunni og í hækkuðu verði þar, því að samvinnufélagið skilar framleiðandanum því, sem er umfram kostnað, og auðvitað fellur þetta inn í kostnaðinn, ef þetta verður framkvæmt á þann hátt, sem hér er stefnt að. Hér er um svo stórkostlega hluti að ræða, að það er óhugsandi, að þetta frv. verði afgreitt hér frá Alþ., án þess að eitthvað liggi fyrir um það, hvaða skilningur er ríkjandi hjá löggjafanum. Það var hins vegar ekkert að græða á svörum hæstv. fjmrh. hér áðan um skilning hans eða hæstv. ríkisstj. á því, hvernig með þetta skyldi fara.

Ég ætla ekki að tefja þessar umr., en vil að lokum endurtaka það, að ég álít, að það sé þjóðfélaginu fyrir beztu, að sveitarfélögin fari með sín mál sjálf og að þær reglur, sem settar eru um framkvæmd á útsvarsálagningu, séu settar af sveitarstjórnum, en ekki af ríkisvaldinu, því að það mun sýna sig, að ef þær reglur eiga að vera að nokkru gagni fyrir gjaldendurna, þá binda þær svo hendur þeirra, sem með sveitarstjórnarmálin fara, að þær verða lítt framkvæmanlegar. Þetta mál er ekki heldur komið fram vegna þess, að nauðsyn beri til þess að festa þetta í skorðum, því að hér er ekki verið að gera annað en að setja upp þá útsvarsreglu, t.d. í Reykjavík, sem hefur gilt, og annars staðar er svo soðið upp úr því, sem þar hefur gilt að meira eða minna leyti. Meginmál frv. er það að lækka útsvörin á þeim, sem mestar hafa tekjurnar, og að ná útsvörum af veltu samvinnufélaganna. Þetta er tilgangur frv., þetta tvennt, því að hitt liggur til hliðar við meginmálið.