04.04.1960
Neðri deild: 61. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

112. mál, útsvör

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða frv. það, sem hér er til umr., almennt við þessa 1. umr. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að mér þótti rétt að vekja eftirtekt á misræmi, sem mér sýnist vera í lagagrein og svo tilsvarandi skýringu í aths., sem fylgja frv., og fá þá svör við því, væntanlega frá hæstv. fjmrh., hver sé réttur skilningur í því atriði.

Í 3. gr., c-lið, segir, að útsvör s.l. árs skuli dregin frá hreinum tekjum, ef þau hafa verið greidd sveitarsjóði að fullu fyrir áramót. Ákvæði þetta er skýrt eitt út af fyrir sig. En í aths., sem fylgja frv., sem eru skýringar á lagagr., segir svo í 5. mgr.: „Í þriðja lagi er aftur á móti lagt til, að útsvör næstliðins árs skuli dregin frá hreinum tekjum, að svo miklu leyti sem þau hafa verið greidd fyrir áramót.“ Á þessu tvennu er að sjálfsögðu verulegur munur. Og nú spyr ég: Á aðeins að draga útsvör næstliðins árs frá, þegar þau hafa að fullu verið greidd fyrir áramótin, eða á að draga þann hluta útsvarsins, sem kann að hafa verið greiddur fyrir áramót, frá, enda þótt útsvarið hafi ekki að öllu leyti verið greitt? Í öðru lagi: Ég skil frv. þannig, að skýlaus heimild sé að draga veltuútsvör s.l. árs frá eins og bæði tekjuútsvar og eignaútsvar. Ég held, að það gerði ekki til, þó að það kæmi greinilegar fram en frv. ber með sér.

Karl Guðjónsson: Herra forseti. Í því lagafrv. um útsvör, sem hér liggur fyrir, skilst mér, að fram komi einkum þrennt, sem hlýtur að draga að sér athygli. Það er í fyrsta lagi, að hér er gert ráð fyrir, að lögfest verði í fyrsta sinn heimild fyrir veltuútsvörum. Í öðru lagi, að nú á að taka upp þá nýbreytni, að samvinnufélög eiga að gjalda útsvör til jafns við önnur verzlunarfyrirtæki. Og í þriðja lagi, að taka á upp skattstiga, sérstaka skattstiga, sem Alþ. samþykkir, í stað þess, sem áður hefur verið falið sveitarstjórnum í sjálfsvald, hvernig þær vildu útbúa sínar reglur, og miða þá við efni og ástæður þegnanna í viðkomandi hreppi eða bæjarfélagi. Með því að þessi nýmæli eru öll þess eðlis, að þau snerta mjög marga, flesta, máske alla þegna í landinu, þá þykir mér vert að fara um þessi atriði hvert um sig fáeinum orðum.

Í fyrsta lagi komum við þá að veltuútsvörunum. Ég minnist þess, að á mörgum undanförnum þingum hefur, að því er ég ætla, á vegum Sjálfstfl. eða a.m.k. af fulltrúa þess flokks hér á þingi verið flutt frv. um að afnema veltuútsvör og sýnt fram á það með þar tilgreindum röksemdum, að einmitt þessi útsvör ættu engan rétt á sér. Ég minnist þess, að hv. fyrrv. þm., Björn Ólafsson, hefur einmitt flutt slík frv. hér þrásinnis á þingi. Hann hefur gjarnan ár eftir ár lesið hér upp langa lista um það, hvernig einstök félög, sem hann þó hefur ekki nafngreint, eða einstök fyrirtæki hafa orðið að greiða veltuútsvör, sem námu hærri fjárhæðum en nettótekjur viðkomandi félaga. Nú er ekki því að neita, að ef treysta mætti framtölum, er hér um ranglæti að ræða, og þessi útsvör eru hreinlega til komin vegna þess, að skattanefndir í kaupstöðum og sveitum hafa haft ástæðu til þess að vefengja framtöl. Veltuútsvörin hafa raunverulega verið eins konar svikaskattur, þar eð ekki varð komið neinum útsvörum á ærið stóran fjölda fyrirtækja, ef fara átti eftir framtölum þeirra einum saman. En engu að síður hefur það legið í augum hvers manns, sem að hefur gætt, að jafnvel þau hin sömu félög, sem þannig voru ár eftir ár látin borga hærra veltuútsvar en nam öllum nettótekjum þeirra, hafa samt haldið áfram að blómgast og dafna. Það skýtur þess vegna dálitið skökku við, þegar hér stendur sá stjórnmálaflokkur fyrir því að lögfesta þessi útsvör, sem hingað til hefur háð hér á Alþingi harða baráttu gegn þeim. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, og mér þætti við eiga, að nokkur skýring kæmi hér á, hvað veldur þeirri breyt., sem Sjálfstfl. virðist hafa tekið í afstöðu til þessara mála. Ég er þeirrar skoðunar, að vissulega hefði það verið betra spor, sem stigið hefði verið, ef takast hefði mátt að gera skattframtölin áreiðanlegri en þau eru, og eiga þá ekki við að lögfesta veltuútsvör. En hér virðist engin tilraun til þess gerð að stiga skrefið í þá átt, sem þó hefur einmitt af talsmanni Sjálfstfl. verið talin hin mesta nauðsyn hér á þingi mörg undanfarin ár.

Þegar vikið er að öðru því nýmæli, sem hér er um að ræða, útsvarsálagningunni á samvinnufélögin, þá hefur hér verið réttilega bent á, að það er mjög ósanngjörn framkvæmd að leyfa því sveitarfélagi, sem hefur innan sinna vébanda samvinnufélag eða verzlunarsamtök samvinnumanna, sem rekin eru eftir samvinnulögum, að leggja á það útsvar bara fyrir sig, enda þótt félagið starfi kannske í þjónustu fjölmargra annarra hreppa eða bæjarfélaga. Hér er þess vegna um það að ræða, að taka á upp sams konar rangsleitni varðandi þessi félög og lengi hefur viðgengizt til hagsbóta fyrir Reykjavíkurbæ gagnvart þeim fyrirtækjum, sem reka hreina landsverzlun. Ég hef hér á þessu þingi og raunar á mörgum undanfarandi þingum flutt sérstakt frv. um útsvar ríkisstofnana, sýnt hér fram á það, að af áfengisverzlun ríkisins og tóbakseinkasölu, þessum tveim fyrirtækjum, hefur Reykjavíkurbær tekið á undanförnum árum útsvar, sem er álíka hátt og t.d. öll útsvörin í Vestmannaeyjum. Þetta útsvar er auðvitað tekið af verzlun, sem þessi fyrirtæki reka ekki bara við Reykvíkinga, heldur við landsbyggðina alla, við landsmenn alla. Ég sé ekki, að það sé nein sanngirni í því að semja nýtt frv. til útsvarslaga án þess að gera nokkra minnstu tilraun til þess að leiðrétta það augljósa misræmi, sem hér kemur fram í útsvarsálagningu þessara tilteknu ríkisstofnana. Á hinn bóginn hefði einnig mátt ætlazt til þess, að ríkisstj. við endurskoðun útsvarslaga og þeir menn, sem falið var að vinna að henni, tækju til athugunar þá hugmynd, sem oft hefur verið hér uppi á Alþingi og frv. liggur hér frammi um nú, að gera útsvar þeirra fyrirtækja, sem reka verzlun við landið allt, að landsútsvari og jafna þeim greiðslum til hinna ýmsu bæjareða sveitarfélaga úti á landsbyggðinni á svipaðan hátt og nú er fyrirhugað að jafna nokkram hluta af söluskattinum gegnum jöfnunarsjóð til þessara félaga.

Ég sem sagt harma það, að til þessa hefur ekkert tillit verið tekið við samningu þessa frv., heldur þvert á móti gengið enn lengra á braut þess misræmis, sem sveitarfélög landsins búa við nú, með því að ætla nú að leyfa takmarkalausa útsvarsálagningu á samvinnufélög í þeim hreppi, sem þau starfa í, án tillits til þess, þótt þar sé verið að leggja skatt á þegna, sem búa utan þess sveitarfélags. Þá vil ég einnig halda fram þeirri skoðun, að það sé í eðli sínu ranglátt að skatta samvinnufélög með þeim hætti og þau félög, sem eru í einkaeign. En ég geri ekki ráð fyrir því, að sú skoðun mín verði til þess að breyta áliti ríkisstj., því að það er sjáanlega einn höfuðtilgangurinn í efnahagslöggjöfinni og þar með talið í því frv., sem hér liggur fyrir, sem er auðvitað einn liðurinn í öllum þeim breytingum, sem núv. ríkisstj. er að framkvæma á okkar efnahagskerfi, og einn aðalþátturinn í þeirri viðleitni, sem þar er höfð uppi, að eyðileggja samvinnufélögin, gera þau vanmegnug til þess að þjóna þeim tilgangi, sem þau voru upphaflega til stofnuð.

Kem ég þá að þriðja atriðinu, sem hér er um að ræða, en það er að útbúa stiga fyrir útsvarsálagninguna, í stað þess að láta viðkomandi hreppsfélög þar um sjálf, eins og tiðkazt hefur til þessa. Hér eru í frv. útbúnir þrír skattstigar, og þeir eru útbúnir svo hugvitsamlega, að í stytztu máli eru þeir þannig gerðir, að menn skulu ekki bara skattaðir eftir því, hvað þeir hafa miklar tekjur, heldur eftir því, hvar þeir búa í landinu. Hér eru settir upp þrír skattstigar, einn fyrir Reykjavík, annar fyrir sveitarfélög og sá þriðji fyrir bæjarfélög önnur en Reykjavík. Og þótt stjórnarskrá landsins ætlist sjáanlega til þess, að þegnarnir skuli vera jafnir fyrir lögunum og þá væntanlega frammi fyrir skattalöggjöf og útsvarslöggjöf eins og annarri löggjöf, þá hefur ríkisstj. og þeir aðilar, sem að þessari lagasmíð standa, þverbrotið þessa reglu, þannig að þeir hafa sett upp regluna: Minnst skulu borga þeir, sem búa í Reykjavík. Nokkru meira skulu greiða þeir, sem búa í sveitum landsins. En mest skulu þeir greiða, sem búa í kaupstöðum landsins utan Reykjavíkur. — Ég skal að vísu taka það fram, að þetta hlutfall milli Reykjavíkur og sveitarfélaganna á ekki við um allan skattstigann, því að það gildir þar til komið er í um það bil 80 þús. kr. tekjur hjá einstaklingi, þá helzt þetta í hendur. Sveitamenn eiga að borga meira en Reykvíkingar, þeir sem hafa minni tekjur en 80 þús., en þegar komið er í 80–100 þús., þá eiga Reykvíkingar og sveitamenn að borga nokkuð svipað, en Reykvíkingar öllu meira, þegar komið er yfir þær tekjur, enda munu þær vera fátíðar í sveitum landsins. En alls staðar eiga þeir, sem búa í kaupstöðum utan Reykjavíkur, að borga meira en Reykvíkingar. Það er auðvitað eðlileg afleiðing af því, að þegar Reykjavík er búin að svelgja til sín ein útsvörin af stærstu landsverzlunum, eins og ég hef nefnt hér nokkur dæmi um, þá er auðvitað hægt að ívilna skattþegnum í Reykjavík á kostnað þeirra, sem úti á landsbyggðinni búa. Það verður ekki séð, að það séu neinar aðrar þarfir, sem að kalla í Reykjavík eða kaupstöðum utan Reykjavíkur. Helztu viðfangsefnin í þessum byggðarlögum eru öll hin sömu. Þau eru að framkvæmdum til að koma á sameiginlegum vatnsveitum, sameiginlegum skolpæðum, gatnagerð o.s.frv., og verður þar ekki séður á neinn aðstöðumunur. Á hinn bóginn ber að játa það, að verkefnin eru nokkur önnur í kaupstöðum eða í sveitum. Í kaupstöðum er talið nauðsynlegt að gera ýmislegt sameiginlegt fyrir kaupstaðarbúana, sem er ekki gert nema óviða í sveitum. Þar er t.d. ekki mikið um það, að sameiginlegar skolpæðar séu lagðar um heilar sveitir, eða ýmislegt annað það, sem menn sameiginlega leggja fé til í kaupstöðum. Það hefði þess vegna ekki verið alveg ástæðulaust, þó að ætlað hefði verið, að hægt væri að komast af með nokkru lægri útsvör í sveitum en í kaupstöðum. Ef miðað er við Reykjavík, þá er það ekki gert, heldur farið öfugt að, þegar miðað er við almennar tekjur.

Ég vil nefna nokkur dæmi um það, sem ég hér hef sagt. Af 40 þús. kr. tekjum gera lögin ráð fyrir, að Reykvíkingur greiði 3890 kr. Sá, sem býr í sveit, á að borga af þeim tekjum 4880 kr. En sá, sem býr í kaupstað utan Reykjavíkur, á að borga af þeim tekjum 5700 kr. Þ.e.a.s., ef við berum saman Reykjavíkurbúa og íbúa í kaupstöðum utan Reykjavíkur, þá á af þeim tekjum, 40 þús. kr. tekjum, hver sá, sem býr utan Reykjavíkur, að borga 1461/2 kr. á móti hverjum 100 kr., sem Reykvíkingur geldur. Ef haldið er áfram upp eftir skattstiganum og athugað, hvað skeður við 50 þús. kr. útsvarsskyldar tekjur, þá kemur í ljós, að af þeim tekjum á Reykvíkingur að borga 6090 kr., sveitamaður á að borga 6680 kr., kaupstaðarbúi utan Reykjavíkur á að borga 8200 kr. Ef litið er á, hvernig þetta kemur út, þegar komið er upp í 80 þús. kr. tekjur, þá jafnast þar um það bil nákvæmlega útsvarsgreiðsla Reykvíkinga og sveitamanna. Af 80 þús. kr. útsvarsskyldum tekjum á Reykvíkingur að borga 10890 kr., sveitamaður 10880 kr., 10 kr. minna, en kaupstaðarbúi utan Reykjavíkur á að borga 13500 kr. Þannig mætti áfram halda, og réttlætið í þessu virðist liggja eitthvað dýpra en séð verður við fljóta athugun á frv., ef það þá er þar að finna.

Nú skal það að vísu játað, að ekki er þessum skattstigum slegið þann veg föstum, að ekki megi breyta út frá þeim. Ef tekjuþörf viðkomandi sveitarfélaga eða bæjarfélaga er önnur en þessi skattstigi gefur tilefni til, þá má færa til allan stigann. Engu að siður hljóta þeir skattstigar, sem hér á að lögfesta, að miða mjög að því, að þeir verði hinir raunverulegu útsvarsstigar í viðkomandi sveitar- eða bæjarfélögum. Og þó að hér sé ekki með lagaboði slegið endanlega föstu, að svona skuli það vera og engan veginn öðruvísi, þá er þó greinilega að því miðað, svo að ekki verður um villzt. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir því, að yfirleitt séu þegnar landsins jafnir fyrir lögum. Sjálfsagt hefur þá, sem að samningu stjórnarskrárinnar stóðu á sínum tíma, ekki órað fyrir því, að nokkru sinni mundu rísa upp í landinu stjórnarvöld, sem hefðu tilhneigingu til þess að mismuna þegnunum jafnherfilega eftir því, hvar þeir hafa búsetu, eins og nú er komið á daginn, og þess vegna ekki tekið fram beinlínis í stjórnarskránni, að þetta væri bannað. En þar er t.d., í 78. gr. stjórnarskrárinnar, sagt: „Sérréttindi, er bundin séu við aðal, nafnbætur og lögtign, má ekki taka í lög.“ En það liggur orðið býsna nærri, að Reykjavík sé gerð að aðili þjóðarinnar með því að lögleiða það, sem hér hafa verið lagðar fram tillögur um. En því vil ég ekki láta ómótmælt við þessa 1. umr. málsins og vænti þess, að sú nefnd, sem tekur þetta frv. til athugunar, skoði það vel, hvort hér er ekki gengið feti lengra en sæmilegt er.