24.05.1960
Neðri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

112. mál, útsvör

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Frv. til laga um bráðabirgðabreyt. á lögum um útsvör frá 12. apríl 1945, sem nú liggur hér fyrir til 2. umr., er í veigamiklum atriðum mjög frábrugðið gildandi lögum um útsvör.

Það fyrsta, sem maður hlýtur að reka sig á, er, að í frv. er gert ráð fyrir, að Reykvíkingar skuli greiða 1/3 lægra útsvar en þeir, sem eru búsettir utan höfuðstaðarins. Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að lögfestir verði þrír mismunandi útsvarsstigar. Sérstakur útsvarsstigi á að gilda fyrir Reykjavík, og skulu útsvörin þar verða lægst. Þeir, sem búsettir eru í kaupstöðum utan Reykjavíkur, skulu bera allt að 1/3 hærra útsvar en Reykvíkingar og fólk búsett í sveitum og sjávarþorpum á að greiða miklum mun hærra útsvar en fólk búsett hér. Í Reykjavík skal ekki leggja útsvar, eins og stendur í frv., á lægri tekjur en 25 þús. kr. Í kaupstöðum utan Reykjavíkur skal útsvar lagt á 15 þús. kr. tekjur, eða 10 þús. kr. lægri tekjur en í Reykjavík, og í sveitum og sjávarþorpum, eins og frv. var lagt fram í upphafi, skulu menn greiða útsvar af 3000 kr. tekjum, eða 22 þús. kr. lægri tekjum en búsettu fólki í Reykjavík er gert að skyldu að greiða útsvar af. Af hreinum tekjum skulu einstaklingar í Reykjavík greiða af 25–35 þús. kr. 940 kr., í kaupstöðum utan Reykjavíkur skulu menn greiða af 30–40 þús. kr. hreinum tekjum 3300 kr. Í sveitum og kauptúnum greiða einstaklingar af 25–30 þús. kr. hreinum tekjum 1980 kr., og af 10–15 þús. kr. tekjum greiðir einstaklingurinn þar 830 kr. í útsvar. Í Reykjavík er fólk með svo lágar tekjur algerlega útsvarsfrjálst.

Menn búsettir í sveit, sem engar tekjur hafa aðrar en ellilaun eða örorkubætur, en þeir eru á 2. verðlagssvæði, og það þýðir, að þeir fái í örorkubætur 19440 kr. fyrir hjón yfir árið, greiða því mikið á annað þúsund kr. í útsvar. Ef þeir ættu heima í Reykjavík, greiddu þeir ekkert útsvar af sömu tekjum.

Frá útsvari, eins og það er reiknað samkvæmt útsvarsstiga Reykjavíkur, er veittur fjölskyldufrádráttur, 800 kr. fyrir konu og fyrir eitt barn 1000 kr., annað barn 1100, fyrir þriðja barn 1200 kr. og þannig áfram, að frádrátturinn hækkar um 100 kr. fyrir hvert barn.

Sami fjölskyldufrádráttur skal gilda í öðrum kaupstöðum. Í öðrum sveitarfélögum skulu aðrar reglur gilda. Þar skal veita fjölskyldufrádrátt, sem hér segir: Fyrir konu 500 kr. í stað 800, sem er í Reykjavík og öðrum kaupstöðum, og 500 kr. fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs, sem er á framfæri gjaldenda, í stað 1000 kr. frádráttar fyrir 1. barn, og 100 kr. hækkun fyrir þau börn, sem fram yfir eru. Ég vil segja, að þetta getur maður kallað að sé réttlæti í lagi.

Það verður varla sagt, að í þessu frv. sé gengið út frá þeirri meginreglu, sem ætti þó að gilda, að menn séu jafnir fyrir lögunum, heldur þveröfugt. Það er engu líkara en að þeir menn, sem samið hafa frv., hafi vitandi vits stefnt að því að skapa óverjandi og óviðunandi misræmi og ranglæti í álagningu útsvars eftir því, hvar menn eru búsettir. Fólk búsett í Reykjavík skal búa við allt önnur og rýmri skilyrði hvað álagningu útsvars viðkemur en fólk búsett utan Reykjavíkur. Og það er ekki talið nægilegt að hafa útsvarsstigann langtum hærri utan Reykjavíkur, heldur skal til viðbótar mismunað í fjölskyldufrádrætti, þannig að hvert misræmið og ranglætið er öðru verra.

Ætli hæstv. ríkisstj., sem lætur flytja þennan óskapnað í frumvarpsformi, telji, að með slíkri lagasmíð sé verið að stuðla að jafnvægi í byggð landsins? Það hefur þó ekki vantað, að gefin hafa verið fögur loforð og mikil og stór fyrirheit um uppbyggingu landsbyggðarinnar utan höfuðstaðarins.

Menn tala sí og æ um flóttann úr sveitunum og sjávarþorpunum víðs vegar á landinu hingað suður að Faxaflóa og til Reykjavíkur. Menn telja, og það með miklum rökum, að ef slíkt misræmi haldi áfram, geti slíkir fólksflutningar stefnt að gereyðingu heilla byggðarlaga. Vitanlega er þessi skoðun alveg rétt, og móti slíkum óeðlilegum fólksflutningum ber vitanlega að vinna með öllum tiltækilegum ráðum. Á það má benda, að í tíð vinstri stjórnarinnar var gert stórt átak í þá átt að stöðva þessa óheillavænlegu þróun, m.a. með því að beina aukningu framleiðslutækjanna meira út um landið en áður hafði verið gert um fjöldamörg ár.

Þessi stefna varð til þess, að vinstri stjórnin stöðvaði að mestu leyti fólksstrauminn utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur og kaupstaðanna hér við Faxaflóa, enda varð gerbreyting til batnaðar á öllu atvinnulífi í kaupstöðum og sjávarþorpum úti um land frá því, sem áður hafði verið, enda naut vinstri stjórnin mikils trausts fólksins úti á landinu. En þessi stefna átti ekki fylgi að fagna meðal auðstétta Reykjavíkur og fylgifiska þeirra, — slík stefna, sem hafði hlúð að og bætt hag þess fólks, sem búið hafði við skarðan hlut árum saman víðs vegar um land. Já, hún var af forustuliði Sjálfstfl. — og ég vil segja nokkrum hluta Alþýðufl. — talin óalandi og óferjandi. Það er ekki óeðlilegt, þó að maður láti sér til hugar koma, að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa verið að koma á, og þá máske fyrst og fremst með þessu frv., sem hér er til umræðu, eigi að verða nokkurs konar refsidómur yfir því fólki, sem vildi ekki taka undir rógsiðju afturhaldsins gagnvart vinstri ríkisstj.

Ég held, að þess séu engin dæmi, að flutt hafi verið á Alþingi Íslendinga frv., þar sem svo herfilega og á hinn ósvífnasta hátt hefur verið gert upp á milli manna, allt eftir því, hvar menn hafa búsetu, eins og gert er í þessu frv.

Í þessu sambandi má benda á, að sama óréttlætið og rangsleitnin hefur verið og er enn viðhöfð í sambandi við skiptingu landsins í tvö verðlagssvæði, eins og gert er ráð fyrir í lögum um almannatryggingar. Vitanlega eru slík ákvæði í þeim lögum hrein svívirðing og ekkert annað, sem verður ekki unað við og verður ekki varin með neinum rökum. Hvers á sá maður að gjalda, sem t.d., svo að dæmi sé nefnt, á heima í Hveragerði eða þorpunum í Mosfellssveit. að hann skuli ekki fá í ellilífeyri eða ellilaun yfir árið nema 19440 kr., þegar annar maður, sem eins er ástatt fyrir, en á heima í Reykjavík, Siglufirði eða Hafnarfirði, fær 25920 kr.? Í báðum tilfellum er átt við hjón, sem bæði eru á fullum ellilaunum. Halda menn, að það sé svo miklu ódýrara að lifa í smærri þorpunum en í kaupstöðunum? Ég held, að það sé mjög mikill misskilningur, ef menn halda slíku fram. Í sumum tilfellum er dýrara að búa úti á landi, í dreifbýlinu, en í kaupstöðunum. Maður, sem ætlar sér að koma börnum sínum í skóla í langan tíma, t.d. í menntaskóla, kennaraskóla eða verzlunarskóla, verður að kosta nám þeirra í skóla utan síns héraðs og þá fyrst og fremst hingað til Reykjavíkur. Við slík aukaútgjöld sleppa þeir menn að miklu leyti, sem hér eiga heima í Reykjavík. Það væri hægt að benda á fleiri dæmi, sem sýna ljóslega, að það er sízt ódýrara að búa úti á landsbyggðinni en hér í Reykjavík og nágrenni. M.a. eru flestar vörutegundir dýrari úti á landsbyggðinni en hér. Það gerir m.a. það, að flestum vörum er skipuð upp í Reykjavík og svo aftur út gegnum Reykjavíkurhöfn og fluttar þannig út um landsbyggðina. Það liggur í hlutarins eðli, að á vöruna hlýtur að leggjast aukakostnaður, sem neytandinn úti á landsbyggðinni verður að greiða, en Reykvíkingarnir sleppa við.

Fyrir því er allur mismunur á því, hvað menn skuli fá greitt, t.d. sbr. almannatryggingarnar og skiptingu landsins í tvö verðlagssvæði, eins og lögin um almannatryggingar gera ráð fyrir, og mismunur á því, hvað menn skuli greiða lögum samkvæmt í útsvar, hrein fjarstæða. Það er vitanlega hrein fjarstæða, að það eigi að fara að lögleiða 3 skala á landinu og það skuli fara eftir því, hvar menn eru búsettir. Slíkt er vitanlega hreinasta fjarstæða. Með slíkri lagasetningu er verið að gera upp á milli manna og skapa óviðunandi ranglæti.

Það er rétt, að það sé athugað, hver muni vera aðalorsök þess, að t.d. Sjálfstfl., sem ræður málefnum Reykjavíkur í krafti síns meirihluta, getur leyft sér þann lúxus, ef svo mætti að orði komast, að láta lögfesta stórum lægri útsvör hér en annars staðar á landinu. Ég vil spyrja: Er það vegna þess, að rekstur Reykjavíkurbæjar sé ódýrari en annarra bæja? Stjórnar Sjálfstfl. Reykjavíkurbæ betur en öðrum bæjum er stjórnað? Fátt bendir til þess, að svo sé, heldur þveröfugt. Nei, ástæðurnar fyrir því, að Sjálfstfl. telur sig hafa efni á því að láta löggilda lægri útsvarsálagningarreglur en annars staðar á landinu, eru fyrst og fremst þær, að hér í Reykjavík er mikill fjöldi alls konar stofnana og fyrirtækja, sem reka margs konar þjónustustarfsemi fyrir allt landið og draga til sín stórfé hvaðanæva af landinu, en greiða aðeins útsvör í Reykjavík. Þannig lifir Reykjavíkurbær að stórum hluta á útsvörum, sem aðrir landshlutar ættu að njóta góðs af. Vitanlega er það hið hróplegasta ranglæti, sem er ekki hægt að búa við og verður að fást breyting á. Þessi fyrirtæki eru t.d. heildsöluverzlanir, þar með talið Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem að mjög miklu leyti hefur viðskipti sín við kaupfélögin úti um land, tryggingafélögin, útflutningssamtök, tóbakseinkasala ríkisins og að langmestu leyti útsvar áfengisverzlunar ríkisins o.fl., o.fl. Þá má og benda á, að hér í höfuðstaðnum er mikill meiri hluti embættismanna landsins búsettur og allir þeir hæst launuðu. Sú algera sérstaða, sem Reykjavíkurbær hefur á þessu sviði fram yfir alla aðra staði á landinu, gerir það að verkum, að ráðamenn Sjálfstfl. geta leyft sér það og hæla sér af að láta lögfesta, að útsvarsstigi Reykjavíkurbæjar skuli verða allt að 1/3 lægri en annars staðar á landinu.

Það má segja, að fulltrúum Reykjavíkur í þeirri nefnd, sem þetta frv. hefur samið, sé vorkunn, þó að þeir hafi lagt til eftir þeim gögnum, sem lágu fyrir, að útsvarsstigi fyrir Reykjavík skyldi vera svo lágur, miðað við aðra staði á landinu. Aftur á móti tel ég það vítavert af þeim fulltrúum, sem nefndina skipuðu og telja verður fulltrúa landsbyggðarinnar utan Reykjavíkur, að þeir skyldu fallast á frv. þetta, eins og það nú er. En annað verður ekki séð en um það hafi verið fullt samkomulag í nefndinni, eins og það var lagt fram a.m.k. hafa ekki komið fram nein mótmæli frá þeirra hendi. Slíkt verður að telja alveg furðulegt, þegar það er og haft í huga, að í frv. er gert ráð fyrir hróplegu misræmi, sem fyrst og fremst kemur til með að bitna á því fólki, sem búsett er utan Reykjavíkur.

Sú sérstaða, sem Reykjavíkurbær hefur í útsvarsálögum, miðað við aðra bæi og sveitarfélög, er vitanlega hreint hneyksli, sem er ekki hægt að una við. Það, sem á að gera til leiðréttingar á því misræmi, sem ríkir í þessum málum, er sú leið, sem við þrír þm. Alþb. leggjum til að verði farin, en það er, að útsvör þeirra fyrirtækja, sem staðsett eru í Reykjavík og hafa tekjur sínar víðs vegar að af landinu, skuli renna í sérstakan sjóð, sem síðan sé skipt á milli allra sveitar- og bæjarfélaga eftir ákveðnum reglum. Það virðist vera svo sjálfsögð og réttlát leið, að um það ætti ekki að þurfa að deila, sérstaklega nú, þegar ríkisvaldið er að taka ráðin af sveitarfélögunum um álagningu útsvara. Það má benda á, að sú ráðstöfun er vitanlega bein árás á það frelsi og sjálfstæði. sem sveitarfélögin hafa haft. Um það, eftir hvaða reglum útsvörin hafa verið lögð á, hafa engin frambærileg rök verið færð fram fyrir nauðsyn þess að lögfesta sérstakar álagningarreglur. Fram að þessu hefur það að miklu leyti verið á valdi bæjarstjórnanna og niðurjöfnunarnefndanna að ákveða þær reglur, sem útsvörin skulu vera lögð á eftir. Nú er lagt til að lögskipa ákveðnar reglur hér um, sem sé lögfesta sérstakan útsvarsskala, og ekki einn, heldur þrjá. Ekki hef ég orðið þess var, að sveitarfélögin hafi óskað eftir slíkri breytingu, nema síður sé.

Þá skal og ákveðið í lögum að leggja útsvar á veltu. Það voru til lagafyrirmæli um það áður. En breytingin á þeim lögum virðist fyrst og fremst vera gerð til þess að ná til samvinnufélaganna. Í frv. segir:

„Gjaldendum, þar með talin samvinnufélög, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, má gera að greiða útsvar af veltu þeirra, en velta telst heildarsala vöru, vinnu og þjónustu, jafnt hjá félagsmönnum sem utanfélagsmönnum, ef um samvinnufélög eða önnur félög er að ræða, áður en frá eru dregin nokkur gjöld vegna starfseminnar“.

Eins og lögin eru nú, eru kaupfélögin undanskilin því að þurfa að greiða útsvar af verzlun félagsmanna. Um þetta ákvæði hafa verið háðar hinar hörðustu deilur.

Umbjóðendur kaupmanna og heildsala hafa hvað eftir annað hafið hinar hörðustu deilur á kaupfélögin og fundið þeim flest til foráttu. Má í því sambandi minnast Björns heitins Kristjánssonar, kaupmanns og alþm. Hvað sem menn annars segja um kaupfélögin og starfsemi þeirra, verður það samt ekki hrakið, að mörg þeirra hafa verið og munu verða um ófyrirsjáanlega framtíð mikil lyftistöng fjölmargra sveitarfélaga. Á mörgum stöðum hafa kaupfélögin verið og eru einu atvinnurekendurnir. Þau hafa byggt hraðfrystihús viðkomandi staða, keypt skip og báta, reist verksmiðjur og komið á fót mismunandi iðnaði. Þetta eru lýðræðisleg samtök, byggð upp af fólkinu sjálfu og stjórnað af fulltrúum þess, sem meðlimir félaganna hafa sjálfir kosið. Á mörgum þeim stöðum, þar sem nú eru starfandi kaupfélög, sem hafa með höndum margs konar atvinnurekstur, hafði einkaframtakið gefizt beinlínis upp, lagt á flótta og skilið þorpin eftir án nokkurra framleiðslutækja. Á mörgum slíkum stöðum blasti við neyð og yfirvofandi hallærí. Þá var það, sem alþýðan á viðkomandi stöðum myndaði sín samtök á svíði verzlunar- og atvinnurekstrar og bjargaði sér þar með frá yfirvofandi hörmungum. Þessi starfsemi hefur frá fyrstu tíð verið ofsótt af sérhagsmunamönnum, svo sem stærri kaupmönnum og heildsölum, enda hefur Sjálfstfl. haft forustu fyrir rógsherferð á hendur kaupfélögunum. Nú telur Sjálfstfl. með stuðningi vina sinna og samherja í Alþfl. sig hafa bolmagn til þess á Alþingi að ná sér niðri á kaupfélögunum, m.a. með því að skattleggja viðskipti félagsmanna jafnt sem utanfélagsmanna.

Nú er það vitað, að rekstri kaupfélaganna er þannig háttað, að ef um verulegan ágóða er að ræða af viðskiptum, er þeim ágóða skipt á milli félagsmannanna, þegar búið er að greiða tilskildar prósentur í sjóði félagsins. Af þeim ágóða, sem meðlimirnir þannig fá fyrir viðskipti sín við kaupfélagið, verða þeir að sjálfsögðu að greiða sína skatta og gjöld sem af öðrum tekjum. Með þeirri breytingu, sem nú er fyrirhuguð, greiðir kaupfélagið fyrst skatta af allri verzlun, svo verður hver einstakur að greiða skatt eða útsvar af þeim ágóða, sem hann kann vegna viðskipta sinna við kaupfélagið að fá. Ég get ekki séð, að í þessu sé neitt réttlæti.

Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að greitt útsvar verði frádráttarbært, þegar reiknaðar verði útsvarsskyldar tekjur næsta ár á eftir. Rétt er að athuga, hvað þetta þýðir. Ef miðað er við þann skattstiga, sem á að gilda í kaupstöðum, lítur dæmið þannig út:

Útsvar af 40 þús. kr. nettótekjum lækkar um 1580 kr. Ég skal viðurkenna, að það er allmikil upphæð. Útsvar af 60 þús. kr. lækkar um 2800 kr. Útsvar af 100 þús. kr. lækkar um 6850 kr. Útsvar af 130 þús. kr. lækkar um 11125 kr. Það er auðséð, hverjir koma til með að græða mest á þessari breytingu. Það verða ekki láglaunamennirnir, sem á þeirri breytingu græða stórupphæðir, heldur hinir, sem hafa háar tekjur. Það verða þeir ríku í þjóðfélaginu, sem græða. Það eru alltaf þeir sömu, sem græða á kostnað hinna mörgu fátæku. Þessir menn græða mest á tekjuskattslækkuninni, og vitanlega eiga þeir að fá að græða líka í stórlækkuðu útsvari. Það þarf að vera samræmi í hlutunum að dómi hæstv. ríkisstj.

Í sambandi við þennan nýja skatt á kaupfélögunum er rétt að taka fram, að eins og eðlilegt er hafa kaupfélögin víðs vegar um land mótmælt því ákvæði frv., að veltuútsvar verði lagt á viðskipti meðlima kaupfélaganna. Kaupfélögin hafa bent á þá staðreynd, að samvinnuverzlanir víðs vegar um land hafa orðið að taka að sér ýmis viðskipti, sem eru bein þjónusta við fólkið, en eru sannarlega baggi fjárhagslega fyrir viðkomandi kaupfélag, en verzlanir einstaklinga taka ekki að sér af þeim sökum. Veltuútsvar á öll viðskipti meðlima kaupfélaganna mundi því verða alveg sérstök refsing fyrir þá, sem mesta þjónustu inna af hendi við fólkið á hverjum stað.

Þá hafa og sum kaupfélögin bent á, t.d. Kaupfélag Siglfirðinga, í álitsgerð, sem það gerði á aðalfundi sínum, að á meðan ekki er stóraukið eftirlit með framtölum verzlunarfyrirtækja í eigu einstaklinga eða hlutafélaga frá því, sem nú er, verður fyrst og fremst þarna um að ræða auknar og ósanngjarnar álögur á kaupfélögin, sem lögum samkvæmt eru háð strangri endurskoðun og árlegum aðalfundi, þar sem endurskoðaðir reikningar eru lagðir fram. Að kaupfélögin geti falsað framtal eða talið rangt fram, er afar ótrúlegt, enda er allur rekstur félaganna undir smásjá meðlimanna sjálfra. Hver aðalfundur kýs endurskoðendur fyrir félagið, og þeir eru ábyrgir gagnvart meðlimum félagsins fyrir því, að allt reikningshald sé í lagi. Vitanlega getur átt sér stað, að upp komi óreiða í einu kaupfélagi, alveg eins og hjá öðrum fyrirtækjum, en það er undantekning, sem bætt er úr strax og því verður við komið. Einstaklingsverzlanirnar geta hagað sínum framtölum að meira eða minna leyti eftir eigin geðþótta, enda allt skatteftirlit úrelt og í molum. Ekkert hefur fram komið af hendi hæstv. núv. ríkisstj., sem bendir til þess, að úr þessu eigi að bæta.

Í gildandi lögum um útsvör frá 1945 er ákvæði, sem segir, að jafna skuli niður útsvörum eftir efnum og ástæðum. Þetta ákvæði útsvarslaganna á eftir þessu frv. að fella niður. Ég tel það fjarri öllu lagi að fella slíkt ákvæði úr lögum, jafnvel þótt hægt sé að benda á, að niðurjöfnunarnefndirnar hafi í sumum tilfellum ekki farið eftir þessu ákvæði nema að litlu leyti. Þetta ákvæði hefur lagt niðurjöfnunarnefndunum þá skyldu á herðar að kynna sér hag og ástæður gjaldenda frekar en ella, auk þess sem gjaldendur hafa getað kært útsvör sín, ef þeir hafa talið, að nefndin hafi ekki kynnt sér ástæður gjaldenda, ef ekki eru teknar til greina veigamiklar ástæður, sem gjaldandinn hefur fram að færa, svo sem veikindi, slys og fleira þess háttar, auk þess sem það er mjög algengt, að menn, sem reka sjálfstæðan atvinnurekstur, sýna ár eftir ár taprekstur, þó að allar líkur bendi til hins gagnstæða. Undir slíkum kringumstæðum gátu niðurjöfnunarnefndirnar notað sér ákvæði laganna að leggja á útsvar eftir efnum og ástæðum. Með því að fella þetta ákvæði burt úr lögum er það að mestu útilokað, að hægt sé að leggja á útsvör nema eftir bláköldum tölum skattaskýrslnanna.

Við frv. hafa komið fram nokkrar minni háttar brtt. frá meiri hl. félmn. Þessar brtt. eru flestar mjög smávægilegar og breyta litlu aðalgöllum frv. Það er t.d. lagt til, að niður verði felld útsvör á mjólkurbú og sláturhús. Þetta er til bóta frá því, sem áður var. Þá leggur meiri hl. n. til, að ekki verði lagaleg skylda að leggja útsvör á ellilaun. Er það lagt í vald niðurjöfnunarnefnda, hvort lögð skuli útsvör á ellilaun eða ekki. Það má benda á það, að fjöldamörg bæjarfélög hafa undanfarin ár alls ekki lagt útsvör á ellilaun, a.m.k. það sveitarfélag, sem ég þekki bezt til í, hefur ekki gert það. Og það eru mörg önnur, sem hafa ekki gert það, svo að hér er ekki neitt nýtt á ferðinni, enda er þetta lagt að nokkru leyti, að mér skilst, á vald niðurjöfnunarnefndanna, hvort skuli lagt útsvar á ellilaun eða ekki. Aftur á móti er því ákvæði haldið áfram að lögfesta veltuútsvar í ríkara mæli en áður. Með því er raunverulega nýr almennur skattur á allan almenning, sem mun þýða nýjan skatt á ýmsar rekstrarvörur og neyzlu. Þannig virðist skattaæði núv. stjórnarflokka óstöðvandi, og allt stefnir að sama marki, að auka verðbólguna og rýra lífskjör almennings.

Þá hafa þeir hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) og hv. 4. landsk. (HV) flutt brtt. á þskj. 500 um landsútsvar, þannig að þar tiltekin fyrirtæki skuli greiða landsútsvar, er renni í jöfnunarsjóð sveitar- og bæjarfélaga, og skiptist heildarlandsútsvarið milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við íbúatölu þeirra. Þá leggja sömu þm. til, að veltuútsvörin falli niður á sannanleg viðskipti félagsmanna kaupfélaganna. Þá er og lagt til, að í öðrum kaupstöðum — utan Reykjavíkur – og sveitarfélögum skuli jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum, þ.e.a.s. taka upp að mestu leyti það ákvæði í l., sem frv. gerði ráð fyrir að fella úr gildi. Allar eru þessar breytingar til stórbóta frá því, sem er í frv., þó að ég telji hins vegar galla frv. eftir sem áður alveg yfirgnæfandi, enda tekið fram í grg. frv., að hér sé aðeins um bráðabirgðalausn að ræða. Þau rök, sem þar eru færð fyrir nauðsyn þess að breyta útsvarslöggjöfinni frá 1945, án þess þó að um varanlega lausn sé að ræða, get ég á engan hátt viðurkennt. Ég sé ekkert, sem kallar á það að samþykkja þetta frv. og gera þær breyt., sem hér er lagt til að verði gerðar, og sé ekkert, sem mæli með því. Ég sé aftur á móti margt og mjög mikið, sem mælir á móti því, að það verði samþykkt.

N. sú, sem frv. samdi, viðurkennir, að enn hafi ekki verið lokið við endurskoðun laga um nýja tekjustofna fyrir bæjarfélögin, einmitt það málið, sem mest veltur á fyrir sveitarfélögin. Það er vitað, að öll sveitarfélög utan Reykjavíkur vantar stórlega tekjustofna. Ríkisvaldið hefur mörg undanfarin ár lagt síauknar fjárhagslegar byrðar á herðar sveitarfélaganna án þess að tryggja þeim nýja tekjustofna á móti vaxandi útgjöldum. Flestu af því, sem ríkisvaldið hefur samþykkt að láta sveitar- og bæjarfélögin greiða, er varið til nauðsynlegra og nytsamra hluta, það skal viðurkennt, sem menn eru sammála um að ekki hafi verið unnt að komast hjá að lögleiða. En jafnhliða því, að hin ýmsu lög um slík mál voru sett, sem vissulega horfa í framfaraátt á sviði félagsmála og fræðslumála, láðist ríkisvaldinu algerlega að sjá sveitar- og bæjarfélögunum fyrir nauðsynlegum tekjum á móti. Þetta hefur vitanlega haft þær afleiðingar, að útsvör sumra bæjar- og sveitarfélaganna hafa verið svo há, að til vandræða hefur horft fyrir gjaldendur. Sú breyt., sem nú er fyrirhuguð á útsvarslöggjöfinni, bætir á engan hátt úr þessu ástandi, nema síður sé. Hér er aðeins lagt til að lögfesta óþolandi misræmi milli gjaldendanna, allt eftir því, hvar þeir eiga heima, hvort þeir eiga heima í Reykjavík eða úti á landi. Slíkt misræmi er óþolandi, og á því verður að fást leiðrétting. En varanleg lausn á þessu ófremdarástandi óg misræmi á milli þegna þjóðfélagsins, allt eftir því, hvar þeir hafa búsetu, fæst ekki nema með því, að hið opinbera útvegi sveitar- og bæjarfélögunum nýja, aukna tekjustofna. Þar í liggur sú eina og rétta og varanlega lausn á þessu máli. Allt annað er vandræðafálm út í loftið, sem stefnir þó örugglega í þá átt að auka misræmi á milli gjaldendanna, allt eftir því, hvar þeir eru búsettir. Ég get ekki fylgt þessu frv., eins og meiri hl. félmn. leggur til að það verði, og mun því greiða atkv. á móti frv.