27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

112. mál, útsvör

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Frsm, meiri hl. fjhn., 3. þm. Sunnl. (GuðlG), fylgdi úr hlaði nál. fjhn. varðandi frv. það, sem hér er til umr., á fundi í þessari hv. d. Að sjálfsögðu átti ræða hans að vera frekari rökstuðningur fyrir frv. því, sem hér er til umr., og bragarbót á þeirri grg., sem frv. fylgir. En ég verð að segja fyrir mig, að ég fann ekki í ræðu þessa hv. frsm. þau svör, sem ég hafði vonazt eftir að hann mundi flytja, við þeim spurningum, sem fram höfðu verið bornar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem talað hafa í þessu máli, hafa lagt fram ýmsar fyrirspurnir varðandi þetta frv., og það má segja, að það sé e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að fara að endurtaka þær. En með því að enn er þeim ekki fyllilega svarað, ætla ég að leyfa mér að endurtaka nokkrar þeirra.

Fyrsta spurningin, sem ég vil leyfa mér að beina til hv, frsm., er þessi: Hver er í raun og veru orsök þess, að þörf er að gera nú á þessu þingi bráðabirgðabreyt. á l. nr. 66 frá 12. apríl 1945, um útsvör? Hafa sveitarfélögin óskað eftir þessari breytingu í þeirri mynd, sem hún liggur hér fyrir Alþ.? Hafa þau óskað eftir því, að þetta mál fái í raun og veru þá afgreiðslu, sem það virðist ætla að fá á þessu þingi?

Mér er það alveg ljóst, að sveitarstjórnirnar óska eftir endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaganna almennt, en það er allt annað en hér á sér stað. Ég er viss um, að t.d. bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar og hreppsnefndin á Raufarhöfn mundu ekkert hafa á móti því, að hv. Alþ. endurskoðaði útsvör síldarverksmiðja ríkisins og í þeirri endurskoðun yrði tryggt, að það endurtaki sig ekki, að síldarverksmiðjur ríkisins greiði álíka há útsvör til þessara bæjarfélaga og smáverzlanir hér við Laugaveginn og Bankastræti greiða til Reykjavíkurbæjar. Ég er viss um það, að sveitarfélögin, bæði hrepparnir og kaupstaðirnir, hefðu heldur ekkert á móti því, að tekjustofnar sveitarfélaga yrðu endurskoðaðir með það fyrir augum, að eitthvað af þeim fjölmennu fyrirtækjum í landinu, sem eru algerlega útsvarsfrjáls, yrðu látin bera einhverjar útsvarsbyrðar. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að sveitarfélögin mundu fagna því.

Mig langar einnig til að fá vitneskju um það hjá hv. frsm., hver er hin raunverulega forsenda fyrir því, að veltuútsvarsgreiðendur í Reykjavík fá skv. þessu bráðabirgðabreytingafrv. heimild til þess að draga frá við framtal vegna veltuútsvars ýmis gjöld, svo sem söluskatt, gjald til útflutningssjóðs skv. 20. gr. l. nr. 86 1956, gjald af innlendum tollvörutegundum skv. l. nr. 60 frá 1939, skemmtanaskatt skv. 1. tölulið 2. gr. laga nr. 56 1927 og gjald af kvikmyndasýningum skv. l. nr. 281952, en veltuútsvarsgreiðendur utan Reykjavíkur, í kaupstöðum t.d., fá ekki þessa heimild. Það má vel vera, að til séu frambærileg rök fyrir þessu, ég skal ekkert um það segja, ég hef ekki heyrt þau. Það getur vel verið, að þegar hv. frsm. gefur skýringar á þessu, þá séu það þau rök, sem hægt er að taka til greina.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) flutti brtt. einmitt varðandi þetta atriði, en sú brtt. var felld, og í ræðu hv. frsm. komu engin rök fyrir andstöðu stjórnarliða gegn brtt.

Í 5. gr. frv., undir c-lið, er umræddur frádráttur heimilaður veltuútsvarsgreiðendum í Reykjavík, en í 6. gr., c-lið, er veltuútsvarsgreiðendum utan Reykjavíkur gert að greiða veltuútsvar án tillits til þessa frádráttar. Mér finnst æskilegt, að undir þessum umr. verði upplýst, hvers vegna veltuútsvarsgreiðendum er mismunað eftir því, hvar þeir búa á landinu.

Það hafa verið skiptar skoðanir um það, hvort þessu frv. um bráðabirgðabreyt. á útsvarsl. sé stefnt gegn sveitarfélögunum eða ekki. Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég tel, að svo sé. Og það væri fyllilega ástæða til að láta fram fara athugun á afstöðu Alþ. til sjálfstæðis sveitarfélaganna á liðnum árum. Ég er andvígur þessu frv. og mun því við næstu atkvgr., eins og ég hef þegar gert, greiða atkv. gegn því.