04.12.1959
Neðri deild: 12. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Karl Guðjónsson:

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör, svo langt sem þau ná. Það má vel vera, að einhverju af mínum spurningum eða því, sem í þeim fólst efnislega, hafi hann áður svarað. Ég get viðurkennt það, að ég hef ekki setíð hér alveg stöðugt undir umr., og eru mér þá manna dæmin og það frá ráðh. sjálfum, þó að eitthvað úr umr. hafi farið fram hjá mér. Ég mun hins vegar taka orð hans trúanleg um það, að svör sé að finna við þeim, og kynna mér þau á sinni tíð.

Varðandi það, sem hæstv. fjmrh, hefur sagt um afgreiðslu fjvn. á fjárlögum undanfarin ár og með sérstakri ádeilu á mig sem formann n. s.l. ár, þá vil ég taka það fram, að þar hefur einnig nokkuð farið fram hjá honum. Hygg ég þó, að hann hefði haft sæmilega gott af því að vera hér í svolítilli kennslustund, sem ég hafði raunar hér og ætlaði honum sem nýliða í afgreiðslu fjárlaga, sem mér er alltaf að skiljast betur og betur, að hefði ekki veitt af. Þó að ég fari ekki nánar út í það hér og hann eigi þess kost að lesa í þingtíðindum, hvað ég sagði um það, ekki síður en ég hans svör, þá vil ég nota tækifærið, vegna þess að hann var ekki viðstaddur, þegar ég leiðrétti hér það, sem hann fór rangt með í einni af ræðum sínum, — það mun reyndar hafa verið í Sþ. og utan dagskrár, — um afgreiðslu fjárlaga. Hann fullyrti þar, að ég bæri ábyrgð — ekki á því, sem hann talaði um núna, enda voru það smámunir, að endanleg afgreiðsla fjárlaga fór fram hinn 28. febr. árið 1957, og er í seinna lagi, ég skal viðurkenna það hreinlega. Ég hef áður rakið það, að þar er siður en svo, að fjvn. sé um að kenna. Enn fremur vil ég taka það fram, að þegar fjárlagaafgreiðsla hefur lengst dregizt nú í seinni tíð, á þessu yfirstandandi ári, þá voru fjárlög ekki afgreidd fyrr en 29. apríl, og ég verð að játa það, að mér leið ósköp illa undir því sem formanni fjvn. að þurfa að bíða svo lengi með afgreiðslu fjárlaga. En það ætla ég, að ef hæstv. fjmrh. veit það ekki nú þegar, þá muni hann komast að því í væntanlegri lífsreynslu sinni sem ráðh., að það er mjög ósanngjarnt að ætlast til þess, að fjvn. afgreiði fjárlögin, áður en ríkisstj. er tilbúin að gera það. Og ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að á þessu yfirstandandi ári var það alls ekki stjórn, sem ég studdi að einu eða neinu leyti, sem að afgreiðslu fjárlaga stóð, heldur þvert á móti stjórn Alþfl., en sú stjórn þó, sem hæstv. fjármálaráðherra studdi eða lofaði að verja vantrausti.

Ég vísa þess vegna til föðurhúsanna öllum ásökunum á fjvn. um það, að seint hafi gengið um afgreiðslu fjárlaga þessa árs, því að þótt hæstv. fjmrh. vitnaði í það sem sérstakt hneyksli, að fjárlagafrv. hefði legið hjá fjvn. í 4 mánuði haustíð 1956 og fram til febrúarmánaðar 1957, þá er það alls ekki það lengsta, sem fjárlagafrv. hefur legið hjá n. Það var a.m.k. lengur á s.l. hausti og fram eftir yfirstandandi ári og það á ábyrgð allt annarra manna en mín og þeirra manna, sem þá skipuðu meiri hl. í fjvn.