27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2859 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

112. mál, útsvör

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Afnám lágra tekjuskatta láglaunamanna var í vetur haft að skálkaskjóli til þess að tryggja niðurfellingu margfalt hærri skatta hinna tekjuhærri þjóðfélagsþegna, en sömu og þó margfalt hærri upphæðum náð inn aftur til ríkisins með neyzlusköttum, sem koma harðast niður á barnmörgum fjölskyldum. Ekki þykir þó nóg að gert í því efni að bæta hag hátekjumanna. Þrátt fyrir breytingar á skattheimtu til ríkisins til hagsbóta fyrir hátekjumenn, urðu þeir eftir sem áður að sætta sig við, að sveitarfélög hefðu allfrjálsar hendur um álagningu útsvara til að standa straum af kostnaði við rekstur sveitarfélaganna. Og við þá skattlagningu urðu auðmenn að sætta sig við það, að álagningunni væri ekki hagað á þann veg, að þeir greiddu mest, sem stærstar hafa fjölskyldurnar, eins og átti sér stað um hina stórauknu neyzluskatta til ríkisins, heldur urðu menn að greiða útsvör í nokkru hlutfalli við tekjur og efni og ástæður að öðru leyti.

Lög um útsvör hafa fram til þessa tryggt sveitarfélögum rétt til þess að afla útsvaranna, en sveitarfélögunum að öðru leyti gefið frjálsræði um tilhögun álagningarinnar, sem beinlínis var gert ráð fyrir að færi fram með hliðsjón af efnum og ástæðum gjaldenda: Við þetta frelsi sveitarfélaganna hafa hinir tekjuhærri skjólstæðingar ríkisstjórnarflokkanna ekki getað unað, eftir að hafa fengið blóð á tönnina við breyt. á tekjuskattsl. í vetur. Og með því frv., sem hér liggur fyrir, er stigið fyrsta skrefið í þá átt að svipta sveitarstjórnir réttinum til að ráða tilhögun um útsvarsálagningu, og með því stíga ríkisstjórnarflokkarnir um leið annað skrefið í þá átt að létta beinum sköttum af hinum tekjuhærri á kostnað þeirra, sem minni hafa tekjurnar. Með því að skipa sveitarstjórnum fyrir um, eftir hvernig útsvarsstiga skuli farið við álagningu, er verið að svipta þær því frelsi, sem þær hafa haft til að meta sjálfar hverju sinni, hvernig útsvarsálagningunni verði bezt hagað. Og með því að lögbjóða, að lækka skuli þá tekjuhæð hvers gjaldanda, sem lögð er til grundvallar við álagningu, um þá upphæð, sem útsvar hans nam árið fyrir álagningu, hafi hann greitt það að fullu fyrir áramót, eru langsamlega mest lækkuð útsvör þeirra; sem hæstar hafa tekjurnar, svo sem margsýnt hefur verið fram á við þessar umr. Þessarar lækkunar eiga þeir að njóta, sem hæst hafa haft útsvörin og bezta aðstöðuna til að greiða þau, því að þrátt fyrir stighækkandi útsvör eiga þeir, sem hæstu útsvörin greiða vegna hæstu teknanna, að sjálfsögðu hægast með að greiða þau.

Samkvæmt þeim útsvarsstiga, sem nú á að lögbjóða í kaupstöðum eða,í Reykjavík, á t.d. einhleypur maður með 130 þús. kr. skattskyldar tekjur að greiða 27390 kr. í útsvar og á þá eftir um 102600 kr. af tekjum sínum til annarra nota fyrir sína einu persónu. En fjölskyldumaður með 3 börn og 60 þús. kr. tekjur á af þeim að greiða 4290 kr. í útsvar og á þá eftir um 55700 kr. til afnota fyrir 5 manna fjölskyldu, og dylst auðvitað engum, hvor þessara manna á auðveldara með að greiða útsvör sín, ekki sízt nú eftir stórfellda hækkun neyzluskatta og stórlækkun á tekjuskatti hins tekjuhærra einhleypings. Og auðsýnt er, hvor þeirra á hægara um vík að njóta frádráttarhlunnindanna vegna greiðslu á útsvari fyrir áramót. Takist hinum tekjuhærri að greiða útsvarið fyrir tilskilinn tíma, en fjölskyldumanninum ekki, þá greiðir fjölskyldumaðurinn lækkunina á útsvari einhleypingsins, með því að sveitarfélagið þarf að fá jafnháa heildarupphæð útsvara þrátt fyrir lækkun á útsvörum þeirra, sem greiða fyrir áramót, og verður því að hækka útsvörin sem frádrættinum nemur.

En svo langt hefur gengið áróður ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að láta lögbjóða röskun á mati skattskyldra tekna vegna greiðslu á útsvari fyrir tilskilinn gjalddaga, að þeir hafa beinlínis reynt að láta fólk trúa því, að þessi nýja regla valdi lækkunum á heildarútsvörum borgaranna. Ef tekjuöflun sveitarfélaganna væri svo auðveld, þá væri margt hægara en nú er. En vitaskuld getur ekkert sveitarfélag lækkað heildarupphæð útsvara, nema annaðhvort komi til: afnám gjalda eða nýjar tekjur, en um hvorugt er að ræða, þótt útsvör séu dregin frá skattskyldum tekjum einstakra gjaldenda. Sú útsvarsupphæð, sem sveitarfélagið þarf að leggja á, er hin sama eftir sem áður, en hins vegar veldur þessi regla breytingu á útsvörum til gjaldenda innbyrðis, hinum lægra launuðu í óhag. Þegar fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna ganga þó ekki svo langt að halda fram blekkingunni um almenna lækkun útsvara vegna þessarar reglu um frádrátt vegna greiðslu á útsvari fyrra árs, þá er tekin upp sú vörn, að sveitarfélögin muni njóta góðs af henni vegna greiðari útsvarsinnheimtu. Og ekki neita ég því, að svo muni vera, þótt mér þyki ekki sá kostur nægja til þess, að hægt sé að fylgja því, að hún verði tekin upp.

Við 2. umr. um þetta frv. var felld till. um að nema úr frv. ákvæði um skyldu sveitarfélaga til að draga frá skattskyldum tekjum gjaldenda útsvar fyrra árs, hafi það verið greitt að fullu fyrir áramót. Hv. 11. landsk. þm. (GJóh) og ég höfum talið rétt að freista þess að fá fram þá breytingu við 3. umr. um frv., að sveitarstjórnum sé í sjálfsvald sett, hvort þær nota þetta ákvæði eða ekki, og flytjum á þskj. 528 brtt, í þá átt.

Ef sveitarstjórnir eru jafnsannfærðar og hv. þm. ríkisstj. um ágæti frádráttarreglunnar, þá mun víst ekki standa á þeim að nota sér heimildina. En ef einhverjir kynnu að líta meir á þær innbyrðis breytingar á útsvörum gjaldenda, sem af henni getur leitt, þá teljum við rétt, að þeim sé heimilt að ákveða, að reglunni skuli ekki beitt. Við teljum alla vega rétt og sanngjarnt, að sveitarstjórnirnar fái sjálfar að velja hér á milli.

Þá leggjum við til, að ákvæðunum verði breytt á þann veg, að ekki sé skylt, að allt útsvarið sé greitt fyrir áramót næsta á undan niðurjöfnun, heldur verði frá tekjunum dreginn sá hluti útsvarsins, sem greiddur hefur verið fyrir áramót, mínus það, sem á vantar, að staðið hafi verið við fyrirframgreiðslu, en skv. ákvörðun sveitarstjórnarinnar er gjaldendum gert að greiða 50% af útsvari fyrra árs fyrir 1. júní það ár, sem útsvar er á lagt. Það er sveitarstjórn að vísu mikils virði, að útsvör séu greidd að sem mestu leyti fyrir áramót, en það er ekki síður mikilvægt, að þau séu greidd jafnhliða því, sem greiðsluþörf sveitarfélagsins kemur til, og að sem næst helmingur útsvara sé greiddur á miðju ári.

Till. þessa berum við fram í tvennu lagi. Í fyrsta lagi, að frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna greiðslu útsvars fyrra árs verði miðaður við það, sem greitt hefur verið af útsvarinu fyrir áramót, án tillits til þess eingöngu, hvort það hefur verið greitt að fullu eða ekki, og að sveitarstjórnum sé í sjálfsvald sett við hverja niðurjöfnun, hvort þær beiti reglunni eða ekki. Og í öðru lagi till. um, að frádrátturinn sé ekki gefinn á þeim hluta fyrirframgreiðslu, sem ógreiddur er á síðasta gjalddaga, þ.e. 1. júní. Við teljum, að ef það er á annað borð samþykkt, að draga megi frá tekjum greitt útsvar, og það sé í og með gert til þess að örva innheimtu vegna sveitarfélaganna, þá sé það engu síður nauðsynlegt, að staðið sé í skilum um fyrirframgreiðslur, en ekki sé nóg, að gjaldendur greiði allt útsvar í árslok. Af launamönnum eru útsvör yfirleitt tekin viku- eða mánaðarlega á vinnustað, og þeir eru að jafnaði búnir að greiða tiltölulega hærri hluta af útsvörum sínum á miðju ári en hinir, sem taka ekki laun sín hjá öðrum og hafa margir hverjir hærri tekjur og útsvör, en mundu samkvæmt frv., eins og það er, njóta fullrar ívilnunar, þótt þeir snertu ekki við útsvarsgreiðslu fyrr en rétt undir áramótin.

Ég vænti þess, að þótt einhverjir hv. þm. stjórnarflokkanna felli sig ekki við fyrri hluta brtt. um, að sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett, hvort þau beita frádráttarreglunni, þá geti þeir fylgt síðari hluta brtt. um, að við frádráttinn sé tekið tillit til þess, hversu gjaldandi hefur staðið í skilum um fyrirframgreiðslu útsvarsins til sveitarsjóðsins.

Eins og ég minntist á áðan, er þetta frv. annað sporið á þessu þingi í þá átt að létta beinum sköttum af hátekjumönnum, og er það í fullu samræmi við þá jafnréttisbaráttu Alþfl. og Sjálfstfl., sem rekin er undir kjörorðinu: Jafnir skattar hjá öllum án tillits til tekna. Og að hinu leytinu er um að ræða viðleitni flokkanna til þess að skerða rétt sveitarfélaganna og gera þau háðari ríkisvaldinu en verið hefur. Þessar breyt. á útsvarsl. eru réttlættar með því, að til þessa hafi útsvarsstigar verið svo mismunandi á hinum ýmsu stöðum á landinu, að setja þurfi löggjöf um samræmingu þeirra, og látið líta svo út, að með þessum lögum sé verið að samræma þá. Þessi áróður hefur gengið svo langt, að jafnvel hv. frsm. 2.

minni hl. heilbr.- og félmn. taldi við umr. um þessi mál, að skerðingin á rétti sveitarfélaganna með þessu frv. væri lítilvæg á móts við að fá þessa samræmingu fram.

Gallinn er aðeins sá, að þetta frv. sviptir sveitarfélögin óneitanlega aldagömlu frelsi um niðurjöfnun gjalda innan sveitarfélaganna, en það bætir á engan hátt úr misræminu á útsvarsstigunum og misrétti milli gjaldenda hinna ýmsu sveitarfélaga. Frv. aðeins viðurkennir misréttið og staðfestir það, en afnemur það ekki og bætir í engu úr því.

Svo sem getið er í grg. fyrir þáltill., sem við þrír þm. Alþb. höfum flutt um landsútsvör, eru orsakirnar til þess, að útsvarsstigar sveitarfélaganna eru mismunandi, annars vegar eðlilegar vegna þess, að þarfir sveitarfélaganna eru misjafnar og t.d. aðstaða dreifbýlisins öll önnur en þéttbýlisins til þess að veita þá þjónustu, sem um getur verið að ræða í kaupstöðum. Þess vegna er eðlilegt, að útsvarsstigar geti verið hærri í þeim sveitarfélögum, sem jafnframt geta veitt meiri þjónustu. Hins vegar er svo sú orsök til misræmis útsvarsstiganna, sem þáltill. er ætlað að ráða bót á, þ.e. hið hróplega misrétti, sem kemur fram í því, að eitt sveitarfélag sérstaklega nýtur þeirrar sérstöðu að fá stórkostlegar útsvarstekjur frá fyrirtækjum, sem taka tekjur sínar frá öllum landsmönnum, — fyrirtækjum, sem þetta eina sveitarfélag fær allar tekjur frá, en íbúar allra sveitarfélaga greiða til. Hafi verið ástæða til að breyta útsvarsl. á þessu þingi, var það fyrst og fremst til þess að bæta úr þessu misrétti. Það er ekki gert, heldur hefur meiri hl. þessarar hv.d. beinlínis fellt að bæta úr þessum rangindum, sem landsbúar utan Reykjavíkur eru beittir, en misréttið staðfest með því að lögbjóða 3 mismunandi útsvarsstiga, lægstan fyrir Reykvíkinga, en hærri fyrir aðra landsmenn. Vegna þeirra sérstöku hlunninda Reykjavíkur að geta setið ein að útsvörum landsfyrirtækja, hefur höfuðborgin getað státað af lægri útsvarsstiga á einstaklinga en aðrir kaupstaðir, og hefur þó munurinn þess vegna átt að geta verið enn meiri en verið hefur. Mismunurinn á útsvarsstiga Reykjavíkur og annarra kaupstaða hefur síðan verið notaður af íhaldinu í Reykjavík, sem með stjórn borgarinnar hefur farið, svo og af íhaldsmönnum í þeim kaupstöðum, þar sem þeir fara ekki með stjórn, til þess að halda fram þeirri kenningu, að orsakasamhengi væri á milli þess, að í Reykjavík væri stjórn Sjálfstfl. og þar væri lægri útsvarsstigi en annars staðar. Morgunblaðið hefur fyrir hverjar bæjarstjórnarkosningar birt myndasiður af misstórum kössum og pokum, sem áttu að tákna útsvarsbyrðar manna í hinum einstöku sveitarfélögum, og kassi eða skjatti Reykvíkinga verið þar snöggt um minni en annarra, en þess vandlega gætt, að hvergi væri á það minnzt, að utanborgarmenn bæru í sínum byrðum hluta af því, sem Reykvíkingar ættu með réttu að bera. Myndamótin voru síðan send íhaldsmönnum í þeim kaupstöðum, þar sem þeir voru í stjórnarandstöðu, til þess að þeir gætu sýnt samborgurum sínum fram á, að ekki þyrfti annað en fela þeim stjórnina, til þess að gjaldapoki bæjarbúanna skryppi saman í Reykjavíkurstærð. Vegna þessarar sérstöðu Reykjavíkur um einkarétt til útsvarsálagningar á landsfyrirtæki hafa ráðamenn hennar haft úr meira að spila, miðað við íbúatölu, en önnur bæjarfélög, en samtímis getað haft útsvör á hliðstæðar tekjur einstaklinga lægri en aðrir bæir.

Svo margt illt sem segja má um það frv„ sem hér liggur fyrir, má þó segja, að það sé ekki einskis virði að fá nú með frv. viðurkennt, að að óbreyttum útsvarsl. varðandi landsútsvör telja flutningsmenn og stuðningsmenn þess óhugsandi, að hægt sé að ætlast til þess, að sami útsvarsstigi geti gilt úti á landi annars vegar og í Reykjavík hins vegar. Kassa- og pokaáróður íhaldsins um orsakasamhengið milli íhaldsstjórnar í Reykjavík og lægri útsvarsstiga þar en annars staðar er að engu gerður. En þeir sömu menn, sem með þessu viðurkenna, að útsvörin hafi verið lægri í Reykjavík en í öðrum kaupstöðum einungis vegna sérstöðu og sérréttinda Reykjavíkur, ætla sér samt ekki að afnema þessa sérstöðu og þau rangindi, sem landsmenn utan Reykjavíkur eru beittir. Nei, nei, þeir staðfesta rangindin með því að lögfesta útsvarsstiga Reykvíkinga og tvo hærri útsvarsstiga fyrir aðra landsmenn.

Það er því grundvallarmisskilningur, að þetta frv. miði að því að samræma útsvarsstiga sveitarfélaganna. Öðru nær, ósamræmið, sem verið hefur og stafar af misrétti, því, að sveitarfélögum er mismunað í tekjuöflun, er lögfest, en beinlínis fellt að bæta úr þeim rangindum, sem valda misháum útsvarsstigum.

Það, sem fyrst og fremst þurfti að gera varðandi breyt. á útsvarsálagningu á landsmenn, var að tryggja sem mest jafnrétti milli sveitarfélaga með því að lögfesta landsútsvör á þau fyrirtæki, sem reka starfsemi, sem nær til landsins alls, — landsútsvör, sem síðan yrði skipt milli allra sveitarfélaga í landinu. Eftir að sveitarfélögunum hefði verið gert jafnhátt undir höfði, hefði verið hægt að ætlast til þess, að sveitarfélög landsins legðu á íbúana sambærileg gjöld. Þess ber hins vegar að geta varðandi lögfestingu ákveðins útsvarsstiga fyrir einstakt sveitarfélag, að það er jafnvel ekki endilega sjálfsagt, að sveitarfélag geti eða kjósi að nota sama útsvarsstiga tvö ár í röð. Þarfirnar fyrir fé í sveitarsjóðinn geta verið misjafnar frá ári til árs. Eitt árið getur hagað svo til, að leggja þurfi í fjárfrekar framkvæmdir fram yfir það, sem vanalegt er, byggja skólahús, tryggja atvinnuöryggi með stofnsetningu atvinnufyrirtækis, og útsvarsstigi þurfi því að vera hærri. Annað árið getur útsvarsstigi verið lægri, vegna þess að um slíkar framkvæmdir er ekki að ræða eða vegna góðæris og hárra tekna, sem veldur því, að sami útsvarsstigi gefur miklum mun hærri heildarútsvör en árið áður, og þá er unnt að lækka útsvarsstigann. Þetta á að vera málefni sveitarfélagsins sjálfs.

En nú gerist það, að hv. Alþ. tekur sig til og skipar svo fyrir, að gefi útsvarsstiginn sjáanlega of mikið, þá skuli samt lagt á eftír honum, en útsvörin síðan hvert um sig lækkuð þannig, að álagningarupphæðin og áætlunarupphæðin jafnist. Hvernig kemur það út? Við skulum taka dæmi. Skv. þessu frv. skipa lögin svo fyrir, að persónufrádráttur sé fyrir konu 300 kr., fyrir 1. barn 1000 kr., fyrir 2. barn 1100 kr. og fyrir 3. barn 1200 kr., þ.e.a.s. 4100 kr. skuli muna á útsvari manna með jafnháar tekjur, ef annar er einhleypur, en hinn kvæntur og á 3 börn. Hvað verður um þetta lagaboð, ef útsvarsstigi, sem skylt er að leggja á eftir, reynist 20% of hár? Við skulum segja, að einhleypingurinn hafi skv. stiganum átt að bera 6000 kr. útsvar, en hinn kvænti með 3 börnin þá 6000 kr. mínus 4100 kr., þ.e.a.s. 1900 kr. Nú skal skv. lögunum í þessu tilfelli lækka bæði útsvörin um 20%. Einhleypingurinn lækkar um 1200 kr., úr 6000 í 4800 kr., en kvænti maðurinn með 3 börnin — útsvar hans lækkar auðvitað minna. Það er í samræmi við jafnréttið og bræðralagið. Það lækkar ekki um 1200 kr., heldur um 380 kr., úr 1900 kr. í 1520 kr. Nú er mismunurinn á útsvörum þessara tveggja manna orðinn 4800 kr. mínus 1520 kr., eða 3280 kr. í stað 4100, áður en útsvörin voru lækkuð, þ.e.a.s. persónufrádrátturinn lækkar vitaskuld um 20% eða um 820 kr. Persónufrádrátturinn, sem skv. lögum skal vera hjá þessum manni 4100 kr., er nú líka skv. lögum kominn niður í 3280 kr. Það yrði líklega ekki fyrir aðrar stofnanir en gerðardóma að skera úr, ef gjaldandinn heimtaði sinn lögskipaða persónufrádrátt og engar refjar.

Í þessu tilfelli hefði það hins vegar gerzt hjá flestum sveitarstjórnum, ef þær fengju að fara með sín mál áfram sem hingað til, að þær hefðu lækkað sjálfan stigann, fengið í byrjun reiknað út hjá skýrsluvélum, hvað upphaflegi stiginn gæfi um of, og síðan lækkað hann með aðstoð skýrsluvéla, ef þörf krefur, og jafnvel gert annað jafnframt, fyrst hægt var að lækka útsvörin á annað borð. Þær hefðu hækkað persónufrádráttinn, þveröfugt við það, sem þeim er nú skipað að gera. Ýmsum sveitarstjórnarmönnum mundi nefnilega þykja það sanngjarnt, að ef unnt væri að lækka útsvör, þá fengju barnafjölskyldur ekki hvað sízt að njóta þess. Í sumum tilfellum mundu sveitarstjórnirnar nota lækkunina til þess að lækka sérstaklega útsvör þeirra einstaklinga, sem erfiðast eiga. Þetta gera niðurjöfnunarnefndir í kaupstöðum. Og það er alrangt, sem hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. hélt fram í framsöguræðu sinni, að ekki sé lengur um það að ræða, að lagt sé á gjaldendur eftir efnum og ástæðum.

Nei, það er ástæðulaust og hættulegt, að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á sveitarstjórnum um tilhögun útsvarsálagningar. Ég ítreka það, að það, sem nú hefði átt að gera, var að tryggja framgang landsútsvara til þess að veita sveitarfélögunum jafnrétti. Fyrst þarf að uppræta eina helztu orsökina til mishárra útsvarsstiga, og þá kemur samræmið sem afleiðing af því. Jafnframt hefði þurft að tryggja stóraukið skatteftirlit með skipulögðum grundvallarrannsóknum ákveðins hluta framtala eftir hverja niðurjöfnun og hörð viðurlög við skattsvikum, svo sem aðrar þjóðir hafa gert. Það hefði leitt til aukins jafnréttis innbyrðis milli íbúa sveitarfélaganna og mundi stuðla að því að gera sveitarfélögum kleift að lækka útsvarsstigann. Þá fyrst væri einhver glóra í baráttu framsóknarmanna fyrir að létta á veltuútsvörunum. Það er alveg sama sagan um landsútsvör og mismunandi skattstiga annars vegar og veltuútsvör og skatteftirlitið hins vegar. Fyrst þurfa að koma landsútsvör, og þá er hægt að ætlast til samsvarandi útsvarsstiga, og fyrst þarf að tryggja eftirlit með framtölum, og eftir það er unnt að draga úr veltuútsvörunum. En afnám veltuútsvara á þessu stigi mundi þýða skattfrelsi flestra fyrirtækja og þar af leiðandi stórhækkun á útsvörum almennings. En ekki er ólíklegt, að með þessu frv. sé einmitt ætlunin að fikra sig að því, a.m.k. segir svo í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta: „Í fjórða lagi þykir verða að gera ráð fyrir veltuútsvari á þessu ári, eins og tíðkað hefur verið í öllum kaupstöðum og fleiri sveitarfélögum um langt skeið.“ Loforðin um, að þessu verði breytt, liggja í loftinu.

Þetta frv. skerðir sjálfsforræði sveitarfélaga landsins. Það lögfestir rangindin, sem íbúar sveitarfélaga utan Reykjavíkur eru beittir með hærri útsvörum vegna einkaréttinda Reykjavíkur um álagningu á landsfyrirtæki. Frv. er ætlað að tryggja hátekjumönnum viðlíka ívilnanir og hagsbætur í útsvarsálagningu og þeir hlutu um tekjuskatt með breytingum á tekjuskattslögunum á þessu þingi. Með frv. eru stórfyrirtækjum einnig tryggðar sérstakar ívilnanir á kostnað láglaunamannanna, með heimild til frádráttar á greiddum útsvörum, og líklegt er, að þetta frv. sé spor í þá átt að afnema veltuútsvör á fyrirtæki. Það er því hagsmunamál fyrir alla alþýðu manna, að það verði fellt.