27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

112. mál, útsvör

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl. (GuðlG) hefur nú, að því er hann telur, svarað þeim fsp. mínum, sem ég flutti í upphafi fundarins í kvöld, og þakka ég honum svör hans, svo langt sem þau ná.

Hv. 3. þm. Sunnl. skýrir tilveru þessa umrædda frv. á þann veg, að mennirnir, sem fjmrh. skipaði 7. des. 1959 til að endurskoða gildandi ákvæði um tekjustofna sveitarfélaga, hafi talið eðlilegast, að þessu mjög svo umdeilda frv. skyldi varpað inn í þing það, sem nú situr, og þar skyldi það knúið í gegn, gegn atkv, fjölda sveitarstjórnarmanna, sem sæti eiga á Alþingi. Þetta er auðvitað svar út af fyrir sig, en burt séð frá vilja umræddra nm., sem ég þekki flesta persónulega og met mjög mikils, vil ég leyfa mér að spyrja hv. frsm. fjhn.: Hver var vilji hreppsnefndanna, hver var vilji bæjarstjórnanna, hver var vilji sýslunefndanna í landinu? Og það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hv er hann var. Fulltrúar þessara aðila hafa sagt sitt álit um þetta frv. Ég vil leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, samþykktir fulltrúaráðsfundar Sambands íslenzkra sveitarfélaga. sem haldinn var í Reykjavík í apríl s.l. En fulltrúafundur þessara samtaka er fyrst og fremst aðilarnir, sem eiga að gæta hagsmuna hreppsnefndanna og bæjarstjórnanna og sýslunefndanna í þessu máli. Samþykktirnar hljóða svo:

„Fundurinn telur frv. það,“ — þ. e. frv., sem við erum að ræða hér, — „sem komið hefur fram á Alþingi því, er nú situr, um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum, þurfa nánari athugunar í ýmsum atriðum. Bendir fundurinn á eftirfarandi sem dæmi um þetta:

1) Varhugavert er að lögbjóða án frekari undirbúnings og athugunar en þegar hefur átt sér stað til frádráttar á tekjum við útsvarsálagningu útsvar fyrra árs, annað en veltuútsvar, og væri því athugandi, að þetta ákvæði yrði aðeins heimildarákvæði.

2) Ekki er rétt, að samvinnufélög greiði útsvör af skiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum og kaupmenn sama staðar, svo sem fyrir er mælt í 12. gr. frv., og þyrftu því að vera í frv. nánari ákvæði um það efni og sérstaklega nánari skilgreining á því, hvað orðið velta þýðir í frv., t.d. í sambandi við umboðssölu og framleiðslufélög, sem starfa á samvinnugrundvelli.

3) Fundurinn telur mjög vafasamt,“ — og bið ég nú hv. frsm. að hlusta alveg sérstaklega eftir þessu, — „fundurinn telur mjög vafasamt að lögbjóða nú án frekari undirbúnings ákveðna útsvarsstiga í hreppum og bendir á, að rétt væri að fyrirskipa sýslunefndum að samræma útsvarsálagningu, hverri í sínu umdæmi, áður en fastákveðinn er með lögum sérstakur útsvarsstigi fyrir hreppsfélög.“

Þegar þessar samþykktir eru hafðar í huga, þá er ekki von, að maður taki það sem góða og gilda vöru, að komið sé fram með á hinu háa Alþingi frumvarp eins og það, sem hér er til umræðu og gefið í skyn, að í raun og veru sé þetta bráðabirgðabreytingafrv. fram komið í samráði við sveitarstjórnirnar í landinu.

En það, sem verst er, er það, að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi vill ekki vita um álit hreppsnefndanna, sýslunefndanna og bæjarstjórnanna í landinu um þetta mál, og sérstaklega ber að harma það, því að ef stjórnarmeirihlutinn hefði viljað það, þá hefði Alþingi á fundum sínum samþykkt dagskrártill. 4. þm. Reykn. (JSk), sem hann flutti hér við umr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga benti á og rökstuddi með dæmum í yfirlýsingu á fundi sínum 8.–9. f.m., þarf frv. þetta nánari athugunar við, áður en það er lögfest. Þeirri athugun verður ekki við komið á þessu þingi, sem nú er nærri lokið, enda er eðlilegast vegna sjálfstæðis sveitarfélaganna innan þjóðfélagsins, að Alþingi hafi þau vinnubrögð í málinu að leita álits og tillagna sveitarstjórna um frv„ áður en það er gert að lögum. Ákveður því Nd. að fela ríkisstj. að senda frv. nú þegar öllum bæjarstjórnum, hreppsnefndum og sýslunefndum í landinu og biðja um álit þeirra og tillögur fyrir næsta haust og að jafnframt sé frv. sent til umsagnar heildarsamtökum framleiðenda, atvinnurekenda og launþega, og með tilliti til þessa tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það var þessi dagskrártill., sem var felld, og þar með lýsti Alþingi eða meiri hluti þess, stuðningsmenn stjórnarinnar, yfir, að það vildi ekki hafa nein samráð við sveitarstjórnirnar um þetta mál. Og fyrir þessari fylkingu fer bæjarstjóri, hv. 3. þm. Sunnl., og tel ég það illa farið.

Ég spurði einnig um það, hvaða forsendur lægju bak við það, að veltuútsvarsgreiðendur í Reykjavík fengju að draga frá söluskatt, gjald til útflutningssjóðs, gjald af innlendum tollvörutegundum, skemmtanaskatt og gjald af kvikmyndasýningum, áður en þeirra veltuútsvar er reiknað út, en starfsbræður þeirra utan Reykjavíkur fengju ekki heimild til að draga þessa sömu frádráttarliði frá. Ég fékk greitt svar, sem var það, að fulltrúar bæjarstjórnanna hefðu upplýst, að þessir frádráttarliðir hefðu ekki verið teknir til greina í kaupstöðunum og þeir vildu hafa það svo í hinu nýja frv. Ég vil nú leyfa mér að segja það, að fyrst Alþingi ætlar sér að taka sjálfsákvörðunarréttinn af sveitarstjórnunum almennt í útsvarsálagningunni, þá á að sjálfsögðu Alþingi að gera það upp við sig, hvort umrædd frádráttarheimild er rétt eða röng. Er rétt að kaupfélagið og kaupmaðurinn í Kópavogi hafi ekki heimild til að draga frá þessa umræddu liði, sem ég hef talið, en kaupfélagið og kaupmaðurinn í Reykjavík megi gera það? Ég sé ekki neina sanngirni mæla með því, að þeir, sem reka t.d. atvinnu og kvikmyndahús á Siglufirði, hafi ekki heimild til að draga þennan skatt frá, en eigendur kvikmyndahúsanna hér í Reykjavík og atvinnurekendur þar hafi heimild til þess.

Ég dreg ekki í efa, að það sé satt, sem hv. 3. þm. Sunnl. sagði um þetta, að ef einhverjar viðræður hafa farið fram við einstaka bæjarfulltrúa, þá hafi það komið í ljós, að þeir vildu ekki láta skerða meira rétt niðurjöfnunarnefnda og hafa þetta ákvæði áfram. En þetta ákvæði er ekki réttlátt, og þess vegna átti að samþykkja till. 4. þm. Reykn., eins og hún kom hér fram, varðandi þetta atriði.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, það er nú búið að tala mikið um þetta. En það er eðlilegt, að frv. eins og þetta sé rætt mikið, því að í fyrsta lagi er það ósanngjarnt, og í öðru lagi skerðir það verulega, eins og ég tók áður fram, sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði íslenzku sveitarfélaganna.