30.05.1960
Efri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

112. mál, útsvör

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að drepa á örfá atriði í þessu frv„ áður en það fer til n., sem um það mun fjalla, í þeirri von, að þau atriði verði þá athuguð þar.

Þetta frv. mun vera eitt af síðustu sporum hæstv. ríkisstj. á þessu þingi til „viðreisnar“ í þjóðfélaginu. Það kemur mönnum kynduglega fyrir sjónir, að það þurfi að hraða þessari bráðabirgðabreyt. nú, þar sem ætlunin er, eftír því sem hæstv. ríkisstj. segir, að koma með nýja löggjöf á komandi hausti, því að á sumrinu, sem nú stendur yfir, er varla að búast við mikilli reynslu af þessu plaggi, þó að lögfest verði.

Mér sýnist, að aðaltilgangurinn með þessu frv. sé þrenns konar: Í fyrsta lagi sá að ná sér niðri á samvinnufélögunum í landinu. Í öðru lagi að létta útsvarsbyrðum af hátekjumönnum. Og í þriðja lagi að koma nokkru þyngri byrðum útsvara á fólk, sem býr utan Reykjavíkur, heldur en á hina, sem í Reykjavík búa. Ég skal víkja örlítið að þessu nánar.

Á samvinnufélögin á nú að fara að leggja veltuútsvar á viðskipti félagsmanna, sem hefur ekki verið áður leyfilegt. Er þetta mikið áhugamál hjá stjórnarflokkunum, og telja þeir, að viðskipti samvinnufélags við félagsmenn sína séu sama eðlis og kaupmannsins við sína viðskiptamenn. Ég vil benda aðeins í fáum orðum á nokkurn mismun á þessu tvennu.

Samvinnufélög selja framleiðsluvörur félagsmanna og skila þeim sannvirði fyrir þær, að frádregnum kostnaði. Samvinnufélög kaupa vörur fyrir félagsmenn sína með sama hætti. Tekjuafgangur samvinnufélags af viðskiptum félagsmanna er endurgreiddur sem hluti af verðlaginu, þegar frá eru dregin lögákveðin tillög til sjóða. Allur rekstur og reikningshald samvinnufélags er undir gagnrýni alls þess fjölda manna, sem eru þátttakendur í samvinnufélaginu. Öll samvinnufélög eru opin samkvæmt lögum til þátttöku fyrir hvern sem er, og fjöldinn allur af samvinnufélögum birtir opinberlega, jafnvel í blöðum og útvarpi, yfirlit yfir rekstur sinn og það árlega. Ég ætla ekki að nefna fleira. En hvernig er þetta um kaupmanninn, sem Sjálfstfl. setur á sama bekk? Kaupmaðurinn eða heildsalinn gerir ekkert af þessu. Hann kaupir ekki vörur til að selja aftur fyrir sannvirði til viðskiptamanna sinna, heldur kaupir hann vörur til að selja þær með álagningu, þ.e. með gróða, sem hann skammtar sér sjálfur. Kaupmaðurinn skiptir ekki gróðanum milli viðskiptamanna sinna, heldur stingur hann honum í eigin vasa. Kaupmaðurinn er ekki háður gagnrýni neinna annarra en sjálfs sín, að undanteknu því, að hann þarf að skila framtali, sem aðeins var vikið að hér áðan af hæstv. ráðh. Hann birtir ekki opinberlega eitt eða neitt um rekstur sinn eða reikningshald. Fyrirtæki hans er ekki opið neinum öðrum til þátttöku. Ég ætla ekki að nefna fleiri dæmi en þessi, en ég ætla, að þetta nægi til að sýna, að það er regindjúp á milli samvinnufélags og einkaverzlunar. Samt á nú að taka upp þann hátt að leggja veltuútsvör á viðskipti samvinnufélags við félagsmenn sína. Þetta eru, eins og ég hef sýnt fram á, engar hliðstæður, einkaverzlunin og samvinnufélagið, og veltuútsvar á verzlun félagsmanna við samvinnufélag er engin hliðstæða við verzlun kaupmanns við sína viðskiptavini, því að hann sinnir að engu leyti því hlutverki, sem samvinnufélagið gerir.

Það er kunnugt, að það hefur lengi verið draumur Sjálfstfl. að hnekkja vexti samvinnufélaganna í landinu, allt frá þeim tíma, er Björn Kristjánsson skrifaði „Verzlunarólagið“ fræga, og til þessa dags. En nú telja þeir sjálfstæðismenn, að þeir hafi nægilega sterkan bandamann sér til aðstoðar til að stíga drjúgt spor í þá átt, sem þeir hafa ekki treyst sér til að undanförnu að gera. Og það er táknrænt, hvernig komið er hlut flokks, sem kennir sig við verkalýðinn í landinu, að hann gengur nú til aðstoðar við þetta tiltæki. Trúmennska þess flokks við alþýðu manna til sjávar og sveita, hvort sem það er í samvinnufélagi eða verkalýðsfélagi, er söm við sig.

Í 3. gr. þessa frv. er tekin upp sú regla, að draga skuli fyrra árs útsvar frá hreinum tekjum gjaldanda, áður en útsvar er lagt á, þó því aðeins, að fyrra árs útsvar hafi verið greitt fyrir síðustu áramót. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því áðan frá sínu sjónarmiði, af hverju þetta væri gert, þetta væri hentugra fyrir sveitarfélögin, þetta væri hentugra fyrir innheimtuna o.s.frv. Ætli það sé ekki hentugra fyrir aðra? Ætli það sé ekki hentugra fyrir hátekjumennina í landinu að hafa þessa reglu? Auðvitað er það tilgangurinn, alveg eins og með skattalagabreytingunni í vetur. Þetta er ekkert annað en áframhald á þeirri lagabreyt., sem þá var gerð, kemur ekkert við innheimtu, þó að svo sé látið í veðri vaka.

Ég vil nefna örlítið dæmi um það, hvernig þessi regla verkar í framkvæmdinni, að draga fyrra árs útsvar frá hreinum tekjum manna, áður en útsvar er á lagt. Einstaklingur í Reykjavík, sem hefur 60 þús. kr. hreinar tekjur, lækkar við þetta í útsvari um 1930 kr. skv. þeim útsvarsstiga, sem settur er upp í þessu frv. Hafi hann aftur á mótí 90 þús. kr. hreinar tekjur, lækkar hann um 4000 kr. Hafi hann 120 þús. kr. hreinar tekjur, lækkar hann um 7100 kr. Og hafi hann 180 þús. kr. tekjur, lækkar hann um 12700 kr. Það má finna minna grand í mat sínum til að sjá, hver tilgangurinn er með þessu ákvæði frv.

Þegar þetta er svo sett upp við hliðina á skattalagabreyt. í vetur, sést, að hvort tveggja er ákaflega kristilega hugsað í garð þeirra manna, sem háar tekjur hafa, umfram hina, sem verða að búa við lágtekjurnar. Svo að ég taki sama dæmið aftur, þá verður þessi útsvarslækkun að viðbættri tekjuskattslækkuninni frá í vetur sem hér segir: Einstaklingur með 60 þús. kr. hreinar tekjur lækkar um 4800 kr. til samans með þessu frv. og skattalagabreyt. í vetur. Ef hann hefur 90 þús. kr. hreinar tekjur, lækkar hann um 9600 kr. Hafi hann 120 þús. kr. hreinar tekjur, lækkar hann um 16300 kr. En hafi hann 180 þús. kr. tekjur, lækkar hann um 26700 kr.

Stjórnarflokkarnir þekkja sína. Þeir vita, fyrir hverja þeir eru að vinna með þessu frv, og skattalagabreyt. í vetur. Einstaklingurinn með 180 þús. kr. hreinar tekjur fær um 22 þús. kr. meiri lækkun á skatti og útsvari en einstaklingur með 60 þús. kr. tekjur. Þótt lífsnauðsynjar einstaklings hækki í verði vegna „viðreisnar“ ríkisstj. um t.d. 26700 kr. á ári, þá fær þessi einstaklingur, sem hefur 180 þús. kr. hreinar tekjur, það bætt upp að fullu, verður ekki fyrir neinu áfalli, neinu tapi af allri viðreisninni, en hinn manninn, með 60 þús. kr. hreinu tekjurnar, vantar 22 þús. kr. til að verða jafnt settur og hátekjumaðurinn. Nei, það fer ekki milli mála, að það er ekki gert fyrir almenning í landinu til sjávar og sveita að flytja svona frv. Það er ekki gert fyrir verkamennina. Það er ekki gert fyrir bændurna. Það er ekki gert fyrir verksmiðjufólkið. Það er ekki gert fyrir láglaunamenn yfirleitt.

Í 5. gr. frv. er settur upp útsvarsstigi fyrir Reykjavík, í 6. gr. útsvarsstigi fyrir kaupstaðina og í 7. gr. útsvarsstigi fyrir önnur sveitarfélög í landinu. Allir eru þessir útsvarsstigar sinn með hverju móti, og í 3. gr. og reyndar þessum greinum öllum er ákvæði um fjölskyldufrádrátt, þ.e. þær upphæðir, sem draga skal frá útsvari, eftir að það hefur verið á lagt, þegar um fjölskyldur er að ræða. Þar er þessi persónufrádráttur miklu hærri í Reykjavík og kaupstöðunum en annars staðar. Barnlaus hjón í Reykjavík fá 800 kr. frádrátt af útsvarinu sínu, en annars staðar á landinu fá slík hjón ekki nema 500 kr. Hjón með eitt barn fá 1800 kr. frádrátt á útsvarinu sínu, ef þau eru í Reykjavík eða kaupstöðum, en ekki nema 1000 kr., ef þau eru annars staðar á landinu. Hjón með 2 börn fá 2900 kr. frádrátt á útsvarinu sínu í Reykjavík og kaupstöðunum, en ekki nema 1500 kr. annars staðar á landinu. Hjón með 3 börn fá 4100 kr. frádrátt á útsvarinu sínu, ef þau eru í Reykjavík eða kaupstað, en annars staðar á landinu ekki nema 2000 kr. Og hjón með 5 börn fá 5400 kr. frádrátt á útsvarinu sínu, ef þau eru í Reykjavík eða kaupstað, en bara 2500, ef þau eru annars staðar á landinu. Þetta er eitt réttlætið í þessu frv.

Eins og ég nefndi, eru tekjuskattsstigarnir misjafnir í þessu frv. Sem dæmi skal nefna. að í Reykjavík þarf enginn að greiða útsvar, ef tekjur hans eru undir 25 þús. kr., en í kaupstöðunum verður að greiða útsvar, ef þær fara yfir 15 þús. kr., og í öðrum sveitarfélögum verður að greiða útsvar, ef þær fara yfir 7000 kr., en voru bara 3000 kr. í frv., eins og ríkisstj. lagði það fram. Samkvæmt þessu þarf einstaklingur, sem hefur 24 þús. kr. hreinar tekjur, engan eyri að borga, ef hann á heima í Reykjavík. Hann þarf aftur á móti að borga 1920 kr., ef hann á heima í Kópavogi, en hann þarf að borga 2500 kr., ef hann á heima í Garðahreppi. Það er vel útbúið þetta.

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. eða forsvarsmenn hennar muni segja: Það er heimild í þessu frv. fyrir sveitarstjórnirnar að nota aðra stiga en þessa, nota Reykjavíkurstigann. — Jú, rétt er það. En til hvers er verið að setja þessa stiga, nema til að nota þá? Og sveitarstjórnirnar hafa fulla heimild til að nota þá, og til þess eru þeir settir upp. Hitt er allt annað mál, sem hvorki ríkisstj.Alþ. ræður yfir, hvort sveitarstjórnirnar notfæra sér þessa heimild í frv. eða ekki, og auðvitað er það aðalreglan, að þessir útsvarsstigar eiga að gilda.

Ég kem þá að veltuútsvörunum. Eins og kunnugt er, á nú að leggja útsvar á fyrirtæki, hvort sem það græðir eða tapar. Skiptir engu máli, hvort það er gróði eða ekki gróði, þá skal borga veltuútsvar, ef viðkomandi sveitareða bæjarstjórn þóknast að leggja það á. Í 5. gr. frv. segir, að gjaldendum sé heimilt að draga frá veltu sinni nokkur opinber gjöld. Þar er nefndur söluskattur, gjald til útflutningssjóðs, gjald af innlendum tollvörutegundum, skemmtanaskattur og gjald af kvikmyndasýningum. Þetta má draga frá hjá fyrirtækjum í Reykjavík. En hjá fyrirtækjum annars staðar, hvernig er það? Nei, það er ekki meiningin, að þetta sé dregið frá þar. Ef viðkomandi bæjarstjórn eða niðurjöfnunarnefnd þóknast úti á landi, þá er t.d. hægt að leggja á útgerðarfyrirtæki á Akranesi eða í Hafnarfirði veltuútsvar á söluskatt og útflutningsgjald, sem er ekki heimilt að leggja á hér í Reykjavík. Iðnfyrirtæki, sem framleiða tollvörutegundir, og kvikmyndahús t.d., sem eru í Keflavík eða Kópavogi eða einhverjum slíkum kaupstað, verða að greiða veltuútsvar af skemmtanaskattinum kvikmyndagjaldinu og tollvörugjaldinu í sínum rekstri, en slík fyrirtæki í Reykjavík þurfa ekki að gera það. Allt er undir því komið, hvernig þeim sýnist að hafa það, viðkomandi bæjar- og sveitarstjórnum.

Í 6. gr. frv., um kaupstaðina, segir, að þar skuli heimilt að leggja allt að 2% veltuútsvar á umboðsverzlun, en það má ekki vera hærra en það var í Reykjavík 1959, eða ekki vera hærra en það var hjá því sveitarfélagi 1959, ef það leggur á útsvörin eftir 6. gr. Þarna er því slegið föstu, að leggja skuli veltuútsvar á umboðsverzlun, ekki umboðslaunin, heldur umboðsverzlun. Um Reykjavík er sagt í þessu frv., að þar megi ekki frekar en annars staðar vera hærra veltuútsvar en var 1959, og í frv. ríkisstj., í grg., á bls. 10, er greint frá því, hvað þetta hafi verið. Þar segir, að það hafi verið allt að 2% á umboðslaun. Reykjavík hefur þá ekki lagt á umboðsverzlun, heldur umboðslaunin, en í kaupstöðunum á að heimila að leggja á umboðsverzlunina. Reykjavík getur ekki tekið upp þá reglu að leggja á umboðsverzlunina, af því að hún lagði á umboðslaunin, og má ekki hafa veltuútsvarið hærra en það var í fyrra. Það er varla, að ég geti trúað því, að þetta sé meiningin samkv. frv. Ég vænti þess, að það verði leiðrétt, ef þetta er misskilið. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, að bæjarstjórn utan Reykjavíkur hafi heimild til að leggja veltuútsvar á umboðsverzlun, en í framkvæmdinni sé óheimilt í Reykjavík að leggja nema á umboðslaunin samkv. þessu frv., þá kemur þetta einkennilega út, ef viðkomandi bæjarstjórnir notfæra sér heimildir þessa frv.

Ef umboðsverzlun t.d. í Hafnarfirði hefur 10 millj. kr. veltu og tekur 3% í umboðslaun, þá mundi hún ef til vill þurfa að greiða í veituútsvar í Hafnarfirði samkv. þessu frv, allt að 2% af veltunni, eða um 200 þús. kr. veltuútsvar. Ef sams konar umboðsverzlun er hér í Reykjavík, má ekki samkvæmt mínum skilningi leggja á hana nema allt að 2% á umboðslaunin. Ef þau eru 3%, mundi sú umboðsverzlun hér fá aðeins 6 þús. kr. útsvar, þegar hin fengi 200 þús. kr. útsvar. Ég endurtek, að ég á bágt með að trúa, að þetta sé meiningin hjá þeim, sem standa að þessu frv., og óska því eftir leiðréttingu á þessu, ef þetta er misskilningur. Hitt er mér ljóst, að hvorki bæjarstjórn Hafnarfjarðar né neins annars kaupstaðar er skyldug að gera þetta, en henni er það heimilt.

Í 8. gr. frv. hefur komið inn setning á lagi frv. gegnum Nd., sem hljóðar þannig: „Undanþegin veltuútsvari eru sláturhús og mjólkurbú.“ Ekki kann ég við þetta orðalag um sláturhús, þau séu undanþegin veltuútsvari. Ég hygg, að allmörg sláturhús í landinu framkvæmi engin viðskipti, því þó að það sé slátrað kind, þarf þar með ekki að felast neinn verzlunarrekstur, ekki frekar en í fjárhúsi eða hesthúsi. En ef það á að skilja þetta á þann veg, að sauðfjárafurðir skuli ekki bera veltuútsvar, þá er það annað mál. Ég vildi gjarnan spyrja um það, hvort þetta orðalag um sláturhúsin nái þá til hraðfrystihúsa, sem taka auðvitað við kjötinu úr sláturhúsinu og selja það þaðan. Ég ætla þó ekki að gera ráð fyrir því, að þau séu veltuútsvarsskyld. Ég ætla, að það hefði verið þörf á að hafa þarna heppilegra orðalag.

Aftur á móti sýnist mér, að umboðsverzlun með landbúnaðarafurðir hér í Reykjavík þurfi að borga sýnu minna veltuútsvar, þrátt fyrir það, að þetta er ekki nema 21/2% úti á landi, því að þessir 21/2% eru af heildarandvirðinu, en í Reykjavík 2% á umboðslaun. M.ö.o.: á umboðsverzlun úti á landi, sem selur landbúnaðarafurðir til umboðsverzlunar í Reykjavík, t.d. fyrir 5 millj. kr., er heimilt að leggja 12500 kr. veltuútsvar, þ. e. 21/2%, en þegar þessi vara er komin til umboðsverzlunar í Reykjavík og umboðssalinn selur hana hér, þá er ekki heimilt að leggja nema allt að 2% á umboðslaunin sjálf. Ef þau eru t.d. 3%, þá sýnist mér, að þetta geti ekki farið yfir 3 þús. kr., veltuútsvarið á umboðsverzlunina í Reykjavík, þegar það er 12500 kr. af umboðsverzluninni úti á landi, hvort tveggja samkvæmt ákvæðum þessa frv. Jafnvel þetta 21/2%,af því að það kemur á alla veltuna, er svona miklu hærra en veltuútsvar á umboðsverzlun í Reykjavík með þá sömu vöru og þá sömu upphæð, ef fylgt er reglunum, sem birtar eru í frv. ríkisstj.

Ég nefndi þrenns konar tilgang með þessu frv., sem ég tel að sé auðsjáanlegur. Það er árásir á samvinnufélögin, útsvarslækkanir á hátekjumönnum og þyngri gjöld á gjaldendur utan Reykjavíkur en í Reykjavík, ef niðurjöfnunarnefndirnar notfæra sér heimildir í þessum væntanlegu lögum og fylgja þeim útsvarsstigum, sem hér eru settir upp. Og hvað þetta atriði snertir, gjaldendur utan Reykjavíkur annars vegar og í Reykjavík hins vegar, vil ég rifja upp aðeins þessi fjögur atriði: Útsvarsstiginn er þyngri fyrir gjaldendur utan Reykjavíkur en í Reykjavík. Persónufrádráttur fyrir fjölskyldu er miklu hærri í Reykjavík en annars staðar og meira en helmingi hærri hjá fjölskyldu með meira en tvö börn. Í þriðja lagi er fyrirtæki í Reykjavík gert mögulegt að draga ýmis opinber gjöld frá viðskiptaupphæð sinni, áður en veltuútsvar er lagt á, en fyrirtæki utan Reykjavíkur ekki, svo framarlega sem viðkomandi bæjar- og sveitarstjórn sýnist svo. Og í fjórða lagi, að veltuútsvör á umboðsverzlun geta orðið margfalt hærri utan Reykjavíkur en í Reykjavík.

Ég get ekki að því gert, að þegar ég var að fara í gegnum þetta frv., fannst mér það einhvern veginn minna á þriggja þrepa eldflaug. Fyrsta þrepið er árásin á samvinnufélögin, annað þrepið er útsvarslækkunin á hátekjumönnunum, og þriðja þrepið er þyngri útsvör á gjaldendur utan Reykjavíkur en í Reykjavík. En þá kemur bara spurningin, hversu lengi þessi eldflaug ríkisstj. helzt á lofti. Hún er nefnilega ekki betur úr garði gerð en svo, að það er öllu til skila haldið, að atómið í Alþfl. dugi sjálfstæðismönnum til að koma henni á loft, eftir því sem fram kom í Nd., og það getur því farið svo, að fljótlega nálgist þessi eldflaug andrúmsloft heilbrigðrar skynsemi, og þá verður lítið úr henni, jafnvel á næsta þingi.