30.05.1960
Efri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

112. mál, útsvör

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hafði nú raunar varla ætlað mér að taka til máls, en þar sem að því var komið, að atkvgr. færi fram og enginn kvaddi sér hljóðs og ekki hæstv. fjmrh. til þess að svara fyrirspurnum hv. 4. þm. Vestf., þá vildi ég þó segja nokkur orð, ekki sízt vegna þess, að málið fer að líkindum í n., sem ég á sæti í, og ég tel þess vegna fyrir mig mjög heppilegt að fá upplýsingar um ýmis atriði, áður en n. fer að starfa, m.a. þau atriði, sem hv. 4. þm. Vestf. spurði ráðh, um. Ég þykist vita, að ráðherrann muni eiga í fórum sínum einhver svör við þessum spurningum. Máske eru þau ekki jákvæð fyrir þá, sem lagt hafa frv. fram, en eigi að síður er nauðsynlegt fyrir nefnd að vita, hvaða svör eru til.

Mig langar auk þess til að vita, hvort nokkur sveitarfélög hafa beðið ríkisstj. um að stofna til þess að setja slíka löggjöf sem þessa. Ég veit að vísu, að hér gerðust atburðir í Reykjavík á s.l. ári í sambandi við útsvarsálagningu, sem voru þess eðlis, að nokkuð er eðlilegt, að gjaldendur Reykjavíkur óski þess, að sett sé löggjöf um niðurjöfnun útsvara hér. En ég veit ekki til þess, að slíkir atburðir hafi gerzt annars staðar. Mér þætti ekki ósennilegt, að Reykvíkingum þætti eftir þá atburði heppilegra, að numið yrði úr lögum ákvæðið um, að jafna skuli niður „eftir efnum og ástæðum“, vegna þess að það liggur ljóst fyrir, að slíkt ákvæði er ekki framkvæmanlegt, svo að í lagi sé, í fjölmenni eins og í Reykjavík og á þar alls ekki lengur við, þó að það kæmi upp úr dúrnum, að það hafði verið notað mjög einkennilega á s.l. ári og skapaði þá misræmi, sem náttúrlega er ekki búandi við fyrir gjaldendur. En ég þekki ekki sams konar dæmi annars staðar, og sízt af öllu veit ég til þess, að nokkuð skylt því hafi komið fyrir í hinum minni sveitarfélögum, þar sem kunnugleikasjónarmiðið er fyrir hendi hjá niðurjöfnunarnefndum og ákvæðið „efni og ástæður“ er þess vegna framkvæmanlegt yfir alla sveit og alla gjaldendur. Já, mig langar til að vita, hvort sveitarfélög hafa beðið um slíka löggjöf sem þessa. Ég veit hins vegar, að sveitarfélög hafa oft og tíðum beðið um nýja gjaldstofna. Þau hafa átt í erfiðleikum með að jafna niður öllum þeim gjöldum, sem þarfir sveitarfélaganna hafa kallað eftir til þess að fullnægja skyldum, og þess vegna hafa þau beðið um nýja gjaldstofna. Og nú hafa þau fengið hlutdeild í söluskatti ríkisins, og það skal ég síður en svo lasta. Mér finnst hæstv. fjmrh, eiga heiður fyrir það að hafa beitt sér fyrir slíku.

En hins vegar get ég ekki annað en litið svo á, að hæstv. ráðh. hafi gengið of langt með því að leggja fram þessa löggjöf, eins illa undirbúin og hún er. Mér finnst það vera mikið gerræði við sveitarfélögin að demba yfir þau þessari löggjöf.

Á sveitarfélögin hefur verið lítið sem sjálfstæðar heildir, þau hafa orðið að starfa sem sjálfstæðar heildir, og það hefur verið heppilegra, að þau hafa verið sjálfstæðar heildir um mörg samfélagsmálefni. En einmitt af því, að þau hafa verið það, er skylda ríkisins við þau að láta þau hafa tækifæri til þess að segja sitt álit um eins þýðingarmikla löggjöf og hér er á ferðinni. Það hefur líka verið venja í þjóðfélaginu að senda meiri háttar löggjöf, meðan hún var í frumvarpsformi, til sveitarfélaganna til umsagnar, þegar um löggjöf hefur verið að ræða, sem þau hefur sérstaklega snert. Og nú hefur verið lagt fram hér á Alþingi, — ég held það sé einmitt í dag, sem slíkt frv. kemur fram, — frv, um breyt. á sveitarstjórnarlöggjöfinni í öðrum efnum en að því er útsvörin snertir, heilmikill lagabálkur. Ég veit, að það er ekki gert til þess, að Alþingi eigi að afgreiða þessa löggjöf, en það er gert til þess, að löggjöfin geti fengið þann undirbúning, sem telja má sjálfsagt að löggjöf um sveitarstjórnarmálin fái, sem sé að frv. geti orðið sent sveitarstjórnum landsins og sýslunefndum til umsagnar. Það kalla ég vel unnið. En hvers vegna að haga sér svona með þennan bálk um útsvörin? Það er þó ekki þýðingarminna málefni fyrir sveitarfélög og íbúa sveitanna heldur en ýmsir aðrir lagabálkar, sem sveitarfélögin hafa fengið til umsagnar áður. Ég held, að það sé fráleitt, að efsta hæðin taki ekki meira tillit til undirstöðunnar, því að skipulag þjóðfélagsins er þannig uppbyggt, að sveitarfélögin verða að teljast þar sem undirstöður, — ég tel fráleitt, að efsta hæðin taki ekki meira tillit til undirstöðunnar en þetta.

Hæstv. fjmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að þetta væri vandasöm lagasetning, — það er rétt, — og að það væri nauðsynlegt að koma löggjöfinni út til þess að geta prófað hana í sumar í sveitarfélögunum, prófað álagningarreglurnar. Jú, þetta er að parti til rök, það sem þau ná. En ég álít, að löggjöf, sem er eins áhrifamikil og grípur eins inn í hag manna og útsvarslöggjöfin, sé þannig, þegar hún er þá ekki betur undirbúin en þetta, að það sé of grófur leikur að gera þetta próf. Ég heyri sagt, að þeir á Keldum, sem eru að brugga meðul til lækninga, prófi þau á músum og kanínum, áður en þeir fara að gefa þeim gripum þau, sem eiga að læknast af þeim. Það má á vissan hátt líkja þessu saman.

Þetta frv. sjálft skapar ekki nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin. Það er ekki uppfylling óska þeirra um nýja tekjustofna. Jú, það má segja, að einn nýr tekjustofn komi þarna til sögunnar, það er veltuútsvar á viðskipti samvinnumanna í þeirra eigin félögum. Það er nýr tekjustofn, eins réttlátur og hann nú er. Get ég í því sambandi látið mér nægja að skírskota til mjög glöggs rökstuðnings hv. 4. þm. Vestf. áðan um eðlismun á viðskiptum félagsmanna í gegnum sitt félag og kaupmannaverzlun, sem eigi að lúta sömu reglum að því er veltuútsvar snertir. Út í það fer ég svo ekki frekar að sinni. Að vísu skal ég taka það fram strax, að ég tel ekkert óeðlilegt, að breytt væri ákvæðum um útsvarsskyldu samvinnufélaga frá því, sem nú er, þó að ég viti ekki til þess, að sú löggjöf, sem hefur gilt að þessu og er sett að vísu, þegar kaupfélögin voru rekin að ýmsu leyti á annan hátt en þau eru rekin nú, hafi komið að sök, nema ef það hefur verið hér í Reykjavík á s.l. ári, þegar það fyrirbæri gerðist, að Samband ísi. samvinnufélaga var haft útsvarsfrítt til þess að auglýsa, því að annars staðar á landinu veit ég ekki annað — (Fjmrh.: Til þess að auglýsa hvað? ) Til þess að auglýsa það, að þeir, sem stýrðu niðurjöfnuninni, væru í þjónustu þeirra, sem sækja að samvinnufélögunum. Ég veit ekki betur en samvinnufélögin hafi þrátt fyrir þessa löggjöf verið víðast hvar í landinu hæstu gjaldendur og greitt þá meira en þröngt skýrður lagabókstafur gæti ætlazt til. Ég álít, að félagsmannaviðskipti séu allt annars eðlis en viðskipti við kaupmann, kaupfélag sé allt annars eðlis en kaupmannsverzlun. Ég álít, að það þurfi að beita við þessi fyrirtæki tvenns konar álagningu. Að því er utanfélagsmannaviðskipti kaupfélaga snertir, eiga þau vitanlega að skattleggjast og útsvarsskyldast eftir sömu reglum og viðskipti við kaupmann, vegna þess að afstaða utanfélagsmanna til samvinnufélagsins er hin sama og afstaða viðskiptamannanna til kaupmannsins. En hins vegar eru félagsmannaviðskiptin allt annars eðlis. Það er samlag manna, sem eru að útvega sér vörur á sem hagkvæmastan hátt og láta selja fyrir sig framleiðslu sína. En ýmsir þættir í starfsemi kaupfélaganna upp á síðkastið hafa verið reknir þannig, að ég tel, að það væri eðlilegt, að þeir heyrðu undir hið sama hvað gjaldskyldu snertir og einkaverzlun. Þar á ég við t.d. bílarekstur, skipaafgreiðslu, fatahreinsanir, svo að ég nefni einhver dæmi, þar sem ekki er gert upp á milli félagsmanns og utanfélagsmanns. Það er skoðun mín, að þannig eigi að flokka verzlun kaupfélaga eftir því, hvort hún er framkvæmd sem félagsmannaviðskipti eða eins og viðskiptamaðurinn sé ekki félagsmaður, heldur gerður upp með viðskipti sín eins og kaupmaður gerir upp við sína menn. Ég álít, að frv., eins og það er um þetta atriði, sé hið fráleitasta.

Mig langar til að vita í alvöru, af því að ég viðurkenni ekki þörfina fyrir að prófa frv. og sízt af öllu þegar það er ekki betur úr garði gert en svona, — að prófa það, áður en þeir, sem eiga að vinna samkvæmt því, hafa fengið tækifæri til þess að fjalla um það. Ég viðurkenni ekki þau rök sem rétt. En mig langar til að vita, hvers vegna það getur ekki verið af þeim ástæðum einum, að bæjarstjórnum, hreppsnefndum og sýslunefndum hefur ekki verið sent frv. þetta til umsagnar.

Það skal þó viðurkennt, að ég varð var við það í vetur, að formaður Sambands ísi. sveitarfélaga taldi sig þurfa að kalla saman fulltrúaráð sveitarfélagasambandsins einmitt til þess að skoða — fyrir ríkisstj., að mér skildist þetta frv., eins og það lá fyrir. Og hann boðaði fund tímanlega í marz. En þegar fundarmenn voru komnir á staðinn, kom í ljós, að frv. var ekki tilbúið, og þá var fundinum frestað þangað til í apríl, þá var hann aftur kallaður saman. Og þessi fundur fékk frv. til meðferðar. Hann sagði um það álit sitt, og ég vil nú á þessu stigi leyfa mér að lesa upp afgreiðslu hans í málinu, en n. hafði starfað á fundinum að því að athuga frv., og tvær umræður um málið fóru fram. Mér þykir afar illt að vera með fsp. til hæstv. ráðh., þegar hann gengur úr salnum. Hann er víst kallaður í síma. (Forseti: Ætli hann komi ekki? Já, hann var kallaður í síma.) Ég mætti kannske gera hlé á ræðu minni? (Forseti: Já, sjálfsagt.)

Fulltrúaráð sveitarfélaganna afgreiddi á fundi sinum útsvarsmálin með svofelldri ályktun:

„Fundurinn telur frv. það, sem komið hefur fram á Alþingi því, er nú situr, um bráðabirgðabreytingu á útsvarslögunum, þurfa nánari athugunar í ýmsum atriðum. Bendir fundurinn á eftirfarandi sem dæmi um þetta:

1) Varhugavert er að lögbjóða án frekari undirbúnings og athugunar en þegar hefur átt sér stað til frádráttar á tekjum við útsvarsálagningu útsvar fyrra árs, annað en veltuútsvar, og væri því athugandi, að þetta ákvæði yrði aðeins heimildarákvæði.

2) Ekki er rétt, að samvinnufélög greiði útsvar af skiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum og kaupmenn sama staðar, svo sem fyrir er mælt í 12. gr. frv., og þyrftu því að vera í frv. nánari ákvæði um það efni og sérstaklega nákvæmari skilgreining á því, hvað orðið velta þýðir í frv., t.d. í sambandi við umboðssölu og framleiðslufélög, sem starfa á samvinnugrundvelli.

3) Fundurinn telur mjög vafasamt að lögbjóða nú án frekari undirbúnings ákveðna útsvarsstiga í hreppum og bendir á, að rétt væri að fyrirskipa sýslunefndum að samræma útsvarsálagningu, hverri í sínu umdæmi, áður en fastákveðinn er með lögum sérstakur útsvarsstigi fyrir hreppsfélög.“

Ég sé ekki, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið til greina þær bendingar, sem fulltrúaráð og fundur sveitarfélaganna afgreiddi með þessari ályktun í þremur liðum. Og nú vil ég spyrja, hvers vegna það var ekki gert.

Það er þrennt, sem er höfuðatriði í þessari ályktun. Það er fyrst, að varhugavert sé að taka fyrra árs útsvar til frádráttar. Hv. 4. þm. Vestf. benti rækilega á, hvaða galla það hefur, „annað en veltuútsvar“, sagði fulltrúaráðið, en veltuútsvar er vitanlega sama eðlis og t.d. söluskattur, sem er frádráttarhæfur. Ég sé á hinu nýja frv., að hvorki það, að breytt væri frádrættinum á útsvörunum í heimildarform né veltuútsvar sé gert frádráttarhæft sérstaklega, hefur verið tekið til greina. Hvorugt hefur verið tekið til greina.

Í öðru lagi er það skýrt tekið fram, að fulltrúaráðið telur ekki rétt að leggja útsvar á sama hátt á félagsmannaviðskipti í samvinnufélögum og kaupmannsviðskipti. Það ætlast frv. til að sé gert.

Og í þriðja lagi er á það bent, að t.d. hreppsfélögin hafi svo misjafnar ástæður, að hæpið sé að skipa fyrir með lögum, hvern gjaldstiga þau öll saman skuli hafa, og betri sé sú þróun, ef að því á að stefna, að sýslunefndunum, hverri hjá sér, sé falið að vinna að samræmingu heima fyrir, áður en löggjafinn geri um þetta fyrirskipun.

Hvers vegna gerir hæstv. ríkisstj. ekkert með till. þess fundar, sem mér skilst þó, að hafi verið haldinn í fulltrúaráði sambands sveitarfélaganna að ósk hennar? Ég sé ekki betur en hér sé hafður óafsakanlegur hraði á og ofstjórn sé hér á ferðinni gagnvart sveitarfélögunum.

Þá eru ýmis atriði, sem fróðlegt væri að fá upplýsingar um. Hv. 4. þm. Vestf. minntist á sláturhús. Inn í frv. hefur komið ákvæði um það, að undanþegin skuli vera veltuútsvari sláturhús og mjólkurbú. Mjólkurbú veit maður vel, hvað er. Og það er auðvelt til framkvæmda. En sláturhús, hvað er það? Ég er eins og hv. 4. þm. Vestf., að ég veit ekki til þess, að sláturhús verzli. Sláturhús er kallað hús, þar sem fé eða gripir eru aflífaðir og gerðir til. Greiðslur eiga sér ekki stað í sambandi við vöruna þar, aðrar en þær, að verkamönnum eru greidd laun, og það er gert með því, að þeir, sem fénaðinn eiga, greiða sláturlaun. Skyldi það vera meiningin þarna að undanþiggja vinnulaun verkafólksins við slátrunina og sláturlaunin veltuútsvari? Mér finnst þetta vera bágborin lagasetning. Eitthvað hlýtur annað í raun og veru að vaka fyrir löggjafanum, þeim sem leggur til orðið, en það hugtak, sem í því felst.

Þá sé ég hér, að útsvar af landbúnaðarafurðum framleiddum innanlands og seldum í umboðs- eða heildsölu má eigi meira nema en 21/2% af heildarveltu. Hér er ákvæði sett, sem er náttúrlega augljóst. Ég er því mótfallinn að leggja veltuútsvar á afurðir, sem t, d. samvinnufélögin selja fyrir sina félagsmenn eða réttara sagt félagsmennirnir gera verð úr með félagi sín á milli, leggja á þær 21/2%, því að ég veit um það, að kaupfélag, t.d. kaupfélag það, sem ég er í, tekur ekki fyrir þetta meira en 1% í umboðslaun. Mér finnst hart að greiða hærra útsvar en umboðslaunum nemur. En það, sem mér sýnist skrýtilegast við þessa grein — fyrir utan sláturhúsið kannske, er það, að í henni segir: „Útsvar á veltu má ekki nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en það var á hverjum stað árið 1959. Heimilt skal þó þeim sveitarfélögum, sem lögðu á lægri veltuútsvör á árinu 1959, miðað við tegund gjaldstofns, en lögð var á í Reykjavík árið 1959, að hækka útsvör á veltu allt að þeim hundraðshluta, sem þar var þá á lagður.“

Ég finn ekki betur en það sé í þessari grein mótsögn. Þar virðist því vera slegið föstu, að ekki megi leggja á landbúnaðarafurðir nema 21/2%, ef það hefur þá verið lagt á árið áður, en þó hefur það víðast hvar ekki verið á lagt. En ef það hefur ekki verið á lagt, þá skal þó heimilt að leggja á eins mikið og lagt var á í Reykjavík 1959, og í Reykjavík sé ég, að á sams konar vörur hefur verið lagt 6% gjald. Hvað gagnar þá þetta með 21/2% ákvæðið? Mér verður að spyrja. Ég sé ekki annað en þarna séu allflæktir þræðir.

Þá finnst mér afar undarlegt, eins og hv. 4. þm. Vestf., að ákvæði um frádrátt, sem eru í 5, gr. fyrir Reykjavík, virðast ekki mega gilda að því er snertir önnur bæjarfélög eða sveitarfélög, nema þá ef þau tækju skalann upp alveg, þá kannske mega þau gilda. Mig langar til að fá skýringu á því, á hverju það er byggt.

Það er margt, sem hlýtur að verða spurn um þetta frv., það er svo óljóst. T.d. er það svo óljóst, hvað er heildarvelta, hvað er velta, að ekki veitti af, að það hefði verið nánar skilgreint og breyt. gerðar á frv., til þess að það kæmi í ljós, eins og fulltrúaráð sveitarfélaganna benti á og óskaði eftir. En máske er treyst á það, að sveitarfélögin, sem hafa vanizt því að þurfa að starfa sjálfstætt og fást við ýmsa erfiðleika, leysi þann erfiðleika líka, sem mun fylgja því að taka á móti svona frv., og geri það kannske með því að fara ekki eftir því. En víst er það mjög óeðlilegt, að Alþingi gefi út lög í trausti þess.