30.05.1960
Efri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

112. mál, útsvör

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég ætla ekki frekar en ég gerði í framsöguræðu að fara út í efni þessa máls, en að gefnu tilefni í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) vil ég aðeins minnast á tvö atriði varðandi undirbúning málsins.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., sem hefur, allt frá því Samband íslenzkra sveitarfélaga var stofnað, verið virkur þátttakandi í störfum þess, spyr m.a., hvort nokkurt sveitarfélag hafi óskað eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir, og hvort yfirleitt nokkur aðili hafi eftir því óskað.

Út af þessari fsp. hans vil ég geta þess fyrst, að meðal þeirra, sem hafa óskað eftir endurskoðun á útsvarsl. og fyrst og fremst með meginatriðum þessa frv., er hann sjálfur. Það var t.d. á fyrsta þingi Sambands ísl. sveitarfélaga samþ., m.a. með atkvæði hans sjálfs, áskorun til löggjafarvaldsins um það að endurskoða útsvarsl. með það fyrir augum að samræma útsvarsálagninguna um land allt frá því, sem verið hefði, og gera ýmis ákvæði skýrarl. Hvernig á að samræma þessa 200 eða yfir 200 útsvarsstiga nema með því að binda þá í lögum? Vitanlega skilja allir, að það er ekki unnt. Einnig hefur það verið stefna Sambands ísl. sveitarfélaga frá byrjun, að ný löggjöf yrði sett um útsvörin, þar sem reynt yrði að tryggja sem allra mest samræmi, og að útsvarsstigarnir yrðu festir í lögum, að vísu að sjálfsögðu, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., með víssum heimildum fyrir sveitarstjórnir til hækkunar eða lækkunar.

En það er ekki aðeins, að Samband ísl. sveitarfélaga hafi haft þessa stefnu frá upphafi og með fullu samþykki þessa hv. þm., heldur hefur einnig t.d. samband sveitarstjórna á Vestur-, Norður- og Austurlandi þrásinnis undanfarin ár beint áskorunum til þings og stjórna um endurskoðun á útsvarsl. sem fyrst, með þessi sömu sjónarmið í huga.

Varðandi hitt atriðið, sem ég vildi aðeins svara, þá segir hv. þm., að frv. þetta sé ákaflega illa undirbúið, og telur, að það sé í rauninni ekki undirbúið í neinu samráði við sveitarfélögin.

Ég verð að segja, að mér finnst einmitt frá þessum hv. þm. þetta vera ákaflega ómakleg ummæli, — manni, sem hefur tekið mikinn þátt í starfi Sambands ísl. sveitarfélaga. Hvernig er undirbúningi þessa frv. háttað? Til þess að starfa að þessum undirbúningi eru kvaddir í undirbúningsnefnd bæði formaður og varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga, gagnstætt því, sem gert var, þegar hafin var endurskoðun sveitarstjórnarlaganna almennt af vinstri stjórninni sálugu, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. studdi dyggilega. Þegar sett var í gang af vinstri stjórninni heildarendurskoðun sveitarstjórnarl., var þar enginn maður frá sveitarstjórnasambandinu, og það var ekki spurt ráða, ekki einu sinni óskað eftir því, að það tilnefndi nokkurn mann. Þegar ég skipaði þessa undirbúningsn., voru bæði formaður og varaformaður sveitarstjórnasambandsins þar til kvaddir til að taka þátt í hinum beina undirbúningi. Þessi hv. þm. veit líka, að við allan undirbúning var haft náið samband við stjórn sveitarstjórna- eða bæjarstjórnasambandsins fyrir Vesturland, Norðurland og Austurland, og að stjórnendur þess sambands voru með í ráðum um samningu verulegs hluta og þýðingarmikils hluta af þessu frv.

Þessi hv. þm. veit líka, að til þess að semja kaflann um útsvarsstiga fyrir önnur sveitarfélög en kaupstaði voru kvaddir — í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga — 5 kunnir oddvitar úr sveitum, m.a. 2 þm. úr flokki þessa hv. þm., þeir Ágúst Þorvaldsson og Garðar Halldórsson, sem báðir voru sérstaklega til kvaddir og eru höfundar ásamt fleirum að þessum útsvarsstiga varðandi sveitarfélögin, sem framsóknarmenn leyfa sér svo mest að gagnrýna nú og skrifa á reikning ríkisstj. eða minn. (Gripið fram í: Eru þeir höfundarnir? ) Að sveitarstjórnastiganum eru þeir höfundar ásamt hinum 3 öðrum oddvitum, sem til voru kvaddir, og þetta veit þm. ákaflega vel. (Gripið fram í.) Þeir gerðu engan ágreining, og það er ástæðulaust fyrir hv. að vera að gera neinar aths., því að þetta liggur fyrir skjallega í grg. frv., þeir gerðu engan ágreining, hvorki fyrr né síðar.

Þegar athugaður er allur undirbúningur þessa máls, þá verð ég að segja, að það er bæði ómaklegt og furðulegt, að einn af starfandi mönnum úr Sambandi ísl. sveitarfélaga, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e., skuli leyfa sér að viðhafa önnur eins ummæli og hann hefur hér haft, því að hann veit betur.