30.05.1960
Efri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

112. mál, útsvör

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. (BGuðm) skýrði frá því, hvað samkv. hans skilningi fælist í orðunum sláturhús og mjólkurbú. Það væri meiningin með því að setja inn það nýja ákvæði, sem þeim fylgir, að leggja ekki veltuútsvar á söluvörur bændanna á fyrsta sölustigi. En hví þá ekki að orða það alveg blátt áfram? Hvers vegna að vera að setja það fram á óskiljanlegan hátt og jafnvel fráleitan hátt, eins og snertir sláturhús, þar sem engin sala fer fram, eins og sýnt hefur verið fram á? Ég veit, að hv. 10. landsk. þm. þekkir mjög vel sláturhús í nágrenni sínu, þar sem ekkert annað fer fram en það, að þar er aflífaður fénaður og hann gerður til. Og það er það hús, sem heitir sláturhús skv. mæltu máli og réttu.

Hv. 10. landsk. þm. skýrði frá því, að það hefðu fimm oddvitar tekið þátt í að semja stigann að því er snertir hreppsfélögin. Það er nú út af fyrir sig það, sem sagt var í aths., sem fylgdu frv. En þótt þeir væru kallaðir til sem snöggvast til þess að gera uppkast, þá er ekki þar með sagt, að þetta verk sé fullkomið eða það sé í raun og veru unnið til hlítar á þann hátt, sem sveitarfélögin verða að ætlast til að slík löggjöf sé unnin.

Annars hef ég ekkert við ræðu hv. 10. landsk. þm. að athuga. Ég er honum sammála um það, að veltuútsvar sé neyðarúrræði, en sem sveitarstjórnarmaður tel ég eins og sakir standa óhægt um vik að banna veltuútsvör. Hitt er svo allt annað mál, hvort á að lögbjóða þau eða þau verði heimiluð og hvort það á að gera þau svo gegnumgangandi eins og gert er í þessu frv., og þess saknaði ég úr ræðu hv. 10. landsk. þm., að hann minntist á það, hvort hann teldi réttmætt að leggja veltuútsvar á félagsmannaviðskipti í samvinnufélögum. Það nefndi hann ekki, og þess saknaði ég mjög. Mér þætti mjög fróðlegt að vita, hvort hann er þeirrar skoðunar, eins kunnugur og hann er og ætti að vera gangi viðskipta í samvinnufélagi, hvort hann er ánægður með það ákvæði.

En viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. sagði um afstöðu mína sem starfandi manns í Sambandi ísl. sveitarfélaga frá upphafi þess, vil ég segja nokkur orð. Hann taldi, að vegna þess að ég hefði verið þar starfandi og tekið þátt í afgreiðslu mála þar, væri það ómaklegt af minni hálfu að deila á hæstv. ríkisstj. fyrir undirbúninginn á þessu máli. Ég spurði, hvort sveitarfélögin hefðu beðið um slíka löggjöf sem þessa. Hann sagði, að snemma á árum sambandsins, kannske á fyrsta sambandsfundinum, — ég man ekki, hvort hann sagði það, — þá hefði verið samþ. ályktun um, að æskilegt væri að samræma útsvarsstigana um land allt, og ég hefði tekið þátt í þeirri afgreiðslu. Ég man þetta ekki, hvernig sú ályktun var orðuð. En ég kannast við það vel frá sambandsfundunum, að það hefur sí og æ verið óskað eftir því, að sveitarfélögin fengju nýja tekjustofna til þess að létta á útsvarsálagningunni, og sú hugsun hefur vitanlega svifið þar yfir stólum, að æskilegt væri, að samræmi væri í útsvarsálagningu um land allt, — æskilegast, að hægt væri að hafa útsvörin jafnþung um land allt. Og ég þykist viss um það, að þessi ályktun, sem samþykkt var og hæstv. ráðh. vitnaði í, hafi verið orðuð á þá leið, að það væri tekið til athugunar og framkvæmda, svo fljótt sem unnt væri, að samræma útsvarsálagninguna, eftir því sem unnt væri. Ég veit, að þar hefur aldrei verið samþykkt gerð öðruvísi en í þeim anda: Eftir því sem unnt væri. En ég verð að halda því fram, að þetta frv. feli í sér álagningarreglur, sem ganga lengra en unnt er, eins og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu er nú háttað.

Þá deildi hæstv. ráðh. á mig fyrir það, að ég hefði gert kröfu til þess, að sveitarfélögin væru höfð meira í ráðum um þessa lagasetningu en gert hefði verið nú, og hann sagði, að ég, sem hefði stutt vinstri stjórnina, hefði ekki haft við það að athuga, þó að vinstri stjórnin hefði skipað n. til að endurskoða sveitarstjórnarlöggjöfina, án þess að biðja samband sveitarfélaganna um mann í n. því er þá fyrst til að svara þar, að það var maður úr stjórn sambands sveitarfélaganna í n., varaformaðurinn var tilkvaddur í n. Og í öðru lagi er það að segja, að mér datt aldrei í hug, og ég hygg, að vinstri stjórninni hafi ekki dottið í hug að setja löggjöf um þessi efni án þess að bera hana fyrst undir sveitarfélögin sjálf, stjórnir sveitarfélaganna. Og það er það, sem ég er að finna að, að frv. skuli ekki hafa verið sent til umsagnar sveitarfélögunum, eins og venjulegt hefur verið með meiri háttar löggjöf, sem þau snertir.

Hæstv. ráðh. sagði, að í þeirri n., sem núv. ríkisstj. hefði kvatt til þess að vinna þetta verk, semja frv., hefði bæði verið formaður sveitarfélagasambandsins og varaformaður þess. Það er alveg rétt. En eigi að síður var full ástæða til þess að senda frv. til umsagnar. Og svo kemur að því, að fulltrúaráð sveitarfélaganna, sem kom hér saman snemma í apríl og samþykkti þá ályktun, sem ég las hér upp áðan, hefur ekki verið tekið til greina. Ályktunin hefur ekkert verið tekin til greina. Og þó var í þeirri n., sem lagði fram ályktunina, varaformaður sambandsins, sá sem átti sæti í n., sem upphaflega samdi frv., og einnig vann með n. sjálfur formaður sambandsins. Og þegar ályktun fundarins var afgreidd, greiddu þessir menn báðir atkv. með henni. Þetta kalla ég að gera ekkert með það, sem fulltrúar sambandsins vilja, fulltrúar sveitarfélaganna vilja, og meira að segja gera ekkert með það, sem nm. sjálfir, sem ríkisstj. hafði til kvatt, vilja. Ályktunin var samþykkt með 15:1 atkv., og atkvæði beggja þessara manna, sem hæstv. ráðh. nefndi sem fulltrúa stjórnarinnar, voru í 15 atkvæðunum. Þeir greiddu atkv. með ályktuninni. Það er langt frá því, að ég hafi gengið of langt í því að deila á hæstv. ráðh. fyrir það að taka ekki nægilegt tillit til sveitarfélaganna. Hann hefur ekki einu sinni tekið tillit til þeirra manna, sem hann kvaddi sjálfur til að semja frv.