02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2902 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

112. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hafði í dag gert grein fyrir aðaltill. okkar, sem erum í minni hl. hv. heilbr: og félmn. í þessu máli, en hún kemur fram á þskj. 60á. Sú till. er ákveðin og einföld um það, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem þýðir það, að því verði frestað og leitað verði umsagnar þeirra aðila, sem við teljum rétta, áður en það verður lögfest. En af því að við flm. þessarar till. vorum ekki alveg vissir um, að hún mundi verða samþ., af reynslu þeirri, sem orðið hefur í þessu máli, gangi þess í þinginu, þá fluttum við til vara nokkrar till., sem voru ekki komnar úr prentun, þegar ég hélt ræðu mína í dag, en eru nú komnar á þskj. 611. Þetta eru 6 aðaltill., sumar í liðum. Ég hafði minnzt á efni þessara till. sumra í sambandi við aðaltill., en vil nú í stuttu máli fara um þær nokkrum orðum.

1. till. er um það, að ákveðið verði að Leggja landsútsvar á tilteknar stofnanir, sem telja má að hafi landsútsvarseðli. Það kemur í ljós glögglega, þegar farið er að meta aðstöðu sveitarfélaganna til þess að bera svipaðar byrðar, þá er hún ákaflega misjöfn, og ef á að skipa málum þannig að hafa um það allströng ákvæði, að sveitarfélög samræmi álagningu sína, þá verður líka að skapa þeim grundvöll til þess að geta lotið slíkum reglum, og landsútsvarið virðist þá vera sjálfsagt. Við gerum ráð fyrir því, að þessi landsútsvör gangi til styrktar og jöfnunar milli sveitarfélaganna eftir mannfjölda, en þó fái heimasveitin allt að 10% af útsvari því, sem á fyrirtækið leggst, og það teljum við eðlilegt, vegna þess að alltaf fylgir því einhver kostnaður fyrir heimasveit, að sú stofnun hefur þar aðsetur. Eitthvað þarf heimasveit fyrir aðstöðuna að gera, sem stofnunin fær.

2. till. er um það að breyta ákvæðunum um veltuútsvör á þá leið, að það sé afnumið, að samvinnufélög greiði veltuútsvar af viðskiptum félagsmanna sinna, en hins vegar er gengið út frá því, að viðskipti í samvinnufélagi séu flokkuð nánar en verið hefur undir utanfélagsmanna- og félagsmannaviðskipti, og gerði ég grein fyrir því í dag, af hverju ég teldi það vera eðlilegt. En með því að taka upp þessi ákvæði er hægt að gera hvort tveggja í senn, að viðurkenna eðlismun samvinnuviðskipta og einkarekstursverzlunar, en með því að flokka viðskiptin nánar er hægt að skapa reglur, sem gera það að verkum, að samvinnufélögin greiði nokkru meira en þau lagaákvæði, sem nú eru, skylda þau til, þó að ég hins vegar haldi því fram og um það sé hægt að nefna fjölda dæma, að þau hafa borgað meira en lagabókstafurinn hefur skyldað þau til, af því að yfirleitt eru samvinnufélögin góðir þegnar í sveitarfélögum, þar sem þau hafa aðsetur, og kæra sig ekki um meiri ívilnanir en sanngirni mælir með.

Þá er það 3. till., að í 6. gr. komi 3 málsgr. í stað 1. málsgr. Það er um veltuútsvar í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík. Er þá þar aftur tekin upp till., sem ég var að lýsa áðan, en til viðbótar er það, að við teljum rétt, að þeir frádráttarliðir, sem ætlað er að komi til greina, áður en veltuútsvör eru lögð á fyrirtæki í Reykjavík, svo sem frádráttur söluskatts, gjald til útflutningssjóðs, gjald af innlendum tollvörutegundum o.s.frv., sá frádráttur eigi sér líka stað í öðrum kaupstöðum en Reykjavík. Við teljum fráleitt að fara þannig að gera upp á milli fyrirtækja eftir því, hvort þau eru búsett í Reykjavík eða í öðrum kaupstöðum.

Þá er það 4. till., að 7. gr. orðist svo: „Sýslunefndir skulu vinna að samræmingu á reglum við niðurjöfnun útsvara í hreppum hver í sínu umdæmi.“ M.ö.o.: við tökum upp till. fulltrúaráðs sveitarfélagasambandsins, gerum hana að okkar, um það, að hreppar séu ekki skyldaðir með þessari löggjöf til þess að lúta einum stiga, en sýslunefndirnar, sem hafa yfirstjórn sveitarmálefna, taki að vinna að því að samræma útsvarsálagninguna hver á sínu svæði og þannig verði leitazt við að skapa grundvöll fyrir því, að hægt sé að setja hinum mörgu hreppum reglur til samræmingar, sem þeir hreppar geti búið við, og farið sé þannig að í þessum efnum, að teljast megi, að sjálfstæði þessara sveitarfélaga sé ekki misboðið, eins og þeim verður misboðið með valdinu að ofan, ef þessi löggjöf verður afgreidd, sem liggur hér fyrir í frumvarpsformi.

5. till. er, að á eftir 7. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: „Samanlögð upphæð veltuútsvara má ekki í neinu sveitarfélagi vera hærri en sem nemur 15% af heildarupphæð álagðra útsvara þar.“ Þetta á við, þegar farið er að vinna að því að samræma útsvarsálagninguna og sett eru ákvæði inn í lög þau, sem á að gera gildandi, eins og það ákvæði, sem er hér í 2. gr., 2. málsgr. hennar: „Nú reynast útsvör þannig ákveðin hærri en vera skal skv. 11. gr. 2. málsgr., og koma þá til framkvæmda ákvæði 3. gr. d. laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.“ Við teljum, að þegar slík ákvæði eru sett, þá sé hægt að ná því, sem hefur vakað fyrir mönnum, að draga úr því, að útsvör yrðu svo há, að afgangur hreinna tekna yrði í sumum tilfellum jafnvel enginn. Það er að sjálfsögðu hægt að deila um það, hvað svona takmark ætti að vera hátt. Þessi 15% snerta bara veltuútsvarið, en næsta málsgr. er á þessa leið: „Ekki má leggja hærra veltuútsvar á gjaldanda en svo, að samanlögð upphæð tekjuskatts, tekjuútsvars og veltuútsvars nemi 65% af hreinum tekjum hans.“ Það er náið samband milli þessara ákvæða og náið samband milli þeirra og ákvæðisins í 2. gr., sem ég las upp áðan. Sé það gert gildandi, þá er hægt, án þess að misbjóða sveitarfélögunum, að setja slíkt ákvæði. Það gæti verið hneigð til þess í sveitarfélagi að beita um of veltuútsvarinu, en veltuútsvar er í eðli sínu þannig, að það má til að setja skorður við því, að það gangi úr hófi fram, — ætti raunar helzt að vera bara varaákvæði, varaheimild, sem mætti nota, þegar mikil þörf gerðist í sveitarfélagi, t.d. þegar tekjur ganga saman, að þá sé hægt að leggja á umsetningu, sem yrði eins og aðstöðugjald undir þeim kringumstæðum af viðskiptum eða þjónustu, sem illa borgar sig í slæmu árferði og náttúrlega kreppir að gjaldandanum, en samtímis er mjög hætt við því, að kreppi líka að sveitarfélaginu, svo að þörf þess fyrir álögur sé engu minni en áður. En með því að ákveða 15% af veltuútsvarinu sem hámark, þá er komið í veg fyrir, að hægt sé að nota álagningarheimildina nema að því marki.

Nú er mér sagt, að sveitarfélög, sem hafa notað veltuútsvar að undanförnu, hafi gert það mjög misjafnlega, að Reykjavík hafi tæplega farið í 15%, að Akureyri hafi farið niður í 8% og ýmis sveitarfélög séu nálægt 15% eða neðan við þau, til séu sveitarfélög, sem séu ofan við, og þess vegna hygg ég, að hér sé ekki langt frá því, að í hóf sé stillt. Þó má vitanlega deila um hundraðsgjaldið. Með því að setja svona ákvæði er trygging fyrir því fyrir gjaldandann, að eignaupptaka í stórum stíl eigi sér ekki stað með þessari álagningarheimild, en jafnframt er með 2. gr. og ákvæðunum þar tryggt, að ef sveitarfélag fer í þetta hámark og það hrekkur ekki til, þá eigi það rétt á hinni almennu aðstoð. Ég held þess vegna, að þetta ákvæði sé alveg eðlilegt og rétt, að það sé samfara fyrrnefndu ákvæði í 2. gr. og samfara því, að settir eru stigar, bindandi fyrir sveitarfélögin. — Sama er að segja um það, að samanlagður tekjuskattur, tekjuútsvar og veltuútsvar megi ekki nema meira en 65% af hreinum tekjum gjaldandans. Þar er sett trygging fyrir gjaldandann, en hið einstaka sveitarfélag hefur aftur trygginguna skv. 2. gr.

6. till. er við 8. gr., að aftan við 1. málslið, sem ég vil nú leyfa mér að lesa, komi viðbót, en 1. málsliður í 8. gr. er á þessa leið: „Undanþegin veltuútsvari eru sláturhús og mjólkurbú.“ Ég lýsti því hér um daginn við 1. umr., að ég teldi í raun og veru þetta mjög óákveðið, þar sem engin skilgreining væri á því, hvað væri sláturhús og hvað mjólkurbú í merkingu þessara orða. Á þessu hefur verið beðið um skýringu. Félmn. bað um skýringu frá formanni þeirrar n., sem gerði uppkastið að upphaflega frv. Hann taldi sig ekki réttan aðila til að gefa skýringuna.

Þetta er liður, sem hv. Nd. bætti inn í. Það var upplýst af hv. 10. landsk. (BGuðm) hér um 3aginn, sem hefur vafalaust fylgzt vel með þessum þætti í smíði frv., að hér mundi nánast sagt vera átt við fyrsta sölustig. En svo hafa aðrir, sem að þessu hafa staðið, sagt, að sláturhús ætti t.d. að tákna Sláturfélag Suðurlands, og ef það væri almenn skýring á þessu og mætti draga ályktanir af því, að Sláturfélag Suðurlands væri veltuútsvarsfrítt, þá mundi ég vel sætta mig við það, því að þá lít ég svo á, að önnur félög, sem fara með vörur bænda, sem ganga í gegnum sláturhús, mundu njóta hins sama fyrir þær vörur og þær mundu þá verða undanþegnar veltuútsvari. Mjólkurbú er sjálfstæðari stofnun en sláturhús. Þau eru líkari hvert öðru með framkvæmdir en sláturhúsin, og ég hef ekki séð ástæðu til þess, af því að ekki er hægt að taka frv. í gegn, að gera brtt. um þetta. En okkur kom saman um það, minnihlutamönnunum, að leggja til, að aftan við þessa málsgr. komi: „svo og sala áburðar, fóðurvöru, salts og veiðarfæra.“ Þær vörur ættu við sölu að vera veltuútsvarsfrjálsar, vegna þess að þetta eru bæði vörur, sem þarf til rekstrar, og líka vörur, sem verzlanir taka mjög litla þóknun fyrir að útvega og selja. Ég vona, að hv. d. geti fallizt á þetta, því að það er mikið sanngirnismál.

Þá er b-liðurinn. Hann er um, að ný málsgrein komi á eftir 1. málsgr. Hún er um skilgreiningu á því, hvernig veltuútsvar fellur á umboðsviðskipti. Eitt af því, sem fulltrúaráð sveitarfélaganna taldi óljóst og þyrfti athugunar við, var einmitt þetta. Við leggjum til, að þetta sé gert skýrt með því að bæta þessari málsgr. þarna inn i, að af umboðsviðskiptum, það er útvegun á vörum gegn umboðslaunum, og vinnslu, sölu á innlendum vörum í umboði framleiðanda eða eiganda, reiknist veltuútsvarið aðeins af umboðslaununum og ekki hærra en 2% . Þá er það hvort tveggja, að það er ákveðið, að reiknað skuli af umboðsviðskiptum eða umboðsmennskuverzlun af umboðslaunum, og enn fremur, að hámark sé 2%. Þessar till. eru allar bornar fram sem varatill., eins og ég hef margtekið fram. Þær eru tilraun til þess að taka nokkra agnúa af frv. og gera það þolanlegra að þó dálitlu leyti fyrir þá aðila, sem á að láta það gilda hjá a.m.k. árlangt. Það eru teknir þarna nokkrir naglar, sem ganga inn úr skónum, sem á að setja, hvað sem tautar og raular, á fætur sveitarfélaganna og þau eiga að ganga á árlangt að minnsta kosti.