02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

112. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta á að verða síðasta nótt þessa þings, og það þarf sjálfsagt að fara sparlega með tímann, til þess að hún endist, því að svo mörg mál virðast vera á ferð í báðum d. og þurfa að ganga milli d. Ég vil ekki gera leik að því að tefja tímann, enda hafði ég lofað því fyrir mitt leyti, þegar þeir, sem yfir málunum ráða hér á Alþingi, frestuðu því að taka málið fyrir á miðvikudaginn, til þess að nm. gætu fengið betra ráðrúm til að starfa, að bregða ekki fæti fyrir, að það gæti fengið fullnaðarafgreiðslu bæði að því er snertir 2. og 3. umr. nú í þessari lotu.

En sumt af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, var þess eðlis, að ég get ekki komizt hjá því að svara því nokkrum orðum. Að vísu var það svo, að ég fann ekki, að þó að hann væri að leita ósamræmis í framkomu stjórnarandstæðinga í sambandi við þetta frv., þá gæti hann sýnt fram á, að ég væri að nokkru leyti ósamkvæmur sjálfum mér í flutningi þessa máls f.h. minni hl. heilbr.- og félmn., en hann þurfti að fara um báðar d. til þess að sýna fram á, að þar hefði hvor verið með sína till., og þetta gengur nú svo í máli eins og þessu og mun þannig vera í öllum flokkum, að menn stilla ekki saman till. sínar fullkomlega og sízt af öllu þegar þannig er á höfuðmáli haldið eins og hér, að það liggur í loftinu, að það skipti ekki máli, hvaða till. eru fluttar, þær séu fyrir fram dæmdar til að falla.

Hæstv. ráðh. sagði það einna hvassast í minn garð og lét það gilda líka fyrir Eystein Jónsson vegna þess, sem hann hafði sagt í Nd., að ég hefði haldið því fram, að með því að niðurjöfnunarnefnd hefði gert Samband Ísl. samvinnufélaga útsvarsfrítt á árinu sem leið, þá hefði verið ljóst, að það hefði verið gert í því skyni að ófrægja Sambandið. En hann hélt því fram, að skv. skattframtali Sambandsins hefði niðurjöfnunarnefnd ekki annað getað gert og þess vegna hlyti að felast í orðum þeirra, sem teldu, að þarna hefði verið farið að öðruvísi en vera bæri, þegar jafnað er niður eftir efnum og ástæðum, að þeir teldu, að skattframtal Sambandsins hefði verið rangt. Þetta er algerlega rangt ályktað, og ég vil sanna það með því að minnast á atriði, sem hæstv. fjmrh. gerði hér að ádeiluefni, og það var það, að einn framsóknarmaður í Nd. hefði flutt tillögu um að banna að víkja frá ákvæðum skattalaga um sérstakan frádrátt frá tekjum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. og eins og talið hefur verið fært að gera að undanförnu vegna ákvæðanna um efni og ástæður, sem ættu að vera grundvöllur álagningar, og í þessu sambandi benti hæstv. ráðh. á, að þessu hefði einmitt verið beitt í bæjarfélögum, og var á honum að heyra, að það hefði verið réttmætt og ekki ásökunarefni. En nú var það svo, að það tap, sem hæstv. fjmrh. las upp, að Samband Ísl. samvinnufélaga hefði orðið fyrir á viðskiptum við utanfélagsmenn, var tap, sem komst í þá hæð, að það varð til þess að éta upp tekjur í framtali og kom fyrir afskriftir af eignum, löglegar afskriftir að vísu, en afskriftir, sem niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur hefði ekki þurft að taka til greina, en hefði getað metið upp, og þannig hefði ekki verið nema eðlilegt, að hún hefði látið þetta fyrirtæki bera útsvar. Og það er full ástæða, þegar þetta er skoðað þannig, að gera ráð fyrir því, að þetta hafi verið gert til þess að sýna dæmi um það, að þetta fyrirtæki bæri ekki útsvar, og vekja óánægju hjá öðrum gjaldendum bæjarins í garð fyrirtækisins og skapa sér möguleika til þess að koma fram með tillögur um breytingar á lögum um útsvör að því er snertir samvinnufélög, eins og þær, sem hér liggja fyrir. (Fjmrh.: Má ég gera eina fyrirspurn til hv. þingmanns? Telur þingmaðurinn, að niðurjöfnunarnefnd hefði átt að láta aðrar afskriftareglur gilda um þetta eina fyrirtæki en þær almennu?) Nú er ég vitanlega ekki svo kunnugur reglum í Reykjavík, eins og þær hafa verið, þær hafa ekki verið öðrum auglýstar, a.m.k. á þeim vettvangi, að ég hafi átt aðgang að þeim. En ég tel, að ef þetta hefði verið t.d. í því sveitarfélagi, sem ég hef starfað í, þá hefði hiklaust verið dregið úr afskriftunum, þegar útsvar var á lagt, vegna þess að við hefðum litið svo á, að þó að svona væri þetta árið, þá yrði fyrirtækið að taka þátt í útgjöldum eftir sem áður, „eftir efnum og ástæðum“. Satt að segja virðist mér samkvæmt þeim fréttum, sem maður hafði af breytingum, sem gerðar voru á útsvörum í Reykjavík, og samanburði, sem blöð birtu á útsvarsupphæðum, miðað við tekjur, að það hefði allfreklega verið notað ákvæðið um efni og ástæður í niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur, enda var það náttúrlega löglegt. Og ég tel engan vafa á því, að flestar sveitarstjórnir hefðu, að því er snertir atvik eins og átti sér stað með Sambandið á þessu gjaldári, sem hér er um að ræða, ekki látið það koma fyrir, að það stóra fyrirtæki hefði verið útsvarsfrítt.

Hæstv. ráðh. sagði, að engin áskorun hefði komið frá nokkurri sveit um, að þetta frv. ætti ekki fram að ganga. Það var nú víst ekki ég, heldur hv. 9. þm. Reykv., sem vitnaði í yfirlýsingar frá sveitarfélögum, en af því að við stöndum báðir, hv. 9. þm. Reykv. og ég, að till. þeim, sem hér liggja fyrir, og nál. því, sem hér liggur fyrir, og af því að þetta er dálítið atriði í málinu, þá vil ég mótmæla þessu, því að ég minnist þess, að hér á lestrarsalnum liggur erindi frá sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem er gerð rökstudd grein fyrir því, að sýslunefndin telur, að þetta frv. eigi ekki að ná fram að ganga, eins og það liggur fyrir og eins og nú standa sakir. En sýslunefndir hafa yfirstjórn sveitarmála hver á sínu svæði, og það er því meira en að það komi fram mótmæli frá einni sveitarstjórn, ef þau koma frá sýslunefnd, þar sem eru 11 sveitarstjórnir á bak við, og nú vildi ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hér upp þetta erindi frá sýslufundi Suður-Þingeyjarsýslu, erindið er dagsett 2. maí:

„Á nýafstöðnum sýslufundi Suður-Þingeyjarsýslu var samþykkt eftirfarandi ályktun,“ segir sýslumaðurinn. „Sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu lýsir yfir, að hún telur fram komið frv. til bráðabirgðabreytinga á lögum um útsvör marka mjög varhugaverða stefnu, og færir þetta helzt til um rökstuðning fyrir því áliti: 1) Álagning almennra útsvara er alveg einskorðuð við tekjuskattsframtöl, sem engar líkur eru til að verði ábyggilegri undirstaða álagningar hér eftir en hingað til. 2) Lögleiðing veltuútsvars á viðskipti almennt er dulbúin aðferð til að færa verulegan hluta af útsvarsþunga bæja og kauptúna yfir á íbúa þeirra sveitarbyggða, sem verða að hafa aðalviðskipti sín í bæjunum, en hafa engin skilyrði til gagnkvæmra ráðstafana á hendur þeim. 3) Með fyrirhuguðu veltuútsvari á vörur í umboðssölu, sem engin verzlun er í venjulegum skilningi, og þá fyrst og fremst framleiðsluvörur landbúnaðarins, er allra lengst gengið í rangsleitninni og það því fremur, að frv. opnar leið til að leggja á eina og sömu vörueiningu í þremur sveitarfélögum.

Þar sem engar óumflýjanlegar ástæður geta legið til þess, að gera þurfi bráðabirgðabreytingar á útsvarslögunum á þessu þingi, skorar sýslunefndin á hv. Alþingi að afgreiða engar breytingar á nefndri löggjöf, fyrr en nefnd sú, sem vinnur að breytingum á henni, hefur lagt fram fullnaðartillögur sínar í því efni og landsmönnum hefur gefizt ráðrúm til að gagnrýna þær breytingar, sem þar verða væntanlega bornar fram.

Þetta leyfi ég mér hér með virðingarfyllst að tilkynna hinu háa Alþingi,“ segir sýslumaðurinn, sem ritar undir erindið.

Það er því alveg rétt, sem haldið var fram, að mótmæli hefðu komið fram frá sveitarfélögum og sveitarstjórnum og þau rökstudd. Í þessu erindi og yfirlýsingu sýslufundarins eru sömu meginathugasemdirnar, sem við höfum verið að færa hér fram.

Hæstv. ráðherra deildi nokkuð á Framsfl. fyrir það að hafa ekki verið skeleggur í því að bæta úr þörf sveitarfélaganna fyrir fjáröflun, og benti á það, að hann hefði flutt, meðan samstjórn sjálfstæðismanna og Framsóknar stóð, till. um að ætla sveitarfélögunum hluta af söluskatti. Þetta er alveg rétt. Þá þótti ára illa og erfiður var fjárhagurinn, og þá voru málin ekki komin á það stig, að yfirleitt væri farið að reka eftir því af hálfu sveitarfélaganna, eins og síðar hefur orðið, að fá hlutdeild í tekjustofnum, sem ríkið hefur notað.

Það er langt frá því, að ég sé að vanþakka það, að hæstv. ráðherra hefur nú komið því til leiðar, að sveitarfélögin fá hlutdeild í söluskatti. En ég held, að það hafi yfirleitt ekki verið meiri tregða hjá Framsfl. að undanförnu í þessu efni en öðrum. Málin hafa verið að þróast. Hvert mál hefur fæðingartíma, og alltaf hefur verið erfitt um fjárhag, þegar hefur átt að koma saman fjárlögum.

Nú brá aftur svo við, að reyndar varð allt í einu rúmt um hendur fyrir þær miklu efnahagsaðgerðir, sem gerðar voru, svo rúmt um hendur, að telja má, að samanborið við það, sem áður var, sé þetta tillag til sveitarfélaganna eins og einn keppur í sláturtíð. Náttúrlega gat hæstv. ráðherra látið það vera að láta þennan kepp í sláturtíðinni af hendi, og ég er ekkert að vanþakka honum það. Ég er búinn að margtaka slíkt fram, en þegar hann ber sig saman við aðra, sem hafa farið með fjármál ríkisins, þá er honum skylt að líta á þessa aðstöðu.

Hæstv. ráðherra benti á það, að þing Sambands ísl. sveitarfélaga, sem fyrst var háð og kallað var stofnþing sambandsins, hefði strax gefið út yfirlýsingu um, að það óskaði eftir því — skoraði á ríkisstj. meira að segja — að láta fara fram sem fyrst gagngera endurskoðun á löggjöf þeirri, sem fjallar um tekjustofna sveitarfélaganna. Sérstaklega nauðsynlegt telur þingið, að útsvarslögin verði rækilega endurskoðuð og upp í þau tekin m.a. nánari ákvæði um reglur þær, sem fylgja ber við álagningu útsvara, en nú eru þar, og tryggt verði á þennan hátt, að á tekjustofn þeirra, útsvörin, verði ekki gengið af öðrum aðilum, nema sveitarfélögunum sé jafnframt séð fyrir tekjum á annan hátt.

Meginhluta þessa las hæstv. ráðherra upp, en ég hef leyft mér að lesa það aftur, vegna þess að á því er allt annar blær en sá, sem gerir eðlilegt, að eins sterkar aðgerðir séu hafðar í frammi og gerðar eru með þessu frv. Samband sveitarfélaganna er ekki að biðja nema með hóflegum orðum um endurskoðun á útsvarslögum. Það er ekki að biðja um, að gripið sé til þess að gera slíka byltingu í þeim efnum sem þessu og keyra í fjötra ráðstöfunarrétt eða sjálfsákvörðunarrétt, sem sveitarfélögin hafa haft í þessu efni.

Hæstv. ráðherra las líka upp úr ályktun ráðstefnu bæjarstjóra, og það skal játað, að þar er sterkar að orði kveðið, og hann benti á, að þar kemur fram einmitt ósk um það, að eitt sé í útsvarsálagningu látið ganga yfir öll félagsform, yfir samvinnufélög sem annað. Og þetta verður skiljanlegt, að menn, sem standa fyrir málefnum bæjarfélaganna og eru í fjárþröng, eru að kalla til ríkisstj. og vilja þá hafa svo hátt og kveða svo sterkt að orði, að eftir sé tekið, gefi út slíkar yfirlýsingar, einkum ef á það er litið, sem kemur fram í ályktun sýslunefndarinnar í Suður-Þingeyjarsýslu, sem ég las upp áðan og við höfum verið að benda á í þessum umræðum, að með því að leggja útsvar og sérstaklega veltuútsvar á viðskipti félagsmanna í samvinnufélögunum, þá eru í raun og veru skattlagðir með því gjaldendur í öðrum sveitarfélögum til bæjarfélaganna. Þess vegna er það ekkert merkilegt, þó að bæjarstjórarnir, sem mæta þarna á fyrsta kröfustigi, tali svona, af því að það er verið að hugsa um tekjuöflun handa þeim bæjarfélögum, sem hafa innan sinna vébanda verzlun fólksins í umhverfinu eða viðskipti fólksins, en ekki gjaldálögurétt á það eftir öðrum leiðum.

Þá er líka tekið fram í yfirlýsingu ráðstefnunnar, sem hæstv. ráðh. las upp, að ætlazt sé til, að sú löggjöf, sem samin yrði, væri gerð í samvinnu við Samband Ísl. sveitarfélaga. Nú hef ég verið að halda því fram, að meira að segja sú samvinna hafi ekki verið viðhöfð, því að það stendur óhaggað þrátt fyrir það, sem hæstv. ráðh. sagði um ályktun fulltrúaráðs sveitarfélaganna, að hæstv. stjórnarandstæðingar hér á Alþ. hafa ekki tekið til greina það, sem þar var beðið sérstaklega fyrir, og þar af leiðandi hefur ekki verið höfð sú samvinna, sem þarna var þó talin eðlileg. En þar að auki verð ég að segja það, að mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hæstv. ráðh. segir, að það hafi ekki verið venja að senda sveitarstjórnum til umsagnar helztu frv. um löggjöf, sem þau eiga sérstaklega að búa við, því að það hefur verið meginregla. Ég minnist þess oft, að slík frv. hafa verið send þeirri sveitarstjórn, sem ég hef lengst starfað í.

Þá sagði hæstv. ráðh. frá því, að hann hefði skipað n., sem samdi þetta frv., þannig, að í henni hefðu verið formaður sambandsins og varaformaður o.s.frv. Þess vegna hefði nefndin verið þannig skipuð, að tryggt hefði verið sjónarmið sjálfra sveitarfélaganna. En hins vegar sagði hann, að þessa hefði ekki verið gætt í nefndarskipun vinstri stjórnarinnar, og hann las hér upp ályktun frá þeim tíma, þar sem þessi hæstv. d. óskar eftir því, að endurskoðuð verði sveitarstjórnarlöggjöfin, og sagði, að ekkert hefði verið gert með þá áskorun til ríkisstj. En það var einmitt vegna tilmæla Ed. skipuð nefnd til þess að endurskoða sveitarstjórnarlöggjöfina, og það var skipaður í n. varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga, svo að alls ekki var gengið fram hjá þeim. Og enn þá er það svo, að nefnd þessi er að starfa, og nýlega kom hér inn í þessa d. heilmikil bók frá henni, sem sé frv. að sveitarstjórnarlöggjöf. Og nú hefur hæstv. heilbr.- og félmn. samþ., að það frv. skuli sent sveitarstjórnum landsins til umsagnar, svo sem venjulegt hefur verið. En þetta frv., það sem fjallar um þau málefni sveitarfélaganna, sem eru kannske þyngst í vöfunum hjá þeim og erfiðust við að fást, það er alls ekki sent til umsagnar. Og það er þetta, sem ég er að della fyrst og fremst á hæstv. ríkisstj. fyrir. Ég er ekki að deila á hana fyrir það að hafa skipað nefnd til þess að endurskoða útsvarslöggjöfina. Ég er ekki að deila á n. fyrir það, hvernig hún út af fyrir sig vann sitt verkefni, því að venjulegt er, að nefndarfrv. þurfa lagfæringu. En ég er að deila á ríkisstj. fyrir það að hafa sýnt sveitarfélögunum lítilsvirðingu og skaðað málefni þetta með því að senda það ekki út til umsagnar. Og ég er líka að deila á þá, sem fara með þetta mál og ráða afgreiðslu þess, fyrir, að ekki hefur verið tekið tillit til ályktunar þeirrar, sem fulltrúaráðið þó gerði, þrátt fyrir það að það hafði stuttan tíma til athugunar. Það er ekki tekið tillit til þess. Mér sýnist, að það sé fullkomlega vítavert að framkvæma þannig lagasetningu, sem er jafnsterk og gengur svo langt í því að setja sveitarfélögunum lífsreglur, gengur svo nærri sjálfstæði þeirra eins og þessi löggjöf gerir, sem hér er á ferðinni.

Ég hef lagt áherzlu á það, að hæstv. ráðh. hafi, meðan hann vann að sveitarstjórnarmálum sem borgarstjóri, lagt áherzlu á það við sveitarfélögin, að þau yrðu að gæta að sér gagnvart valdinu að ofan. Nú virðist mér, að hann, þegar hann er orðinn valdhafi fyrir ofan sveitarfélögin, hafi beitt þau ofríki og þau eigi erfitt að koma vörnum við. Á þessu þykir mér illa fara.

Ég vil að lokum taka fram, að það er mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh. að halda, að ég telji, að samvinnufélögin eigi að vera útsvarsfrjáls. Ég tel, að samvinnufélögin eigi að greiða útsvar. En ég tel, að það eigi að taka tillit til þess, að skipan samvinnufélagsskaparins og eðli er þannig ósambærilegt við einkareksturinn, að það er ekki að láta eitt yfir þessar stofnanir ganga, ef algerlega sömu reglur eru látnar gilda. Með því að láta sömu reglur gilda er samvinnufélögunum misboðið. Og ég hef lagt til, og það kemur fram í till. minni einni, sem ég var að gera grein fyrir áðan, ég hef lagt til, að það sé gert upp á milli viðskipta við kaupfélagið á nýjan hátt vegna nýrra tíma og breyttra starfshátta, verði gert þannig upp, að látin verði sama regla gilda um þá þætti starfseminnar, sem eru hliðstæðir einkarekstrinum, en sjálf samvinnuskipulagsviðskiptin verði gjaldskyld á annan hátt, eins og vera ber, ef ekki á að vera beint ranglæti gagnvart þessum fyrirtækjum.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fara lengra út í þessi mál. Ég vil ekki hér tefja tíma á þessari síðustu nótt þingsins.

Að því leyti, sem kann að vera hægt að segja, að í brtt. þeim, sem ég er annar flm. að, sé einhvers konar ósamræmi við það, sem áður hefur gilt, svo sem eins og hámarksákvæði um hlutfall veltu og hámarksákvæði um það, hvað samanlagt tekjuútsvar, veltuútsvar og tekjuskattur megi vera, þá eru þessar till. nú fluttar til þess að reyna að bæta þetta frv., og þær eru í fullu samræmi við það kerfi, sem verið er að setja upp með frv. Öðruvísi er ekki hægt að hafa það, þegar fluttar eru einstakar brtt. En ekki er til nokkurs að flytja till. um að umskapa kerfið.