03.06.1960
Efri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2928 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

112. mál, útsvör

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þar sem nokkurn veginn er sýnt, að þetta frv. nær fram að ganga á þessu þingi, og mér skilst, að nokkrir annmarkar séu á framkvæmd þessarar löggjafar nú á þessu ári, vildi ég leyfa mér að bera fram nokkrar fsp. til hæstv. fjmrh., sem að sjálfsögðu mun hafa kynnt sér þetta mál til hlítar.

Það er í fyrsta lagi, að nú mun vera kominn sá tími, sem niðurjöfnunarnefndum ber að vera búnar að jafna niður útsvörum. Ég hygg, að sá frestur muni vera útrunninn nú, þegar þessi lög öðlast gildi.

Í öðru lagi. þar sem hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir eru nú miklu háðari framtölum um álagningu útsvara en verið hefur til þessa, vildi ég vita, hvort fjmrn. hefur gert einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að útbúa skýrsluform, sem skattanefndir eiga að útbúa og senda niðurjöfnunarnefndum, eða hvort hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir eigi að fá aðgang að skýrslunum, meðan þær eru hjá skattanefndum, því að mér skilst, að annað tveggja verði að vera til staðar, ef niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir eiga að geta framfylgt þeim lagaákvæðum, sem hér á að samþykkja. Og sem dæmi um það vil ég nefna, að það er ekki nóg fyrir niðurjöfnunarnefndir að vita um heildartekjur hlutaðeigandi manna, vegna þess að þau veltuútsvör, sem nú öðlast gildi, verða misjöfn að því er varðar einstakar vörutegundir. T.d. getur einn maður haft helming af sínum tekjum sem lausatekjur, helming af búskap, og svo er hugsanlegt í þriðja lagi, að hann reki verzlun og nokkur hluti af tekjum hans verði því ekki háður veltuútsvari, en misjöfn veltuútsvör á hinum hlutunum eftir því, hvort um er að ræða framleiðslu eða verzlun og með hvað hlutaðeigandi verzlar, og þannig eru mörg ákvæði þessara laga. Þess vegna leikur mér nokkur forvitni á að vita sem skattanefndarmanni, hvort mér ber skylda til þess að lofa niðurjöfnunarnefnd eða hreppsnefnd að hafa aðgang að öllum þeim gögnum, sem niðurjöfnunarnefndir varða, eða ekki.

Venjan hefur verið sú, að þegar undirskattanefndir hafa lokið störfum, hafa þær sent skýrslurnar til yfirskattanefndar hlutaðeigandi héraðs, án þess að til kæmu aðrir aðilar, sem þar hefðu aðgang að. En á þessu stigi þætti mér vænt um að fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. ráðherra, vegna þess að þetta er bæði í fyrsta skipti, sem þetta kemur til framkvæmda, og eigi að framfylgja lögunum, þá þarf annað tveggja, skilst mér, að vera til staðar, að niðurjöfnunarnefndirnar fái lagalegan aðgang að öllum plöggum hjá skattanefndum eða skattanefndir verði skyldaðar til að útfylla sérstök eyðublöð, sem fjmrn. hefur þá væntanlega látið útbúa.