23.05.1960
Neðri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

162. mál, verðlagsmál

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. segir, að það muni verða aukinn kostnaður við þessi mál, ef brtt. mín verði samþykkt. Þetta eru fullyrðingar, sem ég held að fái ekki staðizt. Ráðherra talar um 10 menn. Ég hef hingað til litið svo á, að 6 og 3 væru 9. Að vísu er gert ráð fyrir í till., að í sumum tilfellum gæti komið inn annar maður í staðinn fyrir einn af þessum sex, en þeir verða þó aldrei fleiri en 6 í aðalnefndinni, og í yfirnefndinni eru bara 3. Og það er fjarri lagi, að það sé hægt að gera ráð fyrir því, að kostnaður yrði helmingi meiri. Ég efast um, að hann verði nokkurn hlut meiri, þótt þetta fyrirkomulag yrði upp tekið. En hitt er líka stórt atriði og í raun og veru aðalatriðið, að á meðan þessu er haldið uppi á annað borð, þessari íhlutun ríkisins, þá verði henni þannig fyrir komið, að hún verði sem þolanlegust fyrir alla þá, sem við það eiga að búa. Og ég tel miklar líkur fyrir því, að þetta verði betur framkvæmt, ef það verður falið þessum fulltrúum, sem ég legg til að verði skipaðir í þessa verðlagsnefnd. Eins og ég gat um, hefur það reynzt vel að fela fulltrúum neytenda og framleiðenda að fara með verðlagsmál landbúnaðarins, og þó að þar sé í lögum ákvæði um yfirnefnd, er ákaflega lítið um það, að til hennar hafi þurft að grípa, málin hafa verið leyst yfirleitt með samkomulagi í sex manna nefndinni. Og ég tel ástæðu til að ætla, ef þetta fyrirkomulag yrði upp tekið við verðlagningu á öðrum vörum, að þá geti tekizt þarna gott samstarf með fulltrúum neytenda og þeirra, sem fást við það að útvega landsmönnum vörur, — geti komizt á gott samstarf um að koma þarna á sanngjörnum verðlagsákvæðum og halda þeim.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé ekki hægt að treysta því, að samkeppnin verði nógu mikil til þess, að hægt sé að afnema verðlagseftirlitið. Já, mér kom þetta ekkert á óvart hjá honum. Eins og ég sagði áður, ætlar ríkisstj. alls ekki að koma á því verzlunarfrelsi, sem hún hefur verið að prédika um undanfarið, og þá verður náttúrlega samkeppnin ekki nógu mikil. Hann talar um það, að ef samvinnuhreyfingin haldi ekki uppi nægilegri samkeppni við kaupmenn, þurfi ríkisvaldið að halda uppi íhlutun um þessi mál. Vissulega er það svo, að samvinnufélögin geta vel tryggt heilbrigt verðlag í landinu og haldið uppi samkeppni við aðra, ef þau fá að njóta sín, ef það er viðskiptafrelsi í landinu og þeim er gert fært að kaupa inn vörur fyrir félagsmenn sína og aðra, sem vilja við þau skipta. En þessu verður ekki til að dreifa. Það eiga að vera hér höft áfram, og þess vegna er stjórnin að burðast með þetta frv. sitt um verðlagsmál. Og meðan svo er, meðan ekki er frjáls verzlun, er vitanlega ekki hægt að treysta hinni frjálsu samkeppni, það er rétt.