24.05.1960
Neðri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

162. mál, verðlagsmál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mig langaði til þess að beina einni fsp. til hæstv. viðskmrh. í sambandi við ákvæði, sem er í þessu frv., og svo annað ákvæði, sem er í lögunum um efnahagsmál, sem voru samþ. hér í febrúarmánuði s.l. Í lögunum um efnahagsmál, 27. gr. þeirra, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsyfirvöld skulu þegar eftir gildistöku þessara laga setja nýjar reglur um álagningu í heildsölu og smásölu á innfluttum vörum, er miðist við það, að álagningin í krónum hækki ekki nema sem svarar beinni hækkun dreifingarkostnaðar vegna ákvæða þessara laga. Hækkun á verði innlendra iðnaðarvara og hvers konar þjónustu vegna ákvæða þessara laga má ekki eiga sér stað nema með samþykki verðlagsyfirvalda, og hún má ekki vera meiri en svarar þeirri hækkun tilkostnaðar, sem leiðir af ákvæðum laganna.“

Samkvæmt þessu lagaákvæði virðist það vera í gildi nú, að álagning megi ekki vera hærri en hún var, þegar lög um efnahagsmál tóku gildi, að þó viðbættri þeirri hækkun, sem leiðir beint af hækkun dreifingarkostnaðar vegna ákvæða laganna, en við það sé álagningin fastbundin. Í því frv., sem hér liggur fyrir, í 3. gr. þess, segir hins vegar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsákvarðanir allar skulu miðaðar við þörf þeirra fyrirtækja, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur.“

Mér sýnist, að ef þessi regla er tekin upp og hún verður í lögum, sem eru sett seinna en efnahagsmálalögin, þá muni hún verða sú, sem verðlagsyfirvöldin nýju eigi að fara eftir, þ.e.a.s. þau eigi eingöngu að binda sig við þörf þeirra fyrirtækja, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur, en séu þá ekki lengur bundin af þeim ákvæðum, sem nú eru í 27. gr. efnahagsmálalaganna. Það, sem ég vil spyrja hæstv. viðskmrh. um, er, hvort þessi skilningur minn sé ekki réttur, að ef árekstur verður á milli þeirra ákvæða, sem eru í væntanlegri löggjöf um verðlagsmál samkvæmt þessu frv., og þeirra ákvæða, sem eru nú í efna hagsmálalöggjöfinni, þá verði það ákvæði hinna nýju verðlagslaga, sem komi til með að gilda, þ.e. að verðlagsákvarðanir verði fyrst og fremst miðaðar við þörf þeirra fyrirtækja, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur, en verði hins vegar ekki bundnar af þeim ákvæðum, sem nú er að finna í efnahagsmálalöggjöfinni.

Ég hef í sambandi við frv. lagt fram brtt., sem ég þarf ekki að mæla fyrir mörgum orðum. Hún er um það, að í stað orðanna í 1. gr. frv., að formaður hennar, þ.e. verðlagsnefndar, skuli vera ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., komi, að formaður verðlagsnefndarinnar skuli skipaður af ríkisstj, eftir tilnefningu hæstaréttar. Ég held, að það sé mjög óheppilegt fyrirkomulag að gera ráðuneytisstjóra, sem á að vera hlutlaus og óumdeildur embættismaður, að oddamanni í dómstóll, sem getur þurft að fjalla um mjög viðkvæm deiluefni, og þess vegna sé heppilegt að fela öðrum aðila að fara með þetta oddavald. Og ég hygg, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, neytendur annars vegar og svo verzlanir hins vegar eða vinnuveitendur, mundu bezt geta sætt sig við það, að slíkur oddamaður væri tilnefndur af hæstarétti. Ég held, að þetta sé svo augljóst mál, að óþarft sé að fara fleiri orðum um það.