25.05.1960
Efri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

162. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Samkvæmt nýsamþykktum lögum um skipan gjaldeyris- og innflutningsmála er gert ráð fyrir því, að innflutningsskrifstofan hætti störfum, þegar reglugerð samkvæmt þeim lögum verður gefin út. Eins og ég tók fram við 3. umr. þess máls í þessari hv. d., er ráð fyrir því gert, að reglugerð samkvæmt lögum um gjaldeyris- og innflutningsmál taki gildi 1. júní n.k., og mun þá innflutningsskrifstofan hætta störfum. Samkvæmt lögum, sem áður giltu um gjaldeyris- og innflutningsmál og verðlagsmál, fóru forstjórar innflutningsskrifstofunnar með verðlagsákvörðunarvald. Er því augljóst, að nauðsyn ber til þess að gera nýja skipan á þeim málum, kveða á um það með nýrri lagasetningu, hvaða aðili skuli fara með verðlagsákvörðunarvaldið.

Það er höfuðtilgangur þessa frv. að koma á laggirnar aðila, sem hafa skuli með höndum verðlagsákvörðunarvald. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að með verðlagsákvarðanir fari 5 manna nefnd, verðlagsnefnd, og skuli formaður hennar vera ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., en hinir 4 nm. skuli kosnir hlutbundinni kosningu í Sþ., er lög þessi hafa tekið gildi, og siðan eftir hverjar alþingiskosningar. Ber því nauðsyn til þess, að Alþ. taki afstöðu til þessa frv. fyrir 1. júní n.k. og að n. verði kosin samkvæmt því, ef það nær fram að ganga.

Þetta er megintilgangur frv. Að öðru leyti eru ákvæði þess í öllum aðalatriðum samhljóða gildandi ákvæðum um verðlagsmál, sem í meginatriðum hafa verið í gildi allar götur siðan 1943, þegar í fyrsta skipti voru sett mjög ýtarleg ákvæði um verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit. Nokkrar smávægilegar breytingar eru þó gerðar á atriðum, sem frekar verða þó að teljast leiðréttingar en efnisbreytingar, og skal ég víkja að þeim með örfáum orðum.

Það eru felld niður ákvæði núgildandi laga um skyldur verðlagsstjóra til þess að vekja athygli innflutningsyfirvalda á því, ef innflutt vara er seld á mismunandi verði, og um skyldu hans til að gera samanburð á verðlagi og gæðum íslenzkrar og erlendrar iðnaðarvöru. Ástæðan til þess, að ríkisstj. hefur talið rétt að fella þessi ákvæði niður, er sú, að þau hafa aldrei verið framkvæmd, hafa ekki verið talin hafa raunhæfa þýðingu og munu hafa enn minni þýðingu eftir en áður, þegar innflutningur hefur verið gerður frjálsari en áður var, svo sem nú er tilætlunin.

Þá er í 4. gr. þessa frv. gert ráð fyrir því, að verðlagsstjóra megi heimila að taka verðlagsákvarðanir að meira eða minna leyti í umboði verðlagsnefndar. Í gildandi lögum tekur slík heimild hins vegar aðeins til trúnaðarmanna verðlagsyfirvalda, en þetta orðalag er arfur frá fyrra fyrirkomulagi og nauðsynlegt, að hægt sé að fela verðlagsstjóra slíka heimild í umboði verðlagsnefndar sjálfrar, enda hefur þetta í reynd verið falið honum, þó að gildandi lagabókstafur geri strangt tekið ekki ráð fyrir því.

Þá eru í gildandi lögum ákvæði um heimild til þess að birta nöfn þeirra, sem gera sig seka um óhóflega álagningu á vörur, sem engin verðlagsákvæði gilda um. Þessu ákvæði hefur aldrei verið beitt. Gert er ráð fyrir því í gildandi lögum, að ráðh. setji reglur um það, hvað teljast skuli óhófleg álagning á vörur, sem engin verðlagsákvæði gilda um. Slíkar reglur hafa aldrei verið settar, og hafa þó margir menn farið með viðskiptamál, síðan þessi lagaákvæði fyrst tóku gildi. Þau eru í raun og veru leifar eldra fyrirkomulags í stjórn verðlagsmála, þau eru leifar þess fyrirkomulags, þegar verðlagsákvæði tóku til fjarri því allra vörutegunda, og var þá hugmynd löggjafans að reyna að hafa hemil á hinu svokallaða frjálsa verðlagi með því að veita verðlagsstjóra heimild til þess að birta nöfn þeirra, sem gerðust sekir um svonefnda óhóflega álagningu, þó að verðlagsákvæðin giltu ekki. En reynslan hefur sýnt, að bæði viðskmrn. og verðlagsyfirvöldum og verðlagsstjóra hefur ekki þótt fært að draga þar skýr mörk, hvað skuli teljast hófleg álagning, ef verðlagsákvæði gilda ekki, og þess vegna hefur ákvæðum þessum aldrei verið framfylgt. Samkvæmt gildandi lögum og þessu frv., ef að lögum verður, er verðlagsyfirvöldum og heimilt að setja verðlagsákvæði á hvaða vöru og þjónustu sem er, og gerir það slík ákvæði sem þessi auðvitað algerlega ónauðsynleg. Þess vegna er lagt til, að þau falli niður.

Þá er í 8. gr. þessa frv. ákvæði um, að útsöluverð vöru skuli miðast við það innkaupsverð, sem lagt er til grundvallar við greiðslu aðflutningsgjalda, ef það verð er lægra en greinir í innkaupsreikningi vegna galla eða skemmda. Þetta virðist vera eðlileg framkvæmd, þó að hún hafi ekki stoð í lögum. En einmitt sú staðreynd, að þessi framkvæmd hefur ekki stoð í lögum, hefur orðið til þess, að hæstaréttardómur hefur fallið, sem hefur staðfest verðlagsákvörðun á grundvelli innkaupsreiknings, þó að raunverulegt innkaupsverð hafi reynzt lægra og tillit verið tekið til þess við ákvörðun aðflutningsgjalda. Það virðist því vera alveg nauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta í lögum, þannig að verðlagsyfirvöldum sé heimilað að miða útsöluverðið við hið raunverulega innflutningsverð, sem aðflutningsgjöld eru miðuð við, en það geti ekki komið fyrir aftur eða enn einu sinni, að útsöluverð sé miðað við reikningsverð erlendis frá, þó að innflutningsyfirvöld hafi byggt innheimtu aðflutningsgjalda á lægra verði vegna galla eða skemmda, sem í ljós hafa komið.

Þá er í þessu frv. kveðið svo á, að meðdómendur í verðlagsdómi skuli skipa til þriggja ára í stað eins árs nú, og er það mál allra, sem til þekkja, að það væri til bóta. Ástæðulaust er að hafa slíkar tilnefningar árlega.

Og að síðustu eru sektir hækkaðar frá ákvæðum gildandi laga með tilliti til þeirrar rýrnunar á verðgildi peninga, sem átt hefur sér stað, síðan gildandi lög voru síðast sett.

Ég vona, að hv. þdm. séu á einu máli um, að þessar breyt. allar saman séu nánast leiðréttingar og gefi ekki tilefni til umræðna eða deilna, og að öðru leyti en að því er snertir yfirstjórn verðlagsmálanna sjálfra, verðlagsákvörðunarvaldið, er frv. alveg í samræmi við gildandi lög.

Í hv. Nd. kom fram nokkur ágreiningur um 1. gr., þ.e.a.s. um skipun verðlagsnefndarinnar. Af hálfu minni hl. í fjhn. kom fram till. um að hafa skipan n. með nokkuð öðrum hætti, en þrír flokkar í hv. fjhn. studdu þá skipan, sem gert er ráð fyrir í 1. gr.

Með tilliti til þess, sem ég sagði í upphafi, vil ég leyfa mér að óska þess við hv. fjhn. og hv. þd., að þær hraði afgreiðslu málsins, þannig að þd. hafi tekið afstöðu til þess svo snemma fyrir 1. júní, að Sþ. gefist tækifæri til þess að kjósa þá n., sem 1. gr. gerir ráð fyrir, ef frv. verður að lögum.

Að svo mæltu vil ég mega óska þess, að frv. verði vísað til hv. fjhn. og til 2. umr.