30.11.1959
Efri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. ( Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggja nú nokkur frv. um hina venjulegu árlegu framlengingu á nokkrum tekjustofnum, eins og tíðkazt hefur undanfarin ár. Þessi frv. eru 7. mál, um heimild fyrir ríkisstj. til þess að innheimta ýmis gjöld með viðauka, 8. mál, um framlengingu á III. kafla laga um dýrtíðarráðstafanir, þ.e.a.s. varðandi söluskatt, 9. mál, um bráðabirgðabreyting á lögum um tollskrá, 10. mál, um bráðabirgðabreyting á lögum um bifreiðaskatt, og 17. mál, um heimild til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka.

Öll þessi frv. fara fram á framlengingu þessara tekjustofna fyrir árið 1960 og eru samhljóða þeim frv., sem samþ. hafa verið undanfarin ár um þessi efni. Eftir atvíkum þykir réttara að fella efni þessara fimm frumvarpa í eitt frumvarp, og hefur það verið gert á þskj. 40, 30. mál, sem hér liggur fyrir. Ég tel ekki ástæðu til að skýra þetta mál frekar, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.