31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

162. mál, verðlagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. mínu á þskj. 529, tel ég rétt að láta afskiptalaust það frv., sem hér liggur fyrir. Frumvarpið sannar það, að hv. stjórnarflokkar trúa ekki á prédikanir sínar um aukið verzlunarfrelsi eða afnám hafta, og þeir um það. Fyrir aðra er svo aftur að draga af því ályktanir í afstöðu til flokkanna.

Frv. er nánast um tilfærslu valds. Það virðist nú vera íþrótt þessara flokka, sem þeir meta einna mest, að leggja niður nefnd til þess að stofna jafnharðan aðra nefnd. Hér á að leggja niður nefnd til að auka frelsið, en stofna jafnharðan aðra til að sjá um, að frelsið aukist ekki. Þetta er nú grikkur að þessara rauma geði. Ég man ekki betur en Sjálfstfl. hafi lagt á það mikla áherzlu við ýmis tækifæri, að verðlagseftirlit væri heldur fávíslegt og kostnaðarsamt og leiðinlegt, en nú virðist hann ómögulega vilja missa það. Hvernig hann réttlætir það gagnvart sínum mönnum, sem ýmsir hverjir vilja sjálfsagt ekkert verðlagseftirlit, skiptir ekki miklu máli. Máske segir hann þeim, að hann hafi neyðzt til að gera þetta vegna Alþfl., það er náttúrlega ekki mikil fórn kannske. En hvað segir svo Alþfl. sínum mönnum, þegar í ljós kemur, að eftirlitið gerir sáralítið gagn? Segir hann máske, að það sé Sjálfstfl. að kenna? Ja, þeir um það.

Verðlagseftirlit var upphaflega sett í góðum tilgangi, í þeirri trú, að með því væri hægt að vernda almenning gegn verzlunarokri, gegn því, að vörur væru seldar hærra verði en eðlilegt væri. Reynslan hefur sýnt það, að þó að þetta væri gert í góðri trú, hefur það ekki komið nema að litlu haldi, og það er vegna þess, að þeir, sem við var að eiga og venjulega vilja nota sér að okra á verzlun, komast með einhverjum ráðum fram hjá verðlagseftirlitinu, ef þeir eru á annað borð nokkrir refir. En það er samt einhver trú á því enn, að þetta sé til bóta. Ég get þó tæplega trúað því, að þeir flokkar, sem beita sér fyrir þessu hér á Alþ., hafi mikla trú á því. Samt vil ég ekki verða til þess að greiða atkv. á móti því, að þeir menn fái einhverja huggun, eitthvert traust af svona löggjöf. Sannarlega veitir mönnum ekki af slíku í þeirri ofsaverðbólgutíð, sem nú er stofnað til og hér geisar vaxandi dag frá degi.

Við samvinnumenn höfum enga ástæðu til þess að leggja nokkuð upp úr verðlagseftirliti. Við teljum, að kaupfélögin séu okkur trygging fyrir réttu verði á þeim vörum, sem við þar kaupum, og viljum helzt kaupa þar, en ekki annars staðar. Fái þau nægilegar vörur handa okkur, þá er þeim málum borgið frá mínu sjónarmiði.

Annars er þetta frv. eins og nokkuð marghliða dæmi um starfsemi núv. stjórnarflokka, að færa til vald, að flytja prédikanir um umbætur, sem svo, þegar til kemur, ekkert verður úr. Sá háttur hjá stjórnarflokkunum, sem komið hefur fram í vetur, byrjaði með hrókaræðu um afnám hafta og sparnað í rekstri ríkisbáknsins, virðist nú ætla að enda og hefur farið fram í raun og veru eins og Hannes Hafstein lýsir gosinu úr hvernum, þar sem „hver bunan annarri hratt, unz máttlaust, sífrandi sogavatn í sömu holuna datt.“ Það má segja, að með þessu frv. detti kenningarnar um afnám hafta og gildi þess í sömu holuna.

En þó að ég ætli mér ekki að greiða atkv. á móti þessu frv., þá er hér komin fram brtt. frá meiri hl. fjhn., sem mér finnst engin ástæða til að greiða atkv. með. Mér finnst, að eiginlega sé skylt að greiða atkv. á móti henni. Þar virðist enn eitt dæmi um, að hver bunan hrindi annarri hjá þessum flokkum. Verðlagsnefndarmennirnir eiga samkv. frv. að vera 5, og hvers vegna er það ekki nóg út af fyrir sig, með því að skipun n. er á þá leið, sem þar er til lagt? Hv, frsm. meiri hl. sagði, að þetta væri gert til þess, að þingviljinn gæti notið sín betur, að hafa hina þingkjörnu nm. 5. En hvers vegna er þá verið að leggja þann sjötta í ofanálag? Ég held, að það hefði þá mátt hafa það fyrirkomulag, ef þingviljinn er þarna hafður sérstaklega í heiðri, að láta formanninn vera skipaðan af hlutaðeigandi ráðh., og hvers vegna þá að vera að setja út á það sérstaklega í hv. Nd., þegar till. kom fram um það að skipa n. á annan hátt og bæta við, til þess að það skipulag nyti sín, sjötta manninum? Þá skilst mér, að gildasta mótástæðan hafi verið sú, að það væri bruðl að vera að hafa 6 menn í n. Hvers vegna þessi hughvörf? Hvaða buna er það nú, sem hrindir hinni þarna?

Ég trúi ekki, að þetta sé ástæðan, sem hv. frsm. n. nefndi. Hún hlýtur að vera einhver önnur, og það væri mjög æskilegt að fá hana fram. Einhver frétt flaug fyrir um það, að þetta kynni að stafa af því, að ráðuneytisstjórinn væri ófús að vera beinn oddamaður í n. Hvers vegna þá ekki að létta því af ráðuneytisstjóranum og fara að till. þeirri, sem kom fram í Nd., að láta hæstarétt skipa manninn og fá þannig einn utan pólitíkurinnar til að vera oddamann í n.? Máske er ekki flugufótur fyrir þessari fregn, en máske er það ástæðan, að nú sé hugmyndin að fara að auka atvinnu. Þarna er starf, nýtt starf, sem er að vísu ofur lítið í bága við kenninguna um, að það eigi að draga úr kostnaði við ríkisbáknið. En hver bunan hefur nú hrundið annarri í þessu sambandi, önnur eins málefni hafa dottið í sömu holuna. Mér finnst fjarstæða að flytja hér á síðasta stigi till. um að fjölga mönnum. Það er í algeru ósamræmi við það, sem stjórnin hefur talið stefnu sínu, að öllu leyti ósamræmi.

Það kann að vera, að þetta sé í samræmi við starfsemi þá, sem maður hefur kynnzt af hálfu ríkisstj., en það er sú starfsemi, sem ég vil ekki viðurkenna og ég vil skora á ríkisstj. að láta nú smátt og smátt af. Við, sem erum í fjhn., fengum orðsendingu um það, að fjhn. væri beðin að flytja þessa till. Þá fylgdi engin grg. um það, hvers vegna ætti að flytja till., stjórnin óskaði þess. Það var bókað af meiri hl. á fundinum að flytja till., þó að ég hyggi, að það sé áreiðanlegt, að hann vissi ekki, hvers vegna stjórnin vildi láta flytja hana. Þetta kallar maður nú góðan stuðning. Þetta kalla ég fyrir mitt leyti of góðan stuðning. Og ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. ríkisstj. hafa hér allt of góðan stuðning, þegar svo langt gengur, að till. eru fluttar fyrir hana í blindni. Og mér finnst ég hafa nokkurn rétt til þess, af því að ég er í fjhn., að biðja um betri upplýsingar en komu fram hjá hv. frsm. nefndarinnar.