31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2954 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

162. mál, verðlagsmál

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vildi gera hér lítillega að umtalsefni ræður hv. þm. úr minni hl. fjhn.

Ég varð sérstaklega fyrir vonbrigðum með hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), því að þessi þm. hafði í megindráttum lýst yfir stuðningi sínum við það frv., sem hér er borið fram. Síðar gerði meiri hl. fjhn. að honum fjarstöddum, — það er alveg rétt, það náðist ekki í hann, hann var forfallaður, svo að hann mætti ekki á fundi, — þá gerði hann lítils háttar till. um breyt. á frv. Þessi breyt. var vissulega til bóta, en það hef ég sjaldan upplifað, að menn hafi hætt stuðningi sínum við eitthvert málefni vegna endurbóta á því. Það hef ég sjaldan heyrt, og mér þótti þetta satt að segja mjög leitt. Hitt er svo annað, sem mér virðist þessum hv. þm. alveg sjást yfir og reyndar þeim báðum úr minni hl., að þeir líta alltaf aðeins á líðandi stund. Það getur vel verið, að sú regla, sem við erum að taka upp nú um verðlagsákvarðanir, geti gilt um langa framtíð, hún getur lifað af sér margar stjórnir og margar kosningar. Um þá hluti veit enginn. Þetta er allt vegið og metið hjá hv. stjórnarandstöðu út frá þeim mælikvarða, hvernig þessir hlutir standa nú í augnablikinu. Ég vil t.d. álíta, að með því að fjölga hinum þingkjörnu fulltrúum úr 4 í 5 sé einmitt t.d. réttur Alþb. betur tryggður en áður. Ég sé ekki, að þessi flokkur, Alþb., hafi neina örugga tryggingu fyrir því að fá einn mann af fjórum eins og nú standa sakir. Hann hefur enga örugga tryggingu fyrir því. Hann getur kannske vel gert það með bandalagi við Framsfl., en að öðrum kosti hefur hann það ekki. Sama er náttúrlega að segja um Alþfl. Það getur alltaf skipazt svo málum, að Alþfl. eigi þess ekki kost að fá einn mann af fjórum, en hann getur fengið einn mann af fimm. Þess vegna er þetta vitanlega til hagsbóta fyrir smærri flokkana í þinginu, að fjölga hinum þingkjörnu fulltrúum. Það, sem þessi hv. þm. er aðallega óánægður með, er, að á þennan hátt fái Sjálfstfl. nú í augnablikinu meiri hl. í þessari nefnd, þ.e.a.s. hann fái væntanlega 2 af 5 og svo hafi hann ráðuneytisstjóra viðskmrn. á sínu bandi. Eins og hér hefur komið fram, veit enginn til þess, að ráðuneytisstjórinn, Jónas Haralz, sé sjálfstæðismaður. Hann er óflokksbundinn. En það verð ég að segja, að mér finnst undarlegt, að vinstri stjórnin skuli hafa ráðið þennan mann fyrir sinn aðalefnahagsmálaráðunaut, ef þetta væri sjálfstæðismaður. Mér finnst það satt að segja mjög ótrúlegt.

Þá veit ég ekki til þess, eftir að þær álagningarreglur voru settar að lokinni gengisbreytingu, er nú gilda og kaupsýslumannastéttin hefur verið mjög óánægð með, að það sé nokkur ástæða til þess að vantreysta Jónasi Haralz í þessu starfi. Það er fjarri því. Hann átti einmitt sinn mikla þátt í því að setja þessar álagningarreglur.

Um ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. og hans nál. ætla ég í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum. Það er augljóst af því, sem hann flytur, að honum er skáldskapur tamari en veruleiki. Í þessu nál. hans segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir (þ.e.a.s. hv. stjórnarflokkar) höfðu boðað frjálsa verzlun, nóg vöruval, heilbrigða samkeppni og lækkandi vöruverð sjálfkrafa þar af leiðandi. Nú er frv. þetta sönnun þess, að þeir treysta ekki á boðskap sinn og trúa ekki sjálfum sér.“

Ég vildi nú leyfa mér að spyrja þennan hv. þm.: Er það skoðun Framsfl., að frjáls verzlun og nægjanlegt vöruval og heilbrigð samkeppni sé útilokuð, nema verðlagseftirlit sé afnumið? Ég vildi gjarnan fá skýr svör við þessu. Nú vita auðvitað allir menn, að verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit er fólgið í því, að það er ákveðið hámarksverð á vöru. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að S.Í.S. og kaupfélögin selji vöruna á lægra verði, — ekki nokkur skapaður hlutur, — eða óttast þessi hv. þm. e.t.v., að kaupfélögin og S.Í.S. vilji jafnvel selja vöruna á hærra verði en þessi n. kemur til með að ákvarða að sé heimilt? Það vita reyndar allir menn, að stærsta verðlagsbrot í landinu hefur verið framið undir handarjaðri S.Í.S. Það virðist sem sagt, að það frelsi, sem Framsfl. þráir mest, sé gróðafrelsið.

Þessi hv. þm. var að spyrjast fyrir um það, hvaðan þetta væri komið, þessi brtt., hvort þetta væri komið frá ríkisstj. eða n, Í sjálfu sér skiptir engu máli, hvaðan gott kemur. Aðalatriðið er í raun og veru að meta þessa till. málefnalega, en ekki velta vöngum yfir því, hver fyrstur hafi átt hugmyndina að þessu. (SS: Ég spurði um ástæðuna fyrir því.) Ástæðuna? Nú, ég hef nú verið að skýra ástæðurnar og líka í minni frumræðu. Ég tel það t.d. fyrir Alþfl. mjög heppilegt, að það skuli vera fimm menn í staðinn fyrir fjóra.

Það hefur oft af hálfu Framsfl. verið kvartað undan því, að það væri verið að draga völdin úr höndum Alþingis og fá þau ráðherrum og ríkisstj. Nú erum við að gera alveg hið gagnstæða. Það hefur aldrei verið þingkjörin nefnd í þessu áður. Áhrifavald Alþingis hlýtur að aukast við það að fá fimm menn í nefndina. Hvað gera þá framsóknarmenn, þegar við erum að taka upp þessa stefnu, sem þeir þykjast alltaf berjast fyrir? Þá sitja þeir hjá. Það virðist svo sem þeir ætli í raun og veru að fara að draga sig út úr pólitík og þeir láti sér bara nægja drauminn um það að komast í ríkisstj., en um það má vitna til orða skáldsins: „Sumir eiga sorgir, og sumir eiga þrá, sem aðeins í draumheimum uppfyllast má.“